Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

14. KAFLI

Hvers vegna ættum við að fyrirgefa?

Hvers vegna ættum við að fyrirgefa?

HEFUR einhver einhvern tíma gert þér eitthvað? — Meiddi hann þig eða sagði eitthvað sem særði þig? — Ættirðu að koma fram við hann eins og hann kom fram við þig? —

Margir hefna sín á þeim sem gera eitthvað á hlut þeirra. Jesús kenndi hins vegar að við ættum að fyrirgefa. (Matteus 6:12) En hvað ættum við að gera ef einhver særir okkur aftur og aftur? Hversu oft ættum við að fyrirgefa honum? —

Pétur langaði til að vita það. Þess vegna spurði hann Jesú: ,Á ég að fyrirgefa honum sjö sinnum?‘ En það var ekki nógu oft. Jesús sagði: ,Þú átt að fyrirgefa sjötíu og sjö sinnum‘ ef einhver særir þig svo oft.

Hvað vildi Pétur vita um fyrirgefningu?

Sjötíu og sjö sinnum er mjög oft. Við værum örugglega löngu hætt að telja ef einhver særði okkur svo oft. Jesús var einfaldlega að segja: Við eigum ekki að reyna að muna hversu oft aðrir særa okkur. Ef þeir biðja okkur um að fyrirgefa sér þá eigum við að fyrirgefa þeim.

Jesús vildi sýna lærisveinunum fram á hversu mikilvægt það væri að fyrirgefa. Hann sagði þeim því sögu eftir að hafa svarað spurningu Péturs. Langar þig til að heyra söguna? —

Einu sinni var konungur sem var mjög góður. Hann lánaði þjónum sínum jafnvel peninga þegar þeir þurftu á því að halda. En svo rann upp sá dagur að konungurinn vildi að þjónarnir borguðu það sem þeir skulduðu honum. Þá var færður til konungsins þjónn sem skuldaði honum 60 milljónir denara. Það eru mjög miklir peningar!

Hvað gerðist þegar þjónninn bað konunginn um frest til að borga það sem hann skuldaði honum?

Þjónninn hafði eytt öllum peningum konungsins og gat ekki borgað honum. Konungurinn skipaði þá fyrir að þjónninn skyldi seldur. Sömuleiðis ætti að selja konu þjónsins og börnin hans og allt sem hann átti. Konungurinn átti síðan að fá andvirðið. Hvernig heldurðu að þjóninum hafi liðið? —

Hann féll til fóta konungsins og grátbað: ,Gefðu mér lengri frest og þá borga ég allt sem ég skulda þér.‘ Hvað hefðir þú gert við þjóninn ef þú hefðir verið konungurinn? — Konungurinn vorkenndi þjóninum og fyrirgaf honum. Hann sagði honum að hann þyrfti ekki að borga skuldina, ekki einu sinni einn denar af þessum 60 milljónum. Þjónninn hlýtur að hafa orðið mjög glaður.

En hvað gerði þjónninn eftir það? Hann fór og leitaði uppi samþjón sinn sem skuldaði honum ekki nema 100 denara. Hann tók samþjón sinn kverkataki svo að hann gat varla andað, og sagði: ,Borgaðu þessa 100 denara sem þú skuldar mér!‘ Hvernig í ósköpunum gat hann gert svona lagað, sérstaklega eftir að konungurinn var nýbúinn að gefa honum upp miklu hærri skuld? —

Hvernig kom þjónninn fram við samþjón sinn sem gat ekki borgað skuld sína?

Þjónninn, sem skuldaði ekki nema 100 denara, var fátækur. Hann gat ekki borgað skuldina strax. Þess vegna féll hann á kné frammi fyrir samþjóni sínum og grátbað: ,Gefðu mér lengri frest og þá borga ég það sem ég skulda.‘ Hefði hinn þjónninn átt að gefa honum lengri frest? — Hvað hefðir þú gert? —

Þessi þjónn var ekki eins góður maður og konungurinn. Hann vildi fá peningana strax. Og þar sem fátæki þjónninn gat ekki borgað honum lét hann varpa honum í fangelsi. Aðrir þjónar urði vitni að þessu og þeim mislíkaði það. Þeir vorkenndu fátæka þjóninum sem var varpað í fangelsi og sögðu konunginum frá því hvað hafði gerst.

Konungurinn var ekki heldur ánægður með þetta. Hann reiddist miskunnarlausa þjóninum ákaflega, kallaði á hann og sagði: ,Illi þjónn, gaf ég þér ekki upp skuldina? Hefðir þú ekki átt að gera það sama fyrir samþjón þinn?‘

Hvað gerði konungurinn við miskunnarlausa þjóninn?

Miskunnarlausi þjónninn hefði átt að draga lærdóm af góðsemi konungsins en hann gerði það ekki. Þess vegna lét konungurinn varpa þjóninum í fangelsi og þar yrði hann að vera þangað til hann gæti borgað alla skuldina til baka, 60 milljónir denara. En þar sem hann var í fangelsi gat hann auðvitað ekki unnið fyrir þeim peningum sem þurfti til að borga konunginum til baka. Hann varð því að dúsa þar til dauðadags.

Þegar Jesús hefur lokið sögunni segir hann við fylgjendur sína: ,Þannig mun faðir minn himneskur gera við ykkur nema hver og einn ykkar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.‘ — Matteus 18:21-35.

Staðreyndin er sú að við skuldum Guði mjög mikið. Það er honum að þakka að við erum til. Aðrir menn skulda okkur ósköp lítið í samanburði við það sem við skuldum Guði. Það sem aðrir skulda okkur er eins og þessir 100 denarar sem fátæki þjónninn skuldaði hinum þjóninum. En það sem við skuldum Guði, vegna þess að við erum alltaf að gera eitthvað rangt, er eins og þær 60 milljónir denara sem miskunnarlausi þjónninn skuldaði konunginum.

Guð er mjög góður. Hann fyrirgefur okkur þótt við gerum margt rangt. Hann lætur okkur ekki borga sér með því að taka lífið frá okkur að eilífu. En við verðum að muna eftir því að Guð fyrirgefur okkur aðeins ef við fyrirgefum þeim sem hafa gert okkur eitthvað. Þetta er mjög mikilvæg lexía, finnst þér það ekki? —

Hvað ættirðu að gera ef einhver biður þig um að fyrirgefa sér?

Hvað ætlarðu þá að gera ef einhver gerir þér eitthvað en biðst síðan afsökunar? Ætlarðu að fyrirgefa honum? — En ef það gerist aftur og aftur myndirðu þá samt vera fús til að fyrirgefa? —

Ef við værum að biðja einhvern afsökunar myndum við þá ekki vilja að hann fyrirgæfi okkur? — Við ættum að gera það sama. Við ættum ekki bara að segjast fyrirgefa honum heldur ættum við að gera það af öllu hjarta. Ef við gerum það sýnum við að við viljum vera fylgjendur kennarans mikla í raun og veru.

Til að skilja hversu mikilvægt það er að fyrirgefa skulum við lesa Orðskviðina 19:11; Matteus 6:14, 15 og Lúkas 17:3, 4.