Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

28. KAFLI

„Þú einn ert trúr“

„Þú einn ert trúr“

1, 2. Hvers vegna má segja að Davíð konungur hafi kynnst ótryggð af eigin raun?

 DAVÍÐ konungur hafði kynnst ótryggð af eigin raun enda var óróatími á stjórnartíð hans og landar hans sátu jafnvel á svikráðum við hann. Og sumir þeirra sem sviku Davíð hefðu átt að vera nánustu vinir hans. Míkal, fyrsta eiginkona hans, er dæmi um það. Hún „var ástfangin af Davíð“ í fyrstu og studdi hann eflaust við konungleg skyldustörf hans. En síðar ‚fyrirleit hún hann í hjarta sínu‘ og fannst hann vera ‚eins og vitleysingur‘. – 1. Samúelsbók 18:20; 2. Samúelsbók 6:16, 20.

2 Þá er að nefna Akítófel sem var einkaráðgjafi Davíðs. Ráð hans voru talin svo góð og gild sem kæmu þau beint frá Jehóva. (2. Samúelsbók 16:23) En um síðir gerðist þessi trúnaðarvinur svikari og studdi skipulagða uppreisn gegn Davíð. Og hvatamaður samsærisins var enginn annar en Absalon, sonur Davíðs! Absalon var slóttugur tækifærissinni sem ‚stal hjörtum Ísraelsmanna‘. Hann skipaði sjálfan sig konung gegn föður sínum og fékk svo marga til liðs við sig í uppreisninni að Davíð var tilneyddur til að leggja á flótta til að bjarga lífi sínu. – 2. Samúelsbók 15:1–6, 12–17.

3. Hverju treysti Davíð?

3 Var þá enginn sem sýndi Davíð trúfesti? Jú, í öllu andstreyminu vissi Davíð að einn var honum trúr. Hver var það? Enginn annar en Jehóva Guð. Davíð ávarpaði hann og sagði: „Þú ert trúr hinum trúfasta.“ (2. Samúelsbók 22:26) Hvað er trúfesti og hvernig er Jehóva háleitasta dæmið um hana?

Hvað er trúfesti?

4, 5. (a) Hvað er trúfesti? (b) Hvaða munur er á trúfesti viti borinnar veru og áreiðanleika lífvana hlutar?

4 Orðið „trúfesti“ er notað í Hebresku ritningunum í merkingunni góðvild sem binst einhverju með ástúð uns markmiðinu með því er náð. Trúfastur maður er kærleiksríkur. a Það er athyglisvert að sálmaskáldið talar um að tunglið sé „trúfast vitni á himnum“ sökum þess hve reglulega það sést á næturhimni. (Sálmur 89:37) Í þeim skilningi má segja að tunglið sé áreiðanlegt. En tunglið getur ekki verið trúfast á sama hátt og fólk vegna þess að trúfesti er sprottin af kærleika sem lífvana hlutir geta auðvitað ekki sýnt.

Tunglið er kallað trúfast vitni en það þarf vitibornar, lifandi verur til að endurspegla trúfesti Jehóva.

5 Trúfesti, eins og Biblían skilgreinir hana, er hlýleg, og hún vitnar um sterkt samband milli þess sem sýnir hana og þess sem er þiggjandi hennar. Trúfesti er ekki hverflynd. Hún er ekki eins og öldur sjávarins sem hrekjast undan síbreytilegum vindum. Trúfesti, eða tryggur kærleikur, er nógu sterk og stöðug til að yfirstíga erfiðustu hindranir.

6. (a) Hversu fágæt er trúfesti meðal manna og hvernig kemur það fram í Biblíunni? (b) Hver er besta leiðin til að kynna sér hvað trúfesti er og hvers vegna?

6 Trúfesti er að vísu fágæt nú á dögum. Því miður eru til vinir sem „hika ekki við að gera hver öðrum mein“ og það verður æ algengara að fólk yfirgefi maka sinn. (Orðskviðirnir 18:24; Malakí 2:14–16) Sviksemi er svo algeng að við getum ekki annað en tekið undir með Míka spámanni er hann sagði: „Hinn trúfasti er horfinn af jörðinni.“ (Míka 7:2) En Jehóva er með afbrigðum trúfastur þó að oft vanti á trúfesti mannanna. Besta leiðin til að glöggva sig á því hvað er trúfesti er reyndar sú að rannsaka hvernig Jehóva sýnir þennan sterka þátt í kærleika sínum.

Óviðjafnanleg trúfesti Jehóva

7, 8. Hvers vegna er hægt að segja að Jehóva einn sé trúfastur?

7 „Þú einn ert trúr,“ segir Biblían um Jehóva. (Opinberunarbókin 15:4) Hvernig má það vera? Hafa ekki bæði menn og englar sýnt einstaka trúfesti á stundum? (Jobsbók 1:1; Opinberunarbókin 4:8) Og hvað um Jesú Krist? Er hann ekki öðrum fremur „trúr þjónn“ Guðs? (Sálmur 16:10) Hvernig er þá hægt að segja að Jehóva einn sé trúr?

8 Í fyrsta lagi skulum við hafa hugfast að trúfesti er ein birtingarmynd kærleikans. Þar sem „Guð er kærleikur“ – sjálfur persónugervingur kærleikans – má ljóst vera að enginn getur sýnt hollustu til jafns við hann. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Englar og menn geta vissulega endurspeglað eiginleika hans en hann einn er trúfastur í fyllstu merkingu orðsins. Þar eð hann er „Hinn aldni“ hefur hann sýnt trúfesti lengur en nokkur annar á himni eða jörð. (Daníel 7:9) Jehóva er því ímynd trúfestinnar. Enginn getur sýnt hana í sama mæli og hann. Lítum á nokkur dæmi.

9. Hvernig er Jehóva „trúfastur í öllu sem hann gerir“?

9 Jehóva er „trúfastur í öllu sem hann gerir“. (Sálmur 145:17) Hvernig þá? Sálmur 136 svarar því. Þar eru nefnd mörg dæmi um það hvernig Jehóva bjargaði Ísraelsmönnum, meðal annars þegar hann bjargaði þeim með stórbrotnum hætti gegnum Rauðahafið. Í áhersluskyni lýkur öllum versunum með setningunni: „Tryggur kærleikur hans varir að eilífu.“ Þessi sálmur er nefndur í rammanum „ Til íhugunar“ á blaðsíðu 289. Þegar maður les þessi vers er ekki hægt annað en dást að því hvernig Jehóva sýndi þjóð sinni tryggan kærleika með margvíslegum hætti. Já, Jehóva er trúum þjónum sínum trúr með því að heyra áköll þeirra og láta til sín taka þegar það er tímabært. (Sálmur 34:6) Tryggur kærleikur hans til þjóna sinna bregst ekki, svo framarlega sem þeir eru honum trúir.

10. Hvernig er Jehóva trúr reglum sínum?

10 Jehóva sýnir þjónum sínum enn fremur trúfesti með því að vera trúr sínum eigin reglum. Jehóva er ekki eins og hvikulir menn sem láta stjórnast af tilfinningum og duttlungum. Hann er aldrei á báðum áttum um hvað sé rétt og hvað sé rangt. Afstaða hans til dulspeki, skurðgoðadýrkunar og morðs hefur verið óbreytt frá ómunatíð, svo dæmi sé tekið. „Ég verð enn hinn sami þegar þið verðið gömul,“ sagði hann fyrir munn spámannsins Jesaja. (Jesaja 46:4) Við getum því treyst að það sé okkur til góðs að fara eftir hinum skýru siðferðisleiðbeiningum sem er að finna í orði Guðs. – Jesaja 48:17–19.

11. Nefndu dæmi til að sýna fram á að Jehóva stendur við orð sín.

11 Jehóva sýnir einnig trúfesti með því að halda alltaf loforð sín. Allt sem hann segir fyrir rætist. Því sagði hann: „Orðið sem kemur af munni mínum … snýr ekki aftur til mín án þess að bera árangur heldur kemur til leiðar öllu sem ég vil og áorkar því sem ég ætlast til.“ (Jesaja 55:11) Jehóva er þjónum sínum trúr með því að standa við orð sín. Hann lætur þá ekki bíða í ofvæni eftir einhverju sem hann ætlar sér ekki að gera. Hann er svo óaðfinnanlegur í þessu efni að Jósúa, þjónn hans, gat sagt: „Ekkert brást af öllum þeim góðu loforðum sem Jehóva hafði gefið Ísraelsmönnum – þau rættust öll.“ (Jósúabók 21:45) Við getum því treyst að Jehóva veldur okkur aldrei vonbrigðum með því að uppfylla ekki það sem hann lofar. – Jesaja 49:23; Rómverjabréfið 5:5.

12, 13. Hvernig varir tryggur kærleikur Jehóva að eilífu?

12 Tryggur kærleikur Jehóva „varir að eilífu“ eins og áður er nefnt. (Sálmur 136:1) Hvernig þá? Meðal annars þannig að syndafyrirgefning hans er varanleg. Eins og um var rætt í 26. kafla dregur Jehóva ekki fram gamlar ávirðingar sem hann var búinn að fyrirgefa. Þar eð „allir hafa syndgað og enginn nær að endurspegla dýrð Guðs“ ættum við öll að vera þakklát fyrir að tryggur kærleikur hans skuli vara að eilífu. – Rómverjabréfið 3:23.

13 En tryggur kærleikur Jehóva varir líka að eilífu í öðrum skilningi. Orð hans segir að réttlátur maður verði „eins og tré gróðursett hjá lækjum. Það ber ávöxt á réttum tíma og lauf þess visna ekki. Allt sem hann gerir tekst vel.“ (Sálmur 1:3) Hugsaðu þér gróskumikið tré með laufskrúði sem visnar aldrei. Ef við höfum yndi af orði Guðs verðum við sömuleiðis langlíf og njótum friðar og farsældar. Blessunin, sem Jehóva gefur trúföstum þjónum sínum, er eilíf. Hlýðið mannkyn fær að njóta tryggs kærleiks Jehóva að eilífu í réttlátum nýjum heimi hans. – Opinberunarbókin 21:3, 4.

Jehóva „yfirgefur ekki sína trúu“

14. Hvernig sýnir Jehóva að hann kann að meta trúfesti þjóna sinna?

14 Jehóva hefur margsannað trúfesti sína. Hann er sjálfum sér samkvæmur þannig að trúfesti hans við dygga þjóna sína dvínar aldrei. Sálmaritarinn orti: „Eitt sinn var ég ungur og nú er ég gamall en aldrei hef ég séð réttlátan mann yfirgefinn né börn hans leita sér matar. Því að Jehóva elskar réttlæti og yfirgefur ekki sína trúu.“ (Sálmur 37:25, 28) Vissulega verðskuldar Jehóva tilbeiðslu okkar því að hann er skapari allra hluta. (Opinberunarbókin 4:11) Engu að síður þykir honum mjög vænt um trúföst verk okkar vegna þess að hann er trúfastur. – Malakí 3:16, 17.

15. Hvernig vitna samskipti Jehóva við Ísrael um hollustu hans?

15 Í tryggum kærleika sínum hjálpar Jehóva fólki sínu æ ofan í æ þegar það lendir í nauðum. „Hann verndar líf sinna trúföstu, hann bjargar þeim úr hendi hinna illu,“ segir sálmaskáldið. (Sálmur 97:10) Lítum á samskipti hans við Ísraelsmenn sem dæmi. Eftir að hann vann það kraftaverk að bjarga þjóðinni gegnum Rauðahafið ávarpaði þjóðin hann í söng: „Í tryggum kærleika þínum leiddirðu fólkið sem þú leystir.“ (2. Mósebók 15:13) Frelsunin við Rauðahafið var vissulega verk sem vitnaði um tryggan kærleika Jehóva. Þess vegna sagði Móse Ísraelsmönnum: „Það var ekki af því að þið væruð fjölmennust allra þjóða að Jehóva sýndi ykkur ástúð og valdi ykkur, því að þið voruð fámennust allra þjóða. En Jehóva elskaði ykkur og hélt eiðinn sem hann hafði svarið forfeðrum ykkar. Það var þess vegna sem Jehóva leiddi ykkur burt með sterkri hendi til að leysa ykkur úr þrælahúsinu, undan valdi faraós Egyptalandskonungs.“ – 5. Mósebók 7:7, 8.

16, 17. (a) Hvers konar vanþakklæti sýndu Ísraelsmenn en hvernig sýndi Jehóva þeim umhyggju? (b) Hvernig sýndu flestir Ísraelsmenn að ‚ekkert gat lengur bjargað þeim‘ og hvaða viðvörun fyrir okkur er fólgin í því?

16 Sem þjóð kunnu Ísraelsmenn reyndar ekki að meta tryggan kærleika Jehóva því að eftir frelsunina ‚héldu þeir áfram að syndga gegn Jehóva og gera uppreisn gegn Hinum hæsta‘. (Sálmur 78:17) Er aldir liðu gerðu þeir hvað eftir annað uppreisn gegn honum, yfirgáfu hann og tóku upp falsguðadýrkun og heiðna siði sem gerðu ekkert annað en að smána þá. En Jehóva sleit ekki sáttmála sínum heldur sárbændi þjóðina fyrir munn Jeremía spámanns: „Snúðu aftur, þú fráhverfa Ísrael … Ég mun ekki líta reiðilega til þín því að ég er trúfastur.“ (Jeremía 3:12) Upp til hópa létu Ísraelsmenn sér fátt um finnast eins og fram kom í 25. kafla. „Þeir hæddust að sendiboðum hins sanna Guðs, fyrirlitu orð hans og gerðu gys að spámönnum hans“ með þeim afleiðingum að „Jehóva [reiddist] þjóð sinni svo mikið að ekkert gat lengur bjargað henni“. – 2. Kroníkubók 36:15, 16.

17 Við getum dregið þann lærdóm af þessu að trúfesti Jehóva sé hvorki blind né auðtrúa. Jehóva „sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli“ og hefur yndi af því að sýna miskunn þegar forsendur eru fyrir því. En hvað gerist þegar syndari reynist forhertur? Í því tilviki fylgir Jehóva réttlátum mælikvarða sínum og sakfellir hann. „Hann lætur hinum seka þó ekki órefsað“, svo vitnað sé í orð hans við Móse. – 2. Mósebók 34:6, 7.

18, 19. (a) Hvernig vitnar það um trúfesti Jehóva að hann skuli refsa hinum illu? (b) Hvernig er Jehóva trúfastur þeim þjónum sínum sem hafa týnt lífi í ofsóknum?

18 Það er reyndar líka merki um trúfesti af hálfu Guðs að refsa hinum óguðlegu. Hvernig þá? Við finnum vísbendingu um það í Opinberunarbókinni þar sem Jehóva skipar englunum sjö: „Farið og hellið úr hinum sjö skálum reiði Guðs á jörðina“ Þegar sá þriðji hellir úr skál sinni „í árnar og vatnsuppspretturnar“ verða þær að blóði. Engillinn segir þá við Jehóva: „Þú ert réttlátur, þú sem ert og þú sem varst, hinn trúi, því að þú hefur fellt þessa dóma. Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna og þú hefur gefið þeim blóð að drekka eins og þeir eiga skilið.“ – Opinberunarbókin 16:1–6.

19 Þú tekur eftir að engillinn kallar Jehóva ‚hinn trúa‘ um leið og hann flytur dómsboðskap hans. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva er að sýna þjónum sínum trúfesti með því að eyða hinum illu, enda hafa margir þjónar hans látið lífið í ofsóknum. Jehóva sýnir þá trúfesti að halda þessum þjónum sínum ljóslifandi í minni sér. Hann þráir að sjá þessa trúföstu menn á nýjan leik, og Biblían staðfestir að hann ætli að umbuna þeim með því að reisa þá upp frá dauðum. (Jobsbók 14:14, 15) Jehóva gleymir ekki trúföstum þjónum sínum þó að þeir séu ekki lengur lífs, heldur eru þeir „allir lifandi í augum hans“. (Lúkas 20:37, 38) Að Jehóva skuli ætla að endurlífga þá sem hann geymir í minni sér er sterk sönnun fyrir því að hann sé trúfastur.

Jehóva sýnir þá trúfesti að minnast þeirra sem hafa verið trúir allt til dauða og reisa þá upp.

Nasistar tóku Bernard Luimes (að ofan) og Wolfgang Kusserow (fyrir miðju) af lífi.

Pólitískur hópur drap Moses Nyamussua með spjóti.

Tryggur kærleikur Jehóva opnar leiðina til hjálpræðis

20. Hver eru ‚ker miskunnarinnar‘ og hvernig sýnir Jehóva þeim trúfesti?

20 Jehóva hefur verið trúföstum mönnum trúr um allar aldir. Reyndar hefur hann ‚umborið af mikilli þolinmæði ker reiðinnar sem verðskulda eyðingu‘ um þúsundir ára. Til hvers? „Hann gerði það til að sýna hve mikla dýrð hann veitir kerum miskunnarinnar sem hann hefur fyrir fram búið til dýrðar.“ (Rómverjabréfið 9:22, 23) Þessi ‚ker miskunnarinnar‘ eru réttsinnaðir menn sem eru smurðir með heilögum anda til að erfa ríkið með Kristi. (Matteus 19:28) Með því að opna þessum kerum miskunnarinnar leiðina til hjálpræðis var Jehóva trúfastur Abraham sem hann hafði heitið eftirfarandi: „Vegna afkomanda þíns munu allar þjóðir jarðar hljóta blessun því að þú hlýddir á mig.“ – 1. Mósebók 22:18.

Trúfesti Jehóva gerir að verkum að allir trúir þjónar hans eiga sér örugga framtíðarvon.

21. (a) Hvernig sýnir Jehóva trúfesti ‚miklum múgi‘ sem á í vændum að komast gegnum ‚þrenginguna miklu‘? (b) Hvaða áhrif hefur trúfesti Jehóva á þig?

21 Jehóva er sömuleiðis trúfastur ‚múginum mikla‘ sem á það fyrir sér að komast gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og lifa að eilífu í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 14) Þó að þjónar Jehóva séu ófullkomnir sýnir hann þeim þá trúfesti að gefa þeim tækifæri til að hljóta eilíft líf í paradís á jörð. Hvernig gerir hann það? Með lausnargjaldinu – sterkasta merkinu sem hann hefur gefið um trúfesti sína. (Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:8) Trúfesti Jehóva laðar að þá sem hungrar í hjarta sér eftir réttlæti. (Jeremía 31:3) Finnst þér þú standa nær Jehóva þegar þú hugsar um hina djúpstæðu trúfesti sem hann hefur sýnt og á eftir að sýna? Þar sem við þráum að nálgast Guð skulum við svara kærleika hans með því að vera staðráðin í að þjóna honum í trúfesti.

a Orðið, sem er þýtt ‚trúfastur‘ í 2. Samúelsbók 22:26, er skylt orði sem er annars staðar þýtt „tryggur kærleikur“.