Fyrsta Mósebók 12:1–20

  • Abram flyst frá Haran til Kanaanslands (1–9)

    • Loforð Guðs við Abram (7)

  • Abram og Saraí í Egyptalandi (10–20)

12  Jehóva sagði við Abram: „Yfirgefðu land þitt og ættingja og hús föður þíns og farðu til landsins sem ég vísa þér á.+  Ég geri þig að mikilli þjóð og blessa þig. Ég geri nafn þitt mikið og þú verður öðrum til blessunar.+  Ég blessa þá sem blessa þig og bölva þeim sem bölvar þér.+ Allar ættir jarðar munu hljóta blessun* vegna þín.“+  Þá lagði Abram af stað eins og Jehóva hafði sagt honum að gera og Lot fór með honum. Abram var 75 ára þegar hann fór frá Haran.+  Hann lagði af stað til Kanaanslands+ og tók Saraí konu sína+ og Lot bróðurson sinn+ með sér ásamt öllu sem þau höfðu eignast+ og öllu vinnufólkinu sem þau höfðu aflað sér í Haran. Loks komu þau til Kanaanslands.  Abram fór nú um landið, allt þar til hann kom til Síkem+ í grennd við stóru trén í Móre.+ Þá bjuggu Kanverjar í landinu.  Nú birtist Jehóva Abram og sagði: „Ég ætla að gefa afkomendum þínum+ þetta land.“+ Þá reisti Abram Jehóva altari þar sem hann hafði birst honum.  Seinna flutti hann sig þaðan til fjallanna fyrir austan Betel+ og sló þar upp tjaldi sínu með Betel í vestur og Aí+ í austur. Þar reisti hann Jehóva altari+ og ákallaði nafn Jehóva.+  Abram tók sig síðan upp og færði búðir sínar smám saman í átt að Negeb.+ 10  Nú varð hungursneyð í landinu. Abram fór þá til Egyptalands til að búa þar um tíma*+ því að hungursneyðin var mjög mikil.+ 11  Þegar hann nálgaðist Egyptaland sagði hann við konu sína: „Saraí, hlustaðu á mig. Ég veit hversu falleg þú ert.+ 12  Þegar Egyptar sjá þig segja þeir: ‚Þetta er eiginkona hans,‘ og drepa mig en láta þig halda lífi. 13  Segðu að þú sért systir mín svo að þeir sýni mér velvild þín vegna og þyrmi lífi mínu.“*+ 14  Þegar Abram kom til Egyptalands sáu Egyptar að konan var mjög falleg. 15  Höfðingjar faraós tóku líka eftir henni. Þeir sögðu faraó hversu falleg konan væri, og farið var með hana í hús faraós. 16  Faraó sýndi Abram góðvild vegna hennar og Abram eignaðist sauðfé og nautgripi, asna og ösnur, þjóna og þjónustustúlkur og úlfalda.+ 17  En Jehóva lagði miklar plágur á faraó og heimilisfólk hans vegna Saraí konu Abrams.+ 18  Faraó kallaði þá Abram á sinn fund og sagði: „Hvað hefurðu gert mér? Af hverju sagðirðu mér ekki að hún væri konan þín? 19  Hvers vegna sagðirðu: ‚Hún er systir mín‘?+ Litlu munaði að ég tæki hana mér fyrir konu! Hérna er konan þín, taktu hana og farðu!“ 20  Faraó gaf mönnum sínum fyrirmæli og þeir fylgdu Abram og konu hans burt ásamt öllu sem hann átti.+

Neðanmáls

Eða „afla sér blessunar“.
Eða „búa þar sem útlendingur“.
Eða „og sál mín haldi lífi“.