Nægur svefn er mikilvægur
Nægur svefn er mikilvægur
● Nýlegar rannsóknir sýna að fólk í Norður-Ameríku sefur að meðaltali sjö til sjö og hálfan tíma á nóttu. Hversu mikilvægur er okkur svefninn? Í svefni förum við í gegnum nokkrar svefnlotur sem mynda ákveðinn svefnhring. Á 60 til 90 mínútna fresti förum við í bliksvefn, svefnlotu sem einkennist af kvikum augnhreyfingum. Í bliksvefni er heilinn sem virkastur og fræðimenn telja að þá vinni hann að viðhaldi á sjálfum sér. Sumir sérfræðingar halda því fram að sé svefnhringurinn rofinn og við missum úr svefn hafi það smám saman áhrif á líkamann. Heilastarfsemin verði fyrir áhrifum af því þannig að við verðum sljó og viðkvæm fyrir alls konar kvillum.
Ýmis efni, eins og koffín, geta tímabundið hindrað boðefni í að gefa heilanum boð um svefnþörf. Í heilanum er samt ákveðið ferli sem stjórnar því að við sofnum ef við höfum ekki fengið næga hvíld og það veldur svokölluðum örsvefni. Samkvæmt blaðinu The Toronto Star „mun heilinn koma sér á fyrsta stig svefns af og til, þegar hann er vansvefta, og dvelja þar frá um það bil tíu sekúndum upp í rúma mínútu í senn. Gildir þá einu hvað við erum að gera“. Hugsaðu þér að þú keyrir bíl á 50 kílómetra hraða og dettir út í tíu sekúndur. Á þeim tíma keyrirðu vegalengd sem samsvarar fótboltavelli. Auk þess getur ónæmiskerfið veikst ef þú fórnar nauðsynlegum svefni, þar sem líkaminn framleiðir T-frumur á meðan við sofum en þær verja okkur gegn sýklum. Annað sem líkaminn framleiðir í svefni er hormónið leptín en það stýrir matarlystinni. Það er greinilegt að við þurfum að fá nægan svefn, rétt eins og við þurfum að hreyfa okkur og nærast.
Er of mikil vinna að ræna þig svefni? Hefurðu áhyggjur af lífinu og eigum þínum? Hinn vitri konungur Salómon sagði eitt sinn: „Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann matast lítið eða mikið, en offylli auðmanns ljær honum ekki svefnfrið.“ — Prédikarinn 5:11.