Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég forðast hættur á Netinu?

Hvernig get ég forðast hættur á Netinu?

Ungt Fólk Spyr . . .

Hvernig get ég forðast hættur á Netinu?

ÍMYNDAÐU þér að þú sért staddur á stærsta bókasafni heims. Þú ert umkringdur bókum, dagblöðum, bókaskrám, ljósmyndum og alls kyns upptökum um nánast hvað sem er, og þú hefur allar nýjustu upplýsingar og megnið af bókmenntum liðinna alda við höndina.

Netið getur veitt þér aðgang að slíkum upplýsingum. Með því að setjast við tölvu er hægt að skiptast á upplýsingum við aðrar tölvur og tölvunotendur hvar sem er í heiminum. * Netið má nota til að selja og kaupa vörur, stunda bankaviðskipti, spjalla við aðra og hlusta á glænýjar tónlistarupptökur — allt innan veggja heimilisins.

Netnotkun er orðin almenn víða um lönd og sumir sérfræðingar spá því að netverjar verði fleiri en 320 milljónir fyrir árslok. Milljónir ungmenna hafa aðgang að Netinu vegna þess hve margir skólar og bókasöfn eru farin að nota það mikið. Næstum 65 af hundraði bandarískra unglinga á aldrinum 12 til 19 ára hafa notað eða haft áskrift að einhverri netþjónustu.

Netið getur veitt gagnlegar upplýsingar um veður, ferðalög og önnur viðfangsefni sé það rétt notað, og þar er hægt að kaupa bækur, bílavarahluti og margt fleira. Margir nota það við að gera skólaverkefni sín.

Þótt Netið sé nytsamlegt er það eins og bókasafn án bókavarða eða annarra áhorfenda. Hægt er að vafra um það án þess að nokkur viti af, en þetta er ein af meginhættum Netsins vegna þess að fjöldi vefsíðna hefur að geyma siðspillt og andlega skemmandi efni. Netið getur gert kristin ungmenni berskjölduð fyrir alls konar freistingum. Mannskepnan er í eðli sínu forvitin og það hefur Satan djöfullinn lengi fært sér í nyt. Hann notfærði sér til dæmis forvitni Evu og ‚tældi hana með flærð sinni.‘ — 2. Korintubréf 11:3.

Kristinn unglingur getur auðveldlega látið óheilnæmt efni tæla sig ef hann er ekki staðráðinn í að vernda andlegt hugarfar sitt. Grein í tímaritinu Better Homes and Gardens segir: „Netið er spennandi vettvangur þar sem snjallir frumkvöðlar falbjóða nýjustu upplýsingar; en barnaníðingar, svikahrappar, ofstækismenn og annar óþverralýður er líka á vappi um netheimana.“

Unglingspiltur, sem heitir Jakob, * segir: „Sumar vefsíður eru skelfilegar. Þær birtast fyrirvaralaust.“ Hann bætir við: „Þær reyna að lokka mann, freista og hafa af manni peninga.“ Kristinn unglingspiltur, sem heitir Jón, viðurkennir: „Þegar maður byrjar að horfa á ósiðsamlegt efni er erfitt að hætta, maður ánetjast því.“ Þess eru dæmi að kristnir unglingar hafi vanið komur sínar á vafasamar vefsíður og lent í enn meira klandri fyrir vikið. Sumir hafa jafnvel skaðað sambandið við Jehóva. Hvernig má forðast það?

„Að horfa á hégóma“

Stundum sést greinilega á vefslóðinni hvort vefsíða er með vafasamt efni. * Orðskviðirnir 22:3 vara við: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“

En oftar en ekki er það hreinlega af slysni sem fólk lendir á hneykslanlegri vefsíðu. Heimasíða er kannski prýdd æsifengnum myndum sem eru sérstaklega valdar til að lokka það til að skoða vefinn og líta við aftur og aftur. *

Karl lýsir því sem henti vin hans: „Hann hafði tíma aflögu og var forvitinn. Brátt varð klámglápið að fastri venju.“ Sem betur fer leitaði þessi kristni unglingur til öldungs og fékk hjálp.

Hefurðu afráðið hvað þú ætlar að gera ef þú ratar óvart á svona vefsíðu? Það er alveg ljóst hvað kristinn maður á að gera: Yfirgefa vefsíðuna undir eins eða jafnvel slökkva á vafranum! Vertu eins og sálmaskáldið sem bað: „Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma.“ (Sálmur 119:37; samanber Jobsbók 31:1.) Mundu að það sést til okkar þótt enginn maður fylgist með því sem við erum að gera. Biblían minnir okkur á að allt sé „bert og öndvert augum [Guðs]. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ — Hebreabréfið 4:13.

Ræddu við foreldra þína eða aðra þroskaða kristna menn til að styrkja ásetning þinn að fara ekki aftur inn á vafasamar vefsíður. Ef þú lentir í kviksyndi myndirðu tæplega brjótast um á hæl og hnakka uns það næði þér upp á háls og þá fyrst kalla á hjálp.

Hvað um spjallrásir?

Á spjallrásum Netsins geta netverjar hvar sem er í heiminum ræðst við. Fyrirtæki nota þær til ráðstefnuhalds á Netinu og til að þjónusta viðskiptavini. Á sumum spjallrásum geta notendur deilt með sér upplýsingum um tæknimál, svo sem um bílaviðgerðir eða tölvuforritun. Vinir og ættingjar geta spjallað saman í einrúmi á öðrum án þess að þurfa að greiða dýr langlínusamtöl. En eru einhverjar hættur fyrir hendi þótt þessi miðill geti haft visst notagildi?

Varúðar er þörf þegar almennar spjallrásir eru annars vegar þar eð viss hætta getur stafað af þeim. Rithöfundurinn Leah Rozen segir: „Nýjungagjarnir unglingar spjalla tímunum saman á Netinu við ónafngreinda og ókunnuga menn um land allt og jafnvel víða um heim. Til allrar óhamingju eru sumir þessara framandi manna, sem þeir gefa sig á tal við, öfuguggar sem eru á höttunum eftir leynilegum ástafundum með börnum.“ Grein í tímaritinu Popular Mechanics hvetur fólk til „að sýna fyllstu aðgát“ þegar það notar almennar spjallrásir. Það getur verið ávísun á alvarleg vandræði að gefa ókunnugum upp nafn sitt eða heimilisfang. Hví að bjóða hættunni heim?

Hættan á að flækjast í óviðeigandi félagsskap við ókunnuga, sem virða ekki meginreglur Biblíunnar, er öllu lúmskari. * Samkvæmt einni heimild snúast umræður unglinga á spjallrásunum að miklu leyti um kynferðismál. Heilræði Biblíunnar í 1. Korintubréfi 15:33 eiga því vel við: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Slæmur félagsskapur á Netinu er háskalegur. Guðrækinn unglingur má ekki vera kærulaus og stofna sér í hættu.

Öryggisráðstafanir

Nota þarf Netið með gát vegna hættunnar sem er því samfara. Sumar fjölskyldur hafa tölvuna í stofunni eða á öðrum stað þar sem margir ganga um og setja jafnframt þá reglu að aðeins megi fara á Netið þegar einhverjir aðrir eru heima. Vertu samvinnuþýður ef foreldrar þínir setja slíkar hömlur. (Orðskviðirnir 1:8) Skýrar viðmiðunarreglur eru vísbending um kærleika þeirra.

Ef þú þarft að nota Netið vegna heimaverkefna væri ráð að skrá hjá þér hve mikill tími fer í það. Reyndu að ákveða fyrir fram hve mikinn tíma þú ætlar að nota og láttu vekjaraklukku minna þig á þegar hann er útrunninn. Tómas segir: „Gerðu áætlun, vittu nákvæmlega hverju þú ert að leita að og haltu þér við það, sama hve áhugavert annað efni kann að virðast.“

Varúðar er einnig þörf í sambandi við tölvupóst. Kristin ungmenni þurfa að gæta sín að fá ekki sendan of mikinn tölvupóst til að lesa, einkum ef upplýsingarnar eru að stórum hluta ómerkilegar eða staðlausar. Tölvupóstur getur gleypt dýrmætan tíma sem væri betur varið til heimaverkefna og andlegrar starfsemi.

Salómon konungur segir: „Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.“ (Prédikarinn 12:12) Þetta getur einnig átt vel við um Netið. Gættu þess að sökkva þér ekki svo niður í heimildaleit og upplýsingaöflun að þú vanrækir einkanám í Biblíunni og hið kristna boðunarstarf. (Matteus 24:14; Jóhannes 17:3; Efesusbréfið 5:15, 16) Og mundu að þótt samskipti við fólk um Netið geti verið ágæt þegar það á við koma þau alls ekki í staðinn fyrir samband við trúbræður í eigin persónu. Ef þú þarft í raun og veru á Netinu að halda skaltu vera staðráðinn í að nota það viturlega. Forðastu hættulegar vefsíður og eyddu ekki of miklum tíma á Netinu. ‚Varðveittu hjarta þitt‘ og gættu þess að verða aldrei þræll Netsins. — Orðskviðirnir 4:23.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinaröðina „The Internet — Is It for You?“ í Vaknið! (enskri útgáfu), 22. júlí 1997.

^ Sumum nöfnum er breytt.

^ Vefslóð er stafaruna sem slegin er inn til að komast inn á vefsíðu. Stundum inniheldur vefslóðin orð sem varpa ljósi á markmið vefsíðunnar.

^ Heimasíðan er eins og rafrænn útstillingargluggi í verslun. Hún segir hvað er í boði á vefsíðunni, hver hannaði hana og svo framvegis.

^ Sams konar hætta getur verið fyrir hendi á spjallrásum sem velviljaðir kristnir menn hafa komið á fót til að ræða andleg mál. Óheiðarlegt fólk og fráhvarfsmenn hafa stundum blandað sér í umræðuna og reynt lævíslega að telja aðra á að fallast á óbiblíulegar skoðanir sínar.

[Innskot á blaðsíðu 28]

„Sumar vefsíður eru skelfilegar. Þær birtast fyrirvaralaust.“

[Mynd á blaðsíðu 29]

Sumar fjölskyldur hafa heimilistölvuna þar sem aðrir sjá til.