Dómarabókin 8:1–35

  • Efraímítar ásaka Gídeon (1–3)

  • Konungar Midíans eltir uppi og drepnir (4–21)

  • Gídeon afþakkar konungstign (22–27)

  • Æviágrip Gídeons (28–35)

8  Efraímítar sögðu nú við Gídeon: „Hvað hefurðu gert okkur? Af hverju kallaðirðu ekki á okkur þegar þú fórst í stríð við Midíaníta?“+ Og þeir lásu honum pistilinn.+  En hann svaraði: „Hvað hef ég gert í samanburði við ykkur? Er ekki eftirtíningur Efraíms+ betri en vínuppskera Abíesers?+  Guð gaf höfðingja Midíans, þá Óreb og Seeb, ykkur á vald.+ Hvað hef ég gert í samanburði við ykkur?“ Þegar hann sagði þetta róuðust þeir.  Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir ána. Hann og mennirnir 300 sem voru með honum voru þreyttir en þeir héldu þó eftirförinni áfram.  Hann sagði við Súkkótmenn: „Ég er að elta Seba og Salmúnna, konungana í Midían. Getið þið gefið mönnunum sem með mér eru brauð því að þeir eru þreyttir?“  En höfðingjar Súkkót svöruðu: „Eru Seba og Salmúnna gengnir þér í greipar svo að við ættum að gefa liði þínu brauð?“  Þá sagði Gídeon: „Fyrst þið svarið þannig ætla ég að hýða ykkur með þyrnum og þistlum óbyggðanna+ þegar Jehóva gefur Seba og Salmúnna mér á vald.“  Hann fór þaðan til Penúel og bað um það sama en Penúelmenn svöruðu honum á sömu leið og Súkkótmenn.  Þá sagði hann við Penúelmenn: „Þegar ég kem aftur heilu og höldnu ríf ég niður þennan turn.“+ 10  Seba og Salmúnna voru staddir í Karkór með herliði sínu, um 15.000 mönnum. Fleiri voru ekki eftir af öllu herliði austanmanna,+ en 120.000 menn vopnaðir sverðum voru fallnir. 11  Gídeon fór tjaldbúaleiðina fyrir austan Nóba og Jogbeha.+ Hann réðst á herbúðirnar og kom mönnum að óvörum. 12  Midíanítakonungarnir tveir, þeir Seba og Salmúnna, lögðu á flótta en hann veitti þeim eftirför, tók þá höndum og olli algerri ringulreið í herbúðum þeirra. 13  Gídeon Jóasson sneri nú aftur úr stríðinu og fór um Heresskarð. 14  Á leiðinni tók hann til fanga ungan mann frá Súkkót og yfirheyrði hann. Ungi maðurinn skrifaði niður nöfn höfðingja og öldunga Súkkót en þeir voru alls 77. 15  Gídeon fór þá til Súkkót og sagði við mennina: „Hér eru Seba og Salmúnna sem þið hædduð mig fyrir og sögðuð: ‚Eru Seba og Salmúnna gengnir þér í greipar svo að við ættum að gefa úrvinda mönnum þínum brauð?‘“+ 16  Hann lét síðan öldungana í Súkkót kenna á þyrnum og þistlum óbyggðanna.+ 17  Og hann reif niður turninn í Penúel+ og drap mennina í borginni. 18  Gídeon spurði Seba og Salmúnna: „Hvernig voru mennirnir sem þið drápuð í Tabor?“ Þeir svöruðu: „Þeir voru eins og þú. Þeir litu allir út eins og konungssynir.“ 19  Þá sagði hann: „Þetta hafa verið bræður mínir, synir móður minnar. Svo sannarlega sem Jehóva lifir hefði ég ekki þurft að drepa ykkur ef þið hefðuð þyrmt þeim.“ 20  Síðan sagði hann við Jeter frumburð sinn: „Gakktu fram og dreptu þá.“ En ungi maðurinn dró ekki sverðið úr slíðrum. Hann var hræddur því að hann var enn ungur að aldri. 21  Þá sögðu Seba og Salmúnna: „Komdu sjálfur og dreptu okkur því að maður er metinn eftir mætti sínum.“* Gídeon drap þá Seba og Salmúnna+ og tók skrautmánana sem úlfaldar þeirra voru með um hálsinn. 22  Síðar sögðu Ísraelsmenn við Gídeon: „Ríktu yfir okkur, þú og sonur þinn og sonarsonur, því að þú frelsaðir okkur undan valdi Midíaníta.“+ 23  En Gídeon svaraði þeim: „Hvorki ég né sonur minn mun ríkja yfir ykkur. Það er Jehóva sem mun ríkja yfir ykkur.“+ 24  Gídeon hélt áfram: „Ég ætla að biðja ykkur um eitt: Gefið mér allir nefhring af herfangi ykkar.“ (En óvinirnir höfðu borið nefhringa úr gulli því að þeir voru Ísmaelítar.)+ 25  „Við gefum þér þá fúslega,“ svöruðu þeir. Síðan breiddu þeir út skikkju og hver og einn kastaði á hana nefhring af herfangi sínu. 26  Þyngd nefhringanna úr gulli, sem hann hafði beðið um, var 1.700 siklar,* fyrir utan skrautmánana, eyrnalokkana, purpuralitu ullarfötin sem konungar Midíans höfðu klæðst og hálsfestarnar af úlföldunum.+ 27  Gídeon gerði úr því hökul+ og hafði hann til sýnis í borg sinni, Ofra.+ Allur Ísrael tilbað hökulinn* þar+ og hann varð Gídeon og heimili hans að tálsnöru.+ 28  Midíanítar+ lutu sem sagt í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum og ógnuðu þeim ekki* framar. Friður var í landinu í 40 ár, meðan Gídeon var á lífi.+ 29  Jerúbbaal+ Jóasson sneri aftur heim og var þar um kyrrt. 30  Gídeon eignaðist 70 syni því að hann átti margar konur. 31  Hjákona hans í Síkem ól honum líka son og hann nefndi hann Abímelek.+ 32  Gídeon Jóasson dó í góðri elli og var grafinn í gröf Jóasar föður síns í Ofra, borg Abíesríta.+ 33  Um leið og Gídeon var dáinn fóru Ísraelsmenn aftur að tilbiðja Baalana*+ og þeir gerðu Baal Berit að guði sínum.+ 34  Ísraelsmenn gleymdu Jehóva Guði sínum+ sem hafði bjargað þeim úr höndum allra óvina þeirra umhverfis.+ 35  Þeir sýndu ekki heldur heimili Jerúbbaals, það er Gídeons, tryggan kærleika í þakklætisskyni fyrir allt sem hann hafði gert fyrir Ísrael.+

Neðanmáls

Eða „því að eins og maðurinn er þannig er máttur hans“.
Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.
Eða „stundaði andlegt vændi með höklinum“.
Orðrétt „lyftu ekki upp höfði“.
Eða „stunda andlegt vændi með Baölunum“.