Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

HÅKAN DAVIDSSON | ÆVISAGA

Við höfum átt þátt í að breiða út sannindi Biblíunnar

Við höfum átt þátt í að breiða út sannindi Biblíunnar

 Ég er fæddur og uppalinn í Svíþjóð. Á unglingsárunum varð ég fyrir áhrifum af hugmyndum trúleysingja og þegar pabbi, mamma og yngri systir mín fóru að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva hafði ég engan áhuga.

 Pabbi bauð mér samt ítrekað að vera með í biblíunámsstundinni og að lokum ákvað ég að þiggja boðið. Nákvæmni Biblíunnar í vísindalegum málum kom mér mjög á óvart. Með tímanum sannfærðist ég um að Biblían væri orð Guðs. Ég sá líka að það sem vottar Jehóva kenna samræmist Biblíunni og að þeir lifa eftir henni. Ég skírðist árið 1970, sama dag og pabbi. Mamma og systur mínar tvær skírðust nokkrum árum síðar.

 Margir jafnaldra minna virtust bara hafa áhuga á að skemmta sér. Ég skal viðurkenna að þessi ábyrgðarlausi lífsstíll höfðaði alveg til mín þegar ég var 17 ára. En vottarnir sem kenndu mér þjónuðu Jehóva í fullu starfi og þeir voru svo glaðir að mig langaði til að prófa það líka. Þegar ég var 21 lét ég loks verða af því.

Ég skírðist sama dag og pabbi (mér til vinstri).

 Brautryðjandastarfið veitti mér svo mikla gleði að ég sá eftir að hafa ekki byrjað fyrr. Ég hafði sérstaka ánægju af boðuninni í höfn Gautaborgar. Þar hitti ég marga útlendinga úr áhöfnum fraktskipa og sagði þeim frá sannleikanum.

 Undanfarna fimm áratugi hef ég haft einstakt tækifæri til að aðstoða við að koma fagnaðarboðskapnum á framfæri við fólk af ýmsum málhópum. Leyfið mér að útskýra hvernig þetta byrjaði.

Vinna við MEPS

 Þegar ég var brautryðjandi vann ég við prentun í hlutastarfi til að sjá fyrir mér. Mikil bylting varð í prentiðnaðinum á þessum tíma. Í stað þess að nota blýsetningu voru menn farnir að nota ljósmyndatækni til að færa bæði texta og myndir yfir á prentplötur. Ég lærði að nota nýjasta tækjabúnaðinn við tölvusetningu og gerð prentplatna.

Á brúðkaupsdeginum okkar.

 Árið 1980 giftist ég Helene sem var brautryðjandi. Við höfðum bæði mikla ánægju af að kynnast fólki frá mismunandi heimshlutum og öðrum menningarsamfélögum. Markmið okkar var að sækja Gíleaðskólann og gerast trúboðar.

 Vegna reynslu minnar af prentun var okkur Helene hins vegar boðið að hefja störf á Betel í Svíþjóð. Innan safnaðarins var mikill áhugi á því að taka upp nýja tækni og aðferðir til að gera prentunina sem skilvirkasta. Árið 1983 vorum við því send á Betel í Wallkill í New York til að fá kennslu í rafrænu ljóssetningakerfi fyrir mörg tungumál (nefnt MEPS) a sem söfnuðurinn var að þróa á þeim tíma.

Að störfum við MEPS-tækjabúnaðinn fyrir Hong Kong, Mexíkó, Nígeríu og Spán.

 Við komumst að því að MEPS er tölvukerfi sem ræður við textainnslátt á málum sem nota mismunandi stafróf og raðar síðan niður texta og myndum á blaðsíður til prentunar. Verkefni okkar snerist um að þróa nýjar leturgerðir í MEPS svo að hægt yrði að prenta ritin okkar á fleiri tungumálum. Núna, áratugum síðar, gefa Vottar Jehóva út rit á meira en þúsund tungumálum!

 Nokkru síðar vorum við Helene send til Asíu til að hjálpa til við að bæta fleiri málum við MEPS. Við vorum spennt að aðstoða við að fá að koma fagnaðarboðskapnum á framfæri á fleiri tungumálum.

Menningaráfall

 Við Helene komum til Indlands árið 1986. Þetta var menningaráfall! Það þyrmdi yfir okkur þegar við komum til Bombay (nú kölluð Mumbai). Allt var svo öðruvísi! Sænsk og indversk menning virtust vera algjörar andstæður. Fyrstu vikuna hugsuðum við alvarlega um að snúa aftur heim.

 Að viku liðinni komumst við þó bæði að þessari sömu niðurstöðu: Okkur hefur alltaf langað að vera trúboðar. Hvernig getum við gefist upp núna þegar við höfðum loksins fengið verkefni erlendis? Við þurfum bara að yfirstíga hindranirnar.

 Í staðinn fyrir að flýja ákváðum við að læra eins mikið og við gátum um þessa gjörólíku lifnaðarhætti. Áður en langt um leið urðum við Helene mjög hrifin af Indlandi. Síðan þá höfum við lært tvö Indversk mál, gújaratí og púnjabí.

Til Mjanmar

Við Helene klædd hefðbundnum fatnaði í ríkissal í Mjanmar.

 Árið 1988 vorum við send til Mjanmar, lands sem liggur að Kína, Indlandi og Taílandi. Pólitískt ástand skapaði mikla spennu og herlög voru í gildi í nánast öllu landinu. MEPS réð ekki við það letur sem er notað þar í landi og ekki var heldur til annar hugbúnaður til þess. Fyrsta verk okkar var því að aðstoða við að hanna letur fyrir stafrófið og fara síðan með skjölin til Wallkill til að setja þau inn í MEPS.

 Helene var með myndirnar af letrinu í handtöskunni sinni þegar við fórum um flugvöllinn. Út af ástandinu í landinu áttum við á hættu að vera handtekin ef upp kæmist að við værum með rit á málinu sem talað er í Mjanmar. En þegar leitað var á Helene hélt hún einfaldlega á töskunni með upplyftum höndum. Enginn tók eftir töskunni!

Með tilkomu MEPS-kerfisins urðu gæði letursetningar umtalsvert meiri.

 Þýðendur í Mjanmar gátu nú unnið með nýja letrinu en þeir fegnu líka fartölvur, prentara og kennslu í notkun MEPS. Fæstir þýðendanna höfðu nokkurn tíma áður séð tölvu en þeir voru fúsir til að læra. Nú þurftu þeir ekki lengur að treysta á úreltar prentvélar með handsettu blýletri. Þetta breytti miklu um gæði ritanna okkar.

Áfram til Nepal

 Árið 1991 vorum við Helene síðan beðin um að styðja við starfsemina í Nepal sem er land í suðurhlíðum Himalajafjalla. Á þessum tíma var ekki nema einn söfnuður í Nepal og aðeins fáein rit til á nepölsku.

 En ekki leið á löngu fyrr en farið var að þýða fleiri rit og dreifa þeim á svæðinu. Núna eru um 3.000 vottar í Nepal í rúmlega 40 söfnuðum og meira en 7.500 sóttu minningarhátíðina um dauða Jesú árið 2022.

Bæklingur á lahú

 Á miðjum tíunda áratugnum fóru trúboðar sem bjuggu í borginni Chiang Mai í Taílandi að boða fólki af Lahú-ættbálkunum trúna. Lahú er tungumál fólks sem býr nálægt landamærum Kína, Laos, Mjanmar, Taílands og Víetnam. En engin rit safnaðarins voru til á því máli.

 Ungur maður sem var að kynna sér Biblíuna með aðstoð trúboðanna þýddi bæklinginn „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ úr taílensku yfir á lahú. Hann og fleiri Lahú-menn söfnuðu síðan peningum sem þeir sendu til deildarskrifstofunnar ásamt þýðingunni. Í meðfylgjandi bréfi skrifuðu þeir að þeir vildu að allt lahúmælandi fólk gæti fengið að heyra sannleikann sem þeir höfðu kynnst af bæklingnum.

 Nokkrum árum síðar fengum við Helene að kenna lahú-þýðendum að nota MEPS. Einn þýðendanna var nýlega skírður bróðir sem vann á þýðingastofunni í Chiang Mai. Það kom okkur ánægjulega á óvart að uppgötva að hann var ungi maðurinn sem hafði þýtt bæklinginn „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ á lahú.

 Árið 1995 fórum við Helene aftur til Indlands til að starfa með þýðendunum á deildarskrifstofunni og sjá þeim fyrir þeim búnaði og leiðsögn sem þeir þurftu til að geta notað MEPS við störf sín. Á mörgum málum sem eru töluð þar eru núna til rit sem hjálpa fólki að kynnast Jehóva og láta skírast.

Innihaldsríkt líf

 Við Helene höfum starfað á deildarskrifstofunni á Bretlandi síðan 1999. Við vinnum með MEPS-forritunarteyminu við aðalstöðvarnar. Mestmegnis höfum við getað boðað trúna meðal gújaratí- og púnjabímælandi fólks hér í London og það hefur veitt okkur mikla ánægju. Þegar efni birtist á nýju máli á jw.org leitum við færis að boða þeim á svæðinu trúna sem tala það.

 Ég er svo ánægður að hafa sett mér andleg markmið þegar ég var ungur í stað þess að fylgja jafnöldrum mínum sem vildu bara skemmta sér. Þegar við Helene lítum um öxl sjáum við ekki eftir að hafa valið að þjóna Jehóva í fullu starfi. Við höfum komið til rúmlega 30 landa og séð með eigin augum hvernig fagnaðarboðskapurinn hefur náð til fólks af hverri þjóð, ættflokki og tungu. – Opinberunarbókin 14:6.

a Núna stendur MEPS fyrir Rafrænt útgáfukerfi fyrir mörg tungumál (Multilanguage Electronic Publishing System). MEPS er einnig notað við stafræna útgáfu á ritunum okkar.