Ungt fólk spyr
Hverja tek ég mér til fyrirmyndar?
Í þessari grein kemstu að því
AF HVERJU þú þarft á góðu fordæmi annarra að halda
HVERJIR gefa gott fordæmi
HVERNIG þú getur fylgt fordæmi þeirra
AF HVERJU ÞÚ ÞARFT Á ÞVÍ AÐ HALDA
STAÐREYND: Þú hefur tilhneigingu til að líkja eftir þeim sem þú lítur upp til. Það getur verið gott eða slæmt – allt eftir því hverja þú tekur þér til fyrirmyndar.
Góðar fyrirmyndir: Fólk sem er þess virði að líkja eftir. – Filippíbréfið 3:17.
Varastu þetta: Margir líta upp til fræga fólksins, hvort sem það eru tónlistamenn, íþróttahetjur eða kvikmyndastjörnur, jafnvel þótt siðferði þeirra sé oft á lágu plani.
Veltu fyrir þér: Í Biblíunni er þeim eiginleikum sem einstaklingur býr yfir líkt við flík. (Kólossubréfið 3:9, 10) Segjum sem svo að þú ætlir að kaupa þér föt. Ef sölumaðurinn í búðinni væri druslulegur til fara myndirðu þá leyfa honum að ráða hvaða föt þú kaupir? Af hverju ættirðu þá að leyfa einhverjum sem er frægur, en hefur litla siðferðisvitund, að stjórna því hvers konar einstaklingur þú vilt vera? Ef þú aftur á móti lítur upp til þeirra sem setja gott fordæmi áttu auðveldara með að (1) koma auga á eiginleika sem gott er að tileinka sér og (2) líkja eftir þeim sem sýna þess konar eiginleika. Það er langtum betra en að fylgja bara fjöldanum.
HVERJIR GEFA GOTT FORDÆMI?
Merktu við hvort fullyrðingarnar séu réttar eða rangar.
1. Það er aðeins hægt að taka sér til fyrirmyndar þá sem maður hefur hitt í eigin persónu.
□Rétt □Rangt
2. Sá sem maður tekur sér til fyrirmyndar verður að vera fullkominn.
□Rétt □Rangt
3. Það er hægt að taka sér marga til fyrirmyndar.
□Rétt □Rangt
Svör
1. Rangt. Þú getur jafnvel tekið þér til fyrirmyndar fólk sem var uppi fyrir löngu síðan. Hægt er að kynnast fjölmörgum vönduðum einstaklingum með því að skoða Biblíuna. Ef þú lest til dæmis 11. kafla Hebreabréfsins sérðu að Páll nafngreinir 16 karla og konur sem voru til fyrirmyndar í að sýna trú. Og í kaflanum á eftir hvatti Páll kristna menn til að ,beina sjónum sínum‘ til Jesú og fylgja honum. (Hebreabréfið 12:2) Jesús er okkar besta fyrirmynd. – Jóhannes 13:15. *
2. Rangt. Adam átti enga fullkomna afkomendur nema Jesú. (Rómverjabréfið 3:23) Meira að segja Elía spámaður, sem var einstaklega hugrakkur, var „maður eins og við“. (Jakobsbréfið 5:17) Hið sama er að segja um fólk eins og Mirjam, Davíð, Jónas, Mörtu og Pétur. Í Biblíunni er sagt heiðarlega frá mistökum þessara karla og kvenna. Engu að síður voru þau til fyrirmyndar á flestum sviðum lífsins og við getum því fylgt góðu fordæmi þeirra.
3. Rétt. Þú getur tekið þér til fyrirmyndar eins marga og þú vilt. Einn er kannski hörkuduglegur á meðan annar er sérlega þolinmóður. Sá þriðji er ef til vill jákvæður þrátt fyrir erfiðleika og vandamál. (1. Korintubréf 12:28; Efesusbréfið 4:11, 12) Leitaðu að hinu góða í fari annarra og þá kemurðu auga á eiginleika sem er þess virði að tileinka sér. – Filippíbréfið 2:3.
HVERNIG ÞÚ GETUR FYLGT FORDÆMI ÞEIRRA
1. Fylgstu með þeim sem þú hefur ákveðið að taka þér til fyrirmyndar. Páll postuli sagði við kristna menn á fyrstu öld: „Lítið til þeirra, sem breyta eins og vér, sem erum yðar fyrirmynd.“ – Filippíbréfið 3:17, Biblían 1859.
2. Kynnstu þeim. Reyndu að leita félagsskapar við þá sem gefa þér gott fordæmi. Í Orðskviðunum 13:20 segir: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur.“
3. Hugsaðu um aðlaðandi eiginleika þeirra sem þú tekur þér til fyrirmyndar. Í Biblíunni segir: „Skoðið þeirra lífs afdrif, og breytið eftir þeirra trúarstöðuglyndi.“ – Hebreabréfið 13:7, Biblían 1859.
Viltu reyna? Prófaðu þá að vinna verkefnið hér fyrir neðan.
Verkefni
Veldu eiginleika sem þig langar til að tileinka þér. (Langar þig til að verða mannblendnari, örlátari, duglegri, þrautseigari, áreiðanlegri eða hjálpsamari?)
․․․․․
Veldu einstakling sem er gæddur þeim eiginleika sem þig langar til að þroska með þér. *
․․․․․
Þegar þú ákveður hverja þú ætlar að taka þér til fyrirmyndar er markmið þitt ekki að verða nákvæmlega eins og viðkomandi. Þú munt áfram búa yfir góðum eiginleikum sem einkenna þig. En með því að fylgja góðu fordæmi annarra geturðu kallað fram það besta í fari þínu samhliða því að þú þroskast og verður fullorðinn. Með þessum hætti getur þú líka orðið öðrum góð fyrirmynd.
Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.jw.org.
[Neðanmáls]
^ Margir sem eru uppi núna geta auðvitað líka gefið þér gott fordæmi. Þeirra á meðal mætti nefna foreldri, systkini, einhvern í söfnuðinum sem er þroskaður í trúnni eða annan einstakling sem er til fyrirmyndar og þú þekkir eða hefur lesið um.
^ Þú getur einnig unnið verkefnið með því að velja fyrst einstakling sem þú berð virðingu fyrir og spyrja þig síðan: Hvaða eiginleiki gerir þessa manneskju sérstaklega aðlaðandi? Leggðu þig svo fram við að þroska með þér þann eiginleika sem þú komst auga á.
[Innskot á bls. 15]
Af hverju ættirðu að leyfa einhverjum sem er frægur, en hefur litla siðferðisvitund, að stjórna því hvers konar einstaklingur þú vilt vera?
[Rammi/Myndir á bls. 16, 17]
HVAÐ SEGJA JAFNALDRARNIR?
Layla – Sandra, vinkona mín, lítur alltaf á björtu hliðarnar. Hún þekkir líka Biblíuna út og inn. Þess vegna virðist hún alltaf geta fundið lausnir á vandamálum. Ég get reitt mig á hjálp hennar sama hvert vandamálið er.
Terrence – Vinir mínir, Kyle og David, gera aldrei lítið úr tilfinningum annarra. Þeir eru alltaf reiðubúnir að hjálpa þeim sem eiga við vandamál að etja, jafnvel þótt þeir þurfi að setja sínar eigin áhyggjur til hliðar á meðan. Ég tek mér þá til fyrirmyndar.
Emmaline – Mamma er mín fyrirmynd. Hún þekkir Biblíuna eins og lófann á sér. Hún hefur alltaf augun opin fyrir tækifærum til að segja fólki frá biblíusannindum. Henni finnst heiður að mega taka þátt í prédikunarstarfinu og lítur ekki á það sem byrði. Ég dáist að henni fyrir það.
[Rammi á bls. 17]
LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI
Vantar þig aðstoð við að finna út hverja þú ættir að taka þér til fyrirmyndar? Lestu 11. kafla Hebreabréfsins og veldu einn úr hópi þeirra karla og kvenna sem nefnd eru í kaflanum. Aflaðu þér síðan meiri upplýsinga um þann einstakling sem þú valdir með það fyrir augum að líkja eftir góðum eiginleikum hans.
Sagt er frá fleiri biblíupersónum, sem gott er að taka sér til fyrirmyndar, í fyrra og síðara bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga, en hún er gefin út af Vottum Jehóva. Skoðaðu listann yfir fyrirmyndir sem er að finna aftast í bókinni.
[Rammi á bls. 17]
SPYRÐU FORELDRA ÞÍNA
Ræddu við foreldra þína um hverja þeir hafi tekið sér til fyrirmyndar bæði þegar þeir voru á þínum aldri og líka núna. Hvernig hefur það verið foreldrum þínum til góðs að fylgja góðu fordæmi annarra?