Af hverju líður yfir mig?
Af hverju líður yfir mig?
Læknirinn ætlaði að mæla þrýstinginn í auga mínu og til þess þurfti hann að snerta augað með mælitæki. Ég vissi hvað myndi gerast. Það er alltaf sama sagan. Þetta gerist líka þegar hjúkrunarfræðingur mundar nál til að taka blóðprufu úr mér. Stundum þarf ekki annað en að tala við mig um meiðsli. Þá líður yfir mig.
Samkvæmt breskri skýrslu eru um 3 prósent okkar í þeim flokki manna sem fellur gjarnan í yfirlið við áðurnefndar aðstæður. Ef þú ert einn af þeim má vel vera að þú hafir reynt án árangurs að halda meðvitund. Kannski hefurðu reynt að fara fram á salerni til að láta ekki líða yfir þig í fjölmenni. En það er ekki mjög skynsamlegt. Það gæti liðið skyndilega yfir þig á leiðinni og þú gætir meiðst. Ég hafði orðið svo oft fyrir því að falla næstum í yfirlið að ég ákvað að kanna af hverju þetta gerðist.
Eftir að hafa rætt við lækni og grúskað í nokkrum bókum uppgötvaði ég að um er að ræða svokallað æða- og skreyjuviðbragð. Talið er að það stafi af truflun í starfsemi kerfis sem hefur það hlutverk að stjórna blóðflæði, til dæmis þegar maður breytir um stellingu og rís á fætur.
Við vissar aðstæður hegðar ósjálfráða taugakerfið sér eins og maður sé liggjandi þótt maður sitji eða standi. Þetta getur til dæmis gerst ef maður sér blóð eða fer í augnrannsókn. Fyrstu viðbrögðin eru þau að hjartað tekur að hamast sökum kvíða. Síðan snarhægir á púlsinum og æðarnar í fótleggjunum víkka. Þetta veldur því að blóðflæðið eykst til fótanna en minnkar til höfuðsins. Heilinn fær ekki nóg súrefni og það líður yfir mann. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir þetta?
Þú gætir prófað að líta undan þegar tekin er blóðprufa úr þér eða lagst meðan það er gert. Eins og fram hefur komið er oft hægt að átta sig á byrjunareinkennunum. Yfirleitt vinnst því tími til að bregðast við þeim áður en líður yfir mann. Margir læknar mæla með að maður leggist niður með fæturna uppi á stól eða skáhallt upp við vegg. Þannig má koma í veg fyrir að blóðið renni til fótanna og hugsanlega hindra yfirlið. Sennilega líður þér betur eftir fáeinar mínútur.
Ef þessar upplýsingar hjálpa þér eins og þær hafa hjálpað mér ættirðu að geta áttað þig á einkennunum áður en það líður yfir þig. Og þá geturðu gert viðeigandi ráðstafanir og komið í veg fyrir yfirlið. — Aðsent.
[Innskot á blaðsíðu 20]
Gott getur verið að leggjast meðan læknisverk er unnið.