19. KAFLI
Byggingarstörf sem eru Jehóva til heiðurs
1, 2. (a) Hvað hefur löngum veitt þjónum Jehóva ánægju? (b) Hvað metur Jehóva mest?
DYGGIR þjónar Jehóva hafa löngum haft ánægju af því að byggja, honum og nafni hans til heiðurs. Til dæmis lögðu Ísraelsmenn sig alla fram við að gera tjaldbúðina og gáfu efniviðinn í hana af miklu örlæti. – 2. Mós. 35:30-35; 36:1, 4-7.
2 Í augum Jehóva eru það ekki fyrst og fremst byggingarefnin sem heiðra hann. Það er annað sem er miklu verðmætara í augum hans. (Matt. 23:16, 17) Það sem Jehóva metur mest, sú gjöf sem er honum til heiðurs umfram allt annað, er tilbeiðsla þjóna hans, þar á meðal fúsleiki þeirra og kostgæfni. (2. Mós. 35:21; Mark. 12:41-44; 1. Tím. 6:17-19) Það skiptir miklu máli. Hvers vegna? Vegna þess að byggingar koma og fara. Tjaldbúðin og musterið eru löngu horfin. En þó að byggingarnar séu horfnar hefur Jehóva ekki gleymt örlæti og erfiði dyggra þjóna sinna sem studdu gerð þeirra. – Lestu 1. Korintubréf 15:58; Hebreabréfið 6:10.
3. Um hvað er rætt í þessum kafla?
3 Þjónar Jehóva á okkar dögum hafa líka lagt hart að sér við að byggja hús til tilbeiðslu. Og það er ekki lítið sem við höfum áorkað undir handleiðslu konungsins Jesú Krists. Jehóva hefur greinilega blessað erfiði okkar. (Sálm. 127:1) Í þessum kafla ræðum við um örlítið brot af því sem gert hefur verið og skoðum hvernig það hefur verið Jehóva til heiðurs. Við kynnumst líka nokkrum þjónum hans sem hafa tekið þátt í þessu verki.
Bygging ríkissala
4. (a) Hvers vegna þurfum við fleiri samkomuhús? (b) Hvers vegna hafa allmargar deildarskrifstofur verið sameinaðar? (Sjá greinina „ Deildarskrifstofur byggðar – viðbrögð við breytilegum þörfum“.)
4 Eins og rætt var í 16. kafla ætlast Jehóva til þess að við söfnumst saman til að tilbiðja hann. (Hebr. 10:25) Samkomurnar styrkja bæði trú okkar og glæða áhugann á boðuninni. Jehóva heldur áfram að hraða boðuninni eftir því sem líður á síðustu daga. Það hefur þau áhrif að hundruð þúsunda manna streyma til safnaðar hans á hverju ári. (Jes. 60:22) Eftir því sem þegnum Guðsríkis fjölgar þarf aðstöðu til að prenta meira af biblíutengdum ritum. Okkur vantar líka fleiri samkomustaði.
5. Hvers vegna er heitið ríkissalur viðeigandi? (Sjá einnig greinina „ Kirkja nýja ljóssins“.)
5 Biblíunemendurnir áttuðu sig snemma á því að þeir þyrftu að eiga húsnæði til að halda samkomur. Eitt af fyrstu samkomuhúsunum virðist hafa verið byggt í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum árið 1890. Um 1930 voru þjónar Jehóva búnir að byggja eða gera upp allmarga samkomusali en þeim hafði ekki verið gefið neitt ákveðið nafn. Árið 1935 kom bróðir Rutherford til Hawaii. Þar var verið að byggja samkomuhús áfast nýrri deildarskrifstofu. Rutherford var spurður hvað ætti að kalla húsið og hann svaraði: „Finnst ykkur ekki að við eigum að kalla það ‚ríkissal‘ því að það er það sem við gerum, að boða fagnaðarerindið um ríkið?“ (Matt. 24:14) Þetta nafn var vel við hæfi, og í framhaldinu voru flestir samkomustaðir, sem söfnuðir þjóna Jehóva notuðu út um allan heim, nefndir þessu nafni.
6, 7. Hvaða áhrif hefur það haft á fólk að sjá votta Jehóva reisa ríkissali á fáeinum dögum?
6 Um 1970 var ört vaxandi þörf fyrir fleiri ríkissali. Bræður í Bandaríkjunum tóku þá að þróa aðferð til að byggja smekklega og hentuga ríkissali á örfáum dögum. Árið 1983 var búið að reisa um 200 ríkissali af því tagi í Bandaríkjunum og Kanada. Til að greiða fyrir þessum framkvæmdum tóku bræðurnir að mynda svæðisbyggingarnefndir. Þessi skipan mála reyndist svo vel að árið 1986 ákvað hið stjórnandi ráð að festa hana í sessi. Árið 1987 voru starfandi 60 slíkar nefndir í Bandaríkjunum. a Árið 1992 var einnig búið að skipa svæðisbyggingarnefndir víða um lönd, meðal annars í Argentínu, Ástralíu, Brasilíu, Frakklandi, Japan, Mexíkó, Noregi, Suður-Afríku, Svíþjóð, Spáni og Þýskalandi. Bræður okkar og systur, sem leggja mikið á sig við að byggja ríkissali og mótshallir, eiga stuðning okkar skilinn því að starf þeirra er heilög þjónusta.
7 Margir hafa fylgst með vottum Jehóva byggja ríkissali á nokkrum dögum og fengið mjög jákvæða mynd af söfnuðinum. Sem dæmi má nefna að dagblað á Spáni birti frétt með fyrirsögninni „Trú flytur fjöll“. Blaðið greindi frá byggingu slíks ríkissalar í bænum Martos og sagði: „Við búum í heimi sem byggist á eigingirni. Hvernig stendur þá á því að sjálfboðaliðar frá ýmsum héruðum [Spánar] skuli sýna þá óeigingirni að ferðast til Martos til að reisa hús sem slær öll met hvað varðar byggingarhraða, vandvirkni og skipulagningu?“ Blaðið svaraði spurningunni með því að vitna í orð eins af sjálfboðaliðunum: „Þetta er hægt vegna þess að við erum fólk sem Jehóva kennir.“
Byggt í löndum með takmörkuð fjárráð
8. Hvaða áætlun setti hið stjórnandi ráð af stað árið 1999 og hvers vegna?
8 Undir lok 20. aldar streymdi fólk inn í söfnuð Jehóva í löndum þar sem bræður og systur hafa takmörkuð fjárráð. Söfnuðirnir í þessum löndum gerðu það sem þeir gátu til að byggja sér samkomuhús. En sums staðar var hæðst að þeim og þeir sættu fordómum vegna þess að ríkissalirnir voru ósköp frumstæðir í samanburði við húsakost annarra trúfélaga. Árið 1999 samþykkti hið stjórnandi ráð áætlun um að hraða byggingu ríkissala í þróunarlöndunum. Efnaðri lönd létu í té fjármagn þannig að „jöfnuður“ gæti orðið. (Lestu 2. Korintubréf 8:13-15.) Bræður og systur frá öðrum löndum buðu einnig fram krafta sína til að hjálpa við framkvæmdirnar.
9. Hvað virtist næstum óvinnandi vegur en hvað tókst samt að gera?
9 Í fyrstu virtist þetta næstum óvinnandi vegur. Í greinargerð frá 2001 kemur fram að þá hafi vantað 18.300 ríkissali í 88 þróunarlöndum. En ekkert er ógerlegt þar sem andi Guðs og stuðningur konungsins Jesú Krists er að verki. (Matt. 19:26) Á 15 árum, frá 1999 til 2013, voru þjónar Guðs búnir að byggja 26.849 ríkissali samkvæmt þessari áætlun. b Jehóva hefur blessað boðunina þannig að árið 2013 vantaði enn um 6.500 ríkissali í þessum löndum, og á hverju ári skapast þörf fyrir hundruð ríkissala til viðbótar.
10-12. Hvernig hefur bygging ríkissala verið nafni Jehóva til heiðurs?
10 Hvernig hefur bygging þessara nýju ríkissala verið nafni Jehóva til heiðurs? Í greinargerð frá deildarskrifstofunni í Simbabve segir: „Aðsóknin að samkomum tvöfaldast yfirleitt á einum mánuði eftir að nýr ríkissalur er byggður.“ Víða um lönd virðist fólk vera tregt til að sækja samkomur þangað til við höfum yfir að ráða viðeigandi húsnæði til að tilbiðja Guð. En eftir að ríkissalur hefur verið reistur er hann fljótur að fyllast og þá vantar annan ríkissal í viðbót. Það er þó ekki bara húsið sjálft sem laðar fólk að Jehóva. Ósvikinn kærleikur þeirra sem reisa húsin hefur líka áhrif á afstöðu fólks til safnaðarins. Lítum á nokkur dæmi.
11 Indónesía. Maður nokkur hafði verið að horfa á hóp votta byggja ríkissal. Þegar hann komst að raun um að allir voru sjálfboðaliðar sagði hann: „Þið eruð alveg ótrúleg! Ég sé að þið vinnið öll af heilum hug og hafið ánægju af, jafnvel þó að þið fáið ekkert borgað. Ég held að það sé ekki til neinn söfnuður sem líkist ykkur.“
12 Úkraína. Kona hafði gengið daglega fram hjá ríkissal sem var í byggingu. Hún komst að þeirri niðurstöðu að byggingarmennirnir hlytu að vera vottar Jehóva og það væri verið að reisa ríkissal. Hún sagði: „Systir mín, sem er orðin vottur Jehóva, sagði mér frá söfnuðinum. Þegar ég horfði á ykkur byggja ákvað ég að ég vildi líka tilheyra þessari andlegu fjölskyldu. Ég hef séð kærleikann í verki.“ Konan þáði biblíunámskeið og lét skírast árið 2010.
13, 14. (a) Hvað getum við lært af viðbrögðum hjóna sem fylgdust með byggingu ríkissalar? (b) Hvernig geturðu tryggt að húsið, þar sem þú tilbiður Jehóva, sé nafni hans til heiðurs?
13 Argentína. Hjón nokkur komu að máli við bróður sem hafði umsjón með byggingu ríkissalar. Maðurinn sagði: „Við höfum fylgst mjög náið með byggingarstörfum ykkar og ... við höfum ákveðið að við viljum fá að fræðast um Guð í þessu húsi.“ Síðan spurði hann: „Hvað þurfum við að gera til að fá að sækja samkomur hérna?“ Hjónin þáðu biblíunámskeið en með því skilyrði að öll fjölskyldan mætti vera viðstödd. Bræðurnir féllust fúslega á það skilyrði.
14 Það er ekki víst að þú hafir haft tækifæri til að aðstoða við að byggja ríkissalinn þar sem þú sækir samkomur. Þú getur samt sem áður lagt þitt af mörkum til að húsið, þar sem þú tilbiður Jehóva, sé nafni hans til heiðurs. Þú getur til dæmis verið duglegur að bjóða biblíunemendum þínum, áhugasömum á starfssvæðinu og öðrum að sækja samkomur með þér. Þú hefur líka tækifæri til að taka þátt í ræstingu og viðhaldi ríkissalarins. Með því að vera útsjónarsamur geturðu ef til vill lagt eitthvað af mörkum til að standa straum af rekstri ríkissalarins eða til að kosta byggingu ríkissala annars staðar í heiminum. (Lestu 1. Korintubréf 16:2.) Allt sem við gerum á þessu sviði er nafni Jehóva til vegsemdar.
Verkamenn sem ‚koma fúslega‘
15-17. (a) Hverjir vinna stóran hluta byggingarvinnunnar? (b) Hvað má læra af ummælum hjónanna sem hafa unnið við alþjóðlegar byggingarframkvæmdir?
15 Heimamenn leggja af mörkum stóran hluta vinnunnar sem fer í að byggja ríkissali, mótshallir og deildarskrifstofur. En oft njóta þeir aðstoðar bræðra og systra frá öðrum löndum sem hafa reynslu af byggingarframkvæmdum. Sumir þessara sjálfboðaliða hafa hagað málum sínum þannig að þeir geti unnið við alþjóðleg verkefni um nokkurra vikna skeið. Aðrir hafa boðið sig fram til að vinna að slíkum verkefnum árum saman, og flytja sig þá milli staða eftir því sem óskað er.
16 Það fylgja því ýmsar áskoranir að vinna við byggingarstörf á alþjóðavettvangi en það er líka mjög gefandi. Timo og Lina hafa ferðast til landa í Asíu, Evrópu og Suður-Ameríku til að byggja ríkissali, mótshallir og deildarskrifstofur. „Ég hef að meðaltali fengið nýtt verkefni á tveggja ára fresti síðastliðin 30 ár,“ segir Timo. Þau Lina giftust fyrir 25 árum. Hún segir: „Ég hef starfað með Timo í tíu löndum. Það kostar töluverðan tíma og orku að laga sig að nýju mataræði, nýju loftslagi og nýju tungumáli, og að aðlagast nýju boðunarsvæði og eignast nýja vini.“ c Hefur það verið erfiðisins virði? „Þó að þetta hafi reynt á höfum við hlotið ríkulega blessun fyrir,“ segir Lina. „Við höfum notið kærleika og gestrisni trúsystkina og fundið fyrir kærleika og umhyggju Jehóva. Við höfum séð loforð Jesú rætast sem hann gaf lærisveinunum í Markúsi 10:29, 30. Við höfum eignast bræður, systur og mæður í trúnni hundraðfalt.“ Timo bætir við: „Við höfum ómælda ánægju af því að nota kunnáttu okkar í göfugasta tilgangi sem hægt er, því að eiga þátt í að bæta við eignir konungsins.“
17 Darren og Sarah hafa aðstoðað við byggingarframkvæmdir í Afríku, Asíu, Evrópu, Mið- og Suður-Ameríku og á Suður-Kyrrahafi. Þeim finnst þau hafa fengið meira til baka en þau hafa gefið. Þrátt fyrir margs konar áskoranir segir Darren: „Það hefur verið sérlega ánægjulegt að vinna með bræðrum úr ýmsum heimshornum. Ég hef séð að kærleikur okkar til Jehóva er eins og þráður sem tengir okkur öll saman hvar sem við búum á jörðinni.“ Sarah segir: „Ég hef lært ósköpin öll af bræðrum og systrum í ólíkum menningarheimum. Þegar ég sé hvaða fórnir þau færa til að þjóna Jehóva langar mig til að halda áfram að gefa það besta sem ég get.“
18. Hvernig er spádómurinn í Sálmi 110:1-3 að rætast?
18 Davíð konungur spáði að þegnar Guðsríkis myndu bjóða sig fúslega fram til að þjóna hagsmunum þess þrátt fyrir ýmsar áskoranir. (Lestu Sálm 110:1-3.) Allir sem styðja ríki Guðs með störfum sínum eiga þátt í að uppfylla þessi spádómlegu orð. (1. Kor. 3:9) Tugir deildarskrifstofa, hundruð mótshalla og tugþúsundir ríkissala um heim allan eru áþreifanleg sönnun þess að ríki Guðs sé raunverulegt og sé við völd. Það er mikill heiður að mega þjóna konunginum Jesú Kristi með því að taka þátt í verki sem er Jehóva til vegsemdar. Og það er vegsemd sem hann verðskuldar ríkulega.
a Árið 2013 höfðu rúmlega 230.000 sjálfboðaliðar leyfi til að starfa með 132 svæðisbyggingarnefndum í Bandaríkjunum. Þar í landi sáu nefndirnar um byggingu hér um bil 75 nýrra ríkissala á ári og aðstoðuðu við að gera upp eða lagfæra um 900 ríkissali.
b Í þessari tölu eru ekki meðtaldir allir þeir ríkissalir sem voru byggðir í löndum sem þessi áætlun nær ekki til.
c Alþjóðlegir byggingarstarfsmenn og sjálfboðaliðar nota krafta sína að mestu leyti á byggingarsvæðinu en styðja líka söfnuðina á staðnum við boðunina um helgar eða á kvöldin.