Rauðu blóðkornin eru mikil undrasmíð
Rauðu blóðkornin eru mikil undrasmíð
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SUÐUR-AFRÍKU
Rauðu blóðkornin eru algengustu frumur blóðsins og gefa því rauða litinn. Í aðeins einum dropa af blóði eru hundruð milljóna rauðkorna. Þau eru ekki ósvipuð kleinuhring í laginu en þó er sá munur á að þau eru ekki með gati í miðjunni heldur dæld. Inn í hverja frumu er þjappað hundruðum milljóna sameinda af blóðrauða. Hver blóðrauðasameind er falleg, kúlulaga smíð úr um það bil 10.000 atómum af vetni, kolefni, köfnunarefni, súrefni og brennisteini, að viðbættum fjórum járnatómum. Það er járnið sem gerir blóðinu kleift að flytja vefjum líkamans súrefni. Blóðrauðinn flytur sömuleiðis koldíoxíð frá líkamsvefjunum til lungnanna þar sem við öndum því frá okkur.
Annar mikilvægur hluti rauðkornanna er frumuhimnan sem klæðir þau. Hún er þannig úr garði gerð að rauðkornin geta breytt um lögun svo að þeim tekst að smjúga eftir fínustu háræðum og næra alla vefi líkamans.
Rauðkornin eru mynduð í beinmergnum. Eftir að ný fruma er komin í umferð getur hún farið meira en 100.000 hringi um hjartað og líkamann. Rauðkornin eru ólík flestum frumum að því leyti að þau hafa engan kjarna. Fyrir vikið hafa þau meira rými til að flytja súrefni og eru léttari, en það auðveldar hjartanu að dæla þeim út um líkamann í billjónatali. Þar sem rauðkornin eru kjarnalaus geta þau ekki endurnýjað innri líffæri sín. Þau taka því að hrörna og glata mýktinni eftir hér um bil 120 daga ævi. Stór hvítkorn, sem kallast átfrumur, gleypa útjöskuð rauðkorn og skyrpa svo út úr sér járnatómunum. Þessi fágætu járnatóm hengja sig við prótínsameindir í blóðvökvanum sem flytja þau til beinmergsins þar sem þau eru notuð til að framleiða ný rauðkorn. Beinmergurinn sendir svo tvær til þrjár milljónir nýrra rauðkorna út í blóðrásina á hverri sekúndu.
Við myndum deyja á fáeinum mínútum ef öll rauðkornin hættu skyndilega að starfa. Við getum verið Jehóva Guði þakklát fyrir þetta frábæra sköpunarverk sem heldur okkur á lífi og hjálpar okkur að njóta lífsins. Þú tekur eflaust undir með sálmaskáldinu sem orti: „Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ — Sálmur 139:1, 14.
[Skýringarmynd á blaðsíðu 18]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
Rauðkorn
Frumuhimna
Blóðrauðasameind (stækkuð)
Súrefni