RÁÐ VIÐ STREITU
Hvað er streita?
Streita er svar líkamans við krefjandi aðstæðum. Heilinn sendir hormón út um allan líkamann. Það eykur hjartsláttinn, stillir blóðþrýstinginn, andardrátturinn verður örari og vöðvarnir spennast. Áður en þú gerir þér fulla grein fyrir hvað er að gerast er líkaminn tilbúinn í slaginn. Þegar streituvaldandi aðstæður hafa liðið hjá fer líkaminn úr „varnarstöðu“ og fer aftur að starfa eðlilega.
JÁKVÆÐ OG NEIKVÆÐ STREITA
Streita er eðlilegt viðbragð sem gerir þér kleift að takast á við erfiðar eða hættulegar aðstæður. Streituviðbrögðin byrja í heilanum. Jákvæð streita gerir þér kleift að bregðast fljótt við aðstæðum. Streita að vissu marki getur líka hjálpað þér að ná markmiðum þínum eða að ná betri árangri í prófi, atvinnuviðtali eða íþrótt.
En of mikil, langvarandi eða þrálát streita getur skaðað þig. Þegar líkaminn er ítrekað eða stöðugt í „varnarstöðu“ geturðu farið að þjást líkamlega, tilfinningalega og andlega. Hegðun þín, meðal annars gagnvart öðrum, getur breyst. Langvarandi streita leiðir líka oft til þess að fólk noti vímuefni eða reyni að þola ástandið með öðrum óheilbrigðum hætti. Hún getur jafnvel leitt til þunglyndis, útbruna eða sjálfsvígshugsana.
Þó að streita hafi ekki sömu áhrif á alla getur hún valdið margs konar sjúkdómum. Hún getur haft áhrif á nánast alla hluta líkamans.