Ætti ég að búa erlendis?
Ungt Fólk Spyr . . .
Ætti ég að búa erlendis?
„Mig langaði til að búa annars staðar.“ — Sammi.
„Ég var bara forvitin og vildi sjá eitthvað nýtt. — Maren.
„Náinn vinur sagði mér að ég hefði gott af því að slíta mig aðeins lausan frá fjölskyldunni.“ — Andreas.
„Ég var haldinn ævintýraþrá.“ — Hagen.
DREYMIR þig stundum um að búa í útlöndum, kannski bara tímabundið? Á ári hverju flytjast þúsundir ungmenna til annarra landa. Andreas segir um utanlandsdvöl sína: „Mig dauðlangar að gera þetta aftur.“
Sumir flytja búferlum tímabundið til að þéna peninga eða læra erlent tungumál. Víða um lönd eru starfandi „au pair“-samtök sem bjóða ungmennum að vinna fyrir uppihaldi á heimili erlendis með húsverkum eða barnagæslu og nota síðan frítíma sinn til að læra málið. Önnur ungmenni flytja til útlanda til að afla sér menntunar eða leita sér vinnu og hjálpa fjölskyldum sínum fjárhagslega. Og sumir flytja af því að þeir vita ekki hvað þeir ætla sér að skólagöngu lokinni og vilja hugsa málið í útlöndum.
Þá má nefna að sum kristin ungmenni hafa fært út kvíarnar í þjónustunni og flust til landa þar sem þörf er á trúboðum. Hver svo sem ástæða búferlaflutninganna er getur búseta í öðru landi reynst gagnleg og kennt manni að standa á eigin fótum. Hún getur víkkað sjóndeildarhringinn menningarlega, hjálpað manni að ná tökum á erlendu máli og aukið þar með atvinnumöguleikana.
En búseta í útlöndum getur haft sínar dökku hliðar. Súsanna, sem var skiptinemi í eitt ár, segir: „Ég var sannfærð um að þetta yrði frábær reynsla frá upphafi til enda. En svo var ekki.“ Sumir unglingar hafa jafnvel verið féflettir eða ratað í alvarleg vandræði. Það er því óvitlaust að staldra við og vega og meta kostina og gallana áður en látið er ofan í ferðatöskurnar.
Rannsakaðu tilefnið
Þú þarft að íhuga hvert sé raunverulegt tilefni utanlandsfararinnar. Það er eitt að ferðast utan til að sinna andlegum málum eða fjölskylduábyrgð en annað að sækjast eftir ævintýri, meira frelsi eða skemmtun líkt og unglingarnir hér að framan. Slíkt þarf ekki að vera rangt í sjálfu sér því að Prédikarinn 11:9 hvetur ungt fólk til að ‚gleðja sig í æsku sinni.‘ En 10. versið bætir við í viðvörunartón: „Hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum.“
Ef þú hyggst flytja til annars lands til að losna undan hömlum foreldranna gætirðu verið að bjóða ‚bölinu‘ heim. Manstu eftir dæmisögu Jesú um glataða soninn? Hún fjallar um sjálfselskan ungan mann sem ferðaðist til annars lands, greinilega með það fyrir augum að öðlast meira frelsi. Áður en langt um leið knúði ógæfan dyra og hann hraktist út á vonarvöl — soltinn, snauður og andlega veikur. — Lúkas 15:11-16.
Þá er að nefna ungmenni sem vilja flytja til að flýja vandamál heima fyrir. „Ef þú vilt flytja bara af því að þú ert vansæll . . . og þú trúir því að allt verði betra annars staðar, skaltu gleyma því!“ segir Heike Berg í bókinni What’s Up. Það er miklu betra að horfast í augu við vandamálin. Þú græðir ekkert á því að flýja aðstæður sem þér líka ekki.
Ágirnd og efnishyggja eru líka varhugaverð. Löngun í ríkidæmi hefur fengið marga unglinga til að gera sér óraunhæfa glansmynd af lífinu í iðnvæddum ríkjum. Sumir halda að allir Vesturlandabúar séu ríkir, en það er fjarri sanni. Mörg ungmenni berjast í bökkum eftir að hafa flust til framandi lands. * Biblían segir í viðvörunartón: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:10.
Ertu undir það búinn?
Það er fleira sem þarf að taka með í reikninginn: Ertu nógu þroskaður til að takast á við erfiðleika, vandamál og árekstra sem verða í útlöndum? Þú þarft líklega að leigja með öðrum eða búa hjá fjölskyldu og laga þig að dagskrá annarra. Hvernig semur þér við aðra á heimili þínu? Kvarta foreldrarnir yfir því að þú sért tillitslaus og eigingjarn? Ertu matvandur? Tekurðu fúslega þátt í heimilisverkum? Ef þú átt erfitt með þetta núna muntu eiga margfalt erfiðara með það í ókunnu landi!
Ef þú ert kristinn, geturðu þá hugsað sjálfur um þinn andlega mann? Þurfa foreldrar þínir stöðugt að brýna fyrir þér að vanrækja ekki biblíunámið, kristnar samkomur og boðunarstarfið? Ertu nógu sterkur andlega til að standast þrýsting og freistingar í útlöndum sem þú verður ekki fyrir heima? Á fyrsta skóladegi í framandi landi var kristnum skiptinema sagt hvar hann gæti orðið sér úti um fíkniefni. Síðan bauð skólasystir honum að koma út með sér. Stúlkur gerðust aldrei svona djarfar í heimalandi hans. Og ungur Afríkubúi sem flutti til Evrópu segir: „Heima sér maður aldrei ósiðlegar myndir á almannafæri, en hér eru þær á hverju strái.“ Þeir sem eru ekki „stöðugir í trúnni“ geta liðið andlegt skipbrot þegar þeir flytja til annars lands. — 1. Pétursbréf 5:9.
Safnaðu staðreyndum!
Áður en þú hyggur á flutning skaltu verða þér úti um allar nauðsynlegar staðreyndir. Fáðu ekki upplýsingar gegnum millilið. Ef þú ætlar að gerast skiptinemi, hefurðu þá hugleitt hvað það kostar? Kostnaðurinn getur hlaupið á hundruðum þúsunda króna! Þú þarft líka að kanna hvort nám í erlendum skóla fæst metið hér heima. Aflaðu eins mikilla upplýsinga og þú getur um land og þjóð, bæði lög, menningu og siðvenjur. Hvað kostar að lifa þar? Hvaða skatta þarftu að greiða? Er einhver heilsufarsáhætta fyrir hendi? Það gæti reynst gagnlegt að ræða við fólk sem hefur búið þar.
Þá er að nefna vistarverurnar. Þótt gestgjafar skiptinema vænti yfirleitt ekki greiðslu fyrir vistina getur það haft margs konar álag og árekstra í för með sér að búa hjá fólki sem virðir meginreglur Biblíunnar að vettugi. Annar kostur gæti verið sá að gista hjá vinum eða ættingjum. En gættu þess að íþyngja þeim ekki — jafnvel þótt þeir leggi fast að þér að dveljast hjá sér. Það gæti spillt eða jafnvel eyðilagt sambandið á milli ykkar. — Orðskviðirnir 25:17.
Ef þú ætlar að afla fjár í útlöndum skaltu muna að þér er skylt að hlýðnast yfirvöldum. (Rómverjabréfið 13:1-7) Hefurðu fengið tilskilin atvinnuleyfi? Hvaða vinnu máttu stunda? Það væri óheiðarlegt að vinna ólöglega og þú nytir engra tryggingarréttinda svo sem slysatryggingar. Jafnvel þótt þú hafir atvinnuleyfi þarftu að sýna aðgát og skarpskyggni. (Orðskviðirnir 14:15) Ófyrirleitnir vinnuveitendur notfæra sér oft útlendinga.
Ákvörðunin
Það er greinilega stór ákvörðun að flytja til annars lands og það má ekki taka hana að óathuguðu máli. Sestu niður með foreldrum þínum og kannaðu kostina vandlega og allar hugsanlegar hættur. Mundu að kapp er best með forsjá. Rannsakaðu hvatir þínar heiðarlega. Hlustaðu vandlega á foreldra þína. Þeim mun finnast þeir bera ábyrgð á þér þótt þú sért í mörg hundruð kílómetra fjarlægð. Þú þarft trúlega á fjárhagsaðstoð þeirra að halda til að ná endum saman.
Þegar allt er skoðað kemstu kannski að raun um að óhyggilegt sé að flytja eins og sakir standa. Þótt þetta valdi þér trúlega vonbrigðum er fjölmargt annað skemmtilegt sem þú getur tekið þér fyrir hendur. Hefurðu hugleitt að ferðast innanlands og skoða áhugaverða staði? Og hví ekki að byrja að læra erlent tungumál núna? Kannski býðst þér tækifæri síðar meir til að ferðast til útlanda.
En hvað ef þú hefur afráðið að flytja? Fjallað verður síðar um hvað hægt sé að gera til að dvölin heppnist.
[Neðanmáls]
^ Sjá greinina „Counting the Cost of Moving to an Affluent Land“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. apríl 1991, gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Sumir unglingar flytja til að vinna að boðunarstarfi Guðsríkis.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Ræddu við foreldra þína um kosti og hættur þess að flytja.