23. KAFLI
„Hann elskaði okkur að fyrra bragði“
1–3. Að hvaða leyti var dauði Jesú einstakur í sögunni?
VORDAG einn fyrir tæplega 2.000 árum var saklaus maður dreginn fyrir rétt, sakfelldur fyrir glæpi sem hann hafði ekki drýgt og pyntaður til dauða. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem saklaus maður var líflátinn með grimmilegum hætti og því miður ekki í það síðasta. En dauði þessa manns var ólíkur öllum öðrum.
2 Síðustu stundirnar, sem hann kvaldist, sást tákn á himni til marks um þýðingu þessa atburðar. Þótt enn væri miður dagur skall skyndilega á myrkur í landinu. „Sólin hætti að lýsa,“ eins og sagnaritari komst að orði. (Lúkas 23:44, 45) Síðan, rétt áður en maðurinn gaf upp andann, sagði hann hin ógleymanlegu orð: „Því er lokið.“ Hann áorkaði feiknamiklu með því að fórna lífi sínu. Það var mesta kærleiksverk sem nokkur maður hefur unnið. – Jóhannes 15:13; 19:30.
3 Maðurinn var auðvitað Jesús Kristur. Alkunna er hvernig hann þjáðist og dó á þessum myrka degi, 14. nísan árið 33. En mönnum yfirsést oft mikilvægt atriði í tengslum við þennan atburð. Þótt Jesús hafi liðið ólýsanlegar þjáningar var annar sem þjáðist meira. Já, sá var til sem færði enn meiri fórn þennan dag og vann þar með mesta kærleiksverk sem unnið hefur verið í alheiminum. Hvaða verk var það? Svarið er viðeigandi inngangur að mikilvægasta viðfangsefni sem hægt er að fjalla um: Kærleika Jehóva.
Mesta kærleiksverkið
4. Hvernig uppgötvaði rómverskur hermaður að Jesús var enginn venjulegur maður, og að hvaða niðurstöðu komst hann?
4 Rómverski hundraðshöfðinginn, sem sá um aftöku Jesú, var steini lostinn yfir myrkrinu sem skall á skömmu áður en Jesús dó og jarðskjálftanum mikla sem fylgdi í kjölfar þess. „Hann var sannarlega sonur Guðs,“ varð honum að orði. (Matteus 27:54) Jesús var greinilega enginn venjulegur maður. Hermaðurinn hafði átt þátt í að taka einkason hins hæsta Guðs af lífi! En hversu sterk var ást föðurins á syni sínum?
5. Hvernig má lýsa þeim óralanga tíma sem Jehóva og sonur hans áttu saman á himni?
5 Biblían kallar Jesú ‚frumburð alls sem er skapað‘. (Kólossubréfið 1:15) Hugsaðu þér – sonur Jehóva var til á undan alheiminum. Hversu lengi ætli faðir og sonur hafi verið saman? Sumir vísindamenn áætla að aldur alheimsins sé 13 milljarðar ára. Geturðu gert þér í hugarlund hve langur tími það er? Í stjörnuveri nokkru hefur verið sett upp 110 metra löng tímalína til að auðvelda fólki að glöggva sig á áætluðum aldri alheimsins. Hvert skref, sem gengið er eftir tímalínunni, svarar til um það bil 75 milljóna ára í sögu alheimsins. Öll mannkynssagan samsvarar svo einni hársbreidd við enda línunnar! Þó að við göngum út frá því að þetta sé rétt mat er öll tímalínan of stutt til að sýna ævi sonar Jehóva! Við hvað fékkst hann allan þennan tíma?
6. (a) Við hvað fékkst sonur Jehóva áður en hann kom til jarðar? (b) Hvers konar bönd tengja Jehóva og son hans?
6 Sonurinn þjónaði fúslega sem „listasmiður“ hjá föður sínum. (Orðskviðirnir 8:30) Biblían segir: „Án [sonarins] hefur ekki neitt orðið til.“ (Jóhannes 1:3) Jehóva og sonur hans sköpuðu því alla aðra hluti í sameiningu. Þetta hljóta að hafa verið spennandi og skemmtilegir tímar. Eins og margir vita eru kærleiksböndin milli foreldra og barna feikilega sterk. Og kærleikurinn er „fullkomið einingarband“. (Kólossubréfið 3:14) Við getum varla ímyndað okkur hve sterk bönd mynduðust milli Jehóva og sonar hans á þessum óralanga tíma. Það er ljóst að Jehóva Guð og sonur hans eru bundnir sterkustu kærleiksböndum sem hægt er að ímynda sér.
7. Hvernig tjáði Jehóva tilfinningar sínar í garð Jesú við skírn hans?
7 Engu að síður sendi Jehóva son sinn til jarðar til að fæðast sem mannsbarn. Það hafði í för með sér að hann þurfti að afneita sér um félagsskap sonar síns á himnum um nokkurra áratuga skeið. Ofan af himni fylgdist hann með því af brennandi áhuga hvernig Jesús óx úr grasi og varð fullkominn maður. Jesús lét skírast um þrítugt. Það er ekkert leyndarmál hvernig Jehóva leit á hann því að hann talaði persónulega af himni og sagði: „Þetta er sonur minn sem ég elska og hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Það hlýtur að hafa glatt Jehóva ósegjanlega að sjá Jesú gera dyggilega allt sem spáð hafði verið um hann, allt sem hann var beðinn að gera. – Jóhannes 5:36; 17:4.
8, 9. (a) Hvað þurfti Jesús að ganga í gegnum hinn 14. nísan árið 33 og hvaða áhrif hafði það á föður hans á himnum? (b) Hvers vegna leyfði Jehóva að sonur sinn þjáðist og dæi?
8 En hvernig var Jehóva innanbrjósts hinn 14. nísan árið 33? Hvernig leið honum þegar Jesús var svikinn og handtekinn af múgi manna um kvöldið? Þegar vinir hans yfirgáfu hann og réttað var yfir honum með ólöglegum hætti? Þegar hann var hæddur, barinn og hrækt var á hann? Þegar hann var húðstrýktur svo að bakið á honum varð flakandi sár? Þegar hann var negldur á höndum og fótum á tréstaur og látinn hanga þar meðan fólk formælti honum? Hvernig var föðurnum innanbrjósts þegar ástkær sonur hans hrópaði til hans í kvöl sinni? Hvernig leið honum þegar Jesús dró andann í hinsta sinn og var ekki til í fyrsta skipti frá upphafi sköpunarinnar? – Matteus 26:14–16, 46, 47, 56, 59, 67; 27:38–44, 46; Jóhannes 19:1.
9 Okkur verður orðfall. Jehóva er tilfinninganæmur þannig að það hlýtur að hafa kvalið hann meira en orð fá lýst að sjá son sinn deyja. Hins vegar er hægt að lýsa því hvers vegna hann leyfði að þetta gerðist. Hvers vegna lét faðirinn slíka kvöl yfir sig ganga? Hann opinberar það fagurlega í Jóhannesi 3:16 – í biblíuversi sem er svo mikilvægt að það er stundum kallað litla Biblían. Þar segir: „Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf.“ Það var því kærleikur Jehóva sem bjó að baki. Gjöf Jehóva – að senda son sinn til að þjást og deyja fyrir okkur – var mesta kærleiksverk sögunnar.
„Guð … gaf einkason sinn.“
Hvað er fólgið í kærleika Guðs?
10. Hvaða þörf hafa mennirnir og hvernig hefur farið fyrir merkingu kærleikshugtaksins?
10 Hvað merkir orðið „kærleikur“ eiginlega? Sagt hefur verið að sterkasta þörf mannsins sé sú að vera elskaður. Fólk þráir kærleika frá vöggu til grafar, dafnar í hlýju hans en veslast upp og deyr jafnvel ef hann vantar. Samt er ótrúlega erfitt að skilgreina hvað kærleikurinn er. Það vantar ekki að talað sé um hann. Ástin er sífellt viðfangsefni rithöfunda, dægurlagahöfunda og ljóðskálda. En það hefur ekki alltaf dugað til þess að skýra kærleikshugtakið. Sannleikurinn er sá að orðin kærleikur, ást og elska eru svo ofnotuð að merkingin virðist óljósari en nokkru sinni fyrr.
11, 12. (a) Hvar getum við fræðst mikið um kærleikann og hvers vegna þar? (b) Hvaða hugtök voru notuð um ást og kærleika í forngrísku og hvaða orð fyrir „kærleika“ er algengast í Grísku ritningunum? (Sjá einnig neðanmálsgrein.) (c) Í hvaða merkingu er orðið agaʹpe oft notað í Biblíunni?
11 Biblían segir hins vegar skýrt og greinilega hvað kærleikurinn er. „Kærleikurinn þekkist einungis af verkunum sem hann kemur til leiðar.“ (Vine’s Expository Dictionary of New Testament Words) Frásaga Biblíunnar af verkum Jehóva kennir okkur býsna margt um kærleika hans – hina hlýju ást hans á sköpunarverum sínum. Getur til dæmis nokkuð varpað skýrara ljósi á þennan eiginleika en hið mikla kærleiksverk Jehóva sem lýst var hér á undan? Í köflunum á eftir sjáum við mörg dæmi um kærleika Jehóva að verki. Og við getum fengið svolitla innsýn í eðli kærleikans með því að rýna í frummálsorðin sem notuð eru um hann í Biblíunni. Í forngrísku voru til fjögur orð yfir „kærleika“. a Af þeim er orðið agaʹpe notað oftast í Grísku ritningunum. Biblíuorðabók kallar það „kröftugasta orð um kærleikann sem hægt er að ímynda sér“. Hvers vegna?
12 Orðið agaʹpe er oft notað í Biblíunni um kærleika sem stjórnast af meginreglu. Hann er því meira en tilfinningaleg viðbrögð við því sem önnur manneskja segir eða gerir. Hann er víðtækari, hugulsamari og úthugsaðri. Og kristilegur kærleikur er fullkomlega óeigingjarn. Lítum aftur á Jóhannes 3:16. Hver er ‚heimurinn‘ sem Guð elskaði svo heitt að hann gaf einkason sinn? Það er mannheimurinn sem hægt er að endurleysa. Þar á meðal er fjöldi fólks sem lifir syndugu líferni. Elskar Jehóva hvern og einn sem persónulegan vin eins og hann elskaði hinn trúa Abraham? (Jakobsbréfið 2:23) Nei, en Jehóva sýnir öllum gæsku, jafnvel þó að það sé honum dýrt. Hann vill að allir iðrist og breyti háttalagi sínu. (2. Pétursbréf 3:9) Margir gera það og hann viðurkennir þá fúslega sem vini sína.
13, 14. Hvað sýnir að kristilegur kærleikur felur oft í sér hlýju og ástúð?
13 Sumir gera sér rangar hugmyndir um notkun orðsins agaʹpe í Biblíunni. Þeir halda að orðið lýsi einhvers konar köldum og fræðilegum kærleika. En kristilegur kærleikur felur oft í sér hlýja og innilega ást. Jóhannes skrifaði: „Faðirinn elskar soninn,“ og notaði þá sögn sem samsvarar nafnorðinu agaʹpe. Er þetta kærleikur án hlýju og ástúðar? Nei, Jesús komst eins að orði annars staðar en notaði sögnina fíleʹo. (Jóhannes 3:35; 5:20) Kærleikur Jehóva felur oft í sér blíðlega ástúð en hann stjórnast aldrei af tilfinningasemi einni saman heldur af réttlátum og viturlegum meginreglum hans.
14 Allir eiginleikar Jehóva eru frábærir, fullkomnir og aðlaðandi eins og við höfum séð. En kærleikurinn höfðar sterkast til okkar. Ekkert laðar okkur til hans af jafnmiklu afli. Sem betur fer er kærleikurinn líka áhrifamesti eiginleiki hans. Hvernig vitum við það?
„Guð er kærleikur“
15. Hvað segir Biblían um kærleika Jehóva og hvað er sérstakt við það? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)
15 Biblían segir svolítið um kærleikann sem hún segir aldrei um hina höfuðeiginleika Jehóva. Hún segir hvergi að Guð sé máttur, réttlæti eða viska. Hann býr yfir þessum eiginleikum, er uppspretta þeirra allra og sýnir þá margfalt betur en allir aðrir. En um fjórða eiginleikann er tekið dýpra í árinni og sagt: „Guð er kærleikur.“ b (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hvað merkir það?
16–18. (a) Hvers vegna segir Biblían að ‚Guð sé kærleikur‘? (b) Hvers vegna notaði Jehóva manninn, af öllum sköpunarverum jarðar, til að tákna kærleika sinn?
16 Að ‚Guð sé kærleikur‘ merkir ekki að Guð sé það sama og kærleikur. Við getum ekki snúið dæminu við og sagt: „Kærleikur er Guð.“ Jehóva er miklu meira en óhlutstæður eiginleiki. Hann er persóna sem býr yfir margvíslegum tilfinningum og einkennum auk kærleikans. En kærleikur Jehóva er mjög djúpstæður. Heimildarrit segir um þetta vers: „Innsta eðli Guðs er kærleikur.“ Almennt séð mætti líta þannig á málið: Máttur Jehóva gerir honum kleift að framkvæma. Réttlæti hans og viska leiðbeina honum í verki. En það er kærleikurinn sem veldur því að hann langar til að framkvæma. Og kærleikurinn endurspeglast alltaf í því hvernig hann beitir hinum eiginleikunum.
17 Oft er sagt að Jehóva sé persónugervingur kærleikans. Þess vegna þurfum við að fræðast um Jehóva ef við viljum fræðast um kærleika sem stjórnast af meginreglu. Auðvitað sjáum við þennan fagra eiginleika líka í mönnunum. En hvers vegna? Vegna þess að þegar Jehóva vann að sköpuninni sagði hann eftirfarandi, og var þá greinilega að tala við son sinn: „Gerum manninn eftir okkar mynd, líkan okkur.“ (1. Mósebók 1:26) Af öllum sköpunarverum jarðar eru það aðeins karlar og konur sem geta valið að elska himneskan föður sinn og líkja eftir honum. Eins og þú manst notar Jehóva ýmis dýr til að tákna þrjá af höfuðeiginleikum sínum. En til að tákna fremsta eiginleika sinn, kærleikann, notaði hann manninn, æðstu sköpunarveru jarðar. – Esekíel 1:10.
18 Við endurspeglum fremsta eiginleika Jehóva þegar við sýnum óeigingjarnan kærleika byggðan á meginreglu. Eins og Jóhannes postuli sagði „elskum [við], því að hann elskaði okkur að fyrra bragði“. (1. Jóhannesarbréf 4:19) En hvernig hefur Jehóva elskað okkur að fyrra bragði?
Jehóva átti frumkvæðið
19. Hvers vegna má segja að kærleikurinn hafi verið lykilatriði í sköpunarstarfi Jehóva?
19 Kærleikurinn er ekki nýr. Af hvaða hvötum byrjaði Jehóva að skapa? Það var ekki af því að hann væri einmana og þarfnaðist félagsskapar. Hann er sjálfum sér nógur og öðrum óháður. Hann vantar ekkert sem aðrir gætu látið í té. En það var kærleikurinn sem gerði að verkum að hann langaði til að gefa öðrum vitsmunaverum hlutdeild í gleðinni af því að lifa, vitsmunaverum sem gátu metið slíka gjöf að verðleikum. „Fyrsta sköpunarverk Guðs“ var einkasonur hans. (Opinberunarbókin 3:14) Síðan notaði Jehóva þennan son sem listasmið er hann skapaði allt annað. Englarnir voru fyrstir. (Jobsbók 38:4, 7; Kólossubréfið 1:16) Þessum voldugu andaverum var gefið frelsi, vitsmunir og tilfinningar svo að þær gátu sjálfar myndað kærleikstengsl – hver við aðra og að sjálfsögðu við Jehóva Guð. (2. Korintubréf 3:17) Þær elskuðu af því að Guð elskaði þær að fyrra bragði.
20, 21. Hvernig blasti það við Adam og Evu að Jehóva elskaði þau en hvað gerðu þau samt?
20 Hið sama er að segja um mannkynið. Adam og Eva voru bókstaflega umvafin kærleika allt frá upphafi. Hvert sem litið var í paradísinni Eden, sem var heimili þeirra, sáust merki um kærleika föðurins til þeirra. Taktu eftir hvað Biblían segir: „Jehóva Guð plantaði … garð í Eden, í austri, og þar setti hann manninn sem hann hafði mótað.“ (1. Mósebók 2:8) Hefurðu einhvern tíma komið í undurfagran garð? Hvað hreif þig mest? Glitrandi sólargeislar í fögrum skógarlundi? Töfrandi litskrúð í fallegu blómabeði? Ljúfur lækjarniður, fuglasöngur og suðið í skordýrunum? Eða var það angan trjánna, ávaxtanna og blómanna? Enginn lystigarður, sem við þekkjum, jafnast þó á við Eden. Hvers vegna?
21 Það var Jehóva sjálfur sem gerði þennan garð. Hann hlýtur að hafa verið unaðslega fagur. Þarna voru alls konar tré sem voru bæði falleg að sjá og báru gómsæta ávexti. Garðurinn var vatnsríkur og víðáttumikill og iðaði af alls konar dýralífi. Adam og Eva höfðu allt sem þurfti til að vera hamingjusöm. Þau höfðu bæði gefandi starf og áttu fullkominn félaga. Jehóva elskaði þau að fyrra bragði og þau höfðu ótal ástæður til að elska himneskan föður sinn á móti. En þau gerðu það ekki heldur voru þau eigingjörn, óhlýðnuðust skapara sínum og risu upp á móti honum. – 1. Mósebók, 2. kafli.
22. Hvernig sýndu viðbrögð Jehóva við uppreisninni í Eden fram á að kærleikur hans er tryggur?
22 Þetta hlýtur að hafa verið mjög sárt fyrir Jehóva! En fylltist hann beiskju? Nei. „Tryggur kærleikur hans varir að eilífu.“ (Sálmur 136:1) Hann ákvað því strax að gera ráðstafanir til að endurleysa þá afkomendur Adams og Evu sem hefðu rétt hugarfar. Eins og við höfum séð var þetta meðal annars fólgið í lausnarfórn sonarins elskaða sem var föðurnum svo dýr. – 1. Jóhannesarbréf 4:10.
23. (a) Nefndu eina ástæðu fyrir því að Jehóva er „hinn hamingjusami Guð“. (b) Um hvaða þýðingarmiklu spurningu er fjallað í næsta kafla?
23 Já, allt frá upphafi hefur Jehóva átt frumkvæðið að því að sýna mannkyninu kærleika. Hann „elskaði okkur að fyrra bragði“ á ótal vegu. Kærleikur stuðlar að einhug og gleði þannig að það kemur ekki á óvart að Jehóva skuli vera kallaður „hinn hamingjusami Guð“. (1. Tímóteusarbréf 1:11) En nú vaknar þýðingarmikil spurning. Elskar Jehóva okkur sem einstaklinga? Við fjöllum um það í næsta kafla.
a Sagnorðið fíleʹo merkir „að bera hlýhug til, þykja vænt um eða geðjast að (eins og nánum vini eða bróður)“ og er notað oft í Grísku ritningunum. Mynd orðsins storgeʹ, sem er kærleikur eða ást innan fjölskyldunnar, er notuð í 2. Tímóteusarbréfi 3:3 þar sem sagt er að þessi kærleikur myndi verða sjaldgæfur á síðustu dögum. Orðið eros, sem er notað um rómantíska ást milli kynjanna, kemur ekki fyrir í Grísku ritningunum þó að það sé rætt um þess konar ást í Biblíunni. – Orðskviðirnir 5:15–20.
b Mörg dæmi eru um sambærilegt orðalag. Til dæmis er sagt að ‚Guð sé ljós‘ og að ‚Guð sé eyðandi eldur‘. (1. Jóhannesarbréf 1:5; Hebreabréfið 12:29) En þetta eru myndhvörf því að það er verið að líkja Jehóva við hlutstæð fyrirbæri. Jehóva er eins og ljós því að hann er heilagur og heiðvirður. Það er ekkert „myrkur“ og enginn óhreinleiki í honum. Og það má líkja honum við eld af því að hann býr yfir eyðingarmætti.