Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 46

Múrar Jeríkó

Múrar Jeríkó

HVERS vegna eru múrar Jeríkóborgar að hrynja? Það er engu líkara en að sprengja hafi fallið á þá. En í þá daga höfðu menn hvorki sprengjur né fallbyssur. Jehóva er að gera enn eitt kraftaverkið! Við skulum nú lesa hvernig það gerðist.

Hlustaðu á hvað Jehóva segir við Jósúa: ‚Þú og hermenn þínir skuluð ganga kringum borgina. Gangið kringum hana einu sinni á dag í sex daga. Berið sáttmálsörkina með ykkur. Sjö prestar skulu ganga á undan henni og blása í lúðra sína.

Sjöunda daginn skuluð þið ganga kringum borgina sjö sinnum. Þá skuluð þið blása langan tón í lúðrana og látið alla reka upp mikið heróp. Þá munu múrarnir hrynja til grunna!‘

Jósúa og mennirnir gera eins og Jehóva segir. Þeir ganga þegjandi kringum borgina. Enginn mælir orð. Það eina sem heyrist er lúðrablásturinn og fótatakið. Óvinir fólks Guðs í Jeríkó hljóta að hafa verið hræddir. Sérðu rauða reipið sem hangir út um glugga? Hver á þennan glugga? Já, Rahab hefur gert það sem njósnararnir tveir sögðu henni. Öll fjölskylda hennar er með henni inni í húsinu og fylgist með.

Að lokum rennur upp sjöundi dagurinn. Hermennirnir ganga sjö sinnum kringum borgina. Blásið er í lúðrana, rekið upp heróp og borgarmúrarnir hrynja. Þá segir Jósúa: ‚Drepið alla í borginni og brennið hana. Brennið allt. Takið aðeins silfrið, gullið, eirinn og járnið og gefið það til fjár- hirslunnar í tjaldi Jehóva.‘

Við njósnarana tvo segir Jósúa: ‚Farið inn í hús Rahab og leiðið hana út og alla fjölskyldu hennar.‘ Rahab og fjölskyldu hennar er borgið alveg eins og njósnararnir höfðu lofað henni.