KAFLI 69
Stúlka hjálpar hershöfðingja
HVAÐ heldur þú að þessi litla stúlka sé að segja? Hún er að segja konunni frá Elísa, spámanni Jehóva, og öllu því dásamlega sem Jehóva hjálpar honum að gera. Konan þekkir ekki til Jehóva vegna þess að hún er ekki ísraelsk. Nú skulum við fá að heyra hvers vegna stúlkan er á heimili konunnar.
Konan er sýrlensk. Maðurinn hennar heitir Naaman og er hershöfðingi yfir sýrlenska hernum. Sýrlendingar hafa tekið þessa litlu ísraelsku stúlku til fanga og farið með hana sem þjónustustúlku til konu Naamans.
Naaman er haldinn slæmum sjúkdómi sem kallast holdsveiki eða líkþrá. Hann getur jafnvel valdið því að holdið detti sums staðar af líkamanum. Þess vegna segir stúlkan við konu Naamans: ‚Ég vildi óska að húsbóndi minn gæti farið til spámanns Jehóva í Ísrael. Hann myndi lækna hann af líkþránni.‘ Síðar er Naaman sagt frá þessu.
Naaman langar mjög mikið til að verða heilbrigður og þess vegna ákveður hann að fara til Ísraels. Þegar hann kemur þangað fer hann heim til Elísa. Elísa lætur þjón sinn fara út og segja Naaman að fara og baða sig sjö sinnum í Jórdan. Naaman verður mjög reiður og segir: ‚Árnar heima eru betri en nokkur á í Ísrael!‘ Að svo mæltu fer hann.
Einn af þjónum hans segir þá við hann: ‚Herra, hefði Elísa sagt þér að gera eitthvað erfitt myndir þú gera það. Hvers vegna getur þú ekki bara þvegið þér núna eins og hann sagði?‘ Naaman hlustar á þjón sinn og fer og dýfir sér sjö sinnum niður í Jórdan. Við það breytist hold hans og hann verður heilbrigður!
Naaman er mjög hamingjusamur. Hann fer aftur til Elísa og segir við hann: ‚Nú veit ég með vissu að enginn sannur Guð er til á allri jörðinni nema Guð Ísraels. Taktu nú við þessari gjöf frá mér.‘ En Elísa svarar: ‚Nei, ég vil ekki þiggja hana.‘ Elísa veit að það væri rangt af honum að taka við gjöfinni af því að það var Jehóva sem læknaði Naaman. En Gehasí, þjón Elísa, langar til að fá gjöfina.
Og hvað gerir Gehasí? Þegar Naaman er farinn hleypur Gehasí af stað og nær honum. ‚Elísa sendi mig til að segja þér að hann myndi gjarnan þiggja eitthvað af gjöfinni fyrir vini sem komu í heimsókn rétt í þessu,‘ segir Gehasí. Auðvitað er þetta lygi. En það veit Naaman ekki og þess vegna gefur hann Gehasí nokkuð af gjöfinni.
Gehasí kemur nú heim en Elísa veit hvað hann hefur gert. Jehóva sagði honum það. Hann segir því: ‚Vegna þess að þú hefur breytt svo illa mun líkþrá Naamans loða við þig.‘ Og samstundis steypist Gehasí út í líkþrá!
Hvað getum við lært af öllu þessu? Í fyrsta lagi að við ættum, eins og litla stúlkan, að tala um Jehóva. Það getur leitt margt gott af sér. Í öðru lagi ættum við ekki að vera hrokafull eins og Naaman var í fyrstu heldur hlýða þjónum Guðs. Og í þriðja lagi ættum við ekki að ljúga eins og Gehasí gerði. Getum við ekki lært margt af Biblíunni?