Síðari Konungabók 2:1–25
2 Þegar Jehóva ætlaði að hrífa Elía+ til himins í stormi+ voru Elía og Elísa+ að leggja af stað frá Gilgal.+
2 Elía sagði við Elísa: „Vertu kyrr hér því að Jehóva hefur sent mig til Betel.“ En Elísa svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir og þú lifir yfirgef ég þig ekki.“ Síðan fóru þeir niður til Betel.+
3 Þá komu synir spámannanna* í Betel til Elísa og sögðu við hann: „Veistu að í dag ætlar Jehóva að taka frá þér herra þinn og lærimeistara?“+ Hann svaraði: „Já, ég veit það. En tölum ekki meira um það.“
4 Elía sagði nú við hann: „Vertu kyrr hér, Elísa, því að Jehóva hefur sent mig til Jeríkó.“+ En hann svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir og þú lifir yfirgef ég þig ekki.“ Þeir komu síðan til Jeríkó.
5 Synir spámannanna sem voru í Jeríkó komu þá til Elísa og sögðu við hann: „Veistu að í dag ætlar Jehóva að taka frá þér herra þinn og lærimeistara?“ Hann svaraði: „Já, ég veit það. En tölum ekki meira um það.“
6 Elía sagði nú við hann: „Vertu kyrr hér því að Jehóva hefur sent mig til Jórdanar.“ En hann svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir og þú lifir yfirgef ég þig ekki.“ Síðan fóru þeir báðir saman.
7 Fimmtíu af sonum spámannanna fóru með þeim og fylgdust með úr nokkurri fjarlægð þegar Elía og Elísa námu staðar við Jórdan.
8 Elía tók yfirhöfn sína,*+ vafði hana saman og sló á vatnið. Þá skiptist vatnið til vinstri og hægri og báðir gengu yfir á þurru.+
9 Um leið og þeir voru komnir yfir sagði Elía við Elísa: „Segðu mér hvað ég get gert fyrir þig áður en ég verð tekinn frá þér.“ Elísa svaraði: „Viltu gefa mér tvöfaldan hlut*+ af anda þínum?“+
10 Þá sagði Elía: „Þú biður ekki um lítið. Ef þú sérð mig þegar ég verð tekinn frá þér færðu það sem þú baðst um en annars ekki.“
11 Meðan þeir voru að spjalla saman á leiðinni kom allt í einu eldvagn dreginn af eldhestum+ og skildi þá að, og Elía var hrifinn til himins í stormi.+
12 Þegar Elísa sá það hrópaði hann: „Faðir minn, faðir minn! Stríðsvagn Ísraels og riddarar hans!“+ Þegar hann sá hann ekki lengur þreif hann í fötin sín og reif þau í tvennt.+
13 Síðan tók hann upp yfirhöfn+ Elía sem hafði fallið af honum, sneri við og gekk að bökkum Jórdanar.
14 Því næst sló hann á vatnið með yfirhöfn Elía og sagði: „Hvar er Jehóva, Guð Elía?“ Þegar hann sló á vatnið skiptist það til vinstri og hægri og Elísa gekk yfir.+
15 Þegar synir spámannanna í Jeríkó sáu hann í fjarska sögðu þeir: „Andi Elía er kominn yfir Elísa.“+ Síðan fóru þeir á móti honum, féllu á grúfu frammi fyrir honum
16 og sögðu: „Hér eru 50 duglegir menn á meðal okkar. Láttu þá fara og leita að meistara þínum. Kannski hefur andi* Jehóva hrifið hann upp og varpað honum á eitthvert fjall eða í einhvern dal.“+ En hann svaraði: „Sendið þá ekki.“
17 En þeir þrýstu á hann þar til hann þoldi ekki lengur við* og sagði: „Sendið þá af stað.“ Þá sendu þeir 50 menn sem leituðu í þrjá daga en fundu hann ekki.
18 Þegar þeir komu aftur til Elísa var hann enn í Jeríkó.+ Hann sagði við þá: „Sagði ég ykkur ekki að þið ættuð ekki að fara?“
19 Nokkru síðar sögðu mennirnir í borginni við Elísa: „Eins og þú sérð, herra minn, er þessi borg á góðum stað.+ En vatnið er vont og landið ófrjósamt.“*
20 Þá sagði Elísa: „Færið mér nýja litla skál og setjið salt í hana.“ Þeir gerðu það.
21 Síðan fór hann út að vatnsuppsprettunni, kastaði salti í hana+ og sagði: „Jehóva segir: ‚Ég hef gert þetta vatn heilnæmt. Aldrei framar mun það valda dauða eða ófrjósemi.‘“*
22 Vatnið hefur verið heilnæmt fram á þennan dag eins og Elísa hafði sagt.
23 Síðan hélt hann þaðan til Betel. Þegar hann gekk eftir veginum komu ungir drengir út úr borginni og fóru að gera grín að honum.+ Þeir sögðu hvað eftir annað: „Burt með þig, skalli! Burt með þig, skalli!“
24 Loks sneri hann sér við, leit á þá og formælti þeim í nafni Jehóva. Þá komu tvær birnur+ út úr skóginum og rifu sundur 42 af drengjunum.+
25 Hann fór þaðan til Karmelfjalls+ og síðan sneri hann aftur til Samaríu.
Neðanmáls
^ „Synir spámannanna“ virðast hafa verið hópur sem fékk spámannsmenntun eða samfélag spámanna.
^ Eða „spámannsklæði sín“.
^ Eða „tvo hluta“.
^ Eða „vindur“.
^ Eða „varð vandræðalegur“.
^ Eða hugsanl. „landið veldur fósturlátum“.
^ Eða hugsanl. „fósturlátum“.