Hoppa beint í efnið

Biblían breytir lífi fólks

Biblían breytir lífi fólks

HVERS vegna ákvað fyrrum fjölkvænismaður og andstæðingur votta Jehóva að verða vottur? Hvað fékk prest í hvítasunnusöfnuði til að breyta trúarskoðunum sínum? Hvað hjálpaði konu sem ólst upp við átakanlegar aðstæður að hætta að hata sjálfa sig og nálgast Guð? Hvers vegna fór þungarokksaðdáandi að boða fagnaðarboðskapinn? Lesum þessar frásögur til að fá svör við því.

„Ég er orðinn betri eiginmaður.“ – RIGOBERT HOUETO

  • FÆÐINGARÁR: 1941

  • FÖÐURLAND: BENÍN

  • FORSAGA: FJÖLKVÆNISMAÐUR OG ANDSTÆÐINGUR VOTTA JEHÓVA

FORTÍÐ MÍN:

Ég er frá Cotonou, stórri borg í Benín. Ég ólst upp sem kaþólikki en sótti ekki kirkju reglulega. Þar sem ég bjó var fjölkvæni leyft og margir kaþólikkar áttu margar eiginkonur. Ég eignaðist með tímanum fjórar eiginkonur.

Þegar bylting braust út árið 1970 hélt ég að það kæmi landinu mínu til góða. Ég studdi hana heilshugar og fór að taka þátt í stjórnmálum. Byltingarmennirnir voru ekki hrifnir af vottum Jehóva því að þeir voru hlutlausir í stjórnmálum. Ég tók þátt í því að ofsækja vottana. Þegar trúboðar meðal vottana voru reknir úr landi árið 1976 var ég viss um að þeir kæmu aldrei aftur.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Byltingunni lauk árið 1990. Mér til undrunar komu trúboðar vottanna fljótlega aftur. Ég fór að velta því fyrir mér hvort Guð væri með þessu fólki. Um þetta leyti skipti ég um vinnu. Einn samstarfsmanna minna var vottur og fór fljótlega að tala við mig um trúna. Hann sýndi mér biblíuvers sem lýsa Jehóva sem Guði kærleika og réttlætis. (5. Mósebók 32:4; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þessir eiginleikar höfðuðu til mín. Mig langaði að vita meira um Jehóva og þáði því biblíunámskeið.

Ég fór fljótlega að sækja samkomur Votta Jehóva. Mér fannst mikið til um þann einlæga kærleika sem þar ríkti. Fólki var ekki mismunað eftir kynþætti eða þjóðfélagsstöðu. Því meira sem ég var með vottunum þeim mun betur sá ég að þeir voru sannir lærisveinar Jesú. – Jóhannes 13:35.

Ég sá að ég yrði að yfirgefa kaþólsku kirkjuna ef ég vildi þjóna Jehóva. Það var ekki auðvelt því að ég óttaðist hvað aðrir hugsuðu. Eftir langan tíma og með hjálp Jehóva safnaði ég í mig kjarki og sagði mig úr kirkjunni.

Það var önnur stór breyting sem ég þurfti að gera. Með biblíunámi mínu komst ég að því að Guð samþykkir ekki fjölkvæni. (1. Mósebók 2:18–24; Matteus 19:4–6) Í hans augum var aðeins fyrsta hjónabandið mitt gilt svo að ég lögskráði það. Ég skildi við hinar eiginkonurnar og gerði ráðstafanir til að séð væri fyrir efnislegum þörfum þeirra. Með tímanum urðu tvær af fyrrum eiginkonum mínum vottar Jehóva.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Þótt eiginkona mín sé enn þá kaþólikki virðir hún ákvörðun mína að þjóna Jehóva. Við erum sammála um að ég sé orðinn betri eiginmaður.

Ég hélt áður að ég gæti bætt samfélagið með þátttöku í stjórnmálum en þær tilraunir reyndust gagnslausar. Nú er mér ljóst að Guðsríki er eina lausnin á vandamálum mannkynsins. (Matteus 6:9, 10) Ég er Jehóva þakklátur fyrir að sýna mér hvernig ég get lifað hamingjuríku lífi.

„Það var ekki auðvelt að gera nauðsynlegar breytingar.“ – ALEX LEMOS SILVA

  • FÆÐINGARÁR: 1977

  • FÖÐURLAND: BRASILÍA

  • FORSAGA: PRESTUR Í HVÍTASUNNUSÖFNUÐI

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í útjaðri borgarinnar Itu í São Paulo. Þessi borgarhluti var þekktur fyrir háa glæpatíðni.

Ég var mjög ofbeldishneigður og siðlaus. Þar að auki seldi ég eiturlyf. Með tímanum áttaði ég mig á því að þessi lífsmáti myndi annað hvort enda með fangelsi eða dauða þannig að ég hætti þessu. Ég gekk í hvítasunnusöfnuð og varð að lokum prestur.

Mér fannst ég geta hjálpað fólki með starfi mínu í söfnuðinum. Ég stýrði jafnvel þætti í svæðisútvarpinu og varð þekktur í samfélaginu. Ég áttaði mig samt smátt og smátt á því að söfnuðurinn hafði ekki áhuga á velferð fólksins í honum, og jafnvel enn þá minni áhuga á að heiðra Guð. Mér fannst eina markmið safnaðarins vera að safna peningum. Ég ákvað að segja mig úr honum.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Þegar ég fór að rannsaka Biblíuna með vottum Jehóva sá ég strax að þeir eru frábrugðnir öðrum trúarbrögðum. Það var tvennt sem stóð upp úr hjá mér. Í fyrsta lagi tala vottar Jehóva ekki bara um að elska Guð og náungann, þeir sýna það í verki. Í öðru lagi taka þeir ekki þátt í stjórnmálum eða hernaði. (Jesaja 2:4) Þetta tvennt sannfærði mig um að ég hefði fundið hina sönnu trú – mjóa veginn sem liggur til lífsins. – Matteus 7:13, 14.

Mér varð ljóst að ef ég vildi þóknast Guði yrði ég að gera miklar breytingar. Ég þurfti að veita fjölskyldunni minni meiri athygli. Ég þurfti líka að sýna meiri auðmýkt. Það var ekki auðvelt að gera þessar breytingar en mér tókst það með hjálp Jehóva. Breytingarnar höfðu mikil áhrif á konuna mína. Hún hafði byrjað að kynna sér Biblíuna á undan mér en núna fór hún að taka meiri framförum. Fljótlega vissum við bæði að við vildum verða vottar Jehóva. Við létum skírast sama daginn.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Við hjónin njótum þess að hjálpa börnunum okkar þrem að rækta náið samband við Jehóva. Við erum hamingjusöm fjölskylda. Ég er Jehóva þakklátur fyrir að hafa dregið mig til sannleikans í orði hans, Biblíunni. Hún breytir sannarlega lífi fólks. Ég er lifandi dæmi um það.

„Núna finnst mér ég heil, lifandi og hrein.“ – VICTORIA TONG

  • FÆÐINGARÁR: 1957

  • FÖÐURLAND: ÁSTRALÍA

  • FORSAGA: ÁTAKANLEGAR AÐSTÆÐUR Í ÆSKU

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í Newcastle í Nýju-Suður-Wales. Ég er elst sjö systkina sem áttu ofbeldisfullan og áfengissjúkan föður og ofbeldisfulla móður. Móðir mín beitti mig líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hún sagði mér ítrekað að ég væri vond og yrði kvalin í vítiseldi. Þessar hótanir skelfdu mig.

Líkamlegir áverkar sem móðir mín veitti mér urðu oft til þess að ég komst ekki í skólann. Þegar ég var 11 ára var ég tekin frá foreldrum mínum og mér komið fyrir á stofnun á vegum ríkisins og síðar í klaustri. Þegar ég var 14 ára flúði ég úr klaustrinu. Ég vildi ekki fara heim og bjó því á götum Kings Cross í úthverfi Sydney.

Á meðan ég bjó á götunni fór ég að neyta fíkniefna og áfengis, horfði á klám og flæktist í vændi. Eitt sinn varð ég mjög hrædd. Ég hafðist við í íbúð sem eigandi næturklúbbs átti. Kvöld eitt komu tveir menn til að hitta hann. Hann sagði mér að fara inn í svefnherbergi en ég heyrði það sem þeir sögðu. Eigandi næturklúbbsins var að gera ráðstafanir til að selja mig þessum mönnum. Þeir ætluðu að fela mig í vöruflutningaskipi og fara með mig til Japans til að vinna á bar. Í skelfingu minni hoppaði ég fram af svölunum og hljóp í burtu.

Ég hitti mann sem var í heimsókn í Sydney og útskýrði fyrir honum hvernig væri komið fyrir mér í þeirri von að hann gæfi mér peninga. En hann bauð mér að koma þangað sem hann dvaldi og fara í sturtu og fá eitthvað að borða. Og ég settist að hjá honum. Ári síðar vorum við gift.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Þegar ég fór að rannsaka Biblíuna með vottum Jehóva upplifði ég margar tilfinningar. Ég varð reið þegar ég komst að því að Satan á sök á illskunni. Mér hafði alltaf verið kennt að það væri Guð sem léti okkur þjást. Mér var létt þegar ég komst að því að hann refsar fólki ekki með vítiseldi. Það hafði valdið mér skelfingu frá því að ég mundi eftir mér.

Ég var hrifin af því hvernig vottarnir taka alltaf mið af Biblíunni þegar þeir taka ákvarðanir. Þeir lifa í samræmi við trú sína. Ég var erfið viðureignar en það var sama hvað ég sagði og gerði, vottarnir komu fram við mig af kærleika og virðingu.

Það sem hefur reynst mér erfiðast er tilfinningin að finnast ég einskis virði. Ég hataði sjálfa mig og þannig leið mér lengi eftir að ég skírðist sem vottur Jehóva. Ég vissi að ég elskaði Jehóva en ég var viss um að hann gæti aldrei elskað manneskju eins og mig.

Það urðu þáttaskil hjá mér þegar ég hafði verið skírð í 15 ár. Ég var að hlusta á ræðu í ríkisal Votta Jehóva þar sem ræðumaðurinn vitnaði í Jakobsbréfið 1:23, 24. Í þessum versum er orði Guðs líkt við spegil. Þegar við horfum í þennan spegil getum við séð okkur sjálf eins og Jehóva sér okkur. Ég fór að velta því fyrir mér hvort ég sæi sjálfa mig öðruvísi en Jehóva sér mig. Í fyrstu ýtti ég þessari nýju hugmynd frá mér. Mér fannst enn þá til of mikils mælst að vænta þess að Jehóva elskaði mig.

Fáeinum dögum síðar las ég biblíuvers sem breytti lífi mínu. Þetta var Jesaja 1:18 þar sem Jehóva segir: „Komið, vér skulum eigast lög við … Þó að syndir yðar séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll.“ Mér fannst eins og Jehóva væri að tala við mig og segði: „Svona nú Vicky, við skulum útkljá þetta mál. Ég þekki þig, syndir þínar og hjarta þitt – og ég elska þig.“

Ég var andvaka um nóttina. Ég efaðist enn þá um að Jehóva gæti elskað mig en ég fór að hugsa um lausnarfórn Jesú. Allt í einu rann upp fyrir mér að Jehóva hafði sýnt mér þolinmæði ótrúlega lengi og sýnt á ótal vegu að hann elskaði mig. En samt sagði ég eiginlega við hann: „Kærleikur þinn er ekki nógu sterkur til að ná til mín. Fórn sonar þíns nægir ekki til að greiða fyrir syndir mínar.“ Það var eins og ég hefði afþakkað lausnargjaldið. En núna, þegar ég hugsaði um þá gjöf sem lausnargjaldið er, fann ég loksins fyrir því að Jehóva elskaði mig.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Mér finnst ég heil, lifandi og hrein. Hjónaband mitt er betra og ég er ánægð að geta notað reynslu mína til að hjálpa öðrum. Ég finn að ég er að verða stöðugt nánari Jehóva.

„Þetta var svarið við bæn minni.“ – SERGEY BOTANKIN

  • FÆÐINGARÁR: 1974

  • FÖÐURLAND: RÚSSLAND

  • FORSAGA: ÞUNGAROKKSAÐDÁANDI

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í Votkinsk, fæðingarbæ hins fræga tónskálds, Tchaikovsky. Fjölskyldan mín var fátæk. Faðir minn bjó yfir mörgum góðum eiginleikum en hann var áfengissjúklingur þannig að andrúmsloftið á heimilinu var erfitt.

Ég var ekki góður námsmaður og með árunum fór minnimáttarkennd að þjaka mig. Ég varð óframfærinn og treysti ekki öðru fólki. Það olli mér mikilli streitu að mæta í skólann. Þegar ég átti til dæmis að tala fyrir framan aðra gat ég oft ekki útskýrt einfaldar hugmyndir sem ég gat á öðrum tímum. Þegar ég útskrifaðist úr áttunda bekk stóð á einkunnablaðinu mínu: „Takmarkaður orðaforði, á erfitt með að tjá hugsanir sínar.“ Þessi orð rifu mig niður og mér fannst ég enn þá minna virði. Ég fór að velta fyrir mér tilganginum með því að lifa.

Ég byrjaði að drekka áfengi þegar ég var unglingur. Í fyrstu leið mér vel af því. En þegar ég drakk of mikið fór samviskan að trufla mig. Líf mitt virtist tilgangslaust. Ég varð þunglyndari og fór stundum ekki út úr húsi dögum saman. Ég hugsaði með mér hvort það væri betra að binda enda á líf mitt.

Þegar ég varð tvítugur varð önnur tímabundin undankomuleið á vegi mínum. Ég uppgötvaði þungarokk. Þessi tónlist gaf mér orku og ég leitaði uppi aðra sem hlustuðu á hana. Ég lét hárið vaxa, fékk mér göt í eyrun og klæddi mig eins og tónlistarmennirnir sem ég dáði. Með tímanum varð ég hirðulaus og árásagjarn og reifst oft við fjölskylduna mína.

Ég hélt að ég yrði hamingjusamur þegar ég hlustaði á þungarokk en hið gagnstæða gerðist. Ég var ekki lengur sami maðurinn. Og þegar ég komst að ýmsu misjöfnu um þessa frægu tónlistarmenn sem ég hafði litið upp til fannst mér ég svikinn.

Ég fór aftur að hugsa um að binda enda á líf mitt, í þetta sinn af meiri alvöru. Það eina sem stöðvaði mig var tilhugsunin um hvaða áhrif það hefði á móður mína. Hún elskaði mig innilega og hafði gert svo mikið fyrir mig. Ástandið var hörmulegt. Ég gat ekki lifað en ég gat ekki heldur bundið enda á líf mitt.

Til að dreifa huganum fór ég að lesa rússneskar klassískar bókmenntir. Ein sagan fjallar um hetju sem þjónaði í kirkju. Skyndilega fékk ég brennandi löngun til að gera eitthvað fyrir Guð og annað fólk. Ég úthellti hjarta mínu í bæn til Guðs en það hafði ég aldrei gert áður. Ég bað Guð um að sýna mér hvernig ég gæti lifað tilgangsríku lífi. Á meðan ég bað fann ég til ótrúlegs léttis. En það sem gerðist næst var enn merkilegra. Aðeins tveim tímum síðar bankaði vottur Jehóva upp á og bauð mér biblíunámskeið. Ég trúi því að þetta hafi verið svar við bæn minni. Þetta var upphafið að hamingjuríku lífi.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Þótt það væri ekki auðvelt henti ég öllu sem ég átti og tengdist þungarokki. En lengi vel fór tónlistin ekki úr huga mér. Hvenær sem ég gekk fram hjá þar sem verið var að spila hana var mér strax hugsað til fortíðar minnar. Ég vildi ekki blanda þessum óskemmtilegu minningum við allt það góða sem ég var að reyna að rækta í huga mínum og hjarta. Ég reyndi því að forðast slíka staði. Og í hvert sinn sem ég fór að hugsa um fortíðina bað ég innilega til Jehóva. Það hjálpaði mér að finna ,frið Guðs, sem er æðri öllum skilningi‘. – Filippíbréfið 4:7.

Þegar ég rannsakaði Biblíuna lærði ég að kristnir menn hafa þá skyldu að segja öðrum frá trú sinni. (Matteus 28:19, 20) Mér fannst í einlægni að ég gæti það aldrei. En það sem ég var að læra veitti mér hamingju og innri frið. Ég vissi að aðrir þyrftu að fá að heyra um sannleikann líka. Þrátt fyrir óttann fór ég að tala við aðra um það sem ég var að læra. Mér til mikillar undrunar óx sjálfstraust mitt þegar ég fór að tala við aðra um Biblíuna. Það styrkti líka nýfundna trú mína.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Ég er nú hamingjusamlega giftur og hef átt því láni að fagna að hjálpa nokkrum að rannsaka Biblíuna, þar á meðal systur minni og móður. Að þjóna Guði og hjálpa öðrum að læra um hann hefur gefið lífi mínu raunverulegan tilgang.