Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Humar – hreinasta lostæti

Humar – hreinasta lostæti

Humar – hreinasta lostæti

Hópur glorhungraðra matargesta situr inni á veitingarhúsi í New York-borg. Með sérstökum verkfærum kljúfa þeir af mikilli færni skelina af dýri sem líkist risastóru skordýri. Þeir hunsa augun sem standa á stilkum og virðast stara á þá frá diskinum. Síðan fá þeir sér bita af sætu og meyru kjötinu. Hvað eru þeir að borða? Humar.

Á ÁTJÁNDU öld þöktu humrar norðausturströnd Bandaríkjanna eins og skordýraplága. Þessi krabbadýr voru veidd og notuð sem áburður á akra. Þau voru einnig notuð sem beita til fiskveiða og gefin föngum að borða. Á þessum tíma var humar svo oft hafður í matinn að óánægt þjónustufólk á svæðinu vann mál fyrir dómstólum þar sem úrskurðað var að það fengi ekki humar í matinn oftar en þrisvar í viku.

Aftur á móti var humar sjaldgæf sjón fyrir borgarbúa sem bjuggu fjarri sjó. Ástæðan er sú að þegar humar er ekki lengur lifandi skemmist hann mjög fljótt og geymist ekki heldur þótt hann sé saltaður eða þurrkaður. En um miðja 19. öld fóru verksmiðjur að sjóða niður humar og þannig gátu fleiri fengið að bragða á þessum kræsingum. Með tilkomu járnbrautarlesta var auk þess hægt að flytja lifandi humar um öll Bandaríkin. Og það varð til þess að eftirspurn eftir humri jókst gífurlega. En þar sem það var dýrt að ferja ferskan humar á milli staða var það munaður sem aðeins hinir ríku gátu leyft sér.

Núna fanga sjómenn ýmsar tegundir af humri við strendur um heim allan. Heimkynni ameríska humarsins eru í Atlantshafi, allt frá Nýfundnalandi til Norður-Karólínu. Mesta magn af humri er að finna við strönd Maine í norðausturhluta Bandaríkjanna. Þaðan er humar fluttur um allan heim, bæði soðinn og lifandi. Hægt er að flytja allt að 36 tonn í einni flugferð.

Stórfyrirtæki fjöldaframleiða oft matarafurðir sem skila þeim góðum arði á alþjóðamörkuðum. En það á ekki við um humarinn. Humarveiðimenn eru oftast heimamenn með sjálfstæðan atvinnurekstur. Þeir stunda ekki skelfiskaeldi heldur halda út á fiskimiðin, í þessu tilfelli Atlantshafið.

Hvernig er humar veiddur?

Hvernig fara sjómenn að því að fanga bráðina? Til að fá svar við þeirri spurningu ræddi Vaknið! við Jack en hann er af fjórðu kynslóð humarveiðimanna í bænum Bar Harbor í Maine. Jack byrjaði að veiða þegar hann var 17 ára. Hann veiðir á sömu miðum og langafi hans gerði. Eiginkona Jacks stundar líka fiskveiðar. „Ég giftist inn í sjómennskuna,“ segir hún. „Það tók mig tvö ár að læra til verka um borð í bátnum hjá Jack. Seinna keypti ég mér minn eigin bát.“

Hvernig veiða Jack og Annette humar? „Við notum humargildru sem er ferhyrnt búr með járnrimlum og opnanlegu hólfi,“ segir Annette „og inni í það setjum við netapoka fullan af beitu, oftast nær síld.“ Gildrurnar eru festar við baujur. „Sjómennirnir mála baujurnar hver í sínum lit svo að þeir geti fundið þær fljótt aftur,“ segir Annette.

Þegar búið er að kasta út gildrunni sekkur hún niður á hafsbotninn. Baujan, sem búið er að mála í ákveðnum lit, flýtur fyrir ofan gildruna þannig að veiðimennirnir geta auðveldlega fundið gildrurnar sínar. „Við látum gildrurnar bíða í nokkra daga,“ segir Annette „og síðan förum við og drögum þær upp á þilfar. Þegar það er humar í búrinu tökum við hann út og mælum hann.“ Jack og Annette er ekki sama um náttúruna og skila því ungum humri aftur í sjóinn. Sumum kvendýrum er líka sleppt til að viðhalda stofninum.

Því næst halda sjómennirnir til hafnar til að selja lifandi humarinn. Sjómennirnir gera ekki með sér samninga þó svo að einhverjir þeirra vinni saman heldur vinna þeir hver fyrir sig og selja svo afurðir sínar beint í smásölu. Eins og minnst var á fyrr í greininni hefur skelfiskaeldi lítið verið stundað meðal humarveiðimanna. Jack segir: „Sumir humarveiðimenn hafa fengið leyfi til að veiða kvendýr sem komin eru að því að hrygna. Þeir láta hrognin klekjast út og ala humarinn í stuttan tíma og sleppa honum svo í sjóinn. Með þessari aðferð er komist hjá því að stofninn deyi út.“

Humarveiði er kannski ekki auðveldasta leiðin til að sjá fyrir sér og heldur ekki sú besta til að verða ríkur. En ef þú spyrð sjómennina geta þeir talið upp kostina. Þeir nefna meðal annars hefðina sem þeir viðhalda í samfélaginu og fjölskyldunni, frelsið sem fylgir sjálfstæðum atvinnurekstri eða ánægjuna sem fæst af því að búa við sjóinn og starfa þar. En það sem veitir þeim mestu gleðina er að hugsa til þess að hungraðir matargestir um allan heim gæði sér á humrinum sem þeir hafa veitt.

[Rammi/​Mynd á bls. 14]

HUMARVEIÐAR ERU EKKI HÆTTULAUSAR

Humarveiðar gætu virst hættulitlar en svo er ekki. Bandarísk stofnun, sem sér um öryggis- og heilbrigðismál á vinnustöðum (NIOSH), bendir til dæmis á eftirfarandi: „Á árunum 1993 til 1997 fórust í Maine 14 af hverjum 100.000 humarveiðimönnum sem er tæplega þrisvar sinnum hærra en meðaltalið í öllum starfsgreinum Bandaríkjanna samanlagt. Meðaltalið er 4,8 af hverjum 100.000 starfsmönnum.“

Samkvæmt rannsókn bandarísku landhelgisgæslunnar, sem birtist í skýrslu NIOSH, kom í ljós að „humarveiðimenn flækjast oft í línunni á þilfarinu, falla útbyrðis og sökkva niður með gildrunni. Þeir drukkna svo vegna þess að þeir geta ekki losað sig úr flækjunni eða vegna þess að þeir komast ekki aftur um borð í bátinn.“ Í könnun, sem gerð var á árunum 1999 til 2000, voru 103 humarveiðimenn teknir tali og sögðust nærri 3 af hverjum 4 einhvern tíma hafa flækst í línunni þótt þeir hafi ekki allir fallið útbyrðis. Mælt hefur verið með að humarveiðimenn geri öryggisráðstafanir. Þeir gætu til dæmis haft verkfæri til að skera sig lausa eða fundið leiðir til að varna því að festast í línunni.

[Myndir á bls. 12,13]

1. Jack hífir upp humargildruna.

2. Annette og Jack taka humarinn úr gildrunni.

3. Humarinn er mældur með þar til gerðu mælitæki.