Önnur Mósebók 18:1–27
18 Nú frétti Jetró, presturinn í Midían, tengdafaðir Móse,+ af öllu sem Guð hafði gert fyrir Móse og fólk sitt Ísrael og hvernig Jehóva hafði leitt Ísrael út úr Egyptalandi.+
2 Jetró hafði tekið Sippóru konu Móse að sér þegar Móse sendi hana aftur heim
3 ásamt sonum þeirra tveim.+ Annar sonurinn hét Gersóm*+ því að Móse sagði: „Ég er orðinn útlendingur í framandi landi,“
4 og hinn hét Elíeser* því að Móse sagði: „Guð föður míns er hjálpari minn sem bjargaði mér undan sverði faraós.“+
5 Jetró tengdafaðir Móse kom því ásamt sonum hans og eiginkonu til hans út í óbyggðirnar þar sem hann hafði slegið upp tjöldum við fjall hins sanna Guðs.+
6 Hann lét flytja Móse þessi boð: „Ég, Jetró tengdafaðir þinn,+ er á leiðinni til þín ásamt konu þinni og báðum sonum ykkar.“
7 Móse gekk strax út á móti tengdaföður sínum, hneigði sig fyrir honum og kyssti hann. Þeir spurðu frétta hvor af öðrum og gengu síðan inn í tjaldið.
8 Móse sagði tengdaföður sínum frá öllu sem Jehóva hafði gert faraó og Egyptum vegna Ísraelsmanna,+ frá öllum erfiðleikunum sem þeir höfðu orðið fyrir á leiðinni+ og hvernig Jehóva hafði frelsað þá.
9 Jetró gladdist yfir öllu því góða sem Jehóva hafði gert fyrir Ísraelsmenn þegar hann bjargaði þeim úr höndum Egypta.
10 Jetró sagði: „Lofaður sé Jehóva sem bjargaði ykkur frá Egyptalandi og faraó og frelsaði fólkið undan kúgun Egypta.
11 Nú veit ég að Jehóva er öllum öðrum guðum meiri+ vegna þess hvernig hann fór með þá sem sýndu fólki hans hroka.“
12 Jetró tengdafaðir Móse færði Guði síðan brennifórn og aðrar fórnir, og Aron og allir öldungar Ísraels komu til að borða með honum frammi fyrir hinum sanna Guði.
13 Daginn eftir settist Móse eins og venjulega til að dæma í málum fólksins og fólkið stóð frammi fyrir honum frá morgni til kvölds.
14 Þegar tengdafaðir Móse sá allt sem hann gerði fyrir fólkið spurði hann: „Af hverju ferðu svona að? Af hverju siturðu hérna einn og lætur allt fólkið standa frammi fyrir þér frá morgni til kvölds?“
15 Móse svaraði: „Af því að fólkið kemur til mín til að leita leiðsagnar Guðs.
16 Þegar mál kemur upp er það lagt fyrir mig. Ég þarf að dæma milli manna og ég upplýsi þá um úrskurði og lög hins sanna Guðs.“+
17 Tengdafaðir Móse sagði við hann: „Þetta er ekki góð aðferð hjá þér.
18 Þetta er lýjandi bæði fyrir þig og fólkið sem er hjá þér. Þetta er allt of mikið fyrir þig. Þú ræður ekki við þetta einn.
19 Hlustaðu nú á mig. Ég ætla að gefa þér ráð og Guð verður með þér.+ Þú ert fulltrúi fólksins gagnvart hinum sanna Guði+ og þarft að leggja málin fyrir hann.+
20 Þú skalt kenna fólkinu ákvæðin og lögin,+ vísa því veginn sem það á að ganga og segja því hvað það á að gera.
21 En veldu meðal fólksins hæfa menn+ sem óttast Guð, trausta menn sem hafa óbeit á illa fengnum gróða,+ og settu þá foringja yfir þúsund manna flokkum, yfir hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna flokkum.+
22 Láttu þá dæma þegar mál koma upp* meðal fólksins. Öll erfið mál skulu þeir leggja fyrir þig+ en dæma sjálfir í öllum minni háttar málum. Gerðu þér auðveldara fyrir með því að láta þá bera byrðina með þér.+
23 Ef þú gerir þetta og það samræmist fyrirmælum Guðs tekst þér að rísa undir álaginu og allir fara ánægðir heim.“
24 Móse hlustaði á tengdaföður sinn og gerði þegar í stað eins og hann hafði sagt.
25 Hann valdi hæfa menn meðal allra Ísraelsmanna og skipaði þá foringja yfir fólkinu, yfir þúsund manna flokkum, yfir hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna flokkum.
26 Þeir dæmdu þegar mál komu upp meðal fólksins. Þeir lögðu erfið mál fyrir Móse+ en dæmdu sjálfir í öllum minni háttar málum.
27 Síðan kvaddi Móse tengdaföður sinn+ og hann hélt heim til lands síns.
Neðanmáls
^ Sem þýðir ‚útlendingur þar‘.
^ Sem þýðir ‚Guð minn er hjálpari‘.
^ Orðrétt „í hvert sinn“.