Mars í nærmynd
Mars í nærmynd
Í ÁGÚST 2003 var reikistjarnan Mars í 56 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörð og hafði ekki verið nær í nálega 60.000 ár. Á stjarnfræðilegan mælikvarða þýðir þetta að rauða reikistjarnan var næstum innan seilingar, stjörnuskoðurum til mikillar ánægju.
Snemma árs 2004 var búið að senda allmörg könnunargeimför til Mars. Sum þeirra fóru á braut um reikistjörnuna og könnuðu hana þaðan en önnur lentu á henni. Hvaða vitneskju hafa geimförin veitt okkur um þennan nágranna jarðar?
Rauða reikistjarnan könnuð
Könnunarfarið Mars Global Surveyor komst á braut um Mars árið 1997. Mælingar leiddu í ljós að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið sterkt segulsvið þar. Farið kortlagði reikistjörnuna nákvæmlega og leiddi meðal annars í ljós að munurinn á hæsta og lægsta punkti á yfirborðinu var um 29 kílómetrar, í samanburði við rétt rúmlega 19 kílómetra á jörðinni. *
Lægsti punktur á Mars er Hellasdældin mikla sem mun hafa myndast við árekstur smástirnis af stærri gerðinni. Hæsti punktur er tindur hins gríðarmikla eldfjalls Ólympus sem er hvorki meira né minna en 21 kílómetri á hæð. Ljósmyndir teknar úr könnunarfarinu sýndu einnig hnullunga sem virtust um 20 metrar í þvermál, ásamt stórum svæðum með breytilegum sandöldum og nýlegum gilskorningum. Mælitæki í farinu gáfu til kynna að yfirborðsbergið væri að mestu leyti gosberg.
Samband rofnaði við Mars Global Surveyor í nóvember 2006 en þrjú önnur geimför voru þá á braut um Mars og héldu áfram rannsóknum. Þetta voru förin 2001 Mars Odyssey, Mars Express og Mars Reconnaissance Orbiter. * Þau voru búin enn næmari myndavélum og nemum og veittu upplýsingar um lofthjúp reikistjörnunnar og nánasta umhverfi. Þau sýndu einnig og kortlögðu mikla ísbreiðu á norðurpól Mars.
Ísinn er rannsóknarefni könnunarfarsins Phoenix Mars Lander sem lenti mjúklega á rauðu reikistjörnunni 25. maí 2008. Farið er búið háþróuðum tækjum til að rannsaka bæði andrúmsloftið og sífrerann á pólsvæðinu. Vísindamenn vonast til að geta varpað ljósi á það hvort örverur hafi einhvern tíma lifað í frosnum jarðveginum. Leitin að lífi, eða minnsta kosti að lífvænlegum skilyrðum, hófst þó nokkrum árum áður.
Jepparnir Spirit og Opportunity
Í janúar 2004 lentu á Mars tveir könnunarjeppar. Þeir voru á stærð við körtubíla og þeim voru gefin nöfnin Spirit og Opportunity. Lendingarstaðirnir voru valdir í samræmi við upplýsingar sem safnað hafði verið í fyrri könnunarleiðöngrum. Þegar jepparnir komu inn í lofthjúpinn til lendingar var hægt á þeim með hitaskjöldum, fallhlífum og eldflaugum. Þeir lentu síðan skoppandi á yfirborðinu, umvafðir loftpúðum svipað og fyrirrennarinn, Mars Pathfinder, gerði árið 1997. *
Yfirborð Mars er um það bil jafn stórt að flatarmáli og þurrlendi jarðar þannig að þar er af nógu að taka fyrir vélknúin rannsóknartæki. Ákveðið var að könnunarjeppinn Opportunity skyldi lenda á Meridiani-sléttunni. Þar eru ævaforn berglög sem innihalda járnríka steintegund, hematít. Spirit lenti hinum megin á Mars og var ætlað það hlutverk að kanna gríðarmikinn gíg sem nefnist Gusev. Sumir vísindamenn telja að þar hafi verið stöðuvatn endur fyrir löngu. Markmið þessa tvíburaverkefnis er, samkvæmt upplýsingaskjali frá NASA, að „rannsaka hvernig aðstæður hafa þróast á stöðum þar sem hugsanlegt er að verið hafi vatn og heppilegar aðstæður fyrir líf “.
„Jarðfræðingar“ á Mars
Könnunarjeppinn Spirit kom á áfangastað 4. janúar 2004. Svæðið var hrjóstrugt með grunnum dældum og hnullungum á víð og dreif. Jeppinn fór um svæðið ekki ósvipað og mennskur jarðfræðingur hefði gert og kannaði jarðveg, berg og jarðmyndanir á ýmsum stöðum. Vísindamennirnir, sem stjórnuðu jeppanum, komust að þeirri niðurstöðu að svæðið væri þakið hnullungum úr gosbergi og dældirnar hefðu myndast við árekstur loftsteina. Jeppinn ók síðan 2,6 kílómetra til að rannsaka
nokkra litla hóla. Þar komu í ljós óvenjulegar steinmyndanir og syllur í mjúkum berglögum sem gætu hafa myndast við eldgos.Könnunarjeppinn Opportunity lenti á Mars 25. janúar 2004, eftir 456 milljón kílómetra ferðalag. Lendingarstaðurinn var ekki nema 25 kílómetra frá miðju þess svæðis sem honum hafði verið ætlað að lenda á. Jeppinn skoppaði á loftpúðunum á flatri Meridiani-sléttunni og rúllaði rakleiðis ofan í lítinn gíg. Vísindamaður líkti því við það að „slá holu í höggi“ á golfvelli á stærð við sólkerfi!
Opportunity fór um nokkra gíga þar sem var að finna berglög með smáum kúlum sem innihéldu mikið af hematíti. Kúlurnar hafa fengið gælunafnið „bláber“. Reyndar eru þær gráar frekar en bláar en stinga mjög í stúf við rauðleitan jarðveginn og steininn. Sum berglögin eru gárótt og minna á dæmigerðar sandgárur sem myndast í rennandi vatni. Sumir vísindamenn telja að þessar gárur, ásamt klór og brómi sem fundist hefur í berginu, bendi til þess að einhvern tíma hafi verið salt vatn á svæðinu.
Geimfarið Phoenix Mars Lander lenti á Mars árið 2008. Það hefur veitt enn meiri upplýsingar um yfirborð reikistjörnunnar, einkum þau svæði sem eru þakin ísi. Það er búið fjarstýrðum armi sem hefur grafið niður í ísinn og safnað ís- og jarðvegssýnum til að efnagreina í tveim „rannsóknarstofum“ sem eru um borð í geimfarinu. Verkefnið átti að standa fremur stutt því að innan nokkurra mánaða myndi vetur skella á og „breiða þykkt hrímlag úr koldíoxíði yfir Phoenix“, eins og það var orðað í tímaritinu Science.
Að vísindamenn skuli geta rannsakað aðrar reikistjörnur sem eru í hundruð milljóna kílómetra fjarlægð er til vitnis um hvað hægt er að gera þegar margir leggjast á eitt um að ná sameiginlegu markmiði. Og þetta afrek er líka góður vitnisburður um snilligáfu mannsins. En geimrannsóknir — og raunar öll vísindi ef út í það er farið — eru aðeins mögulegar vegna þess að náttúrulögmálin eru algerlega örugg og áreiðanleg. Þessi náttúrulögmál urðu ekki til af sjálfu sér heldur var það hinn mikli hönnuður alheimsins, Jehóva Guð, sem setti þau.
[Neðanmáls]
^ Lægsti punktur á jörðinni er í Maríanatrogi á Kyrrahafi en hæsti punktur er tindur Everstfjalls.
^ Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) skaut á loft 2001 Mars Odyssey og Mars Reconnaissance Orbiter en Mars Express var skotið á loft á vegum Geimferðastofnunar Evrópu.
^ Sjá greinina „A Robot Explores Mars“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. júní 1998.
[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 16]
ER LÍF Á MARS?
Stjörnufræðingarnir sir William Herschel (1738-1822) og Percival Lowell (1855-1916) töldu báðir að vitsmunaverur byggju á Mars. Þróunarkenning Darwins virtist styðja þá skoðun. En þessum hugmyndum hefur nú verið kastað fyrir róða. Rannsóknir með könnunargeimförum sýna hrjóstrugt landslag og þunnan lofthjúp sem inniheldur aðallega koldíoxíð. Tilraunir, sem gerðar voru með könnunargeimfarinu Viking 1. árið 1976, gáfu engar vísbendingar um líf á yfirborði rauðu reikistjörnunnar. *
Vísindamenn hafa þó haldið áfram að leita að ummerkjum um líf á Mars. Phoenix-könnunargeimfarið er nýjasta tilraunin til þess. Á jörð eru til örverur sem lifa við afar erfið skilyrði, og vísindamenn telja að áþekkar lífverur geti verið til sums staðar á Mars. Geimfarið Mars Express flutti með sér lendingarfarið Beagle 2. en það var með tækjabúnaði sem átti að leita að lífrænum efnum í jarðvegi Mars. En lendingin síðla árs 2003 mistókst. Árið eftir fannst örlítið af metani í lofthjúpi Mars og menn velta fyrir sér hvort það sé af lífrænum uppruna eða hafi myndast við eldgos.
Getur líf kviknað af sjálfu sér hvar sem er í alheiminum? Í Biblíunni er að finna þetta svar: „Hjá þér [Guði] er uppspretta lífsins“. (Sálmur 36:10) Líf getur aðeins kviknað af lífi, og skaparinn, Jehóva Guði, er hinn upphaflegi lífgjafi. — Postulasagan 17:25.
[Neðanmáls]
^ Sjá greinina „The Red Planet Revisited“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. nóvember 1999.
[Credit line]
NASA/JPL/Cornell
[Mynd á blaðsíðu 15]
Fjarstýrður armur könnunargeimfarsins Phoenix Mars Lander. Á arminum er skófla, kanni og myndavél.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Litabreytt ljósmynd af „bláberjunum“.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Eldfjallið Ólympus sem er útkulnað, 21 kílómetri á hæð.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Könnunarjeppinn Spirit boraði í þennan klett og skóf yfirborð hans.
[Mynd credit line á blaðsíðu 15]
Efri mynd til vinstri: NASA/JPL-Caltech/University of Arizona/ Texas A&M University. Efri mynd til hægri: NASA/JPL/Malin Space Science Systems. Neðri myndir: NASA/JPL/Cornell.