Markús segir frá 14:1–72

  • Prestar leggja á ráðin um að lífláta Jesú (1, 2)

  • Kona hellir ilmolíu á höfuð Jesú (3–9)

  • Júdas svíkur Jesú (10, 11)

  • Síðasta páskamáltíðin (12–21)

  • Kvöldmáltíð Drottins innleidd (22–26)

  • Jesús segir fyrir að Pétur afneiti honum (27–31)

  • Jesús biðst fyrir í Getsemane (32–42)

  • Jesús handtekinn (43–52)

  • Æðstaráðið réttar yfir Jesú (53–65)

  • Pétur afneitar Jesú (66–72)

14  Nú voru tveir dagar+ til páska+ og hátíðar ósýrðu brauðanna.+ Yfirprestarnir og fræðimennirnir leituðu leiða til að ná Jesú með brögðum og taka hann af lífi.+  En þeir sögðu: „Ekki á hátíðinni, það gæti orðið uppþot meðal fólksins.“  Meðan hann var í Betaníu að borða* heima hjá Símoni holdsveika kom kona með ilmolíu í alabastursflösku. Þetta var hrein nardusolía og mjög dýr. Hún braut hálsinn af flöskunni og hellti olíunni á höfuð hans.+  Sumir sögðu þá hneykslaðir hver við annan: „Hvers vegna er verið að sóa þessari ilmolíu?  Það hefði mátt selja hana fyrir meira en 300 denara* og gefa fátækum peningana.“ Þeir voru sárgramir út í* hana  en Jesús sagði: „Látið hana í friði. Hvers vegna eruð þið að angra hana? Það var fallegt af henni að gera þetta fyrir mig.+  Þið hafið fátæka alltaf hjá ykkur+ og getið gert þeim gott hvenær sem þið viljið en mig hafið þið ekki alltaf.+  Hún gerði það sem hún gat. Hún smurði líkama minn með ilmolíu til að búa hann fyrir fram til greftrunar.+  Trúið mér, um allan heim þar sem fagnaðarboðskapurinn verður boðaður+ verður einnig sagt frá því sem þessi kona gerði, til minningar um hana.“+ 10  Júdas Ískaríot, einn þeirra tólf, fór nú til yfirprestanna til að svíkja Jesú í hendur þeirra.+ 11  Þeir glöddust að heyra það og lofuðu að greiða honum silfurpeninga fyrir.+ Upp frá því leitaði hann færis að svíkja hann. 12  Á fyrsta degi hátíðar ósýrðu brauðanna,+ þegar venja var að færa páskafórnina,+ spurðu lærisveinarnir Jesú: „Hvert viltu að við förum og undirbúum páskamáltíðina handa þér?“+ 13  Hann sendi þá tvo af lærisveinum sínum og sagði við þá: „Farið inn í borgina. Þar mætir ykkur maður sem ber vatnsker. Fylgið honum+ 14  og þar sem hann fer inn skuluð þið segja við húsráðandann: ‚Kennarinn spyr: „Hvar er gestaherbergið þar sem ég get borðað páskamáltíðina með lærisveinum mínum?“‘ 15  Hann sýnir ykkur þá stórt herbergi á efri hæð, búið húsgögnum og tilbúið handa okkur. Útbúið máltíðina þar.“ 16  Lærisveinarnir fóru þá og gengu inn í borgina. Þeir fundu allt eins og hann hafði sagt þeim og undirbjuggu páskamáltíðina. 17  Um kvöldið kom hann með þeim tólf.+ 18  Meðan þeir lágu til borðs og átu sagði Jesús: „Trúið mér, einn ykkar sem borðið með mér mun svíkja mig.“+ 19  Þeir urðu hryggir og sögðu við hann hver á fætur öðrum: „Er það nokkuð ég?“ 20  Hann sagði við þá: „Það er einn ykkar tólf, sá sem dýfir brauðinu í skálina með mér.+ 21  Mannssonurinn fer reyndar burt eins og skrifað er um hann en illa fer fyrir þeim sem svíkur hann.+ Það hefði verið betra fyrir þann mann að hafa aldrei fæðst.“+ 22  Þeir héldu áfram að borða. Hann tók brauð, fór með bæn, braut það og gaf þeim og sagði: „Takið þetta, það táknar líkama minn.“+ 23  Hann tók síðan bikar, fór með þakkarbæn, rétti þeim hann og þeir drukku allir af honum.+ 24  Hann sagði við þá: „Þetta táknar blóð mitt,+ ‚blóð sáttmálans‘,+ sem verður úthellt í þágu margra.+ 25  Trúið mér, ég mun alls ekki drekka aftur af ávexti vínviðarins fyrr en daginn sem ég drekk nýtt vín í ríki Guðs.“ 26  Að lokum, eftir að hafa sungið lofsöngva,* fóru þeir til Olíufjallsins.+ 27  Jesús sagði við þá: „Þið munuð allir hrasa og falla því að skrifað er: ‚Ég slæ hirðinn+ og sauðirnir tvístrast.‘+ 28  En eftir að ég hef verið reistur upp fer ég á undan ykkur til Galíleu.“+ 29  Pétur sagði þá við hann: „Þó að allir hinir hrasi og falli geri ég það ekki.“+ 30  Jesús svaraði honum: „Trúðu mér, í dag, já, strax í nótt, áður en hani galar tvisvar, muntu afneita mér þrisvar.“+ 31  En Pétur var enn ákveðnari og sagði: „Þó að ég þyrfti að deyja með þér myndi ég aldrei afneita þér.“ Allir hinir sögðu það sama.+ 32  Þeir komu nú til staðar sem heitir Getsemane og hann sagði við lærisveinana: „Setjist hérna meðan ég biðst fyrir.“+ 33  Hann tók Pétur, Jakob og Jóhannes með sér.+ Hann varð örvinglaður og angistarfullur 34  og sagði við þá: „Ég er yfirkominn af harmi.*+ Bíðið hér og vakið.“+ 35  Hann fór spölkorn frá þeim, féll til jarðar og bað þess að verða hlíft við þessari stund ef hægt væri. 36  Hann sagði: „Abba,* faðir,+ þú getur allt. Taktu þennan bikar frá mér. En gerðu þó ekki eins og ég vil heldur eins og þú vilt.“+ 37  Hann kom til þeirra aftur og fann þá sofandi. Hann sagði við Pétur: „Símon, ertu sofandi? Gastu ekki haldið þér vakandi eina stund?+ 38  Vakið og biðjið stöðugt svo að þið fallið ekki í freistni.+ Andinn er ákafur* en holdið er veikt.“+ 39  Hann fór aftur frá þeim og baðst fyrir með sömu orðum.+ 40  Þegar hann kom til baka fann hann þá sofandi því að þeir gátu ekki haldið augunum opnum. Þeir vissu ekki hvað þeir áttu að segja við hann. 41  Hann kom aftur í þriðja sinn og sagði við þá: „Þið sofið og hvílið ykkur á stund sem þessari. Þetta er nóg! Stundin er komin.+ Mannssonurinn verður svikinn í hendur syndara. 42  Standið upp, förum. Sá sem svíkur mig er að koma.“+ 43  Í sömu andrá, meðan hann var enn að tala, kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum fjöldi manna með sverð og barefli en yfirprestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir höfðu sent þá.+ 44  Svikarinn hafði samið um að gefa þeim merki og sagt: „Sá sem ég kyssi er maðurinn. Handtakið hann og farið með hann í fylgd varða.“ 45  Hann gekk rakleiðis til Jesú og sagði: „Rabbí!“ og kyssti hann blíðlega. 46  Þá gripu þeir hann og tóku hann höndum. 47  En einn viðstaddra dró sverð úr slíðrum, hjó til þjóns æðstaprestsins og sneið af honum eyrað.+ 48  Jesús sagði þá: „Komuð þið til að handtaka mig með sverðum og bareflum eins og ég væri ræningi?+ 49  Ég var hjá ykkur í musterinu að kenna dag eftir dag+ og samt handtókuð þið mig ekki. En þetta gerist til að Ritningarnar rætist.“+ 50  Allir lærisveinarnir yfirgáfu hann nú og flúðu.+ 51  En ungur maður fylgdi honum skammt frá. Hann var aðeins klæddur flík úr fínu líni. Þeir reyndu að handsama hann 52  en hann skildi flíkina eftir og komst undan nakinn.* 53  Þeir fóru nú með Jesú til æðstaprestsins+ og allir yfirprestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir söfnuðust saman.+ 54  Pétur fylgdi honum í nokkurri fjarlægð alla leið inn í húsagarð æðstaprestsins. Þar settist hann hjá þjónustufólkinu og yljaði sér við eld.+ 55  Yfirprestarnir og allt Æðstaráðið leituðu nú að mönnum til að vitna gegn Jesú og fá hann líflátinn en fundu enga.+ 56  Margir báru reyndar ljúgvitni gegn honum+ en framburði þeirra bar ekki saman. 57  Nokkrir stóðu líka upp, báru ljúgvitni gegn honum og sögðu: 58  „Við heyrðum hann segja: ‚Ég ríf þetta musteri sem var gert með höndum og á þrem dögum reisi ég annað sem er ekki gert með höndum.‘“+ 59  En framburði þeirra bar ekki heldur saman um þetta. 60  Þá stóð æðstipresturinn upp mitt á meðal þeirra og spurði Jesú: „Svararðu engu? Heyrirðu ekki hvernig þessir menn vitna gegn þér?“+ 61  En hann þagði og svaraði ekki einu orði.+ Æðstipresturinn hélt áfram og spurði: „Ertu Kristur, sonur hins blessaða?“ 62  Þá sagði Jesús: „Ég er hann, og þið munuð sjá Mannssoninn+ sitja við hægri hönd+ máttarins* og koma í skýjum himins.“+ 63  Æðstipresturinn reif þá föt sín og sagði: „Þurfum við nokkuð fleiri vitni?+ 64  Þið heyrðuð guðlastið. Hver er niðurstaða ykkar?“* Þeir dæmdu hann allir dauðasekan.+ 65  Þá fóru sumir að hrækja á hann.+ Þeir huldu andlit hans, slógu hann með hnefunum og sögðu: „Sýndu að þú sért spámaður!“ Réttarþjónarnir slógu hann utan undir og fóru með hann.+ 66  Meðan Pétur var niðri í húsagarðinum kom ein af þjónustustúlkum æðstaprestsins þar að.+ 67  Hún sá Pétur ylja sér, horfði stíft á hann og sagði: „Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú.“ 68  En hann neitaði því og sagði: „Ég þekki hann ekki né skil hvað þú ert að tala um.“ Hann gekk síðan út að fordyri garðsins. 69  Þjónustustúlkan kom auga á hann þar og endurtók við þá sem stóðu nærri: „Hann er einn af þeim.“ 70  Hann neitaði því sem fyrr. Þeir sem stóðu nærri sögðu líka við Pétur skömmu seinna: „Víst ertu einn af þeim enda ertu Galíleumaður.“ 71  En hann formælti sjálfum sér* og sór: „Ég þekki ekki þennan mann sem þið talið um!“ 72  Um leið galaði hani í annað sinn+ og Pétur mundi eftir því sem Jesús hafði sagt við hann: „Áður en hani galar tvisvar muntu afneita mér þrisvar.“+ Hann brotnaði saman og brast í grát.

Neðanmáls

Eða „og lá til borðs“.
Eða „skömmuðu“.
Eða „sálma“.
Eða „Sál mín er hrygg allt til dauða“.
Hebreskt eða arameískt ávarpsorð sem merkir ‚faðir‘ og felur í sér hlýju og innileik orðsins „pabbi“.
Eða „reiðubúinn“.
Eða „léttklæddur; á nærfötunum einum“.
Eða „Hins máttuga“.
Eða „Hvað finnst ykkur?“
Pétur er greinilega að lýsa yfir að eitthvað slæmt kæmi fyrir sig ef hann segði ekki satt.