Reiðhjól sem brýnir hnífa
Reiðhjól sem brýnir hnífa
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í TANSANÍU
◼ Hvað dytti þér í hug ef þú sæir mann sitja öfugt á reiðhjóli, stíga pedalana í gríð og erg en hreyfast ekki úr stað? Sums staðar í heiminum, eins og hér í Austur-Afríku, væri þetta sennilega brýningarmaður — maður sem vinnur fyrir sér með því að brýna hnífa fyrir fólk.
Hjólið hans er venjulegt reiðhjól en með nokkrum mikilvægum breytingum. Á því er hverfisteinn sem er festur á styrktan bögglabera. Til að knýja hverfisteininn er nælonreim strekkt á gjörð sem hefur verið klofin í tvennt og logsoðin utan á afturgjörð reiðhjólsins.
Ekki er vitað með vissu hvernig þetta snjalla brýningartæki barst til Afríku. „Mér hefur verið sagt að svona reiðhjól hafi verið notuð í Dar es Salaam, höfuðborg Tansaníu, áður en hugmyndin kom til Moshi þar sem ég á heima,“ segir Andrea en hann hefur brýnt hnífa á þennan hátt frá 1985. „Hér var farið að nota þetta árið 1982,“ bætir hann við.
Hvernig er hægt að verða sér úti um reiðhjól sem brýnir hnífa? „Við förum til fundi, sem þýðir handverksmaður á svahílí,“ segir Andrea, „og biðjum hann um að breyta venjulegu reiðhjóli samkvæmt óskum okkar.“ Það tekur svo venjulega einn til tvo daga að ljúka verkinu.
Neistaflug og sviti
Dagurinn hjá Andrea byrjar um klukkan sjö að morgni. Þá sest hann upp á reiðhjólið og stefnir í átt að þéttbýlu svæði. Við komuna þangað hrópar hann: „Hnífabrýning! Hnífabrýning!“ Hann hringir líka bjöllunum sem eru á hjólinu. Bráðlega birtist konuandlit úti í glugga. Hún kallar á Andrea og lætur hann hafa nokkra bitlausa hnífa. Nágranni kemur með sveðju og rakari með skæri. Andrea skerpir einnig hlújárn, bora og næstum allar tegundir bitjárna.
Andrea byrjar á því að velja sléttan blett og setur niður standarann á hjólinu svo að afturhjólið lyftist frá jörð. Síðan kemur hann nælonreiminni fyrir, sest upp á aukahnakk sem snýr að afturhjólinu og stígur pedalana. Neistarnir fljúga og svitinn brýst út þegar hann skerpir alls konar eggjárn þangað til þau verða flugbeitt. Vinnudeginum lýkur um klukkan sex síðdegis.
Brýningarmaðurinn á reiðhjólinu er aðeins eitt dæmi um hvernig ‚hinir eljusömu‘ geta með áræðni og útsjónarsemi séð fyrir sér á heiðarlegan hátt jafnvel þegar hart er í ári. — Orðskviðirnir 13:4.