Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skírnin og þýðing hennar

Skírnin og þýðing hennar

12. kafli

Skírnin og þýðing hennar

1. Af hverju ættum við öll að hafa áhuga á skírninni?

 ÁRIÐ 29 lét Jesús skírast niðurdýfingarskírn hjá Jóhannesi skírara í ánni Jórdan. Jehóva fylgdist með og lýsti yfir velþóknun sinni. (Matteus 3:16, 17) Með skírninni gaf Jesús fyrirmynd sem allir lærisveinar hans áttu að fylgja. Þrem og hálfu ári síðar sagði hann við þá: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.“ (Matteus 28:18, 19) Hefur þú látið skírast í samræmi við þessi fyrirmæli Jesú? Ef ekki, ertu þá að búa þig undir það?

2. Hvaða spurningum þarf að svara um skírnina?

2 Hvort sem fólk hefur látið skírast eða ekki þurfa allir sem vilja þjóna Jehóva og langar til að lifa í nýja heiminum að hafa góðan skilning á skírninni. Við þurfum að fá svör við spurningum eins og: Táknar skírn kristinna manna hið sama og skírn Jesú? Hvað merkir það að skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda“? Hvað er fólgið í því að lifa í samræmi við skírnina og það sem hún táknar?

Skírn Jóhannesar

3. Hverjum var skírn Jóhannesar ætluð?

3 Hálfu ári áður en Jesús var skírður tók Jóhannes skírari að prédika í eyðimörk Júdeu: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matteus 3:1, 2) Fólk heyrði hvað Jóhannes prédikaði og tók það til sín. Menn játuðu syndir sínar, iðruðust þeirra og komu síðan til Jóhannesar og tóku skírn hjá honum í Jórdan. Þessi skírn var ætluð Gyðingum. — Lúkas 1:13-16; Postulasagan 13:23, 24.

4. Af hverju var brýnt fyrir Gyðinga á fyrstu öld að iðrast?

4 Það var brýnt fyrir Gyðinga að iðrast. Þegar þjóðin var stödd við Sínaífjall árið 1513 f.Kr. hafði hún gengist undir hátíðlegan sáttmála við Jehóva Guð. En svo grófar voru syndir Gyðinga að þeir risu ekki undir þeirri ábyrgð sem sáttmálinn lagði þeim á herðar. Samkvæmt honum voru þeir fordæmdir. Á dögum Jesú var ástandið orðið mjög alvarlegt. „Hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins“, sem Malakí hafði boðað, var í nánd. Þessi „dagur“ rann upp árið 70 þegar rómverskar hersveitir eyddu Jerúsalem og musterinu og yfir ein milljón Gyðinga lá í valnum. Jóhannes skírari hafði brennandi áhuga á sannri guðsdýrkun og var sendur á undan eyðingunni til að „búa Drottni altygjaðan lýð“. Fólk þurfti að iðrast synda sinna gegn lagasáttmála Móse og búa sig undir að taka á móti Jesú sem Jehóva Guð var í þann mund að senda til þjóðarinnar. — Malakí 4:4-6; Lúkas 1:17; Postulasagan 19:4.

5. (a) Hvernig brást Jóhannes við þegar Jesús kom til hans til að láta skírast og af hverju? (b) Hvað táknaði skírn Jesú?

5 Jesús var einn þeirra sem kom til Jóhannesar til að láta skírast, þá þrítugur að aldri. En af hverju? Jóhannes vissi að Jesús hafði engar syndir að játa og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!“ En skírn Jesú átti að tákna eitthvað annað og þess vegna svaraði hann Jóhannesi: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ (Matteus 3:13-15) Jesús var syndlaus svo að skírn hans táknaði ekki iðrun vegna synda. Hann þurfti ekki heldur að vígjast Guði því að hann tilheyrði þjóð sem var vígð honum. Skírn Jesú var einstök og táknaði að hann bauð sig fram til að gegna því hlutverki sem faðir hans ætlaði honum.

6. Hve alvarlega tók Jesús það hlutverk að gera vilja Guðs?

6 Vilji Guðs með Jesú Krist fól í sér að Jesús boðaði ríki hans. (Lúkas 8:1) Jesús átti einnig að gefa fullkomið mannslíf sitt sem lausnargjald og sem grundvöll nýs sáttmála. (Matteus 20:28; 26:26-28; Hebreabréfið 10:5-10) Hann tók skírn sína mjög alvarlega og það sem fólst í henni. Hann lét ekkert draga athygli sína frá því að gera vilja Guðs. Allt þar til lífi hans lauk hér á jörð þjónaði hann Guði dyggilega og einbeitti sér að því að boða ríki hans. — Jóhannes 4:34.

Skírn kristinna lærisveina

7. Hvað áttu kristnir menn að gera frá og með hvítasunnu árið 33?

7 Fyrstu lærisveinar Jesú skírðust hjá Jóhannesi og síðar var þeim vísað til Jesú. Þeir áttu í vændum að tilheyra ríkinu á himnum. (Jóhannes 3:25-30) Lærisveinar Jesú skírðu einnig undir handleiðslu hans og sú skírn táknaði hið sama og skírn Jóhannesar. (Jóhannes 4:1, 2) En frá og með hvítasunnu árið 33 tóku þeir að skíra „í nafni föður, sonar og heilags anda“ eins og þeim hafði verið falið að gera. (Matteus 28:19) Það er ákaflega gott að kynna sér vel hvað sú skírn þýðir.

8. Hvað er fólgið í því að skírast „í nafni föður“?

8 Hvað merkir það að skírast „í nafni föður“? Það merkir að viðurkenna nafn hans, stöðu, vald, vilja og lög. Hugleiddu hvað er fólgið í því. (1) Í Sálmi 83:19 segir um nafn hans: „Þú einn heitir Drottinn [„Jehóva“, New World Translation], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ (2) Í 2. Konungabók 19:15 segir um stöðu hans: „Drottinn . . . þú einn ert Guð.“ (3) Um vald hans segir í Opinberunarbókinni 4:11: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (4) Við verðum einnig að viðurkenna að Jehóva er lífgjafinn sem ætlar að bjarga okkur úr fjötrum syndar og dauða: „Hjá Drottni er hjálpin.“ (Sálmur 3:9; 36:10) (5) Við þurfum að viðurkenna að Jehóva sé æðsti löggjafinn: „Drottinn er vor dómari, Drottinn er vor löggjafi, Drottinn er vor konungur.“ (Jesaja 33:22) Þar sem Jehóva er allt þetta erum við hvött til að elska hann „af öllu hjarta . . . allri sálu . . . og öllum huga“. — Matteus 22:37.

9. Hvað merkir það að skírast „í nafni . . . sonar“?

9 Hvað merkir það að skírast „í nafni . . . sonar“? Það merkir að viðurkenna nafn, embætti og vald Jesú Krists. Nafnið Jesús merkir „Jehóva er hjálpræði“. Embætti hans byggist á því að hann er eingetinn sonur Guðs, fyrsta sköpunarvera hans. (Matteus 16:16; Kólossubréfið 1:15, 16) Í Jóhannesi 3:16 segir um soninn: „Svo elskaði Guð heiminn [þá menn sem hægt er að endurleysa], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Jesús var trúfastur allt til dauða og þess vegna reisti Jehóva hann upp frá dauðum og fékk honum enn meira vald en áður. Páll postuli segir að Guð hafi „hátt upp hafið hann [Jesú]“ svo að hann gengur Jehóva næstur að völdum. Þess vegna segir að „fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig . . . og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn“. (Filippíbréfið 2:9-11) Þetta þýðir að við hlýðum boðorðum Jesú sem eru auðvitað frá Jehóva komin. — Jóhannes 15:10.

10. Hvað merkir það að skírast „í nafni . . . heilags anda“?

10 Hvað merkir það þá að skírast „í nafni . . . heilags anda“? Það merkir að viðurkenna hlutverk og starfsemi heilags anda en heilagur andi er starfskraftur Guðs sem hann notar til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans.“ (Jóhannes 14:16, 17) Hvað myndi þessi hjálpari gera þeim kleift? Jesús sagði: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Jehóva beitti heilögum anda til að láta skrifa Biblíuna: „Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ (2. Pétursbréf 1:21) Við erum því að viðurkenna hlutverk heilags anda þegar við stundum biblíunám. Önnur leið til að viðurkenna hlutverk andans er að biðja Jehóva að hjálpa okkur að bera ávöxt hans sem er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi“. — Galatabréfið 5:22, 23, Biblían 2007.

11. (a) Hvað táknar skírnin á okkar dögum? (b) Að hvaða leyti líkist skírnin dauða og upprisu?

11 Þeir fyrstu sem skírðust í samræmi við fyrirmæli Jesú voru Gyðingar og fólk sem tekið hafði Gyðingatrú. Það var árið 33. Skömmu síðar fengu Samverjar tækifæri til að gerast lærisveinar Krists. Síðan, árið 36, var óumskornum mönnum af þjóðunum einnig boðið að gerast lærisveinar. Áður en Samverjar og fólk af þjóðunum lét skírast þurfti það að vígjast Jehóva persónulega til að þjóna honum sem lærisveinar sonar hans. Það er þetta sem er fólgið í kristinni niðurdýfingarskírn enn þann dag í dag. Alger niðurdýfing í vatn er viðeigandi tákn um þessa vígslu vegna þess að skírnin er táknræn greftrun. Með því að fara á kaf í vatnið erum við í táknrænni merkingu að deyja gagnvart fyrra líferni. Þegar við komum upp úr vatninu lifnum við táknrænt til að gera vilja Guðs. Fyrir sannkristna menn er aðeins „ein skírn“. Með skírninni verða þeir kristnir vottar Jehóva og vígðir þjónar orðsins. — Efesusbréfið 4:5; 2. Korintubréf 6:3, 4.

12. Hverju samsvarar skírn kristinna manna og hvernig?

12 Þessi skírn er afar mikilvæg í augum Guðs. Hún er fólki til bjargar. Pétur postuli bendir á að Nói hafi smíðað örk sem varð honum og fjölskyldu hans til björgunar í flóðinu. Síðan segir hann: „Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists.“ (1. Pétursbréf 3:21) Örkin var áþreifanlegur vitnisburður þess að Nói hefði dyggilega unnið það verk sem Guð fól honum. Eftir að smíði arkarinnar var lokið „gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst“. (2. Pétursbréf 3:6) En Nói og fjölskylda hans, alls átta manns, komust lífs af. — 1. Pétursbréf 3:20.

13. Frá hverju bjargast kristinn maður með því að skírast?

13 Þeir sem vígjast Jehóva vegna þess að þeir trúa á Jesú Krist upprisinn láta skírast til tákns um það. Þeir gera það sem Guð ætlast til af þeim núna og er bjargað frá illum heimi nútímans. (Galatabréfið 1:3, 4) Þeir eiga ekki lengur yfir höfði sér að farast með illum heimi heldur eiga í vændum að lifa áfram. Guð gefur þeim góða samvisku. Jóhannes postuli flytur þjónum Guðs eftirfarandi loforð: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Skírninni fylgir ábyrgð

14. Af hverju er skírnin sem slík ekki trygging fyrir björgun?

14 Það væru mikil mistök að halda að skírnin sem slík sé trygging fyrir því að við björgumst. Hún hefur því aðeins gildi fyrir okkur að við höfum vígst Jehóva í sannleika fyrir milligöngu Jesú Krists og lifum þaðan í frá í samræmi við vilja Guðs. Við þurfum að vera trú allt til enda. „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Matteus 24:13.

15. (a) Hver er vilji Guðs með skírða kristna menn? (b) Hve stóran sess ætti það að skipa í lífi okkar að vera lærisveinar Krists?

15 Til að gera vilja Guðs þurfti Jesús að nota jarðneskt líf sitt á ákveðinn hátt. Hann átti að leggja það í sölurnar sem fórn. Hvað um okkur? Við eigum að bjóða Guði líkama okkar og lifa fórnfúsu lífi með því að gera vilja hans. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Ef við hegðuðum okkur af ásettu ráði eins og umheimurinn, þó ekki væri nema af og til, værum við ekki að gera vilja Guðs. Við værum ekki heldur að gera vilja hans ef við þjónuðum honum aðeins til málamynda en einbeittum okkur að eigingjörnum hugðarefnum. (1. Pétursbréf 4:1-3; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Þegar Gyðingur nokkur spurði hvað hann þyrfti að gera til að hljóta eilíft líf benti Jesús á að það væri mikilvægt að lifa siðferðilega hreinu lífi. En síðan benti hann á annað sem væri enn mikilvægara: Að vera kristinn lærisveinn og fylgja Jesú. Það þarf að skipa stóran sess í lífinu og má ekki koma á eftir því að afla sér efnislegra hluta. — Matteus 19:16-21.

16. (a) Hvaða verkefni hafa allir kristnir menn? (b) Hvernig er hægt að boða ríki Guðs á áhrifaríkan hátt, samanber bls. 116 og 117? (c) Hvað látum við í ljós með því að boða ríki Guðs af heilum hug?

16 Rétt er að minna á það aftur að vilji Guðs með Jesú fól í sér mikilvægt verkefni sem tengdist ríki hans. Jesús var smurður til að vera konungur þess. En meðan hann var á jörðinni boðaði hann fagnaðarerindið um þetta ríki af miklu kappi. Við höfum svipað verk að vinna og höfum fullt tilefni til að gera það af heilum hug. Þannig sýnum við að drottinvald Jehóva er okkur mikils virði og einnig að við elskum náungann. (Matteus 22:36-40) Við sýnum að við erum sameinuð trúsystkinum okkar um allan heim því að þau eru öll boðberar fagnaðarerindisins. Sem einn maður keppum við að því marki að hljóta eilíft líf á jörð undir stjórn þessa ríkis.

Til upprifjunar

• Hvað er líkt og hvað ólíkt með skírn Jesú og skírn kristinna manna nú á dögum?

• Hvað merkir það að skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda“?

• Hvaða ábyrgð fylgir skírn kristinna manna?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 116, 117]

HÆGT ER AÐ BOÐA RÍKI GUÐS Á ÝMSA VEGU

hús úr húsi

meðal ættingja

meðal vinnufélaga

meðal skólafélaga

á götum úti

með því að heimsækja áhugasama aftur

með því að halda biblíunámskeið