Viska sem stuðlar að hamingju innan fjölskyldunnar
Hjónaband og barneignir eru dýrmætar gjafir skapara okkar. Hann vill að líf okkar sé hamingjuríkt. Hann gefur okkur því leiðsögn í gömlu helgiriti sem getur bætt fjölskyldulífið og gert það hamingjuríkara. Veltu fyrir þér viskunni í eftirfarandi ráðum.
Eiginmenn, elskið konur ykkar
„Eiginmaður [á] að elska konu sína eins og eigin líkama. Sá sem elskar konu sína elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkurn tíma hatað eigin líkama heldur nærir hann líkamann og annast.“ – EFESUSBRÉFIÐ 5:28, 29.
Eiginmaðurinn er höfuð fjölskyldunnar. (Efesusbréfið 5:23) En góður eiginmaður er hvorki hörkulegur né kröfuharður. Hann virðir konu sína og hugsar vel um efnislegar og tilfinningalegar þarfir hennar. Honum er líka í mun að geðjast henni og heimtar ekki alltaf að hlutirnir fari eftir hans höfði. (Filippíbréfið 2:4) Hann tjáir sig hreinskilnislega og hlustar á það sem hún segir. Hann verður ekki ‚bitur og reiður‘ við hana og særir hana hvorki líkamlega né andlega. – Kólossubréfið 3:19.
Eiginkonur, virðið menn ykkar
„Konan beri djúpa virðingu fyrir manni sínum.“ – EFESUSBRÉFIÐ 5:33.
Þegar eiginkona virðir mann sinn og styður ákvarðanir hans stuðlar hún að heimilisfriði. Ef honum verða á mistök gerir hún ekki lítið úr honum heldur sýnir mildi og virðingu. (1. Pétursbréf 3:4) Ef hún þarf að ræða vandamál velur hún hagstæðan tíma til þess og gerir það af virðingu. – Prédikarinn 3:7.
Vertu maka þínum trúr
„Maður … binst konu sinni og þau verða eitt.“ – 1. MÓSEBÓK 2:24.
Þegar karl og kona giftast mynda þau sterk fjölskyldubönd. Þess vegna ættu hjón að vinna að því heils hugar að hjónaband þeirra haldist sterkt með því að eiga hlýleg samtöl og sýna ástúðleg verk. Þau ættu líka að vera hvort öðru trú og einskorða kynlíf sitt við maka sinn. Ótrúmennska er grimmilegur verknaður sem ræðst gegn trausti og getur splundrað fjölskyldunni. – Hebreabréfið 13:4.
Foreldar, kennið börnum ykkar
„Fræddu barnið um veginn sem það á að ganga og það mun ekki yfirgefa hann á efri árum.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 22:6.
Guð hefur falið foreldrunum þá ábyrgð að kenna börnum sínum. Það felur í sér að kenna þeim hegðunarreglur og setja þeim gott fordæmi. (5. Mósebók 6:6, 7) Þegar barn er óþekkt bregðast vitrir foreldrar ekki of hart við heldur eru ‚fljótir til að heyra, seinir til að tala og seinir til að reiðast‘. (Jakobsbréfið 1:19) Ef foreldri ákveður að það sé þörf á aga veitir það hann af kærleika en ekki í reiði.
Börn, hlýðið foreldum ykkar
„Þið börn, hlýðið foreldrum ykkar … ‚Sýndu föður þínum og móður virðingu.‘“ – EFESUSBRÉFIÐ 6:1, 2.
Börn ættu að hlýða foreldrum sínum og sýna þeim djúpa virðingu. Þegar börn virða foreldra sína færa þau heimilinu mikla gleði og stuða að friði og einingu. Fullorðin börn heiðra foreldra sína með því að sjá til þess að vel sé annast um þá. Það getur falið í sér að hjálpa þeim að annast heimili sitt eða að sjá þeim fyrir nauðsynlegum fjárhagslegum stuðningi. – 1. Tímóteusarbréf 5:3, 4.