Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ER BIBLÍAN Í RAUN FRÁ GUÐI?

Biblían – nákvæm að öllu leyti

Biblían – nákvæm að öllu leyti

Vísindaleg nákvæmni

ÞÓ AÐ Biblían sé ekki vísindarit er hún nákvæm þegar hún talar um efnisheiminn. Tökum dæmi sem snúa að veðurfræði og erfðafræði.

VEÐURFRÆÐI – MYNDUN REGNS

VEÐURFRÆÐI

Í Biblíunni segir: „[Guð] safnar saman vatnsdropum, þeir hreinsast og verða regn sem streymir úr skýjunum.“ – Jobsbók 36:27, 28.

Hérna lýsir Biblían þrem grundvallaratriðum í hringrás vatnsins. Guð – uppspretta sólarhitans – „safnar saman vatnsdropum“ með (1) uppgufun. Síðan (2) þéttist vatnsgufan og myndar ský sem falla til jarðar í formi regndropa eða annarrar (3) úrkomu. Veðurfræðingar skilja enn ekki til fulls hringrás vatnsins. Í Biblíunni er þessi áhugaverða spurning: „Hver skilur rek skýjanna?“ (Jobsbók 36:29) Skaparinn skilur vel hringrás vatnsins og hann sá til þess að biblíuritari lýsti henni á réttan hátt í Biblíunni. Og það gerði hann löngu áður en vísindin gátu útskýrt undirstöðuþætti þessa ferlis.

ERFÐAFRÆÐI – ÞROSKI FÓSTURS

ERFÐAFRÆÐI

Davíð konungur var einn af biblíuriturunum. Hann sagði við Guð: „Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni, ævidagar mínir voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína.“ (Sálmur 139:16) Davíð talar á skáldlegu máli um „bók“ sem hefur að geyma leiðbeiningar, eða uppskrift, að þroska fósturs í móðurkviði. Þótt ótrúlegt sé var þetta skrifað fyrir um 3.000 árum.

Það var ekki fyrr en um miðja 19. öld sem grasafræðingurinn Gregor Mendel uppgötvaði grundvallarþætti erfðafræðinnar. Og í apríl 2003 náðu vísindamenn loks að skrá genamengi mannsins sem hefur að geyma allar erfðafræðilegar upplýsingar sem þarf til að mynda manneskju. Vísindamenn hafa líkt erfðalykli DNA-keðjunnar við orðabók sem inniheldur fjöldann allan af orðum, samsettum úr stöfum úr ákveðnu stafrófi. Orðin í orðabókinni mynda erfðafræðilegar upplýsingar. Eftir þessum upplýsingum myndast hlutar fósturs – svo sem heili, hjarta, lungu og útlimir – á nákvæmlega réttum tíma og í réttri röð. Vísindamenn hafa réttilega lýst genamenginu sem „bók lífsins“. Hvernig gat biblíuritarinn Davíð verið svo nákvæmur í lýsingum sínum? Hann sagði auðmjúkur: „Andi Drottins talaði af munni mínum, orð hans var mér á tungu.“ – 2. Samúelsbók 23:2.

Spáir fyrir um atburði af nákvæmni

ERFITT er – ef ekki ómögulegt – að vita fyrir fram hvenær, hvernig og í hvaða mæli borgir og konungsríki rísi eða falli. En Biblían spáði fyrir um eyðingu stórra borga og voldugra ríkja af mikilli nákvæmni. Skoðum tvö dæmi.

FALL OG EYÐING BABÝLONAR

Babýlon til forna var miðpunktur máttugs heimsveldis. Áhrifa þess gætti um vesturhluta Asíu um aldaraðir. Á tímabili var hún stærsta borg heims. En Guð innblés biblíuritaranum Jesaja að spá, um það bil tveim öldum fyrir fram, að maður að nafni Kýrus myndi sigra Babýlon og að hún yrði aldrei framar byggð mönnum. (Jesaja 13:17-20; 44:27, 28; 45:1, 2) Rættist spádómurinn?

SAGNFRÆÐI

Í október árið 539 f.Kr. sigraði Kýrus mikli Babýlon á einni nóttu. Síðar stífluðust síkin í kringum borgina vegna vanrækslu en áður höfðu þau veitt vatni á frjósamt landið. Árið 200 er sagt að svæðið hafi verið komið í eyði. Babýlon er rústir einar enn í dag. Rétt eins og Biblían spáði fyrir varð Babýlon „að algjörri auðn“. – Jeremía 50:13.

Hvaðan fékk biblíuritarinn spádómsgáfu til að sjá fyrir atburði sögunnar af svo mikilli nákvæmni? Biblían segir að þetta hafi verið „boðskapur um Babýlon sem Jesaja Amotssyni birtist“. – Jesaja 13:1.

NÍNÍVE GERÐ „AÐ VATNSLAUSRI EYÐIMÖRK“

Níníve, sem var höfuðborg assýríska heimsveldisins, var talin byggingarfræðilegt undur. Borgin státaði af breiðum götum, almenningsgörðum, musterum og gríðarstórum höllum. Þó sagði spámaðurinn Sefanía fyrir að þessi stórfenglega borg yrði „að vatnslausri eyðimörk“. – Sefanía 2:13-15.

Sameinaður her Babýloníumanna og Meda lögðu Níníve í rúst á sjöundu öld f.Kr. Ein heimild segir að þessi sigraða borg hafi „horfið úr minnum manna í 2.500 ár“. Á tímabili efuðust menn jafnvel um að Níníve hefði nokkurn tíma verið til. Fornleifafræðingar fundu ekki rústir hennar fyrr en á miðri 19. öld. Núna liggja rústirnar undir skemmdum vegna vanrækslu og skemmdarverka. Í skýrslu heimsminjasjóðsins segir þess vegna: „Fornleifar Níníve gætu horfið aftur fyrir fullt og allt.“

Hvaðan fékk Sefanía upplýsingar um fall Níníve? Hann sagði að ,orð Drottins hefði komið til sín‘. – Sefanía 1:1.

Biblían svarar stóru spurningunum

BIBLÍAN gefur fullnægjandi svör við stóru spurningunum í lífinu. Íhugaðu svörin við eftirfarandi spurningum.

HVERS VEGNA ER SVONA MIKIÐ UM ILLSKU OG ÞJÁNINGAR Í HEIMINUM?

Mikið er fjallað um illsku og þjáningar í Biblíunni. Þar segir:

  1. „Maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ – Prédikarinn 8:9.

    Óhæfar og spilltar stjórnir manna hafa valdið gríðarlegum þjáningum.

  2. „Tími og tilviljun hittir þá alla fyrir.“ – Prédikarinn 9:11.

    Allir geta orðið fyrir ófyrirsjáanlegum áföllum – svo sem alvarlegum veikindum, slysum eða öðrum hörmungum – hvar og hvenær sem er.

  3. „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni.“ – Rómverjabréfið 5:12.

    Þegar fyrstu mannhjónin voru sköpuð voru þau fullkomin og áttu ekki fyrir sér að deyja. Syndin „kom inn í heiminn“ þegar fyrstu mannhjónin óhlýðnuðust skapara sínum af ásettu ráði.

Biblían gerir meira en að svara því hvers vegna menn þjást. Hún lofar að Jehóva * Guð muni útrýma illskunni og „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ – Opinberunarbókin 21:3, 4.

HVAÐ GERIST VIÐ DAUÐANN?

Biblían segir að hinir dánu séu án nokkurrar meðvitundar og að þeir aðhafist ekki neitt. Í Prédikaranum 9:5 stendur: „Þeir sem lifa vita að þeir eiga að deyja en hinir dauðu vita ekki neitt.“ Við dauðann munu „áform þeirra verða að engu“. (Sálmur 146:4) Heilastarfsemin stöðvast þegar við deyjum og þar með hættir líka starfsemi skynfæranna. Þar af leiðandi getum við hvorki aðhafst neitt, hugsað né fundið til eftir dauðann.

En Biblían gerir meira en að svara því hvert ástand hinna dánu sé. Hún gefur okkur þá jákvæðu framtíðarsýn að hinir dánu verði reistir upp til lífs úr djúpum svefni dauðans. – Hósea 13:14; Jóhannes 11:11-14.

HVER ER TILGANGUR LÍFSINS?

Biblían segir að Jehóva Guð hafi skapað manninn og konuna. (1. Mósebók 1:27) Fyrsti maðurinn, Adam, er því kallaður ,sonur Guðs‘. (Lúkas 3:38) Maðurinn var skapaður í ákveðnum tilgangi. Hann átti að byggja upp vináttu við himneskan föður sinn og lifa hamingjuríku lífi að eilífu og hafa nóg að starfa. Þess vegna eru allir menn skapaðir með andlega þörf, sem þýðir að manninum er eðlislægt að vilja fræðast um Guð. Biblían segir þess vegna: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ – Matteus 4:4.

Þar að auki segir í Biblíunni: „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ (Lúkas 11:28) Biblían fræðir okkur ekki aðeins um Guð heldur hjálpar okkur að eignast ánægjulegra líf og gefur okkur góða framtíðarvon.

Höfundur Biblíunnar og þú

EFTIR að hafa skoðað rökin hafa milljónir manna um allan heim komist að þeirri niðurstöðu að Biblían sé ekki bara gömul bók. Þeir eru sannfærðir um að Guð hafi innblásið Biblíuna og að hún sé orð hans til okkar mannanna – þar með talið þín. Í henni býður Guð þér að kynnast sér og eignast vináttu sína. „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur,“ segir í Biblíunni. – Jakobsbréfið 4:8.

Þegar maður rannsakar Biblíuna opnast fyrir manni hrífandi framtíðarsýn. Hvernig? Að lesa bók gefur manni innsýn í hugarheim höfundarins. Eins opinberar lestur í Biblíunni okkur hugsanir og tilfinningar Guðs sem er höfundur hennar. Hugleiddu hvað það þýðir. Þú getur kynnst tilfinningum og viðhorfum skaparans! Þar að auki upplýsir Biblían okkur um ...

  • nafn Guðs, eðli hans og stórkostlega eiginleika.

  • fyrirætlun Guðs með manninn.

  • hvernig við getum styrkt samband okkar við Guð.

Langar þig að fræðast meira um þetta efni? Vottar Jehóva eru fúsir til að aðstoða þig. Þér býðst ókeypis biblíunámskeið sem getur hjálpað þér að eignast nánara samband við höfund Biblíunnar, Jehóva Guð.

Í þessari grein hafa verið færð rök fyrir því að Biblían sé innblásin bók. Hægt er að fá frekari upplýsingar í 2. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Hún er gefin út af Vottum Jehóva og hægt er að nálgast hana á www.jw.org/is.

Þú getur einnig horft á myndskeiðið Hver er höfundur Biblíunnar? á vefsíðunni www.jw.org/is.

Sjá ÚTGÁFA > MYNDBÖND.

^ gr. 31 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.