Hverju trúa vottar Jehóva?
Það er ekkert leyndarmál hverju vottar Jehóva trúa enda eru rit þeirra fáanleg á hundruðum tungumála. Hér á eftir er yfirlit yfir nokkrar af helstu kenningum þeirra.
1. Biblían.
Vottarnir trúa því að ,sérhver ritning sé innblásin af Guði‘. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Jason D. BeDuhn er dósent í trúarbragðafræðum. Hann segir: „[Vottar Jehóva byggðu] trúarkerfi sitt og trúariðkun á Biblíunni eins og hún er, án þess að ákveða fyrir fram hvað væri þar að finna.“ Vottarnir byggja trúarskoðanir sínar á Biblíunni en túlka ekki Biblíuna eftir eigin hentisemi. En þeir viðurkenna líka að ekki skuli taka allt í Biblíunni bókstaflega. Dagarnir sjö í sköpunarsögunni eru til dæmis táknrænir og eiga við löng tímabil. − 1. Mósebók 1:31; 2:4.
2. Skaparinn.
Hinn sanni Guð hefur gefið sér nafn sem aðgreinir hann frá falsguðum. Nafn hans er Jehóva (í íslenskum biblíum frá síðustu öld og þessari er notaður rithátturinn Jahve). * (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) Hebresk mynd þessa nafns kemur fyrir um 7.000 sinnum í frumtexta Biblíunnar. Jesús lagði áherslu á þetta nafn í bæninni sem er kölluð faðirvorið. Hann bað: „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Guð krefst óskiptrar hollustu og verðskuldar hana. Þess vegna nota vottar Jehóva ekki helgimyndir eða líkneski við tilbeiðsluna. − 1. Jóhannesarbréf 5:21.
3. Jesús Kristur.
Hann er frelsarinn, „sonur Guðs“ og „frumburður allrar sköpunar“. (Jóhannes 1:34; Kólossubréfið 1:15; Postulasagan 5:31) Hann er sjálfur skapaður og er ekki hluti af þríeinum guði eins og margar kirkjudeildir kenna. Jesús sagði: „Faðirinn er mér meiri.“ (Jóhannes 14:28) Jesús var á himnum áður en hann kom til jarðar og eftir fórnardauða sinn og upprisu sneri hann aftur til himna. „Enginn kemur til föðurins nema fyrir [hann].“ − Jóhannes 14:6.
4. Ríki Guðs.
Það er raunveruleg stjórn á himnum. Guðsríki á sér konung − Jesú Krist − og hann hefur 144.000 meðstjórnendur sem ,leystir hafa verið frá jörðunni‘. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3, 4; Daníel 2:44; 7:13, 14) Saman munu þeir ríkja yfir jörðinni, hún verður hreinsuð af allri illsku og milljónir guðhræddra manna munu byggja hana. − Orðskviðirnir 2:21, 22.
5. Jörðin.
Í Prédikaranum 1:4 segir: „Jörðin stendur að eilífu.“ Þegar hinum illu hefur verið útrýmt verður jörðin gerð að paradís og réttlátt mannkyn býr þar að eilífu. (Sálmur 37:10, 11, 29) Bæn Jesú: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni,“ hefur þá verið svarað. − Matteus 6:10.
6. Spádómar Biblíunnar.
,Guð lýgur aldrei.‘ (Títusarbréfið 1:2) Það sem hann segir fyrir rætist alltaf, þar á meðal spádómar Biblíunnar um endalok núverandi heims. (Jesaja 55:11; Matteus 24:3-14) Hverjir komast lífs af í eyðingunni sem er fram undan? „Sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu,“ stendur í 1. Jóhannesarbréfi 2:17.
7. Yfirvöld.
„Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er,“ sagði Jesús. (Markús 12:17) Þess vegna hlýða vottar Jehóva landslögum svo framarlega sem þau stangast ekki á við lög Guðs. − Postulasagan 5:29; Rómverjabréfið 13:1-3.
8. Boðunin.
Jesús sagði að „fagnaðarerindið um ríkið“ yrði boðað um allan heim áður en núverandi heimur liði undir lok. (Matteus 24:14) Vottar Jehóva telja það heiður að taka þátt í þessu björgunarstarfi. Fólki er auðvitað í sjálfsvald sett hvort það vill hlusta. Í Biblíunni stendur: „Hver sem vill fær ókeypis lífsins vatn.“ − Opinberunarbókin 22:17.
9. Skírn.
Vottar Jehóva skíra aðeins þá sem langar til að þjóna Guði sem vottar hans eftir að hafa kynnt sér Biblíuna rækilega. (Hebreabréfið 12:1) Þeir hafa þá vígt sig Guði og tákna vígsluna með niðurdýfingarskírn. − Matteus 3:13, 16; 28:19.
10. Skipting í lærða og leikmenn.
„Þér öll [eruð] bræður og systur,“ sagði Jesús við fylgjendur sína. (Matteus 23:8) Hjá hinum frumkristnu, þar á meðal biblíuriturunum, var engin prestastétt. Vottar Jehóva fylgja þessari fyrirmynd úr Biblíunni.
^ Vottar Jehóva bjuggu ekki til nafnið „Jehóva“. Fyrr á öldum var nafn Guðs þýtt þannig úr frummálum Biblíunnar á þó nokkur tungumál, þar á meðal ensku, þýsku og íslensku. Því miður hafa sumir biblíuþýðendur skipt nafni Guðs út fyrir titla eins og „Guð“ eða „Drottinn“. Með því sýna þeir höfundi Biblíunnar megna vanvirðingu.