Daníel 3:1–30

  • Gulllíkneski Nebúkadnesars konungs (1–7)

    • Skipað að tilbiðja líkneskið (4–6)

  • Hebrearnir þrír sakaðir um óhlýðni (8–18)

    • ‚Við ætlum ekki að þjóna guðum þínum‘ (18)

  • Kastað í eldsofninn (19–23)

  • Bjargað úr eldinum með kraftaverki (24–27)

  • Konungur lofar Guð Hebreanna (28–30)

3  Nebúkadnesar konungur gerði líkneski* úr gulli sem var 60 álnir* á hæð og 6 álnir* á breidd. Hann reisti það á Dúrasléttu í skattlandinu Babýlon.  Nebúkadnesar konungur sendi út boð og kallaði saman skattlandsstjóra* sína, höfðingja, landstjóra, ráðgjafa, féhirða, dómara, löggæslumenn og alla sem fóru með stjórnsýslu skattlandanna. Þeir áttu að koma til að vera viðstaddir vígslu líkneskisins sem Nebúkadnesar konungur hafði reist.  Skattlandsstjórarnir, höfðingjarnir, landstjórarnir, ráðgjafarnir, féhirðarnir, dómararnir, löggæslumennirnir og allir sem fóru með stjórnsýslu skattlandanna söfnuðust þá saman til að vera viðstaddir vígslu líkneskisins sem Nebúkadnesar konungur hafði reist. Þegar þeir höfðu tekið sér stöðu fyrir framan líkneskið  hrópaði kallarinn hárri röddu: „Ykkur er fyrirskipað þetta, þið þjóðir og þjóðflokkar, hvaða tungumál sem þið talið:  Þegar þið heyrið hornið hljóma, flautuna, sítarinn, hörpuna, lýruna, sekkjapípuna og öll hin hljóðfærin skuluð þið falla fram og tilbiðja gulllíkneskið sem Nebúkadnesar konungur hefur reist.  Þeim sem fellur ekki fram og tilbiður það verður umsvifalaust kastað í logandi eldsofninn.“+  Um leið og allt fólkið af hinum ýmsu þjóðum, þjóðflokkum og málhópum heyrði hornið hljóma, flautuna, sítarinn, hörpuna, lýruna og öll hin hljóðfærin féll það fram og tilbað gulllíkneskið sem Nebúkadnesar hafði reist.  Nokkrir Kaldear stigu nú fram og ásökuðu* Gyðingana.  Þeir sögðu við Nebúkadnesar konung: „Konungurinn lifi að eilífu. 10  Þú, konungur, hefur skipað svo fyrir að allir sem heyra hornið hljóma, flautuna, sítarinn, hörpuna, lýruna, sekkjapípuna og öll hin hljóðfærin eigi að falla fram og tilbiðja gulllíkneskið 11  og að hverjum sem fellur ekki fram og tilbiður það skuli kastað í logandi eldsofninn.+ 12  En hér eru nokkrir Gyðingar sem þú hefur falið stjórnsýslu yfir skattlandinu Babýlon, þeir Sadrak, Mesak og Abed Negó.+ Þessir menn virða þig einskis, konungur. Þeir þjóna ekki guðum þínum og neita að tilbiðja gulllíkneskið sem þú hefur reist.“ 13  Nebúkadnesar varð þá bálreiður og skipaði að Sadrak, Mesak og Abed Negó skyldu sóttir. Mennirnir voru síðan leiddir fyrir konung. 14  Nebúkadnesar sagði við þá: „Er það satt, Sadrak, Mesak og Abed Negó, að þið þjónið ekki guðum mínum+ og neitið að tilbiðja gulllíkneskið sem ég hef reist? 15  Ef þið eruð tilbúnir, þegar þið heyrið hornið hljóma, flautuna, sítarinn, hörpuna, lýruna, sekkjapípuna og öll hin hljóðfærin, að falla fram og tilbiðja líkneskið sem ég hef gert þá eruð þið lausir allra mála. En ef þið neitið að tilbiðja það verður ykkur umsvifalaust kastað í logandi eldsofninn. Og hvaða guð getur bjargað ykkur úr höndum mínum?“+ 16  Sadrak, Mesak og Abed Negó svöruðu konungi: „Nebúkadnesar, það er óþarfi að ræða þetta frekar. 17  Ef okkur verður kastað í logandi eldsofninn getur Guð okkar sem við þjónum bjargað okkur þaðan og úr höndum þínum, konungur.+ 18  En þó að hann geri það ekki skaltu samt vita, konungur, að við ætlum hvorki að þjóna guðum þínum né tilbiðja gulllíkneskið sem þú hefur reist.“+ 19  Þá reiddist Nebúkadnesar þeim Sadrak, Mesak og Abed Negó svo heiftarlega að andlitið afmyndaðist* og hann gaf skipun um að kynda ofninn sjöfalt heitar en venjulega. 20  Hann skipaði nokkrum af sterkustu mönnunum í her sínum að binda Sadrak, Mesak og Abed Negó og kasta þeim í logandi eldsofninn. 21  Þeir voru bundnir í skikkjum sínum, kyrtlum, höfuðbúnaði og öðrum flíkum og þeim kastað í logandi eldsofninn. 22  En þar sem skipun konungs var svo vægðarlaus og ofninn gífurlega heitur urðu eldslogarnir mönnunum að bana sem fylgdu Sadrak, Mesak og Abed Negó. 23  En mennirnir þrír, Sadrak, Mesak og Abed Negó, féllu bundnir í logandi eldsofninn. 24  Nebúkadnesar konungur varð þá hræddur, spratt á fætur og spurði ráðgjafa sína: „Bundum við ekki þrjá menn og köstuðum í eldinn?“ „Jú, konungur,“ svöruðu þeir. 25  Hann sagði: „En ég sé fjóra menn ganga um í eldinum! Þeir eru óbundnir og óskaddaðir og sá fjórði lítur út eins og sonur guðanna.“ 26  Nebúkadnesar gekk að dyrum logandi eldsofnsins og sagði: „Sadrak, Mesak og Abed Negó, þjónar hins hæsta Guðs,+ gangið út og komið hingað!“ Sadrak, Mesak og Abed Negó gengu þá út úr eldinum. 27  Skattlandsstjórarnir, höfðingjarnir, landstjórarnir og ráðgjafar konungs sem voru þar samankomnir+ sáu að líkamar mannanna höfðu ekki beðið neinn skaða í eldinum,+ ekki eitt einasta hár á höfði þeirra var sviðnað, föt þeirra voru alveg eins og áður og það var ekki einu sinni brunalykt af þeim. 28  Nebúkadnesar tók þá til máls og sagði: „Lofaður sé Guð Sadraks, Mesaks og Abeds Negós+ sem sendi engil sinn og bjargaði þjónum sínum. Þeir treystu honum og óhlýðnuðust skipun konungs og vildu frekar deyja* en að heiðra eða tilbiðja nokkurn annan guð en sinn Guð.+ 29  Þess vegna gef ég út þá tilskipun að sá sem lastar Guð Sadraks, Mesaks og Abeds Negós, óháð þjóðerni, þjóðflokki og málhópi, skuli aflimaður og hús hans gert að almenningskamri* því að enginn annar guð er til sem getur bjargað eins og hann.“+ 30  Konungur skipaði síðan Sadrak, Mesak og Abed Negó í háar stöður* í skattlandinu Babýlon.+

Neðanmáls

Eða „styttu“.
Um 27 m. Sjá viðauka B14.
Um 2,7 m. Sjá viðauka B14.
Eða „satrapa“. Sjá orðaskýringar.
Eða „rægðu“.
Eða „hugur hans gerbreyttist gagnvart þeim“.
Eða „fórna líkama sínum“.
Eða hugsanl. „ruslahaug; mykjuhaug“.
Orðrétt „veitti síðan Sadrak, Mesak og Abed Negó velgengni“.