Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 48

Vitru Gíbeonítarnir

Vitru Gíbeonítarnir

ÍBÚAR margra borga í Kanaan vígbúast nú gegn Ísrael. Þeir halda að þeir geti sigrað þá. En íbúarnir í borginni Gíbeon hugsa ekki þannig. Þeir trúa því að Guð hjálpi Ísraelsmönnum og þeir kæra sig ekki um að berjast gegn Guði. Veistu hvað Gíbeonítarnir gera?

Þeir ákveða að láta líta út sem þeir búi einhvers staðar langt í burtu. Því fara nokkrir mannanna í gamla tötra og slitna ilskó. Þeir leggja gatslitna sekki á asna sína og taka með sér gamalt þurrt brauð. Síðan fara þeir til Jósúa og segja: ‚Við erum komnir frá mjög fjarlægu landi af því að við höfum heyrt um hinn mikla Guð ykkar, Jehóva. Við höfum heyrt um allt sem hann gerði fyrir ykkur í Egyptalandi. Leiðtogar okkar sögðu okkur þess vegna að taka okkur veganesti og leggja af stað og segja við ykkur: „Við erum þjónar ykkar. Lofið okkur því að fara ekki í hernað gegn okkur.“ Þið sjáið að föt okkar eru slitin eftir þessa löngu ferð og brauðið orðið gamalt og þurrt.‘

Jósúa og hinir höfuðsmennirnir trúa Gíbeonítunum. Þeir lofa þess vegna að fara ekki í stríð við þá. En þrem dögum seinna frétta þeir að Gíbeonítarnir búi í raun og veru í næsta nágrenni.

‚Hvers vegna sögðuð þið okkur að þið kæmuð frá fjarlægu landi?‘ spyr Jósúa þá.

Gíbeonítar svara: ‚Við gerðum það vegna þess að okkur var sagt að Guð ykkar, Jehóva, hefði lofað að gefa ykkur allt Kanaanland. Við óttuðumst að þið mynduð drepa okkur.‘ En Ísraelsmenn halda loforð sitt og þeir drepa ekki Gíbeoníta. Þeir gera þá þess í stað að þjónum sínum.

Konungurinn í Jerúsalem er reiður yfir því að Gíbeonítar skuli hafa samið frið við Ísrael. Hann segir við fjóra aðra konunga: ‚Komið og hjálpið mér að berjast við Gíbeon.‘ Og það gera þessir fimm konungar. Var það viturlegt af Gíbeonítum að semja frið við Ísrael fyrst það fær þessa konunga til að koma og berjast gegn þeim? Við munum nú sjá.