Hvaða myndir ætlar þú að sjá?
Hvaða myndir ætlar þú að sjá?
Á SÍÐUSTU áratugum hefur verið gríðarlega mikið um kynlíf, ofbeldi og ljótt orðbragð í kvikmyndum og það hefur vakið misjöfn viðbrögð. Sumum finnst ákveðin kynlífssena vera gróf en aðrir halda því fram að hún sé listræn. Sumir telja ástæðulaust að sýna ofbeldi en aðrir segja að það sé réttlætanlegt. Sumum finnst hneykslanlegt að hafa ljótt orðbragð í kvikmyndum en aðrir fullyrða að það sé raunsætt. Það sem einum finnst klúrt kallar annar tjáningarfrelsi. Þegar fólk hlustar á báðar hliðar málsins gæti þetta einfaldlega virst vera orðaskak um smáatriði.
En innihald kvikmynda er ekki bara efni í ómerkilegt orðaskak. Það er eðlilegt að foreldrar og allir sem láta sér annt um gott siðferði hafi áhyggjur af efni kvikmynda. „Í hvert skipti sem ég tek þá áhættu að fara aftur í bíó, gegn betri vitund, líður mér alltaf eins og ég sé verri manneskja eftir á,“ segir kona nokkur. „Ég skammast mín fyrir hönd þeirra sem gerðu þetta rusl og ég skammast mín fyrir að hafa farið að sjá myndina. Mér finnst eins og ég verði minni manneskja eftir að hafa horft á þetta.“
Reglur settar
Það er ekki nýtt af nálinni að fólk lýsi yfir áhyggjum sínum af innihaldi kvikmynda. Snemma í sögu kvikmyndagerðar varð mikið uppnám út af siðlausum og glæpsamlegum athæfum sem birtust á hvíta tjaldinu. Á fjórða áratugnum voru að lokum settar viðmiðunarreglur í Bandaríkjunum sem takmörkuðu verulega hvað sýna mátti í kvikmyndum.
Í alfræðiorðabókinni The New Encyclopædia Britannica segir að þessar nýju viðmiðunarreglur hafi verið „einstaklega hamlandi og bannað nánast allt sem viðkemur eðlilegu lífi fullorðins fólks. Samkvæmt reglunum var ekki leyfilegt að sýna ‚ástríðufull atriði‘ og það mátti ekki einu sinni ýja að hjúskaparbroti, óleyfilegu kynlífi, flekun eða nauðgun nema það væri algerlega nauðsynlegt fyrir söguþráðinn og þeir sem slíkt fremdu hlytu þunga refsingu í lok myndarinnar.“
Í reglunum kom einnig fram að „bannað væri að sýna eða ræða um vopn þess tíma, sýna hvernig glæpir voru framdir, sýna laganna verði deyja fyrir hendi glæpamanna, ýja að hrottalegu ofbeldi eða morði og sýna manndráp eða sjálfsvíg nema það væri nauðsynlegt fyrir söguþráðinn. . . . Það mátti ekki undir nokkrum kringumstæðum gefa í skyn að glæpir væru réttlætanlegir.“ Í stuttu máli sögðu reglurnar að „engin mynd mætti veikja siðferði þeirra sem hana sæju“.
Hömlum breytt í aldurstakmörk
Á sjötta áratugnum voru margir framleiðendur í Hollywood farnir að hunsa reglurnar því að þeim fannst þær úreltar. Árið 1968 voru reglurnar því felldar úr gildi og í staðinn tekin upp aldurstakmörk. * Núna gat kvikmynd verið gróf en hún var merkt svo að almenningur vissi hvaða aldurshópi hún væri ætluð. Jack Valenti, sem var formaður samtaka bandarískra kvikmyndaframleiðenda í tæpa fjóra áratugi, segir að markmiðið með aldurstakmörkunum hafi verið „að aðvara foreldra svo að þeir gætu sjálfir ákveðið hvaða myndir börnin þeirra mættu sjá og hverjar ekki“.
Þegar aldurstakmörkin voru tekin upp brast stíflan. Kynlíf, ofbeldi og ljótt orðbragð flæddu yfir kvikmyndahandritin í Hollywood. Hið nýja frelsi, sem kvikmyndirnar fengu, hleypti af stað flóðbylgju sem ekki var hægt að stöðva. Með aldurstakmörkunum var almenningur samt varaður við. En segja aldurstakmörkin allt sem segja þarf?
Það sem aldurstakmörkin segja okkur ekki
Sumum finnst viðmiðunarreglur bandaríska kvikmyndaeftirlitsins hafa breyst til hins verra með árunum. Rannsókn, sem gerð var af lýðheilsudeild Harvardháskóla, styður þessar grunsemdir því að hún sýnir að myndir, sem nú eru leyfðar unglingum, eru ofbeldisfyllri og siðlausari en fyrir áratug. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að „það er oft verulegur munur á magni og eðli vafasams efnis í kvikmyndum með sama aldurstakmarki“ og að „aldurstakmarkið eitt sér veiti ekki nægar upplýsingar um magn ofbeldis, kynlífs, blótsyrða og annars efnis“. *
Foreldrar, sem í hugsunarleysi senda börnin í bíó, vita kannski ekki hvað er talið viðeigandi nú á dögum. Kvikmyndagagnrýnandi lýsti til dæmis aðalsögupersónu í kvikmynd sem í Bandaríkjunum var leyfð unglingum. Hún var „17 ára frjálslynd stúlka sem drakk daglega, neytti fíkniefna, fór í taumlaus partí og svaf hjá strák sem hún var nýbúin að kynnast“. Slíkt er alls ekki óalgengt í kvikmyndum. Tímaritið The Washington Post Magazine bendir jafnvel á að vísun til munnmaka virðist „almennt viðurkennd“ í kvikmyndum sem leyfðar eru unglingum. Aldurstakmörk ættu greinilega ekki að vera eina viðmiðið sem við notum til að meta kvikmyndir. Er eitthvað annað sem við getum haft til viðmiðunar?
Hatið hið illa
Aldurstakmörk koma ekki í staðinn fyrir biblíufrædda samvisku. Þegar kristnir menn taka ákvarðanir leitast þeir við að fylgja áminningunni í Sálmi 97:10 um að „hata hið illa“. Það á líka við þegar þeir taka ákvarðanir um skemmtun. Sá sem hatar hið illa telur rangt að skemmta sér yfir því sem Guð hefur andstyggð á.
Foreldrar þurfa sérstaklega að gæta að því hvaða myndir þeir leyfa börnunum að sjá. Það væri grunnhyggni af þeim að líta aðeins snögglega á aldurstakmarkið. Það getur vel verið að þótt myndin sé leyfð börnum haldi hún á lofti siðferðishugmyndum sem foreldrarnir eru ekki sammála. Þetta ætti ekki að koma kristnum mönnum á óvart því að sá hugsunarháttur og sú hegðun, * — Efesusbréfið 4:17, 18; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
sem heimurinn hefur tileinkað sér, stangast á við meginreglur Guðs.Þetta þýðir samt ekki að allar myndir séu slæmar. En það er gott að vera varkár. Í Vaknið! á ensku, 22. maí 1997, var sagt: „Hver og einn ætti að hugsa málin vandlega og taka ákvörðun sem veitir honum góða samvisku frammi fyrir Guði og mönnum.“ — 1. Korintubréf 10:31-33.
Að velja viðeigandi skemmtiefni
Hvernig geta foreldrar vandað valið þegar þeir ákveða hvaða myndir fjölskyldan horfir á? Við skulum athuga hvað foreldrar í nokkrum löndum hafa að segja. Athugasemdir þeirra geta hjálpað þér að sjá fjölskyldunni fyrir heilnæmri afþreyingu. — Sjá einnig rammagreinina „Annars konar afþreying“ á blaðsíðu 14.
„Annað hvort okkar hjónanna fór alltaf með börnunum í bíó þegar þau voru yngri,“ segir Juan á Spáni. „Þau fóru aldrei ein eða bara með öðrum krökkum. Núna, þegar þau eru orðin unglingar, fara þau ekki á frumsýningar því að við viljum frekar að þau bíði þar til við höfum lesið gagnrýni um myndina eða heyrt álit fólks sem við treystum. Síðan ákveðum við fjölskyldan í sameiningu hvort við ætlum að sjá þessa mynd.“
Mark í Suður-Afríku hvetur unglingsson sinn til að tjá sig opinskátt um þær myndir sem verið er að sýna í bíói. „Við hjónin hefjum umræðurnar og spyrjum hann álits á myndinni,“ segir Mark. „Þannig getum við heyrt hvað honum finnst og rætt málin. Þetta hjálpar okkur að velja myndir sem við getum öll haft gaman af.“
Rogerio í Brasilíu gefur sér tíma til að vega og meta með börnunum þær myndir sem þau vilja sjá. „Ég les kvikmyndagagnrýnina
með þeim,“ segir hann. „Ég fer með þeim á myndbandaleiguna og kenni þeim að skoða hulstrin og leita að vísbendingum um það hvort myndin sé óviðeigandi.“Matthew í Bretlandi finnst gagnlegt að tala við börnin um myndirnar sem þau vilja sjá. Hann segir: „Frá unga aldri voru börnin höfð með í umræðum um innihald mynda sem við fjölskyldan höfðum áhuga á. Ef við ákváðum að horfa ekki á ákveðna mynd útskýrðum við hjónin hvers vegna í stað þess að segja bara nei.“
Sumum foreldrum hefur líka fundist gagnlegt að lesa sér til um myndir á Netinu. Til eru fjölmargar vefsíður sem veita góðar upplýsingar um innihald mynda. Hægt er að nota þessar síður til að fá skýrari mynd af þeim siðferðishugmyndum sem myndin heldur á lofti.
Vel þjálfuð samviska er verðmæt
Biblían talar um þá „sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14) Markmið foreldra er því að hjálpa börnunum að tileinka sér þannig siðferðisgildi að þau geti tekið viturlegar ákvarðanir þegar þau fá að velja afþreyingu sjálf.
Margir unglingar meðal votta Jehóva hafa fengið mjög góða hjálp frá foreldrum sínum á þessu sviði. Bill og Cherie í Bandaríkjunum hafa til dæmis gaman af því að fara í bíó með unglingsdrengjunum sínum tveim. „Þegar við komum úr bíóinu,“ segir Bill, „ræðum við fjölskyldan oft saman um myndina og þau gildi sem hún hélt á lofti og hvort við erum sammála þeim.“ Bill og Cherie gera sér auðvitað grein fyrir að þau þurfa að vera vandfýsin. „Við lesum um myndina fyrir fram og erum ekki feimin við að ganga út af henni ef eitthvað hneykslanlegt kemur fram sem við gerðum ekki ráð fyrir,“ segir Bill. Þau hjónin láta syni sína vera með í ákvarðanatökunni og finnst það hjálpa þeim að þroska með sér góðan skilning á réttu og röngu. „Þeir eru farnir að taka
viturlegri ákvarðanir þegar þeir velja myndir sem þeir ætla að sjá,“ segir Bill.Margir foreldrar hafa, líkt og Bill og Cherie, hjálpað börnunum að temja skilningarvitin til að velja rétt skemmtiefni. Vissulega er margt af því sem er framleitt í kvikmyndaheiminum ekki viðeigandi. Á hinn bóginn geta kristnir menn notið góðrar afþreyingar sem er heilnæm og frískandi ef þeir hafa meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi.
[Neðanmáls]
^ gr. 9 Mörg lönd hafa tekið upp svipað kerfi þar sem myndir eru merktar eftir því hvaða aldurshópi þær eru taldar hæfa.
^ gr. 12 Auk þess geta þau viðmið, sem notuð eru til að ákveða aldurstakmörk, verið mismunandi eftir löndum. Kvikmynd, sem er í einu landi talin óviðeigandi fyrir unglinga, getur verið metin öðruvísi í öðru landi.
^ gr. 16 Kristið fólk ætti einnig að hafa hugfast að einhvers konar göldrum, spíritisma eða djöflatrú af öðru tagi er oft blandað inn í myndir sem ætlaðar eru börnum og unglingum. — 1. Korintubréf 10:21.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 12]
„VIÐ TÖKUM SAMEIGINLEGA ÁKVÖRÐUN“
„Þegar ég var yngri fórum við fjölskyldan alltaf saman í bíó. Núna, þegar ég er orðin eldri, má ég fara án foreldra minna. Áður en ég fæ að fara vilja foreldrar mínir samt vita hvað myndin heitir og um hvað hún fjallar. Ef þau hafa ekkert heyrt um myndina lesa þau gagnrýni um hana eða horfa á sýnishorn úr henni í sjónvarpinu. Þau leita líka upplýsinga á Netinu. Ef þeim finnst myndin ekki við hæfi útskýra þau af hverju. Þau leyfa mér líka að segja skoðun mína. Umræðurnar eru opinskáar og við tökum sameiginlega ákvörðun.“ — Héloïse, 19 ára, Frakklandi.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 13]
RÆÐIÐ MÁLIN
„Ef foreldrar banna eitthvað og bjóða ekki upp á neitt heilnæmt í staðinn gætu börnin reynt að fara á bak við foreldrana. Þegar börn láta í ljós löngun til að horfa á óheilnæmt skemmtiefni banna sumir foreldrar það ekki strax en gefa ekki heldur leyfi. Þess í stað láta þeir smátíma líða svo að allir geti hugsað málið í rólegheitum. Síðan eru málin rædd á næstu dögum án þess að neinn æsi sig, og foreldrarnir spyrja unglinginn af hverju hann telji þetta skemmtiefni viðeigandi. Þegar málin eru rædd skipta unglingarnir oft um skoðun, verða sammála foreldrunum og þakka þeim jafnvel fyrir. Síðan velja börnin, undir forystu foreldranna, aðra afþreyingu sem öll fjölskyldan getur haft gaman af.“ — Masaaki, farandhirðir í Japan.
[Rammi/myndir á blaðsíðu 14]
ANNARS KONAR AFÞREYING
◼ „Börn hafa eðlilega löngun til að vera með jafnöldum sínum og því höfum við alltaf séð til þess að dóttir okkar geti verið í heilnæmum félagsskap undir okkar umsjón. Í söfnuðinum okkar eru margir unglingar til fyrirmyndar og þess vegna höfum við hvatt dóttur okkar til að vingast við þá.“ — Elisa, Ítalíu.
◼ „Við gerum margt með börnunum okkar. Við skipuleggjum heilnæma afþreyingu fyrir þau eins og gönguferðir, grillveislur, lautarferðir og boð með trúsystkinum á öllum aldri. Börnin líta því ekki svo á að þau geti bara gert eitthvað skemmtilegt með jafnöldrum sínum.“ — John, Bretlandi.
◼ „Við höfum gaman af því að hitta trúsystkini okkar nokkur saman. Börnunum finnst líka skemmtilegt að spila fótbolta og því bjóðum við stundum öðrum að spila með okkur.“ — Juan, Spáni.
◼ „Við reynum að vekja með börnunum löngun til að leika á hljóðfæri. Við eigum líka mörg sameiginleg áhugamál eins og tennis, blak, hjólreiðar, lestur og að hitta vini.“ — Mark, Bretlandi.
◼ „Við fjölskyldan förum oft saman í keilu með vinum. Við reynum líka að gera eitthvað sérstakt saman einu sinni í mánuði. Foreldrar þurfa að fylgjast vel með börnunum til að afstýra vandamálum.“ — Danilo, Filippseyjum.
◼ „Oft er skemmtilegra að fara eitthvað út saman en að sitja uppi í sófa og horfa á kvikmynd. Við höfum því augun opin fyrir ýmsum viðburðum eins og til dæmis listasýningum, bílasýningum eða tónlistarviðburðum. Á slíkum stöðum er líka oft hægt að spjalla saman. Við gætum þess samt að sjá ekki fyrir of mikilli afþreyingu, bæði vegna þess að tíminn er dýrmætur og eins vegna þess að þetta hættir að vera spennandi og skemmtilegt ef það er gert of oft.“ — Judith, Suður-Afríku.
◼ „Það er ekki sjálfgefið að það sem önnur börn gera sé viðeigandi fyrir börnin mín og ég reyni að hjálpa þeim að skilja það. En við hjónin leitumst samt líka við að sjá þeim fyrir uppbyggjandi afþreyingu. Við reynum að koma í veg fyrir að þau segi: „Við förum aldrei neitt. Við gerum aldrei neitt.“ Fjölskyldan fer saman í almenningsgarða og við bjóðum öðrum úr söfnuðinum heim.“ * — Maria, Brasilíu.
[Neðanmáls]
^ gr. 47 Finna má nánari upplýsingar um skemmtun og afþreyingu í tímaritinu Varðturninn 1. febrúar 1993, á bls. 27-32.
[Credit line]
James Hall Museum of Transport, Jóhannesarborg, Suður-Afríku.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Lestu kvikmyndagagnrýni ÁÐUR en þú tekur ákvörðun.
[Mynd á blaðsíðu 12, 13]
Foreldrar, kennið börnunum að vera vandfýsin.