Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

PHYLLIS LIANG | ÆVISAGA

Jehóva hefur blessað fúsleika minn

Jehóva hefur blessað fúsleika minn

„Já, það vil ég.“ Þannig svaraði Rebekka þegar hún var beðin um að gera meiriháttar breytingar í líf sínu til að gera vilja Jehóva. (1. Mósebók 24:50, 58) Þó að mér finnist ég ekki vera neitt sérstök hef ég reynt að sýna sams konar fúsleika í þjónustu Jehóva. Ýmsar áskoranir hafa orðið á vegi mínum en ég hef séð hvernig Jehóva blessar fúsleika og það oft með óvæntum hætti.

Aldraður maður færir okkur fjársjóð

 Fáeinum árum eftir að fjölskylda okkar flutti til borgarinnar Roodepoort í Suður-Afríku dó faðir minn. Árið 1947 þegar ég var 16 ára, vann ég í fullu starfi hjá símaþjónustu ríkisins til að hjálpa fjölskyldunni fjárhagslega. Dag nokkurn þegar ég var heima, kom aldraður maður heim til okkar og bauð okkur áskrift af Varðturninum. Við þáðum áskriftina bara til að gleðja hann.

 En fyrr en varði hafði áhugi okkar á því að öðlast nákvæma biblíuþekkingu vaknað. Móðir mín, sem hafði tilheyrt hollensku mótmælendakirkjunni á yngri árum, sá muninn á því sem Biblían kennir og kenningum kirkjunnar. Við þáðum biblíunámskeið og fórum fljótlega að sækja samkomur. Árið 1949 var ég fyrst til að láta skírast í okkar fjölskyldu. Næstu árin hélt ég áfram að vinna veraldleg störf en mig langaði að gera meira í þjónustu Jehóva.

Fús til að fara þangað sem þörfin var meiri

FomaA/stock.adobe.com

Koeksisters.

 Árið 1954 hóf ég brautryðjendastarf og spurði deildarskrifstofuna í Suður-Afríku hvar ég gæti komið að mestu gagni. Deildarskrifstofan mælti með borginni Pretoríu og bjó svo um hnútana að önnur brautryðjendasystir færi með mér þangað. Húsnæðið sem við leigðum var alveg þokkalegt og ég man enn þá eftir ljúffengum koeksisters sem eru nokkurs konar fléttaðar kleinur sem dýft er í síróp og voru til sölu í nágrenninu.

 Þegar brautryðjandafélagi minn giftist spurði bróðir George Phillips, sem sá um deildarskrifstofuna, hvort ég myndi vilja þjóna sem sérbrautryðjandi. Ég tók boðinu fagnandi.

 Fyrsta svæðið sem mér var úthlutað sem sérbrautryðjandi árið 1955 var í borginni Harrismith. Nýi brautryðendafélagi minn og ég áttum í mesta basli að halda í húsnæði sem var við hæfi. Til dæmis komst kirkjunnar fólk á staðnum að því hvar við leigðum og beitti konuna sem átti húsnæðið þrýstingi til að segja upp leigunni.

 Seinna meir var mér úthlutað svæði í Parkhurst í Jóhannesarborg. Þar starfaði ég ásamt tveim trúboðssystrum. Seinna giftist önnur þeirra og hin fékk úthlutað annað svæði. Þá var það að elskuleg systir að nafni Eileen Porter bauð mér að búa hjá sér ásamt fjölskyldu sinni, þó svo að í raun hafi hún ekki haft pláss fyrir mig. Ég svaf í litlu útskoti sem var aðskilið frá húsinu með gardínu. Eileen var góðhjörtuð og uppörvandi og mér leið mjög vel í návist hennar. Kostgæfni hennar fyrir sannleikanum þrátt fyrir fjölskylduábyrgð snerti mig.

 Skömmu síðar fékk ég svæði í Aliwal-North sem er borg í Eastern Cape-sýslu og ég átti að starfa með systur að nafni Merlene (Merle) Laurens. Við vorum báðar á þrítugsaldri en systir að nafni Dorothy, sem við kölluðum Dot frænku, var okkur mikil hvatning. Á yngri árum hafði hún mátt þola grimmilega árás af hundum meðan hún var í boðuninni. En hún lét það ekki draga úr ákafa sínum.

 Árið 1956 fór Merle í burtu til að sækja 28. bekk Gíleaðskólans. Allra helst hefði ég viljað fara með henni. En Dot frænka hugsaði vel um mig og við urðum góðar vinkonur þrátt fyrir aldursmuninn.

 Ímyndaðu þér gleði mína þegar mér var, líkt og Merle, boðið í Gíleaðskólann. Áður en að brottförinni kom var ég í um átta mánuði í borg sem heitir Nigel og starfaði þar með Kathy Cooke sem hafði verið í Gíleaðskólanum. Kathy byggði upp tilhlökkun mína fyrir því sem var fram undan og í janúar 1958 fór ég til New York.

Fús til að þiggja þjálfun

 Í Gíleaðskólanum deildi ég herbergi með Tiu Aluni frá Samóaeyum og Ivy Kawhe sem er systir af Maorí ættflokknum. Meðan ég var í Suður-Afríku sá ríkisstjórnin, sem hélt á lofti aðskilnaðarstefnu, til þess að hvítir gætu ekki blandað geði við fólk af öðrum kynþáttum. Þannig að það var mér ný reynsla að þessar systur væru herbergisfélagar mínir. Mér þótt fljótlega mjög vænt um þær og fannst spennandi að vera í svona fjölþjóðlegum bekk.

 Einn af Gíleað kennurunum okkar var bróðir Maxwell Friend. Kennslustundirnar hans voru stundum spennuþrungnar. Það voru þrjú ljós í kennslustofunni og þau voru merkt: „raddblær“, „hraði“ og „kraftur“. Meðan á kynningu nemenda stóð kveikti bróðir Friend á einu af ljósunum ef honum fannst eitthvað af þessu vanta. Ég er hlédræg og fékk því oft að sjá ljósin sem við skelfumst og það varð stundum til þess að ég táraðist. En mér þótti vænt um bróður Friend. Stundum þegar ég var önnum kafin við ræstingaverkefni milli kennslustunda færði hann mér kaffibolla.

 Þegar líða tók á námstíma minn fór ég að velta því fyrir mér hvert ég yrði send. Merle, fyrrverandi brautryðjendafélagi minn, var þegar útskrifuð úr Gíleað og hún hafði verið send til Perú. Hún stakk upp á því að ég bæði bróður Nathan Knorr, sem fór með forystuna um þessar mundir, hvort ég gæti komið í stað trúboðsfélaga hennar sem var að fara að gifta sig. Bróðir Knorr heimsótti Gíleaðskólann á nokkurra vikna fresti þannig að það var auðvelt að ná tali af honum. Þegar ég útskrifaðist var ég send til Perú.

Uppi í fjöllum

Með Merle (til hægri) í Perú árið 1959.

 Ég var svo glöð að taka upp þráðinn með Merle í Líma í Perú. Fljótlega var ég komin með biblíunemendur sem tóku góðum framförum, þó svo að ég væri sjálf enn þá að læra spænsku. Síðar var okkur Merle úthlutað svæði í Ayacucho sem er hátt uppi í fjöllunum. Ég verð að viðurkenna að þetta var erfitt svæði. Ég var búin að læra svolítið í spænsku en margt fólk á þessu svæði talaði aðeins ketsúsksu. Það tók okkur líka tíma að venjast hæðarmuninum og þunna loftinu í þessari hæð.

Trúin boðuð í Perú árið 1964.

 Mér fannst ég ekki hafa áorkað miklu í Ayacucho og ég velti því fyrir mér hvort sannleikurinn ætti nokkurn tíma eftir að ná fótfestu þar. En núna búa fyrir 700 boðberar guðsríkis þar og þar er þýðingastofa fyrir ketsúsku (Ayacucho).

 Er fram liðu stundir giftist Merle farandhirði að nafni Ramón Castillo og árið 1964 sótti hann 10 mánaða námskeið í Gíleaðskólanum. Í bekknum hans var einn af bekkjarfélögum úr mínum bekk skólans, ungur maður að nafni Fu-lone Liang. Um þær mundir þjónaði hann í Hong Kong, en hafði verið boðið að fá aukna þjálfun í Gíleaðskólanum í tengslum við störf á deildarskrifstofum. a Fu-lone spurði Ramón hvernig mér vegnaði í Perú og svo byrjuðum við að skrifast á.

 Fljótlega útskýrði Fu-lone að bréfaskriftir okkar þýddu að við værum í sambandi. Í Hong Kong fór Harold King, sem var líka trúboði þar, reglulega í pósthúsið og féllst á að póstleggja bréf Fu-lones. Harold var þá vanur að teikna litlar myndir á umslögin utan um bréfin til mín og lét þá fylgja texta eins og: „Ég skal reyna að fá hann til að skrifa oftar.“

Með Fu-lone.

 Eftir að hafa skrifast á í um 18 mánuði ákváðum við Fu-lone að ganga í hjónaband. Ég fór frá Perú eftir að hafa starfað þar í um það bil sjö ár.

Nýtt líf í Hong Kong

 Þann 17. nóvember 1965 gengum við Fu-lone í hjónaband. Ég naut þessa nýja lífs í Hong Kong. Við bjuggum á deildarskrifstofunni ásamt tveim öðrum hjónum. Fu-lone vann við þýðingar yfir daginn og ég var úti í boðuninni. Það var erfitt að læra kantónsku en hinar trúboðssysturnar og minn elskulegi eiginmaður kenndu mér af þolinmæði. Það sem dró líka úr spennunni við að læra málið var að ég hafði biblíunámskeið með ungum börnum.

Sex manna Betelfjölskyldan í Hong Kong um miðjan 7. áratuginn. Fu-lone og ég erum í miðið.

 Nokkrum árum síðar fluttum við Fu-lone á trúboðsheimili sem var í Kwun Tong hverfi í Hong Kong. Þannig gat Fu-lone kennt trúboðum sem voru nýkomnir kantónsku. b Ég naut þjónustunnar svo mikið á þessu svæði að suma dagana langaði mig bara ekki að fara heim.

 Árið 1968 var ég yfir mig hrifin af nýja námsritinu okkar Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. Bókin var einfaldari en fyrra námsrit okkar sem hét „Guð skal reynast sannorður“, sér í lagi fyrir biblíunemendur sem þekktu ekki til Biblíunnar né kristinnar trúar.

 En ég gerði þau mistök að álykta að nemendur væru að taka á móti sannleikanum einfaldlega af því að þeir gátu svarað spurningunum sem stóðu í námsbókinni. Í einu tilfelli var ég búin að fara í gegnum alla Sannleiksbókina með konu án þess að ég áttaði mig á því að hún trúði enn ekki á Guð. Ég lærði að hlusta meira eftir skoðunum nemenda minna og komast að því hvað þeim fyndist um það sem þeir voru að læra.

 Eftir nokkur ár í Kwun Tong fluttum við aftur á deildarskrifstofuna þar sem Fu-lone var í deildarnefnd Hong Kong. Í gegnum árin vann ég ýmist við ræstingar eða við gestamóttökuna. Stundum þurfti Fu-lone að ferðast í trúnaðarerindum á vegum safnaðarins þannig að ég gat ekki farið með honum. En það veitti mér ánægju að styðja hann þegar hann sinnti ábyrgðarstörfum sínum.

Fu-lone er að kynna nýútkomið seinna bindi bókarinnar Spádómur Jesaja á hefðbundinni kínversku og einfaldaðri kínversku.

Óvænt breyting

 Árið 2008 gerðist óvæntur og sorglegur atburður í lífi mínu. Minn elskaði Fu-lone lést óvænt á ferðalagi skömmu fyrir minningarhátíðina um dauða Jesú. Ég var niðurbrotin. Trúsystkinin voru mjög dugleg að styðja mig og meðan á minningarhátíðarathöfninni stóð hélt það mér upptekinni að aðstoða áhugasama konu að fletta upp ritningarstöðunum sem var vísað í. Einn af uppáhaldsritningarstöðum Fu-lones veitti mér styrk en hann segir: „Ég, Jehóva Guð þinn, gríp í hægri hönd þína … ‚ég hjálpa þér.‘“ – Jesaja 41:13.

 Sjö árum eftir andlát Fu-lones mæltu bræðurnir í Hong Kong með því að ég flytti á stærri deildarskrifstofu þar sem hægt væri að veita mér betri heilbrigðisþjónustu. Þar af leiðandi flutti ég á deildarskrifstofuna í Suður-Afríku árið 2015 og var þannig næstum komin á upphafsreitinn þar sem ég kynntist sannleikanum árið 1947.

 Ég hef átt mörg hamingjurík ár í þjónustu Jehóva og mér finnst hann hafa blessað fúsleika minn. Ég er enn í sambandi við biblíunemendur mína frá fyrri tíð sem þjóna Jehóva trúfastlega. Ég hef séð hvernig Jehóva getur blessað það sem virðast vera smávægileg framlög til boðunarinnar. Til dæmis fjölgaði boðberum í Peru úr um 760 árið 1958 í um 133.000 árið 2021 og boðberum í Hong Kong úr um 230 árið 1965 í 5.565 árið 2021.

 Sökum aldurs er ég ekki lengur fær um að áorka því sem ég gat gert. En fúsleikinn er enn til staðar og ég hlakka til að halda áfram að auðsýna þennan anda í nýjum heimi, þegar þörf verður fyrir margar fúsar hendur. Þá mun ég segja með ákefð: „Já, það vil ég.“

a Lesa má frásöguna um það hvernig Fu-lone Liang kynntist sannleikanum í Árbók Votta Jehóva 1974 á ensku, á blaðsíðu 51.

b Eina af reynslusögum Fu-lones í Kwun Tong er að finna í Árbók Votta Jehóva 1974 á ensku, á blaðsíðu 63.