KAFLI 38
Njósnararnir tólf
LÍTTU á ávextina sem mennirnir halda á. Sjáðu hve vínberjaklasinn er stór. Það þarf tvo menn til að bera hann á stöng. Og sérðu fíkjurnar og granateplin. Hvaðan komu þessir fallegu ávextir? Frá Kanaanlandi. Mundu að Abraham, Ísak og Jakob bjuggu einu sinni í Kanaan. En vegna hungursneyðarinnar þar fluttist Jakob ásamt fjölskyldu sinni til Egyptalands. Núna, um það bil 216 árum síðar, er Móse að leiða Ísraelsmenn aftur til Kanaanlands. Þeir eru komnir á stað í eyðimörkinni sem kallast Kades.
Í Kanaanlandi búa vondir menn. Þess vegna sendir Móse 12 njósnara þangað og segir við þá: ‚Komist að því hve margir búa þar og hversu sterkir þeir eru. Kannið hvort jarðvegurinn sé góður til ræktunar. Og munið eftir að taka eitthvað af ávöxtum landsins með ykkur hingað aftur.‘
Þegar njósnararnir koma aftur til Kades segja þeir við Móse: ‚Þetta er sannarlega gott land.‘ Og til að sanna það koma þeir með nokkra af ávöxtum landsins. En 10 af njósnurunum segja: ‚Mennirnir sem búa þarna eru stórir og sterkir. Við verðum drepnir ef við reynum að leggja undir okkur landið.‘
Ísraelsmenn verða hræddir þegar þeir heyra þetta. ‚Það hefði verið betra að deyja í Egyptalandi eða jafnvel hérna í eyðimörkinni,‘ segja þeir. ‚Við verðum drepnir í bardaga og konur okkar og börn tekin til fanga. Við skulum velja nýjan leiðtoga í stað Móse og fara aftur til Egyptalands!‘
En tveir af njósnurunum treysta á Jehóva og reyna að róa fólkið. Þeir heita Jósúa og Kaleb. Þeir segja: ‚Verið ekki hrædd. Jehóva er með okkur. Það verður auðvelt að taka landið.‘ En fólkið vill ekki hlusta á þá. Það langar meira að segja til að drepa Jósúa og Kaleb.
Jehóva verður ævareiður þegar hann sér þetta og segir við Móse: ‚Enginn sá sem er 20 ára eða eldri skal komast inn í Kanaanland. Þetta fólk hefur séð kraftaverkin sem ég gerði í Egyptalandi og í eyðimörkinni en treystir mér samt ekki. Núna skal það reika um eyðimörkina í 40 ár þangað til sá síðasti deyr. Aðeins Jósúa og Kaleb skulu komast inn í Kanaanland.‘