Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

2. KAFLI

„Vegurinn, sannleikurinn og lífið“

„Vegurinn, sannleikurinn og lífið“

„Fylgdu mér.“

1, 2. Af hverju getum við ekki nálgast Jehóva af eigin rammleik en hvað hefur Jesús gert fyrir okkur?

 HEFURÐU einhvern tíma villst? Þú varst ef til vill á leið í heimsókn til vinar eða ættingja en rataðir ekki á staðinn. Spurðirðu til vegar þar sem þú varst staddur á ókunnum slóðum? Hugsaðu þér hvernig þér væri innanbrjósts ef hjálpsamur vegfarandi léti sér ekki nægja að segja þér til vegar heldur segði: „Eltu mig. Ég skal fylgja þér þangað.“ Hvílíkur léttir!

2 Í vissum skilningi gerir Jesús Kristur eitthvað svipað fyrir okkur. Af eigin rammleik ættum við engan möguleika á að nálgast Guð. Erfðasyndin og ófullkomleikinn gerir að verkum að mennirnir hafa villst af leið og eru ‚fjarlægir því lífi sem kemur frá Guði‘. (Efesusbréfið 4:17, 18) Við þurfum hjálp til að rata rétta leið. Jesús, fyrirmynd okkar, segir okkur ekki aðeins til vegar og gefur góð ráð. Í góðsemi sinni gerir hann meira en það. Eins og fram kom í 1. kafla býður hann okkur: „Komið og fylgið mér.“ (Matteus 4:19) En hann gefur okkur líka ríka ástæðu til að þiggja boðið. Einhverju sinni sagði hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemst til föðurins án mín.“ (Jóhannes 14:6) Við fjöllum nú um nokkrar ástæður fyrir því að það er ekki hægt að nálgast föðurinn nema fyrir milligöngu sonarins. Síðan skoðum við, með hliðsjón af þessum ástæðum, hvernig Jesús er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“.

Mikilvægt hlutverk í fyrirætlun Jehóva

3. Af hverju verða mennirnir að nálgast Guð fyrir milligöngu Jesú?

3 Fyrst og fremst verða mennirnir að nálgast Guð fyrir milligöngu Jesú vegna þess að Guð hefur falið honum afar mikilvægt verkefni. a Jesús fer með aðalhlutverkið í að láta allar fyrirætlanir hans ná fram að ganga. (2. Korintubréf 1:20; Kólossubréfið 1:18–20) Til að glöggva okkur á hinu mikilvæga hlutverki sonarins þurfum við að hafa í huga það sem gerðist í Edengarðinum þegar fyrstu hjónin gengu til liðs við Satan í uppreisn gegn Jehóva. – 1. Mósebók 2:16, 17; 3:1–6.

4. Hvaða deilumál kom upp í Eden og hvað ákvað Jehóva að gera til að útkljá það?

4 Með uppreisninni í Eden kom upp deilumál sem snerti allar sköpunarverur Guðs: Er sá sem ber nafnið Jehóva örugglega heilagur, góður, réttlátur og kærleiksríkur í öllu sem hann gerir? Til að útkljá þetta mikilvæga deilumál ákvað Jehóva að fullkominn andasonur sinn yrði að fara til jarðar. Verkefni þessa sonar gat ekki mikilvægara verið. Hann átti að leggja líf sitt í sölurnar til að helga nafn föður síns og greiða lausnargjald til að bjarga mannkyninu. Með því að vera trúfastur allt til dauða myndi þessi sonur leggja grunn að því að öll þau vandamál sem sköpuðust með uppreisn Satans yrðu leyst. (Hebreabréfið 2:14, 15; 1. Jóhannesarbréf 3:8) En nú skiptu fullkomnir andasynir Jehóva milljónum. (Daníel 7:9, 10) Hvern þeirra valdi hann til að fara með þetta afar þýðingarmikla hlutverk? Hann valdi „einkason sinn“ sem var síðar þekktur undir nafninu Jesús Kristur. – Jóhannes 3:16.

5, 6. Hvernig sýndi Jehóva að hann treysti syni sínum og á hverju byggðist traust hans?

5 Ætti val Jehóva að koma okkur á óvart? Nei, faðirinn treysti eingetnum syni sínum í hvívetna. Öldum áður en sonur hans fæddist á jörð sagði Jehóva fyrir að hann yrði trúfastur þrátt fyrir alls konar þjáningar sem hann yrði að þola. (Jesaja 53:3–7, 10–12; Postulasagan 8:32–35) Veltu aðeins fyrir þér hvað þetta þýðir. Sonurinn hafði frjálsan vilja rétt eins og allar aðrar vitibornar verur og gat ákveðið sjálfur hvaða stefnu hann tæki. Jehóva treysti honum samt sem áður svo vel að hann sagði fyrir að hann yrði trúfastur. Á hverju byggðist þetta traust? Það byggðist á þekkingu. Jehóva þekkir son sinn náið og veit hve heitt sonurinn þráir að þóknast honum. (Jóhannes 8:29; 14:31) Sonurinn elskar föðurinn og faðirinn elskar soninn. (Jóhannes 3:35) Gagnkvæm ást föðurins og sonarins bindur þá órjúfanlegum böndum einingar og trausts. – Kólossubréfið 3:14.

6 Er nokkur furða að menn geti einungis nálgast Guð fyrir milligöngu Jesú þegar á það er litið hve mikilvægt hlutverk Jesús fer með, hve mikið traust Guð ber til hans og hve sterkum kærleiksböndum faðirinn og sonurinn eru bundnir? En það er önnur ástæða fyrir því að enginn nema sonurinn getur leitt okkur til föðurins.

Sonurinn er sá eini sem gerþekkir föðurinn

7, 8. Af hverju gat Jesús réttilega sagt að enginn þekki föðurinn fullkomlega „nema sonurinn“?

7 Við þurfum að uppfylla ákveðin skilyrði til að eiga aðgang að Jehóva. (Sálmur 15:1–5) Hver veit betur en sonurinn hvað er nauðsynlegt til að standast mælikvarða Guðs og hljóta velþóknun hans? Jesús sagði: „Faðir minn hefur lagt allt í hendur mér og enginn gerþekkir soninn nema faðirinn. Enginn gerþekkir heldur föðurinn nema sonurinn og þeir sem sonurinn vill opinbera hann.“ (Matteus 11:27) Við skulum nú kanna af hverju Jesús gat réttilega og ýkjulaust sagt að enginn þekki föðurinn fyllilega „nema sonurinn“.

8 Jesús er „frumburður alls sem er skapað“ og á því einstaklega náið samband við Jehóva. (Kólossubréfið 1:15) Hugsaðu þér hve nánir faðirinn og sonurinn hljóta að hafa orðið á þeim óralanga tíma sem þeir voru tveir einir – allt frá upphafi sköpunar þangað til aðrar andaverur urðu til. (Jóhannes 1:3; Kólossubréfið 1:16, 17) Hugsaðu þér hve dýrmætt það hefur verið fyrir soninn að vera með föður sínum, drekka í sig skoðanir hans og kynnast vilja hans, mælikvarða og starfsháttum. Það eru engar ýkjur að segja að enginn þekki föðurinn eins vel og Jesús. Hann getur opinberað föðurinn betur en nokkur annar vegna þess hve náið samband þeirra er.

9, 10. (a) Á hvaða hátt opinberaði Jesús föðurinn? (b) Hvað þurfum við að gera til að hafa velþóknun Jehóva?

9 Kennsla Jesú endurspeglar vel hve náið hann þekkir skoðanir og tilfinningar Jehóva og til hvers Jehóva ætlast af tilbiðjendum sínum. b En Jesús opinberaði föður sinn einnig á annan hátt. Hann sagði: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Jesús líkti fullkomlega eftir föður sínum í öllu sem hann sagði og gerði. Þegar við lesum um Jesú í Biblíunni – um kröftug en geðþekk orð hans, umhyggjuna sem var honum hvöt til að lækna aðra og samúðina sem kallaði fram tár í augum hans – þá getum við hæglega séð Jehóva fyrir okkur segja og gera það sama. (Matteus 7:28, 29; Markús 1:40–42; Jóhannes 11:32–36) Vilji og starfshættir föðurins endurspeglast fullkomlega í orðum og verkum sonarins. (Jóhannes 5:19; 8:28; 12:49, 50) Til að hafa velþóknun Jehóva verðum við þess vegna að fylgja kenningum Jesú og líkja eftir fordæmi hans. – Jóhannes 14:23.

10 Þar eð Jesús þekkir föður sinn náið og líkir fullkomlega eftir honum er engin furða að faðirinn skuli hafa ákveðið að við mennirnir getum nálgast sig fyrir milligöngu hans. Þar sem við höfum nú glöggvað okkur á því hvers vegna við getum aðeins nálgast Jehóva fyrir milligöngu Jesú skulum við kanna hvað Jesús átti við þegar hann sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemst til föðurins án mín.“ – Jóhannes 14:6.

„Ég er vegurinn“

11. (a) Hvers vegna er það aðeins fyrir atbeina Jesú sem við getum átt samband við Guð? (b) Hvernig leggur Jóhannes 14:6 áherslu á einstaka stöðu Jesú? (Sjá neðanmálsgrein.)

11 Eins og fram hefur komið eigum við ekki aðgang að Guði nema fyrir milligöngu Jesú. Lítum nánar á hvað þetta þýðir fyrir okkur. Jesús er „vegurinn“ í þeim skilningi að það er aðeins fyrir atbeina hans sem við getum notið velþóknunar Guðs og átt samband við hann. Af hverju? Með því að vera trúr allt til dauða gaf Jesús líf sitt sem lausnarfórn. (Matteus 20:28) Án lausnarfórnarinnar hefðum við ekki aðgang að Guði. Syndin veldur því að aðskilnaður verður milli manna og Jehóva Guðs af því að Jehóva er heilagur og getur þar af leiðandi aldrei lagt blessun sína yfir syndina. (Jesaja 6:3; 59:2) En fórn Jesú brúaði bilið milli Guðs og manna af því að hún friðþægði fyrir syndina. (Hebreabréfið 10:12; 1. Jóhannesarbréf 1:7) Ef við viðurkennum ráðstöfun Guðs sem er fólgin í fórn Jesú og trúum á hana getum við hlotið velþóknun Guðs. Það er engin önnur leið til að Jehóva taki okkur „í sátt“. cRómverjabréfið 5:6–11.

12. Í hvaða skilningi er Jesús „vegurinn“?

12 Jesús er „vegurinn“ þegar bænin á í hlut. Það er aðeins fyrir milligöngu hans sem við getum gengið fram fyrir Guð í innilegri bæn í þeirri vissu að hann bænheyri okkur. (1. Jóhannesarbréf 5:13, 14) Jesús sagði: „Ef þið biðjið föðurinn um eitthvað gefur hann ykkur það í mínu nafni … Biðjið og þið munuð fá svo að gleði ykkar verði fullkomin.“ (Jóhannes 16:23, 24) Það er því viðeigandi að nálgast Jehóva í bæn í nafni Jesú og kalla hann föður okkar. (Matteus 6:9) Jesús er líka „vegurinn“ í þeim skilningi að vera fyrirmynd. Eins og áður hefur komið fram líkti hann fullkomlega eftir föður sínum. Með fordæmi sínu sýndi hann fram á hvernig við getum þóknast Jehóva með líferni okkar. Til að nálgast Guð verðum við sem sagt að feta í fótspor Jesú. – 1. Pétursbréf 2:21.

„Ég er … sannleikurinn“

13, 14. (a) Hvernig kunngerði Jesús sannleikann með orðum sínum? (b) Hvað þurfti Jesús að gera til að vera „sannleikurinn“ og hvers vegna?

13 Jesús sagði alltaf sannleikann um spádómsorð föður síns. (Jóhannes 8:40, 45, 46) Engin svik fundust nokkurn tíma í munni hans. (1. Pétursbréf 2:22) Andstæðingar hans viðurkenndu meira að segja að hann kenndi „veg Guðs sannleikanum samkvæmt“. (Markús 12:13, 14) En þegar Jesús sagðist vera „sannleikurinn“ átti hann ekki eingöngu við það að hann kunngerði sannleikann með því að tala, prédika og kenna. Að vera sannleikurinn var miklu meira en það.

14 Eins og þú manst innblés Jehóva biblíuriturum að skrásetja fjölda spádóma um Messías eða Krist öldum áður en hann kom fram. Í þessum spádómum var lýst alls konar smáatriðum um ævi hans, þjónustu og dauða. Auk þess voru Móselögin skuggi eða spádómleg fyrirmynd um Messías. (Hebreabréfið 10:1) Myndi Jesús reynast trúr allt til dauða og uppfylla þar með allt sem spáð hafði verið um hann? Aðeins þá yrði sýnt fram á að Jehóva er Guð sannra spádóma. Það hvíldi mikil ábyrgð á herðum Jesú. Með líferni sínu – með hverju orði sem hann sagði og hverju verki sem hann vann – sýndi hann fram á að spádómarnir og fyrirmyndirnar voru sannar. (2. Korintubréf 1:20) Jesús var „sannleikurinn“ í þeim skilningi að sannleikurinn í spádómsorði Jehóva varð að veruleika með komu hans. – Jóhannes 1:17; Kólossubréfið 2:16, 17.

„Ég er … lífið“

15. Hvað er fólgið í því að trúa á soninn og hvað geta menn hlotið ef þeir gera það?

15 Jesús er „lífið“ í þeim skilningi að það er aðeins fyrir atbeina hans sem við getum hlotið líf – það er að segja „hið sanna líf“. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Í Biblíunni segir: „Sá sem trúir á soninn hlýtur eilíft líf. Sá sem óhlýðnast syninum mun ekki lifa heldur hvílir reiði Guðs varanlega yfir honum.“ (Jóhannes 3:36) Hvað er fólgið í því að trúa á son Guðs? Það merkir að vera sannfærð um að við getum ekki fengið líf án atbeina hans. Það merkir enn fremur að við sýnum trúna í verki, höldum áfram að læra af Jesú og gerum okkar besta til að fylgja kenningum hans og fordæmi. (Jakobsbréfið 2:26) Með því að trúa á son Guðs geta menn hlotið eilíft líf. Andasmurðir kristnir menn hljóta ódauðleika sem andaverur á himnum. Þeir eru ‚lítil hjörð‘ en ‚mikill múgur‘ af ‚öðrum sauðum‘ hlýtur eilíft líf sem fullkomnir menn í paradís á jörð. – Lúkas 12:32; 23:43; Opinberunarbókin 7:9–17; Jóhannes 10:16.

16, 17. (a) Hvernig verður Jesús „lífið“ fyrir þá sem eru dánir? (b) Hverju megum við treysta?

16 Hvað um þá sem eru dánir? Jesús er líka „lífið“ fyrir þá. Skömmu áður en hann reisti vin sinn Lasarus upp frá dauðum sagði hann við Mörtu systur hans: „Ég er upprisan og lífið … Sá sem trúir á mig lifnar aftur þótt hann deyi.“ (Jóhannes 11:25) Jehóva hefur fengið syni sínum „lyklana að dauðanum og gröfinni“ og gefið honum vald til að reisa fólk upp frá dauðum. (Opinberunarbókin 1:17, 18) Með þessum lyklum mun hinn dýrlegi Jesús opna hliðin að sameiginlegri gröf mannkyns og leysa alla þá sem eru í haldi þar. – Jóhannes 5:28, 29.

17 „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ Með þessum einföldu orðum lýsti Jesús í hnotskurn markmiðinu með ævi sinni og þjónustu á jörð. Þessi orð hafa mikla þýðingu fyrir okkur sem nú lifum. Eins og þú manst sagði Jesús í framhaldinu: „Enginn kemst til föðurins án mín.“ (Jóhannes 14:6) Orð Jesú eiga ekki síður við núna en forðum daga þegar hann sagði þau. Við getum þess vegna treyst því að við villumst aldrei ef við fylgjum Jesú. Hann og hann einn vísar okkur veginn „til föðurins“.

Hvernig bregst þú við?

18. Hvað er fólgið í því að vera sannur fylgjandi Jesú?

18 Í ljósi þess hve mikilvægu hlutverki Jesús gegnir og hve náið hann þekkir föðurinn höfum við ríka ástæðu til að fylgja honum. Eins og fram kom í kaflanum á undan þurfum við að sýna það í verki að við fylgjum Jesú í raun og sannleika. Orð eða tilfinningar nægja ekki einar sér. Að fylgja Kristi felur í sér að fara eftir kenningum hans og líkja eftir fordæmi hans. (Jóhannes 13:15) Bókin sem þú ert að lesa getur hjálpað þér til þess.

19, 20. Hvernig er þessi bók uppbyggð og hvernig getur hún hjálpað þér að fylgja Kristi?

19 Í köflunum á eftir munum við skoða náið ævi og þjónustu Jesú. Bókin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum kynnum við okkur eiginleika Jesú og starfshætti. Í öðrum hluta lítum við á ötula prédikun hans og kennslu og í þriðja hlutanum könnum við hvernig hann sýndi kærleika. Í lok hvers kafla, frá og með þeim þriðja, er rammi með yfirskriftinni: „Hvernig geturðu fylgt Jesú?“ Þar er að finna spurningar og ritningarstaði sem eiga að hjálpa okkur að íhuga hvernig við getum líkt eftir Jesú í orði og verki.

20 Svo er Jehóva Guði fyrir að þakka að þú þarft ekki að vera vegvilltur og fjarlægur honum vegna erfðasyndarinnar. Jehóva lagði mikið í sölurnar þegar hann sýndi okkur þann kærleika að senda son sinn til jarðar til að vísa okkur veginn svo að við gætum notið velþóknunar hans og átt samband við hann. (1. Jóhannesarbréf 4:9, 10) Vonandi finnurðu sterka löngun hjá þér til að bregðast rétt við kærleika Guðs með því að þiggja boð Jesú: „Fylgdu mér.“ – Jóhannes 1:43.

a Svo mikilvægt er hlutverk sonarins að honum eru gefin mörg spádómleg nöfn og titlar í Biblíunni. – Sjá rammann „ Nokkrir titlar sem Jesú Kristi eru gefnir“.

c Í Jóhannesi 14:6 er notað persónufornafnið „ég“, og orðið „vegurinn“ stendur með ákveðnum greini. Þetta leggur áherslu á að staða Jesú er einstök. Hann er vegurinn, eini vegurinn sem við getum farið til að nálgast föðurinn.