Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna erum við alltaf að rífast?

Hvers vegna erum við alltaf að rífast?

Ungt fólk spyr

Hvers vegna erum við alltaf að rífast?

Í samtalinu hér á eftir gerir Rakel þrennt sem stuðlar að rifrildi. Geturðu komið auga á hvað það er? Skrifaðu svörin fyrir neðan samtalið og berðu þau síðan saman við svörin í rammanum í lok greinarinnar.

Það er miðvikudagskvöld. Rakel, 17 ára, er búin með skylduverkin sín og ætlar að slaka aðeins á enda hefur hún unnið til þess. Hún kveikir á sjónvarpinu og kemur sér vel fyrir í uppáhaldsstólnum sínum.

Í sömu andrá gengur mamma inn í herbergið og er ekki glöð á svip. „Rakel! Af hverju ertu að glápa á sjónvarpið þegar þú átt að vera að hjálpa systur þinni með heimalærdóminn? Þú gerir aldrei eins og þér er sagt!“

„Nú byrjar það,“ tautar Rakel nógu hátt til að það heyrist.

Mamma hallar sér fram. „Hvað sagðirðu, unga dama?“

„Ekkert,“ dæsir Rakel og ranghvolfir augunum.

Núna er mamma orðin verulega reið. „Þú notar ekki þennan tón við mig,“ segir hún.

„Hvað með tóninn sem þú notar við mig?“ svarar Rakel til baka.

Afslöppunin er á enda . . . enn annað rifrildi er í uppsiglingu.

1. ․․․․․

2. ․․․․․

3. ․․․․․

KANNASTU við þessar aðstæður? Eru þú og foreldrar þínir sífellt að rífast? Ef svo er skaltu gefa þér nokkrar mínútur til að skoða málin nánar. Um hvað rífist þið mest? Merktu við það sem við á — eða skrifaðu það niður undir „Annað“.

◯ Framkoma

◯ Verkefni á heimilinu

◯ Klæðaburður

◯ Útivistartími

◯ Afþreying

◯ Vinir

◯ Hitt kynið

◯ Annað ․․․․․

Óháð því hvað þið rífist um valda rifrildi streitu bæði hjá þér og foreldrum þínum. Þú getur auðvitað bara lokað munninum og látið sem þú samþykkir allt sem foreldrarnir segja. En vill Guð að þú gerir það? Nei. Í Biblíunni er þér reyndar sagt að þú eigir að „heiðra föður þinn og móður“. (Efesusbréfið 6:2, 3) En Biblían hvetur þig líka til að þroska með þér góða dómgreind og rökhugsun. (Orðskviðirnir 8:12; Rómverjabréfið 12:1) Þegar þú gerir það kemstu ekki hjá því að mynda þínar eigin skoðanir sem stangast kannski sumar á við skoðanir foreldra þinna. En fjölskyldur, sem fara eftir meginreglum Biblíunnar, geta engu að síður átt friðsamleg samskipti — jafnvel þótt allir séu ekki sammála um allt. — Kólossubréfið 3:13.

Hvernig geturðu talað við foreldra þína án þess að venjulegt samtal breytist í stríðsátök? Það er auðvelt að segja: „Þetta er vandamál foreldra minna. Það eru þau sem eru alltaf að nöldra í mér!“ En hugsaðu um eitt: Getur þú stjórnað viðbrögðum annarra, meðal annars foreldra þinna? Er ekki staðreyndin sú að eina manneskjan sem þú getur breytt ert þú. Og það góða er að ef þú gerir þitt til að draga úr spennunni eiga foreldrar þínir miklu frekar eftir að halda ró sinni og hlusta á það sem þú hefur að segja.

Skoðum þess vegna nánar hvað þú getur gert til að stöðva rifrildin. Tileinkaðu þér ráðin sem fylgja hér á eftir og kannski geturðu komið foreldrum þínum — og sjálfum þér — á óvart með nýjum samskiptaaðferðum.

(Tillaga: Merktu við hvað af eftirfarandi þú þarft að vinna í.)

Hugsaðu áður en þú svarar. Í Biblíunni segir: „Hjarta hins réttláta íhugar hverju svara skuli.“ (Orðskviðirnir 15:28) Segðu ekki endilega það fyrsta sem þér dettur í hug þegar þér finnst að verið sé að ráðast á þig. Segjum til dæmis að mamma þín segi: „Af hverju vaskaðir þú ekki upp? Þú gerir aldrei það sem þér er sagt!“ Þú gætir fljótfærnislega svarað til baka: „Af hverju þarftu að vera að nöldra í mér?“ En hugsaðu málið betur. Reyndu að átta þig á hvað liggur að baki orða mömmu þinnar. Það er yfirleitt óþarfi að taka fullyrðingar eins og „alltaf“ og „aldrei“ bókstaflega. En þær fela samt í sér ákveðnar tilfinningar. Hverjar gætu þær verið?

Kannski er mamma þín vonsvikin og finnst allt of mörg húsverk liggja á henni. Hún þarf ef til vill bara að finna stuðning þinn. Eða kannski er staðreyndin sú að þú hefur vanið þig á að færast undan þeim verkefnum sem þú átt að sinna. Hver sem ástæðan er þá nærðu engum árangri með því að segja: „Af hverju þarftu að vera að nöldra í mér?“ nema þá helst til að koma af stað rifrildi. Hvers vegna reynirðu ekki frekar að róa mömmu þína? Þú gætir til dæmis sagt: „Ég sé að þetta kemur þér í uppnám. Ég skal fara strax að vaska upp.“ Varnaðarorð: Ekki segja þetta með kaldhæðni. Ef þú svarar hlýlega eru meiri líkur á að það dragi úr spennunni á milli ykkar.

Skrifaðu hér fyrir neðan eitthvað sem pabbi þinn eða mamma gætu sagt sem pirrar þig ef þú leyfir það.

․․․․․

Hugsaðu núna um hvernig þú getir svarað þessu hlýlega og þar með sýnt að þú skiljir hvað liggi að baki.

․․․․․

Talaðu með virðingu. Michelle hefur lært af reynslunni að það skiptir máli hvernig hún talar við mömmu sína. „Það er sama hvað við erum að ræða um,“ segir hún, „á endanum snýst það alltaf um að mömmu líkar ekki við tóninn í röddinni minni.“ Ef það sama á við um þig skaltu reyna að læra að tala blíðlega og rólega og forðast að ranghvolfa augunum eða gefa til kynna með líkamstjáningu að eitthvað fari í taugarnar á þér. (Orðskviðirnir 30:17) Ef þér finnst eins og þú sért að missa stjórn á þér skaltu fara með stutta bæn til Guðs í hljóði. (Nehemíabók 2:4) Markmiðið er auðvitað ekki að fá hjálp Guðs til að losna við skammir foreldra þinna heldur til að hafa sjálfstjórn svo að þú hellir ekki olíu á eldinn. — Jakobsbréfið 1:26.

Skrifaðu hér fyrir neðan orð og verk sem þú ættir að forðast.

Orð:

․․․․․

Hegðun (andlits- og líkamstjáning):

․․․․․

Hlustaðu. Í Biblíunni segir: „Málæðinu fylgja yfirsjónir.“ (Orðskviðirnir 10:19) Gefðu því pabba þínum eða mömmu tækifæri til að tala og hlustaðu af athygli. Slökktu á tónlistinni, leggðu bókina eða blaðið frá þér og horfðu í augun á þeim. Gríptu ekki inn í til að réttlæta þig. Hlustaðu bara. Seinna, þegar þau eru búin að tala, færðu örugglega næg tækifæri til að spyrja spurninga eða útskýra skoðun þína. Ef þú ert hins vegar þrjósk(ur) og segir þína skoðun strax gerirðu málið líklega bara enn verra. Þótt þig langi til að segja eitthvað meira er þetta örugglega ekki rétti tíminn til þess. — Prédikarinn 3:7.

Vertu fús til að biðjast afsökunar. Það er ávallt viðeigandi að biðjast afsökunar ef maður hefur gert eitthvað til að stuðla að ágreiningi. (Rómverjabréfið 14:19) Þú getur jafnvel beðist afsökunar á því að þið séuð að rífast. Ef þér finnst erfitt að gera það augliti til auglitis gætirðu reynt að skrifa tilfinningar þínar niður á lítinn miða. Síðan skaltu leggja þig fram um að breyta þeirri hegðun sem kom af stað rifrildinu. (Matteus 5:41) Fóruð þið að rífast vegna þess að þú varst ekki búin(n) að sinna skylduverkum þínum? Hvers vegna kemurðu ekki foreldrum þínum á óvart með því að klára verkin þín? Þótt þér finnist leiðinlegt að gera þau er það kannski skárri kostur en að mæta afleiðingunum þegar foreldrarnir sjá að þú hefur ekki enn gert þau. — Matteus 21:28-31.

Þegar þú leggur þig fram um að leysa ágreining eða reynir að koma í veg fyrir hann ertu í raun að gera þér lífið auðveldara. Í Biblíunni segir meira að segja að ,kærleiksríkur maður vinni sjálfum sér gagn‘. (Orðskviðirnir 11:17) Hugsaðu þess vegna um þann ávinning sem þú hefur af því að draga úr spennunni á milli þín og foreldra þinna.

Ágreiningsmál koma upp í farsælum fjölskyldum en þær vita hvernig hægt er að leysa úr þeim á friðsaman hátt. Nýttu þér ráðin í þessari grein og kannski kemstu að því að þú getur rætt jafnvel erfiðustu mál við foreldra þína — án rifrilda!

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype

TIL UMHUGSUNAR

● Af hverju finnst sumum jafnöldrum þínum það kostur að geta rifist?

● Af hverju er þrætugjörn manneskja heimskuleg í augum Jehóva? — Orðskviðirnir 20:3.

[Rammi/myndir á bls. 27]

HVAÐ SEGJA JAFNALDRARNIR?

„Ég þurfti að átta mig á því að þótt ég ynni fyrir mér bý ég enn hjá mömmu og verð að fara eftir hennar reglum. Hún hefur hugsað um mig í svo mörg ár þannig að þótt hún fylgist enn með því sem ég geri — eins og hvenær ég kem heim — skil ég það mjög vel.“

„Ef ég og foreldrar mínir erum ekki sammála um eitthvað, tölum við um það í bænum okkar, leitum okkur upplýsinga og ræðum síðan málin. Með þeim hætti komumst við alltaf að sameiginlegri niðurstöðu. Þegar við höfum Jehóva með í ráðum finnum við alltaf lausn á endanum.“

[Myndir]

Daniel

Cameron

[Rammi á bls. 29]

SVÖR

1. Kaldhæðnisleg orð Rakelar („Nú byrjar það“) ýttu bara undir gremju mömmu hennar.

2. Svipbrigði Rakelar (að ranghvolfa augunum) voru einungis ávísun á vandræði.

3. Að svara fullum hálsi til baka („Hvað með tóninn sem þú notar við mig?“) hefur yfirleitt öfug áhrif.

[Rammi á bls. 29]

TIL FORELDRA

Lestu samtalið í upphafi greinarinnar. Kemurðu auga á eitthvað sem mamma Rakelar gerði sem stuðlaði að rifrildinu? Hvernig geturðu komist hjá því að rífast við unglinginn þinn? Hér á eftir koma nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

Reyndu að forðast alhæfingar eins og „þú ert alltaf . . .“ eða „þú gerir aldrei . . .“ Slíkar fullyrðingar fá unglinginn bara til að fara í vörn. Þegar allt kemur til alls eru þetta líklega ýkjur hjá þér og unglingurinn veit það. Og kannski veit hann líka að slíkar alhæfingar eru miklu fremur sprottnar af reiði þinni en ábyrgðarleysi hans.

Í stað þess að nota hispurslausar fullyrðingar sem byrja á orðinu „þú“ skaltu reyna að segja unglingnum hvaða áhrif hegðun hans hefur á þig. Þú gætir til dæmis sagt: „Þegar þú . . . líður mér . . .“ Hvort sem þú trúir því eða ekki skiptir það barnið þitt máli hvernig þér líður. Það eru meiri líkur á því að þú fáir unglinginn til að vinna með þér ef þú segir honum hvaða áhrif þetta hefur á þig.

Þótt það geti verið erfitt skaltu ekki tala við barnið þitt fyrr en þú hefur náð stjórn á skapinu. (Orðskviðirnir 10:19) Ef málið snýst um húsverk sem unglingurinn á að sjá um skaltu ræða við hann um málið. Skrifaðu vandlega niður hvað hann á að gera og ef það er nauðsynlegt skaltu útskýra hverjar afleiðingarnar eru ef hann gerir ekki það sem krafist er af honum. Hlustaðu þolinmóðlega á skoðanir unglingsins jafnvel þótt þér finnist hann ekki hafa á réttu að standa. Flestir unglingar bregðast betur við ef hlustað er á þá heldur en þegar lesið er yfir þeim.

Í stað þess að álykta í fljótfærni að uppreisnarandi heimsins hafi náð tökum á unglingnum þínum skaltu hafa í huga að margt af því sem þú sérð í fari hans er eðlilegur þáttur í þroska hans. Barnið þitt stendur kannski fast á einhverri skoðun bara til að sýna fram á að það sé að vaxa úr grasi. Ekki freistast til að leiðast út í rifrildi. Mundu að viðbrögð þín við ögrun kennir unglingnum margt. Sýndu þolinmæði og langlyndi, því að þannig ertu syni þínum eða dóttur góð fyrirmynd til eftirbreytni. — Galatabréfið 5:22, 23.

[Mynd á bls. 28]

Að rífast við foreldra þína er eins og að hlaupa á hlaupabretti — þú eyðir mikilli orku án þess að komast neitt.