Síðari Kroníkubók 9:1–31

  • Drottningin af Saba heimsækir Salómon (1–12)

  • Auðæfi Salómons (13–28)

  • Salómon deyr (29–31)

9  Drottningin af Saba+ heyrði það orð sem fór af Salómon. Hún kom því til Jerúsalem til að reyna Salómon með erfiðum spurningum.* Hún kom ásamt miklu fylgdarliði og hafði með sér úlfalda sem voru klyfjaðir balsamolíu, miklu gulli+ og eðalsteinum. Hún gekk fyrir Salómon og talaði við hann um allt sem henni var hugleikið.+  Hann svaraði öllum spurningum hennar. Ekkert vafðist fyrir* Salómon heldur gat hann útskýrt allt fyrir henni.  Þegar drottningin af Saba hafði séð visku Salómons,+ húsið sem hann hafði byggt,+  matinn á borði hans,+ sætaskipan embættismanna hans, hvernig þjónar hans þjónuðu til borðs og voru klæddir, drykkjarþjónana og klæðnað þeirra og brennifórnirnar sem hann færði stöðugt í húsi Jehóva+ varð hún agndofa af undrun.  Hún sagði við konung: „Það sem ég heyrði í landi mínu um afrek* þín og visku var satt.  En ég trúði ekki því sem ég heyrði fyrr en ég kom og sá það með eigin augum.+ Mér hafði þó ekki verið sagt frá helmingnum af þinni miklu visku.+ Þú ert miklu meiri en orðrómurinn sem ég hafði heyrt.+  Menn þínir og þjónar eru lánsamir að vera alltaf hjá þér og heyra visku þína.  Lofaður sé Jehóva Guð þinn! Hann hafði velþóknun á þér og setti þig í hásæti sitt sem konung Jehóva Guðs þíns. Guð þinn elskar Ísraelsþjóðina+ og vill að hún vari að eilífu. Þess vegna gerði hann þig að konungi yfir henni til að tryggja rétt og réttlæti.“  Síðan gaf hún konungi 120 talentur* af gulli,+ afar mikið af balsamolíu og eðalsteina. Aldrei framar kom önnur eins balsamolía og drottningin af Saba gaf Salómon konungi.+ 10  Þjónar Hírams og Salómons sem fluttu gull frá Ófír+ komu einnig með algúmmímvið og eðalsteina.+ 11  Úr algúmmímviðnum gerði konungur stiga fyrir hús Jehóva+ og konungshöllina+ og einnig hörpur og önnur strengjahljóðfæri handa söngvurunum.+ Ekkert þessu líkt hafði áður sést í Júdalandi. 12  Salómon konungur gaf drottningunni af Saba allt sem hún óskaði sér og bað um, meira en* hún hafði fært honum. Síðan sneri hún aftur heim til lands síns ásamt þjónum sínum.+ 13  Gullið sem Salómon fékk á hverju ári vó 666 talentur.+ 14  Auk þess bárust honum vörur frá kaupmönnum og verslunarmönnum og gull og silfur frá öllum konungum Araba og héraðsstjórum landsins.+ 15  Salómon konungur gerði 200 stóra skildi úr gullblendi,+ en 600 siklar* af gullblendi fóru í hvern skjöld.+ 16  Hann gerði einnig 300 litla skildi* úr gullblendi, en þrjár mínur* af gulli fóru í hvern þeirra. Konungur kom þeim síðan fyrir í Líbanonsskógarhúsinu.+ 17  Konungur gerði einnig stórt hásæti úr fílabeini og lagði það hreinu gulli.+ 18  Sex þrep voru upp að hásætinu og fótskemill úr gulli var festur við það. Sætisarmar voru báðum megin á hásætinu og ljón+ stóð við hvorn þeirra. 19  Á þrepunum sex stóðu 12 ljón,+ sex hvorum megin. Ekkert þessu líkt hafði verið gert í nokkru öðru ríki. 20  Öll drykkjarílát Salómons konungs voru úr gulli og allur borðbúnaður í Líbanonsskógarhúsinu var úr hreinu gulli. Ekkert var úr silfri því að silfur var einskis metið á dögum Salómons+ 21  enda sigldu skip konungs til Tarsis+ með þjóna Hírams um borð.+ Þriðja hvert ár komu Tarsisskipin hlaðin silfri og gulli, fílabeini,+ öpum og páfuglum. 22  Salómon konungur var ríkari og vitrari en allir aðrir konungar jarðar.+ 23  Konungar alls staðar að úr heiminum leituðu til Salómons til að heyra þá visku sem hinn sanni Guð hafði lagt í hjarta hans.+ 24  Þeir komu allir með gjafir ár eftir ár: silfur- og gullgripi, fatnað,+ vopn, balsamolíu, hesta og múldýr. 25  Salómon hafði 4.000 bása fyrir hesta sína og vagna og átti 12.000 hesta.*+ Hann geymdi þá í vagnaborgunum og hjá sér í Jerúsalem.+ 26  Hann ríkti yfir öllum konungum frá Fljótinu* til lands Filistea og að landamærum Egyptalands.+ 27  Konungur gerði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins algengan og mórfíkjutrén í Sefela.+ 28  Hestar voru fluttir inn frá Egyptalandi+ og alls staðar að úr heiminum handa Salómon. 29  Það sem er ósagt af sögu Salómons+ frá upphafi til enda er skráð í frásögn Natans+ spámanns, í spádómi Ahía+ frá Síló og í sýnum Iddós+ sjáanda um Jeróbóam+ Nebatsson. 30  Salómon ríkti í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í 40 ár. 31  Síðan var Salómon lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum. Hann var jarðaður í borg Davíðs föður síns+ og Rehabeam sonur hans varð konungur eftir hann.+

Neðanmáls

Eða „með gátum“.
Orðrétt „Ekkert var hulið“.
Eða „orð“.
Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.
Eða hugsanl. „auk gjafa að jafnvirði þess sem“.
Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.
Eða „buklara“. Buklari var lítill skjöldur, gjarnan borinn af bogaskyttum.
Mína í Hebresku ritningunum jafngilti 570 g. Sjá viðauka B14.
Eða „riddara“.
Það er, Efrat.