Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verndaðu heyrnina!

Verndaðu heyrnina!

Verndaðu heyrnina!

„Meira en 120 milljónir manna í heiminum eru heyrnarskertar.“ — Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin.

HEYRNIN er dýrmæt gjöf sem okkur ber að vernda. Með aldrinum tapar fólk heyrninni smám saman, og hin mörgu og fjölbreyttu hljóð og hávaði, sem fylgja nútímaþjóðfélagi, virðast hafa hraðað þessari hrörnun. Vísindamaður við Miðstöð fyrir heyrnarlausa (Central Institute for the Deaf) í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum segir: „Um 75 prósent af heyrnartapi dæmigerðs Bandaríkjamanns stafa ekki af öldrun einni saman heldur því sem eyrun hafa mátt þola um ævina.“

Ærandi hávaði, þótt hann standi stutt, getur haft skaðleg áhrif á viðkvæman búnað innra eyrans. Oftar stafar þó heyrnartapið af „samlegðaráhrifum hávaða sem fylgir vinnu, tómstundaiðju og afþreyingu,“ segir Margaret Cheesman, læknir og eyrnasérfræðingur. Hvað geturðu gert til að vernda heyrnina? Til að leita svars við því er gott að kanna fyrst hvernig heyrnarskynjunin virkar.

Hljóðin sem við heyrum

Umhverfi okkar virðist smám saman verða háværara. Daglega dynja á fólki missterk hljóð, allt frá hávaða í bílum, strætisvögnum og vörubílum til skarkalans í rafmagnstækjum á vinnustað.

Stundum gerum við sjálf illt verra með því að hækka í tækjum sem við erum að hlusta á. Algengt er að fólk hlusti á tónlist í gegnum heyrnartól sem tengd eru við „vasadiskó“ eða ferðageislaspilara. Marshall Chasin er einn af stofnendum Læknamiðstöðva tónlistarmanna í Kanada. Hann segir að kannanir í Kanada og Bandaríkjunum bendi til þess að unglingar tapi heyrn í sívaxandi mæli vegna þess að þeir hækka um of í hljómtækjum með heyrnartól á eyrunum.

En hvað er of mikill hávaði? Flokka má hljóð með þrennum hætti — eftir lengd, tíðni og styrkleika. Með lengd er einfaldlega átt við tímann sem hljóðið heyrist. Tíðni hljóðsins, það er að segja tónhæðin, er mæld í riðum eða sveiflum á sekúndu. Heyrnarsvið manns með eðlilega, heilbrigða heyrn liggur á bilinu 20 til 20.000 rið.

Styrkur hljóðs er mældur í einingum sem kallast desíbel (dB). Venjulegar samræður mælast um 60 desíbel. Heyrnarmeinafræðingar segja að því lengur sem maður sé í hávaða er nemur 85 desíbelum eða meiru, þeim mun meira verði heyrnartapið þegar þar að kemur. Og heyrnarskaðinn er því hraðari sem hljóðið er hærra. Í frétt í tímaritinu Newsweek sagði: „Eyrað þolir vel að hlusta á borvél (100 dB) í tvær klukkustundir en það þolir ekki nema hálftíma í háværum leiktækjasal (110 dB). Við hver 10 desíbel, sem bætast við á hljóðskalanum, tífaldast hávaðinn sem dynur á eyrunum.“ Prófanir staðfesta að hljóð veldur sársauka við um það bil 120 desíbel. Þótt ótrúlegt sé geta sum hljómflutningstæki á heimilum fólks framleitt yfir 140 desíbel! — Sjá meðfylgjandi ramma.

Til að glöggva okkur á því hvers vegna hávaði getur skaðað heyrnina skulum við kanna hvað gerist þegar hljóðbylgjur berast til eyrnanna.

Þannig heyrum við

Eyrnablaðkan er haganlega löguð til að safna hljóðbylgjum og beina þeim inn í hlustina (eyrnagöngin) þar sem þær skella á hljóðhimnunni. Við það kemst titringur á hljóðhimnuna og á heyrnarbeinin þrjú í miðeyranu sem flytja titringinn til kuðungsins í innra eyranu. Kuðungurinn er vökvafylltur og hringar sig upp eins og skel kuðungs. Titringurinn berst eftir vökvanum og hreyfir við örsmáum hárfrumum inni í kuðungnum. Hárfrumurnar umbreyta hreyfingunum í taugaboð. Taugaboðin eru svo send til heilans sem les úr þeim og túlkar þau sem hljóð.

Randbörkur heilans á þátt í því að ákveða hvaða hljóðum skuli gefa gaum og hverjum ekki. Móðir heyrir til dæmis ekki meðvitað hin eðlilegu hljóð barns að leik en bregst tafarlaust við ef barnið rekur upp skelfingaróp. Þar sem eyrun eru tvö heyrum við í fjarvídd sem er afar nytsamlegt. Þannig getum við til dæmis heyrt úr hvaða átt hljóðin koma. En þegar við hlustum á mælt mál getur heilinn aðeins skilið ein boð í einu. „Þess vegna er erfitt að meðtaka hvað nærstaddur maður segir meðan maður er að tala í síma,“ segir bókin The Senses.

Hvernig hávaði skaðar heyrnina

Eftirfarandi samlíking er góð leið til að glöggva sig á því hvernig hávaði getur skaðað heyrnina. Í skýrslu um öryggi á vinnustað er hinum hárklæddu himnum í innra eyranu líkt við hveitiakur og hljóðunum, sem berast inn í eyrað, er líkt við vindinn. Hæg gola, sem líkja má við lágt hljóð, vaggar hveitiöxunum án þess að skemma hveitið. En eftir því sem hvessir eykst álagið á hveitistöngulinn. Snögg stormhviða eða langvarandi álag af hægari vindi getur skaddað stönglana varanlega með þeim afleiðingum að hveitið deyr.

Það má segja að hið sama geti gerst þegar hinar agnarsmáu og viðkvæmu hárfrumur í innra eyranu verða fyrir miklum hávaða. Snöggur og ærandi hávaði getur rifið vefina í innra eyranu og skilið eftir ör sem valda varanlegu heyrnartapi. Langvarandi hávaði yfir hættumörkum getur sömuleiðis valdið varanlegum skaða á hinum viðkvæmu hárfrumum. Skaddaðar hárfrumur endurnýja sig ekki. Eyrnasuða getur verið ein af afleiðingunum en hún lýsir sér sem suðandi, glymjandi eða urrandi hljóð fyrir eyrum eða í höfði.

Verndaðu og varðveittu heyrnina

Erfðafræðilegir þættir og slys geta auðvitað valdið heyrnartapi en almennt séð er ýmislegt hægt að gera til að vernda og varðveita þessi dýrmætu skilningarvit. Það er skynsamlegt að vita af hugsanlegum skaðvöldum og gera varúðarráðstafanir. Heyrnarmeinafræðingur segir: „Að bíða og gera ekkert fyrr en vandamálið er komið fram er sambærilegt við að bera fyrst á sig sólvörn eftir að maður hefur sólbrunnið.“

Oft er það ekki aðalatriðið á hvað við hlustum heldur hvernig við hlustum. Ef þú hlustar á tónlist með heyrnartólum gæti verið skynsamlegt að stilla tækin ekki hærra en svo að þú getir heyrt hljóð umhverfis þig. Ef hljómtækin heima eða í bílnum eru svo hátt stillt að þau drekkja venjulegum samræðum er það líklega merki þess að hljóðstyrkurinn sé nægilegur til að valda heyrnartapi. Sérfræðingar vara við því að tvær til þrjár klukkustundir í 90 desíbela hávaða geti valdið skaða á eyrunum. Mælt er með að fólk noti alltaf eyrnatappa eða eyrnahlífar í hávaðasömu umhverfi.

Foreldrar ættu að hafa hugfast að börn eru viðkvæmari fyrir heyrnarskaða en fullorðnir. Verið vakandi fyrir hugsanlegri hættu af hávaðasömum leikföngum. Sum leikföng geta framleitt allt upp í 110 desíbela hávaða!

Eyrun eru frábær smíð og fíngerð. Þau gera okkur kleift að heyra öll hin fjölbreyttu og fallegu hljóð umhverfis okkur. Heyrnin er dýrmæt og sannarlega þess virði að vernda hana og varðveita.

[Rammi á blaðsíðu 22]

Algengur styrkur ýmissa hljóða

• Öndun — 10 desíbel

• Hvísl — 20 desíbel

• Samræður — 60 desíbel

• Umferðarniður á annatíma — 80 desíbel

• Matkvörn — 90 desíbel

• Járnbrautarlest sem fer hjá — 100 desíbel

• Keðjusög — 110 desíbel

• Þota sem fer hjá — 120 desíbel

• Byssuhvellur — 140 desíbel

[Rammi á blaðsíðu 23]

Þú gætir verið að tapa heyrn ef þú

• hækkar í útvarps- eða sjónvarpstækinu en öðrum finnst það óþægilega hátt stillt.

• hváir í sífellu þegar aðrir tala.

• hleypir oft brúnum, hallar þér fram og snýrð höfðinu til að heyra í viðmælanda þínum.

• átt erfitt með að heyra talað mál á mannamótum eða þegar kliður er í bakgrunni, til dæmis í samkvæmi eða fjölfarinni verslun.

• þarft oft að biðja aðra að endurtaka fyrir þig hvað sagt hafi verið.

[Skýringarmynd á blaðsíðu 22]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Ytra eyra

Hljóðhimna

Beinin þrjú í miðeyra

Kuðungur

Heyrnartaug til heilans