Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 17

Þú ert dýrmætur í augum Jehóva

Þú ert dýrmætur í augum Jehóva

„Jehóva gleðst yfir þjónum sínum.“ – SÁLM. 149:4, NW.

SÖNGUR 108 Elska Guðs er trúföst

YFIRLIT *

Faðir okkar á himnum „gleðst yfir“ hverju og einu okkar. (Sjá 1. grein.)

1. Hverju tekur Jehóva eftir hjá þjónum sínum?

JEHÓVA GUÐ „gleðst yfir þjónum sínum“. (Sálm. 149:4, NW) Það er notaleg tilhugsun. Jehóva tekur eftir góðum eiginleikum okkar. Hann sér hvað við getum orðið og dregur okkur til sín. Ef við höldum áfram að vera honum trúföst verður hann náinn vinur okkar að eilífu. – Jóh. 6:44.

2. Hvers vegna finnst mörgum erfitt að trúa því að Jehóva elski sig?

2 Sumir gætu sagt: „Ég veit að Jehóva elskar þjóna sína sem hóp en hvernig get ég verið viss um að hann elski mig?“ Hvað gæti fengið suma til að hugsa þannig? Oksana * átti hræðilega æsku. Hún segir: „Ég var mjög hamingjusöm þegar ég lét skírast og þegar ég gerðist brautryðjandi. En 15 árum síðar fóru sársaukafullar minningar að sækja á mig. Ég dró þá ályktun að ég væri búin að missa velþóknun Jehóva og að ég ætti ekki skilið að hann elskaði mig.“ Yua er brautryðjandasystir sem átti líka erfiða æsku. Hún segir: „Ég vígði Jehóva líf mitt vegna þess að ég vildi gleðja hann. En ég var sannfærð um að hann gæti aldrei elskað mig.“

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Þú ert kannski í sömu sporum og þessar trúföstu kristnu systur, þú elskar Jehóva innilega en efast um að hann elski þig. Hvers vegna þarftu að vera viss um að honum sé innilega annt um þig? Og hvað getur hjálpað þér þegar neikvæðar hugsanir læðast að þér? Skoðum svörin við þessum spurningum.

ÞAÐ ER HÆTTULEGT AÐ EFAST UM KÆRLEIKA JEHÓVA

4. Hvers vegna er hættulegt að efast um að Jehóva elski okkur?

4 Kærleikur er öflugur drifkraftur. Þegar við erum sannfærð um kærleika Jehóva og stuðning viljum við þjóna honum eins vel og við mögulega getum, jafnvel þegar lífið er erfitt. En ef við efumst um að Guði sé annt um okkur dregur það úr okkur mátt. (Orðskv. 24:10) Og ef við missum kjarkinn og okkur finnst Guð ekki elska okkur verðum við varnarlaus gagnvart árásum Satans. – Ef. 6:16.

5. Hvaða áhrif hefur það haft á suma að efast um kærleika Guðs?

5 Sum trúsystkina okkar hafa farið að efast um kærleika Jehóva til sín og það hefur veikt trú þeirra. Öldungur að nafni James segir: „Þótt ég starfaði á Betel og væri ánægður í boðuninni í erlendum söfnuði var ég ekki viss um að Jehóva væri ánægður með það sem ég var að gera fyrir hann. Ég var jafnvel farinn að velta því fyrir mér hvort Jehóva hlustaði á bænir mínar.“ Eva þjónar líka Jehóva í fullu starfi. Hún segir: „Ég komst að því að það er hættulegt að efast um kærleika Jehóva vegna þess að það hefur áhrif á allt sem maður gerir í þjónustu hans. Það hefur áhrif á löngunina til að gera eitthvað fyrir hann og maður missir gleðina í þjónustunni.“ Michael er brautryðjandi og öldungur. Hann segir: „Ef maður trúir því ekki að Guði sé annt um mann þá fjarlægist maður hann.“

6. Hvað þurfum við að gera þegar efasemdir um kærleika Guðs sækja á okkur?

6 Reynsla þessara trúsystkina okkar sýnir hversu hættulegar neikvæðar hugsanir geta verið trú okkar. En hvað ættum við að gera ef við förum að efast um kærleika Guðs til okkar? Við þurfum að vísa slíkum hugsunum samstundis á bug. Biddu Jehóva að hjálpa þér að skipta þeim út fyrir ,frið Guðs, sem mun vernda hjarta þitt og huga‘. (Sálm. 139:23; Fil. 4:6, 7, neðanmáls) Og mundu að þú ert ekki einn um að hugsa svona. Aðrir trúfastir bræður og systur eru líka að berjast við neikvæðar tilfinningar. Þjónar Jehóva áður fyrr áttu einnig í slíkri baráttu. Skoðum það sem við getum lært af Páli postula.

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF REYNSLU PÁLS?

7. Hvaða vandamál átti Páll við að glíma?

7 Finnst þér stundum erfitt að rísa undir allri ábyrgðinni sem hvílir á þér? Þá áttu auðvelt með að skilja Pál. Hann hafði áhyggjur, ekki bara af einum söfnuði heldur „af öllum söfnuðunum“. (2. Kor. 11:23–28) Áttu við langvinn heilsuvandamál að stríða sem ræna þig oft gleðinni? Páll var með ,þyrni í holdinu‘, hugsanlega líkamlegan sjúkdóm, og hann þráði að losna við hann. (2. Kor. 12:7–10) Ertu stundum niðurdreginn vegna eigin ófullkomleika? Páll var það stundum. Hann talaði um sig sem ,aumkunarverðan mann‘ vegna þess að hann átti í sífelldri baráttu við eigin ófullkomleika. – Rómv. 7:21–24.

8. Hvað hjálpaði Páli að takast á við erfiðleika?

8 Páll hélt áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir alla erfiðleikana sem hann gekk í gegnum. Hvað hjálpaði honum að gera það? Þótt hann væri mjög meðvitaður um ófullkomleika sinn hafði hann bjargfasta trú á lausnarfórninni. Hann þekkti vel loforð Jesú um að „þeir sem trúa á hann ... hljóti eilíft líf.“ (Jóh. 3:16; Rómv. 6:23) Páll var sannarlega í hópi þeirra sem trúðu á lausnarfórnina. Hann var sannfærður um að Jehóva væri fús til að fyrirgefa jafnvel þeim sem syndga alvarlega ef þeir iðrast. – Sálm. 86:5.

9. Hvað lærum við af því sem Páll segir í Galatabréfinu 2:20?

9 Páll trúði líka að Guð elskaði sig innilega vegna þess að hann vissi að Guð hafði sent Jesú til að deyja fyrir sig. (Lestu Galatabréfið 2:20.) Taktu eftir hversu hughreystandi það er sem kemur fram í lok versins. Páll sagði: ,Sonur Guðs elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.‘ Páll takmarkaði ekki kærleika Guðs með því að hugsa: „Ég get skilið hvers vegna Jehóva elskar trúsystkini mín en hann gæti aldrei elskað mig.“ Páll brýndi fyrir Rómverjum: ,Kristur dó fyrir okkur meðan við vorum enn syndarar.‘ (Rómv. 5:8) Kærleikur Guðs er engum takmörkum háður.

10. Hvað lærum við af Rómverjabréfinu 8:38, 39?

10 Lestu Rómverjabréfið 8:38, 39Páll var algerlega sannfærður um mátt kærleika Guðs. Hann skrifaði að ekkert gæti „gert okkur viðskila við kærleika Guðs“. Páll vissi að Jehóva hafði verið þolinmóður í samskiptum við Ísraelsþjóðina. Hann vissi líka hvernig Jehóva hafði sýnt honum sjálfum miskunn. Páll var í raun að segja: „Fyrst Jehóva sendi son sinn til að deyja fyrir mig hef ég enga ástæðu til að efast um kærleika hans.“ – Rómv. 8:32.

Það sem skiptir Guð máli er það sem við gerum núna og í framtíðinni, ekki mistökin sem við höfum gert áður. (Sjá 11. grein.) *

11. Hvers vegna var Páll sannfærður um að Guð elskaði sig jafnvel þótt hann hefði drýgt syndir eins og þær sem eru nefndar í 1. Tímóteusarbréfi 1:12–15?

11 Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:12–15Það hlýtur stundum að hafa kvalið Pál að hugsa um fortíð sína. Hann talaði um sjálfan sig sem verstan meðal syndara, og engin furða. Áður en hann kynntist sannleikanum ofsótti hann miskunnarlaust kristið fólk í einni borginni á fætur annarri. Hann lét setja suma í fangelsi og greiddi því atkvæði sitt að láta taka aðra af lífi. (Post. 26:10, 11) Geturðu ímyndað þér hvernig Páli hefur liðið þegar hann hitti son eða dóttur kristinna foreldra sem voru teknir af lífi með hans samþykki? Páll sá sárlega eftir því sem hann hafði gert en hann vissi að hann gat ekki breytt fortíðinni. Hann trúði því að Jesús hefði dáið fyrir sig og skrifaði af sannfæringu: „Ég er það sem ég er vegna einstakrar góðvildar Guðs.“ (1. Kor. 15:3, 10) Hvað lærum við? Þú þarft að vera sannfærður um að Jesús hafi dáið fyrir þig og gert þér kleift að eignast hlýlegt og náið samband við Jehóva. (Post. 3:19) Það sem skiptir Guð máli er það sem við gerum núna og í framtíðinni, ekki mistökin sem við höfum gert áður, hvort sem við vorum vottar Jehóva á þeim tíma eða ekki. – Jes. 1:18.

12. Hvernig getur það sem segir í 1. Jóhannesarbréfi 3:19, 20 hjálpað okkur ef okkur finnst við einskis virði eða ekki elskuverð?

12 Þegar þú hugleiðir að Jesús dó til að hylja syndir þínar gætirðu hugsað: „Ég er ekki verðugur þessarar dýrmætu gjafar.“ Hvers vegna gæti þér liðið þannig? Ófullkomið hjarta okkar getur blekkt okkur svo að okkur finnist við einskis virði og ekki elskuverð. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.) Þegar við hugsum þannig þurfum við að muna að „Guð er meiri en hjarta okkar“. Kærleikur himnesks föður okkar og fúsleiki hans til að fyrirgefa er langtum sterkari heldur en neikvæðar tilfinningar sem kunna að leynast í hjarta okkar. Við þurfum að sannfæra sjálf okkur um að Jehóva elski okkur. Til að geta gert það verðum við að rannsaka orð hans oft, biðja oft til hans og vera í reglulegum samskiptum við trúa þjóna hans. Hvers vegna er það svona mikilvægt?

HVERNIG GETUR BIBLÍUNÁM, BÆN OG TRÚFASTIR VINIR VERIÐ TIL HJÁLPAR?

13. Hvernig getur það hjálpað okkur að lesa og hugleiða orð Guðs? (Sjá einnig rammagreinina „ Hvernig hjálpar orð Guðs þeim?“)

13 Lestu og hugleiddu orð Guðs daglega. Þá kynnistu sífellt betur fallegum eiginleikum Jehóva. Þú munt skilja þær hlýju tilfinningar sem hann ber til þín. Þegar þú hugleiðir orð Guðs daglega verður auðveldara fyrir þig að hugsa skýrt og leiðrétta það sem býr í huga þér og hjarta. (2. Tím. 3:16) Kevin er öldungur sem hefur barist við lágt sjálfsmat. Hann segir: „Að lesa Sálm 103 og hugleiða hann hefur hjálpað mér að sjá hlutina í réttu ljósi og skilja hvaða augum Jehóva lítur mig í raun og veru.“ Eva, sem minnst er á fyrr í greininni, segir: „Ég tek mér tíma í lok hvers dags til að hugleiða hvernig Jehóva hugsar um hlutina. Það veitir mér innri frið og styrkir trú mína.“

14. Hvernig getur bænin hjálpað okkur?

14 Biddu oft til Jehóva. (1. Þess. 5:17) Traust vinátta milli manna byggist á reglulegum og einlægum samskiptum. Það sama á við um vináttu okkar við Jehóva. Þegar við tjáum honum tilfinningar okkar, hugsanir og áhyggjur í bæn sýnum við að við treystum honum og að við vitum að hann elskar okkur. (Sálm. 94:17–19; 1. Jóh. 5:14, 15) Yua, sem áður er minnst á, segir: „Þegar ég bið til Jehóva reyni ég að telja ekki bara upp það sem hefur gerst yfir daginn. Ég opna hjarta mitt fyrir honum og segi hvernig mér líður. Smátt og smátt er ég farin að líta á hann sem föður sem elskar börnin sín en ekki eins og forstjóra í stóru fyrirtæki. – Sjá rammagreinina „Hefur þú lesið hana?“

15. Hvernig sýnir Jehóva okkur persónulegan áhuga?

15 Eigðu samskipti við trúfasta vini. Þeir eru gjöf frá Jehóva. (Jak. 1:17) Himneskur faðir okkar sýnir okkur persónulegan áhuga með því að sjá okkur fyrir andlegri fjölskyldu bræðra og systra sem ,láta aldrei af vináttu sinni‘. (Orðskv. 17:17) Í bréfi sínu til Kólossumanna minnist Páll á ákveðin trúsystkini sem höfðu veitt honum stuðning og segir að þau hafi verið honum „til mikillar hughreystingar“. (Kól. 4:10, 11) Jafnvel Jesús Kristur þurfti og kunni að meta stuðninginn sem hann fékk frá vinum sínum, bæði englum og mönnum. – Lúk. 22:28, 43.

16. Hvernig geta trúfastir vinir hjálpað okkur að nálægja okkur Jehóva?

16 Nýtirðu þér þá hjálp sem trúfastir vinir í söfnuðinum geta veitt þér? Það er ekki tákn um veikleika að treysta trúföstum vini fyrir áhyggjum sínum, það er okkur til verndar. Veltum fyrir okkur því sem áðurnefndur James segir: „Vinátta við þroskaða þjóna Jehóva er eins og líflína fyrir mig. Þegar neikvæðar hugsanir hellast yfir mig hlusta þessir dýrmætu vinir mínir á mig og minna mig á hversu vænt þeim þykir um mig. Það minnir mig á að Jehóva elskar mig og annast.“ Það er mjög mikilvægt að rækta vináttuna við trúfasta bræður okkar og systur.

VERUM STÖÐUG Í KÆRLEIKA JEHÓVA

17, 18. Á hvern þurfum við að hlusta og hvers vegna?

17 Satan vill að við gefumst upp í baráttunni við að gera það sem er rétt. Hann vill að við trúum því að Jehóva elski okkur ekki, að við séum ekki þess virði að hann bjargi okkur. En eins og við höfum séð þá er ekkert eins fjarri sannleikanum.

18 Jehóva elskar þig. Þú ert dýrmætur í augum hans. Ef þú hlýðir honum verðurðu „stöðugur í kærleika hans“ að eilífu, eins og Jesús. (Jóh. 15:10) Ekki trúa Satan eða hjarta þínu þegar það fordæmir þig. Hlustaðu frekar á Jehóva sem sér það góða í hverju og einu okkar. Vertu sannfærður um að hann „gleðst yfir þjónum sínum“, þar á meðal þér!

SÖNGUR 141 Lífið er kraftaverk

^ gr. 5 Sum trúsystkini okkar eiga erfitt með að trúa að Jehóva geti elskað sig. Í þessari grein ræðum við hvers vegna við getum verið viss um að Jehóva elskar okkur sem einstaklinga. Við skoðum líka hvernig við getum unnið bug á efasemdum um kærleika hans.

^ gr. 2 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 67 MYND: Páll sendi marga kristna menn í fangelsi áður en hann kynntist sannleikanum. Þegar hann viðurkenndi það sem Jesús hafði gert fyrir hann breyttist hann og uppörvaði trúsystkini sín. Sum þeirra gætu hafa verið skyld þeim sem hann hafði ofsótt.