Fimmta Mósebók 31:1–30
31 Móse fór nú út og talaði til alls Ísraels.
2 Hann sagði: „Ég er orðinn 120 ára.+ Ég get ekki lengur veitt ykkur forystu* því að Jehóva hefur sagt við mig: ‚Þú færð ekki að fara yfir Jórdan.‘+
3 Jehóva Guð ykkar fer sjálfur yfir ána á undan ykkur og hann mun eyða þessum þjóðum frammi fyrir ykkur svo að þið getið tekið land þeirra til eignar.+ Það er Jósúa sem fer fyrir ykkur yfir ána+ eins og Jehóva hefur sagt.
4 Jehóva fer með þessar þjóðir eins og hann fór með Síhon+ og Óg,+ konunga Amoríta, og land þeirra þegar hann eyddi þeim.+
5 Jehóva sigrar þær fyrir ykkur og þið skuluð fara með þær samkvæmt þeim fyrirmælum sem ég hef gefið ykkur.+
6 Verið hugrökk og sterk.+ Verið ekki hrædd og látið ekki skelfast frammi fyrir þeim+ því að Jehóva Guð ykkar fer sjálfur með ykkur. Hann mun hvorki bregðast ykkur né yfirgefa ykkur.“+
7 Móse kallaði síðan á Jósúa og sagði við hann í augsýn alls Ísraels: „Vertu hugrakkur og sterkur+ því að þú átt að leiða þetta fólk inn í landið sem Jehóva sór forfeðrum þess að gefa því, og þú skalt gefa því landið að erfðahlut.+
8 Jehóva fer sjálfur á undan þér og verður með þér.+ Hann mun hvorki bregðast þér né yfirgefa þig. Vertu ekki hræddur og láttu ekki skelfast.“+
9 Móse skráði þessi lög+ og fékk þau Levítaprestunum, sem bera sáttmálsörk Jehóva, og öllum öldungum Ísraels.
10 Hann gaf þeim eftirfarandi fyrirmæli: „Í lok sjöunda hvers árs, á tilsettum tíma á lausnarárinu,+ á laufskálahátíðinni+
11 þegar allur Ísrael gengur fram fyrir Jehóva+ Guð þinn á staðnum sem hann velur, skaltu lesa upp þessi lög í áheyrn alls Ísraels.+
12 Safnaðu fólkinu saman,+ körlum, konum, börnum og útlendingum sem búa í borgum þínum,* til að það geti hlustað, kynnst Jehóva Guði þínum betur og lært að óttast hann, og gæti þess að fylgja öllu sem stendur í lögunum.
13 Þá munu börn ykkar sem þekkja ekki lögin hlusta+ og læra að óttast Jehóva Guð ykkar svo lengi sem þið lifið í landinu sem þið haldið nú inn í yfir Jórdan til að taka til eignar.“+
14 Jehóva sagði síðan við Móse: „Nú styttist í að þú deyir.+ Kallaðu á Jósúa og gangið að* samfundatjaldinu svo að ég geti skipað hann leiðtoga.“+ Móse og Jósúa gengu þá að samfundatjaldinu.
15 Jehóva birtist við tjaldið í skýstólpanum og skýstólpinn nam staðar við tjalddyrnar.+
16 Jehóva sagði nú við Móse: „Bráðum muntu deyja* og þetta fólk á eftir að stunda andlegt vændi með útlendum guðum landsins sem það er á leið til.+ Það mun yfirgefa mig+ og rjúfa sáttmálann sem ég hef gert við það.+
17 Þá mun reiði mín blossa upp gegn fólkinu.+ Ég yfirgef það+ og hyl andlit mitt fyrir því+ þar til því hefur verið tortímt. Eftir miklar hörmungar og neyð+ mun fólkið segja: ‚Eru þessar hörmungar ekki komnar yfir okkur af því að Guð okkar er ekki á meðal okkar?‘+
18 En ég hyl andlit mitt áfram á þeim degi vegna alls þess illa sem það gerði þegar það sneri sér til annarra guða.+
19 Skrifið nú niður þetta ljóð+ og kennið Ísraelsmönnum það.+ Látið þá læra ljóðið* svo að það minni þá á viðvaranir mínar.+
20 Þegar ég leiði þá inn í landið sem ég sór forfeðrum þeirra+ – land sem flýtur í mjólk og hunangi+ – og þeir borða sig sadda og dafna*+ munu þeir snúa sér til annarra guða og þjóna þeim. Þeir munu vanvirða mig og rjúfa sáttmála minn.+
21 Þegar miklar hörmungar og neyð kemur yfir þá+ minnir þetta ljóð þá á viðvaranir mínar. (Afkomendur þeirra mega ekki gleyma því.) Ég veit nú þegar hvert hugur þeirra hneigist,+ jafnvel áður en ég leiði þá inn í landið sem ég hef lofað þeim.“
22 Móse skrifaði niður ljóðið þann dag og kenndi Ísraelsmönnum það.
23 Hann* skipaði síðan Jósúa+ Núnsson leiðtoga og sagði: „Vertu hugrakkur og sterkur+ því að þú átt að leiða Ísraelsmenn inn í landið sem ég lofaði þeim+ og ég verð með þér.“
24 Þegar Móse hafði lokið við að skrifa þessi lög í heild sinni í bók+
25 gaf hann Levítunum sem bera sáttmálsörk Jehóva þessi fyrirmæli:
26 „Takið þessa lögbók+ og leggið hana við hliðina á sáttmálsörk+ Jehóva Guðs ykkar. Hún skal vera þar til vitnis gegn ykkur.
27 Ég veit vel hve uppreisnargjörn+ og þrjósk*+ þið eruð. Þið hafið sýnt Jehóva mikinn mótþróa meðan ég hef verið með ykkur. Hvernig verðið þið þá eftir að ég er dáinn!
28 Kallið til mín alla öldunga ættkvísla ykkar og umsjónarmenn svo að þeir fái að heyra þessi orð. Ég kalla himin og jörð til vitnis gegn þeim.+
29 Ég veit vel að eftir dauða minn munuð þið gera það sem er illt+ og víkja út af veginum sem ég hef sagt ykkur að fylgja. Þið munuð upplifa hörmungar+ á komandi tímum af því að þið gerið það sem er illt í augum Jehóva og misbjóðið honum með verkum ykkar.“
30 Móse flutti síðan þetta ljóð frá upphafi til enda í áheyrn alls safnaðar Ísraels:+
Neðanmáls
^ Orðrétt „gengið út og inn“.
^ Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
^ Eða „takið ykkur stöðu við“.
^ Orðrétt „leggjast hjá feðrum þínum“.
^ Orðrétt „Leggið það þeim í munn“.
^ Orðrétt „fitna“.
^ Greinilega er átt við Guð.
^ Orðrétt „harðsvíruð“.