Esekíel 36:1–38

  • Spádómur um fjöll Ísraels (1–15)

  • Endurreisn Ísraels (16–38)

    • „Ég ætla að helga mitt mikla nafn“ (23)

    • „Eins og Edengarðurinn“ (35)

36  „Mannssonur, spáðu um fjöll Ísraels og segðu: ‚Fjöll Ísraels, heyrið orð Jehóva.  Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva: „Óvinirnir hafa sagt um ykkur: ‚Frábært! Við höfum jafnvel eignast hinar fornu hæðir!‘“‘+  Spáðu þess vegna og segðu: ‚Alvaldur Drottinn Jehóva segir: „Þeir hafa ráðist á ykkur úr öllum áttum og lagt ykkur í eyði með þeim afleiðingum að þeir sem eftir eru af þjóðunum eignuðust ykkur og fólk talar um ykkur og rægir.+  Fjöll Ísraels, heyrið þess vegna orð alvalds Drottins Jehóva. Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva við fjöllin og hæðirnar, við árnar og dalina, við rústirnar sem liggja í eyði+ og við yfirgefnar borgirnar sem hinir eftirlifandi af þjóðunum í kring rændu og hæddust að:+  ‚Í brennandi ákafa mínum,‘+ segir alvaldur Drottinn Jehóva, ‚tala ég gegn þeim sem eftir eru af þjóðunum og gegn öllum Edóm, þeim sem hafa með fögnuði og fyrirlitningu+ eignað sér land mitt til að ræna það og slá eign sinni á beitilöndin.‘“‘+  Spáðu þess vegna um Ísraelsland og segðu við fjöllin og hæðirnar, árnar og dalina: ‚Alvaldur Drottinn Jehóva segir: „Ég mun tala í ákafa mínum og reiði því að þið hafið mátt þola niðurlægingu af hendi þjóðanna.“‘+  Þess vegna segir alvaldur Drottinn Jehóva: ‚Ég lyfti hendi minni og sver þess eið að þjóðirnar í kring verði sjálfar niðurlægðar.+  En þið, fjöll Ísraels, munuð skjóta greinum og bera ávöxt handa þjóð minni, Ísrael,+ því að hún snýr bráðlega aftur heim.  Ég er með ykkur og sný mér að ykkur, og þið verðið ræktuð og korni sáð. 10  Ég fjölga íbúum ykkar – Ísraelsmönnum, allri þjóðinni. Búið verður í borgunum+ og rústirnar verða endurreistar.+ 11  Já, ég fjölga íbúum ykkar og skepnum,+ þeim fjölgar og þær verða frjósamar. Ég læt menn búa á ykkur eins og áður fyrr+ og ég veiti ykkur enn meiri velgengni en áður.+ Þið munuð skilja að ég er Jehóva.+ 12  Ég læt fólk mitt – þjóð mína Ísrael – ganga á ykkur og taka ykkur til eignar.+ Þið verðið erfðaland Ísraelsmanna og munuð aldrei framar gera þá barnlausa.‘“+ 13  „Alvaldur Drottinn Jehóva segir: ‚Menn segja við ykkur: „Þið eruð land sem gleypir fólk og gerir þjóðir sínar barnlausar.“‘ 14  ‚En þið fáið ekki lengur að gleypa fólk og gera þjóðir ykkar barnlausar,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva. 15  ‚Ég leyfi þjóðunum ekki að smána ykkur lengur eða fólki að hæðast að ykkur+ og þið verðið ekki framar þjóðum ykkar að falli,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva.“ 16  Orð Jehóva kom aftur til mín: 17  „Mannssonur, þegar Ísraelsmenn bjuggu í landi sínu óhreinkuðu þeir það með hátterni sínu og verkum.+ Í augum mínum var hátterni þeirra eins og óhreinleiki konu á blæðingum.+ 18  Þá jós ég reiði minni yfir þá vegna blóðsins sem þeir höfðu úthellt í landinu+ og vegna þess að þeir höfðu óhreinkað landið með viðbjóðslegum skurðgoðum* sínum.+ 19  Ég tvístraði þeim meðal þjóðanna og dreifði þeim um löndin.+ Ég dæmdi þá eftir hegðun þeirra og verkum. 20  En þegar þeir komu til þessara þjóða vanhelguðu menn heilagt nafn mitt+ með því að segja um þá: ‚Þetta er fólk Jehóva en það þurfti samt að yfirgefa land hans.‘ 21  Þess vegna ætla ég að verja heilagt nafn mitt sem Ísraelsmenn vanhelguðu meðal þjóðanna sem þeir dreifðust til.“+ 22  „Segðu því við Ísraelsmenn: ‚Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva: „Það er ekki ykkar vegna, Ísraelsmenn, sem ég læt til mín taka heldur vegna heilags nafns míns en þið vanhelguðuð það meðal þjóðanna sem þið dreifðust til.“‘+ 23  ‚Ég ætla að helga mitt mikla nafn+ sem var vanhelgað meðal þjóðanna, já, sem þið vanhelguðuð meðal þeirra. Þjóðirnar komast að raun um að ég er Jehóva,‘+ segir alvaldur Drottinn Jehóva, ‚þegar ég helga mig meðal ykkar fyrir augum þeirra. 24  Ég sæki ykkur til þjóðanna, safna ykkur saman frá öllum löndunum og flyt ykkur heim í land ykkar.+ 25  Ég sletti á ykkur hreinu vatni og þið verðið hrein.+ Ég hreinsa ykkur af öllum óhreinleika+ og öllum viðbjóðslegum skurðgoðum ykkar.+ 26  Ég gef ykkur nýtt hjarta+ og legg ykkur nýjan anda í brjóst.+ Ég fjarlægi steinhjartað+ úr ykkur og gef ykkur hjarta úr holdi.* 27  Ég legg ykkur anda minn í brjóst og læt ykkur fylgja ákvæðum mínum.+ Þið munuð halda lög mín og fara eftir þeim. 28  Þá munuð þið búa í landinu sem ég gaf forfeðrum ykkar. Þið verðið fólk mitt og ég verð Guð ykkar.‘+ 29  ‚Ég frelsa ykkur frá öllum óhreinleika ykkar og kalla á kornið svo að uppskeran verði mikil, og ég læt ekki hungursneyð koma yfir ykkur.+ 30  Ég læt trén bera mikinn ávöxt og akrana gefa vel af sér svo að hungursneyð verði ykkur aldrei framar til smánar meðal þjóðanna.+ 31  Þá minnist þið hins illa sem þið gerðuð og vondra verka ykkar. Þið fáið viðbjóð á sjálfum ykkur vegna synda ykkar og viðbjóðslegs hátternis.+ 32  En það skuluð þið vita að ég geri þetta ekki ykkar vegna,‘+ segir alvaldur Drottinn Jehóva. ‚Nei, skammist ykkar, Ísraelsmenn, og finnið til smánar vegna hegðunar ykkar.‘ 33  Alvaldur Drottinn Jehóva segir: ‚Daginn sem ég hreinsa ykkur af allri sekt ykkar læt ég borgirnar fyllast fólki+ og það sem er í rúst verður endurbyggt.+ 34  Landið sem lá autt og yfirgefið fyrir augum allra sem áttu leið hjá verður ræktað. 35  Þá segja menn: „Þetta eyðiland er orðið eins og Edengarðurinn,+ og borgirnar sem voru í rúst, mannauðar og rifnar niður eru nú víggirtar og fullar af fólki.“+ 36  Þjóðirnar sem eftir eru í kringum ykkur komast að raun um að ég, Jehóva, hef endurreist það sem var rifið niður og ræktað upp landið sem var í eyði. Ég, Jehóva, hef talað og komið því til leiðar.‘+ 37  Alvaldur Drottinn Jehóva segir: ‚Ég verð líka við bæn Ísraelsmanna um að fjölga fólkinu svo að það verði eins og sauðir í hjörð. 38  Borgirnar sem voru í rústum fyllast hjörðum fólks+ eins og hjörð heilagra, eins og sauðir fylla Jerúsalem* á hátíðunum.+ Og þeir munu skilja að ég er Jehóva.‘“

Neðanmáls

Hebreska orðið lýsir fyrirlitningu. Hugsanlegt er að það sé skylt orði sem merkir ‚mykja‘.
Það er, hjarta sem er næmt fyrir leiðsögn Guðs.
Eða hugsanl. „eins og hjörðum sauða í Jerúsalem sem komið er með til að fórna“.