Virðing fyrir öðrum
HVERS VEGNA ER VIRÐING FYRIR ÖÐRUM MIKILVÆG?
Að bera virðingu fyrir öðrum dregur úr spennu og kemur í veg fyrir að slæmt ástand versni.
-
Orðskviður í Biblíunni segir: „Milt svar stöðvar bræði en hvöss orð vekja reiði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Að vera ókurteis í tali og hegðun bætir bara olíu á eldinn og endar gjarnan með ósköpum.
-
Jesús sagði: „Munnurinn talar af gnægð hjartans.“ (Matteus 12:34) Virðingarlaust tal getur verið merki um að við lítum í raun niður á fólk sem er af öðrum kynþætti, þjóðerni eða þjóðfélagshóp.
Í nýlegri könnun með meira en 32.000 þátttakendum í 28 löndum sögðust 65 prósent aldrei hafa kynnst öðrum eins skorti á kurteisi og gagnkvæmri virðingu.
HVAÐ GETUR ÞÚ GERT?
Berðu virðingu fyrir öllum sem þú átt samskipti við, jafnvel þeim sem þú ert ósammála. Komdu auga á það sem þið getið verið sammála um. Það hjálpar þér að vera ekki gagnrýninn eða dómharður.
Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig. Ef þú sýnir öðrum tillitssemi og sanngirni er líklegra að þeir komi þannig fram við þig.
Vertu fús til að fyrirgefa. Leyfðu öðrum að njóta vafans ef þeir segja eitthvað óvingjarnlegt eða gera eitthvað á hlut þinn.
ÞAÐ SEM VIÐ GERUM
Vottar Jehóva virða fólk og hvetja aðra í samfélaginu til að gera það líka.
Við bjóðum öllum ókeypis biblíufræðslu, en við þröngvum ekki trú okkar eða skoðunum upp á aðra. Við reynum öllu heldur að fara eftir ráðum Biblíunnar með því að bera boðskapinn til annarra „með hógværð og djúpri virðingu“. – 1. Pétursbréf 3:15; 2. Tímóteusarbréf 2:24.
Við mismunum ekki fólki heldur bjóðum alla sem vilja fræðast um hvað Biblían kennir velkomna á samkomur okkar, sama hvaða bakgrunn þeir hafa. Við leggjum okkur fram um að vera umburðarlynd og ‚virða alls konar menn‘. – 1. Pétursbréf 2:17.
Við virðum yfirvald stjórnvalda þar sem við búum. (Rómverjabréfið 13:1) Við hlýðum lögum og borgum skatta. Og þó að við séum hlutlaus í stjórnmálum virðum við rétt annarra til að taka sínar ákvarðanir í pólitískum málum.