Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve miklu máli skiptir útlitið?

Hve miklu máli skiptir útlitið?

10. kafli

Hve miklu máli skiptir útlitið?

ERTU óánægður með útlitið? Fáir — ef þá nokkrir — eru fullkomlega ánægðir með útlit sitt. Ólíkt Narkissosi, sem varð ástfanginn af eigin spegilmynd í tærri vatnslind, liggur við að sumir fái þunglyndiskast við að sjá spegilmynd sína.

‚Ég er svo hræðilega óánægð með líkama minn,‘ segir María sem er 16 ára. ‚Mér finnst ég svo ófríð.‘ Bob, sem er 13 ára, kvartar líka: ‚Ég þoli ekki hárið á mér, hvernig það stendur út í loftið í hnakkanum.‘ Það bætir ekki úr skák að útlit unglinga getur breyst svo hratt að þeim finnst þeir stundum „ekki einu sinni þekkja sinn eigin líkama,“ að sögn sálfræðings. Margir eru því óánægðir með andlitið, hárið, vaxtarlagið og líkamsbygginguna.

Guð kann auðvitað að meta fegurð. Prédikarinn 3:11 segir: „Allt hefur [Guð] gert snoturt á sínum tíma.“ (New World Translation) Og útlit þitt getur haft veruleg áhrif á framkomu annarra og afstöðu til þín. Dr. James P. Comer bendir á annað: „Líkamsímynd er hluti af sjálfsmynd. Hún getur haft áhrif á sjálfstraust fólks og það sem það gerir og gerir ekki í lífinu.“ Heilbrigður áhugi á útliti sínu er af hinu góða. Það er hins vegar ekki heilbrigt að hafa svo miklar áhyggjur af útliti sínu að það komi manni til að forðast aðra og vera óánægður með sjálfan sig.

Hver segir að þú sért ekki aðlaðandi?

Það er athyglisvert að óánægja með eigið útlit stafar reyndar alls ekki alltaf af raunverulegum útlitsgöllum. Grannvaxin stúlka í bekknum óskar þess kannski að hún væri eilítið holdameiri, en bústinni stúlku við næsta borð finnst hún vera „spikfeit.“ Af hverju stafar slík óánægja? Hvað kemur velsköpuðum unglingum til að halda að þeir séu óaðlaðandi?

Richard M. Sarles, sem er prófessor í sálfræði, segir: „Gelgjuskeiðið er millibilsástand þegar líkaminn tekur miklum breytingum. . . . Flestir unglingar á gelgjuskeiði reiða sig á það öryggi, sem þeir finna í hópi jafnaldra sinna, til að fela þann vandræðagang sem fylgir nýjum og breyttum líkama.“ En rannsakandi augnaráð félaganna getur líka valdið alls konar áhyggjum. ‚Skyldi þeim finnast ég of hávaxinn, of lágvaxinn, of feitur eða of grannur? Hvað ætli þeim finnist um nefið á mér eða eyrun?‘ Og þegar aðrir njóta meiri athygli en þú eða útlit þitt er haft í flimtingum, er auðvelt að verða óánægður með sjálfan sig.

Svo má ekki gleyma hinum gríðarlegu áhrifum sjónvarps, kvikmynda og bóka. Myndarlegt fólk mænir á okkur af sjónvarpsskjánum og af síðum tímarita og reynir að selja okkur allt frá ilmvatni til borvéla. Þannig reyna fjölmiðlarnir að koma þeirri hugmynd inn hjá fólki að sé það ekki fegurðardísir með silkimjúka húð eða vöðvastæltir hlunkar, geti það bara skriðið inn í holu einhvers staðar — eða að minnsta kosti gefið upp alla von um að verða nokkurn tíma vinsælt eða hamingjusamt.

Láttu ekki ‚þröngva þér í þeirra mót‘

En áður en þú telur sjálfum þér trú um að þú sért bara ljótur andarungi skaltu spyrja þig að hve miklu leyti ‚útlitsgallar‘ þínir séu raunverulegir — eða ímyndaðir. Eru þessir andlitsdrættir, sem þú ert óánægður með (eða er strítt með), í alvöru til einhverra lýta eða hafa aðrir bara talið þér trú um það? Biblían ráðleggur: „Láttu ekki heiminn umhverfis þig þröngva þér í sitt mót.“ — Rómverjabréfið 12:2, Phillips.

Hugsaðu málið: Hverjir eru það sem koma þeirri hugmynd á framfæri að maður verði að hafa sérstakt útlit til að vera vinsæll, hamingjusamur eða komast áfram í lífinu? Eru það ekki framleiðendur og auglýsendur sem hagnast á því að fólk eltist við sérstakt megrunarfæði eða dýr fegrunarmeðul? Er einhver ástæða til að láta þá móta hugsun sína? Og ef kunningjarnir finna að útliti þínu, er það þá sökum hjálpsemi — eða bara til að lítillækka þig? Ef það er hið síðarnefnda þarftu varla á slíkum „vinum“ að halda hvort eð er.

Biblían ráðleggur þér að ‚hneigja hjarta þitt að hyggindum.‘ (Orðskviðirnir 2:2) Hyggindi og dómgreind hjálpa þér að líta hlutlægt á sjálfan þig og taka áróðri fjölmiðla með fullri varúð. Fæstir geta nokkurn tíma litið út eins og hátt launaðar fyrirsætur. Og „fegurðin er loftbóla.“ (Orðskviðirnir 31:30, Byington) Fólk, sem græðir á útliti sínu, er á toppnum aðeins stutta stund og er svo ýtt til hliðar í skiptum fyrir nýtt og ferskt andlit. Og oft eru unnin kraftaverk á útliti þessa fólks með andlitsförðun, lýsingu og brellum ljósmyndatækninnar. (Sumum bregður illilega við að sjá hvernig fræga fólkið lítur út án fegrunarbragðanna!)

Það er því engin ástæða til að vera niðurdreginn þótt þú lítir ekki út eins og kvikmyndastjarna eða ljósmyndafyrirsæta. Auk þess geta félagarnir varla fellt lokadóm um það hve stór, lítill eða grannur þú þurfir að vera til að kallast aðlaðandi. Ef þú ert sáttur við útlitið skaltu taka mátulega lítið mark á því sem kunningjarnir segja. Það er reyndar broslegt að einhver annar kann að öfunda þig af útlitseinkenni sem þú ert sjálfur óánægður með.

Notaðu það sem þú hefur til að bera

Stundum hafa unglingar ástæðu til að vera óánægðir með útlit sitt: þeir eru feitir, með slæma húð, ólögulegt nef, útstæð eyru eða óvenjulágvaxnir. Að sjálfsögðu er útlitið alltaf að breytast meðan unglingurinn er í vexti. Gelgjubólur, þyngdarsveiflur og mjög hraður (eða skelfilega hægur) vöxtur eru böl táningaáranna. Tíminn leysir mörg slík vandamál.

Önnur leysast ekki af sjálfu sér. Margir unglingar verða að sætta sig við að þeir eru ósköp venjulegir í útliti. Rithöfundurinn John Killinger segir: „Fyrir flesta er einhver sárasta staðreynd lífsins sú að þeir eru ekki fallegir, staðreynd sem þeir uppgötva snemma og sitja yfirleitt uppi með alla ævi.“ Þú getur hins vegar látið það sem þú hefur til að bera njóta sín sem best.

Fegrunarskurðaðgerðir geta verið kostnaðarsamar og eru stundum áhættusöm leið til að bæta úr útlitsgöllum. * En einfalt hreinlæti kostar lítið og getur aukið aðdráttarafl þitt til muna. Hárið á þér er kannski ekki jafnglansandi og á kvikmyndastjörnu en það getur verið hreint, og hið sama má segja um andlitið, hendurnar og neglurnar. Brosið er fegurra ef tennurnar eru hvítar og tannholdið hreint. Ertu helst til feitur? Kannski geturðu bætt úr því með breyttu mataræði og aukinni hreyfingu, ef til vill í samráði við lækni.

Í samráði við foreldra þína gætirðu líka prófað þig áfram með klæðnað og hárgreiðslu til að draga fögru drættina betur fram og gera minna úr útlitsgöllunum. Rithöfundurinn Sharon Faelten nefnir sem dæmi að stúlkur geti gert stórt nef minna áberandi með því að „setja hárið upp eða ýfa það eilítið til að gera það fyrirferðarmeira.“ Hægt er að mýkja skarpa andlitsdrætti með því að hafa hárið „liðað eða krullað“ og með smekkvísri andlitsförðun getur stúlka látið bera minna á vissum útlitsgöllum. Bæði strákar og stelpur geta breytt heilmiklu með því að velja réttu fötin. Veldu þér liti sem falla vel að litarhætti þínum og snið sem klæða þig vel. Gættu að röndum og sniði: lóðréttar línur virka grennandi en láréttar hið gagnstæða!

Með hugkvæmni og viðleitni geturðu verið aðlaðandi í útliti — jafnvel þótt þú hafir ekki fengið sérstaklega fallegt útlit í vöggugjöf.

Gæta þarf jafnvægis

Þótt mikilvægt sé að gefa gaum að útliti sínu skaltu gæta þess að láta útlitið ekki verða inntak lífsins. Hefurðu nokkurn tíma veitt því athygli hve lítið Biblían talar um útlit fólks? Af hverju er okkur ekki sagt hvernig Abraham, María eða jafnvel Jesús litu út? Guð áleit það greinilega ekki skipta máli.

Athyglisvert er að Guð hafnaði einu sinni sem konungsefni ungum manni er Elíab hét, þótt hann væri hávaxinn og myndarlegur. Jehóva Guð sagði við spámanninn Samúel: „Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt, því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en [Jehóva] lítur á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:6, 7) Það er mjög uppörvandi að útlit okkar skuli ekki vera þyngst á metunum í augum Guðs — og það er afstaða hans sem er þýðingarmest! ‚Jehóva lítur á hjartað.‘

Hvernig líta vinir þínir annars út? Eru þeir ekki flestir ósköp venjulegir í útliti? Og lítur annað hvort foreldra þinna út eins og það sé klippt út af forsíðu tískublaðs? Sennilega ekki. Hins vegar þekkir þú hina góðu eiginleika þeirra og hugsar sjaldan um útlit þeirra! Þú hefur líka mannkosti sem eru langtum þyngri á metunum en einhverjir raunverulegir eða ímyndaðir útlitsgallar.

Engu að síður leggja unglingar, sem þú umgengst, mikið upp úr ytra útliti og þér finnst kannski þrýst á þig til að líkjast þeim í klæðaburði, hárgreiðslu eða snyrtingu. Hvernig ættirðu að bregðast við slíkum þrýstingi?

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Sumar læknisaðgerðir, svo sem tannréttingar, geta stuðlað bæði að góðri heilsu og útliti.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna hugsa unglingar svona mikið um útlitið? Hvað finnst þér um útlit þitt?

◻ Hvaða viðhorf til ytra útlits leggja fjölmiðlar og kunningjar þínir áherslu á? Hvernig ættirðu að bregðast við slíkum áhrifum?

◻ Nefndu nokkur góð ráð í baráttunni við gelgjubólur.

◻ Hvernig geturðu hagnýtt þér útlit þitt sem best? Hvers vegna er nauðsynlegt að gæta jafnvægis í því efni?

[Innskot á blaðsíðu 82]

‚Ég er svo hræðilega óánægð með líkama minn . . . Mér finnst ég svo ófríð.‘

[Innskot á blaðsíðu 88]

Þú hefur mannkosti sem eru langtum þyngri á metunum en einhverjir útlitsgallar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 84, 85]

‚Hvað get ég gert til að losna við gelgjubólurnar?‘

Gelgjubólur birtast í ýmsum myndum, sem rauðir þrotablettir, graftarbólur, fílapenslar eða blöðrur. Hjá mörgum unglingum er á ferðinni alvarlegur húðkvilli, ekki bara smávægileg óþægindi sem vara ekki nema fáeina mánuði. Þessi kvilli getur raunar lagst á fólk á öllum aldri en táningar verða verst úti. Sumir sérfræðingar áætla að um 80 af hundraði allra unglinga fái gelgjubólur að einhverju marki.

Tvö þúsund unglingar voru spurðir hvað þeir væru óánægð­astir með í sambandi við sjálfa sig. Engum kom á óvart að húðkvillar skyldu vera langalgengasta svarið. Sandra, sem varð frekar illa úti að þessu leyti í framhaldsskóla, segir: „Ég var með svo slæmar unglingabólur að ég var alltaf að reyna að fela andlitið fyrir öðru fólki. Ég var dauðfeimin af því að ég fór öll hjá mér vegna útlitsins. . . . Ég leit svo hræðilega út.“ — Tímaritið Co-Ed.

Af hverju leggst þessi plága á fólk á unglingsárunum, einmitt þegar það vill gjarnan líta sem best út? Vegna þess að líkaminn er að þroskast og starfsemi húðfitukirtlanna eykst við upphaf kynþroskaskeiðsins.

Hvað gerist? The World Book Encyclopedia útskýrir það með einföldum hætti: Fitukirtill opnast út í hársekk sem hvert einstakt hár vex úr. Þegar allt er eðlilegt seytlar húðfitan út um holur í húðinni, en stundum stíflast holurnar og fitan safnast fyrir. Svonefndur fílapensill eða svarthöfði myndast þegar fitan gengur í samband við súrefni, þornar og verður svört og bóla myndast á húðinni. Ef sýklar tímgast í innilokaðri fitunni myndast graftarbóla með bólguþrota. Það eru slíkar graftarbólur sem geta skilið eftir varanleg ör. Bólur skilja ekki eftir ör í húðinni nema ígerð komi í þær, en það gerist oft þegar þær eru kreistar eða potað í þær. Láttu það vera að kreista eða pota!

Spenna og geðshræring getur aukið starfsemi húðfitukirtlanna. Sumir þekkja það að stór bóla myndast skömmu fyrir einhvern mikilvægan viðburð, fyrir próf eða meðan á þeim stendur. Hér eiga orð Jesú vel við: „Hafið . . . ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ — Matteus 6:34.

Því miður eru engar undralækningar til. Þó er hægt að fá ýmis meðul án lyfseðils í lyfjabúðum, svo sem húðkrem, smyrsl, hreinsikrem og sápur sem innihalda sótthreinsandi efni sem geta haldið gelgjubólunum í skefjum. (Leita má læknis ef sterkari lyfja er þörf.) Mörgum reynist vel að þvo andlitið vandlega með sápu sem inniheldur sótthreinsiefni. Hins vegar þarf að varast fituríkar sápur eða snyrtivörur sem innihalda olíu.

Mörgum unglingum hefur reynst vel að lifa heilbrigðu líferni — fá næga hreyfingu, vera eins mikið úti og mögulegt er og fá nægan svefn. Umdeilt er hvort fitusnautt mataræði komi að gagni, en auðvitað er skynsamlegt að borða næringarríkan og fjölbreyttan mat og forðast „sjoppumat.“

Þolinmæði er nauðsynleg hvað sem öðru líður. Mundu að gelgjubólurnar spruttu ekki upp á einum degi og þær hverfa ekki heldur á einni nóttu. Sandra, sem getið er hér á undan, segir: „Ég sá breytingu til batnaðar innan sex vikna, en ætli það hafi ekki tekið heilt ár áður en húðin var orðin alveg góð á ný.“ Ef þú velur þér skynsamlega meðferð og framfylgir henni ættirðu að sjá einhverja framför með tímanum.

Láttu ekki fáeinar bólur brjóta niður sjálfstraust þitt eða hindra þig í að tala við aðra. Þú tekur sjálfsagt eftir hverri einustu misfellu á hörundi þínu en aðrir veita þeim sennilega miklu minni athygli en þú ímyndar þér. Reyndu að vera jákvæður og í góðu skapi. Byrjaðu strax að gera eitthvað skynsamlegt við gelgjubólunum!

[Mynd á blaðsíðu 83]

Einhver annar öfundar þig kannski af útlitseinkenni sem þú ert sjálf óánægð með.

[Mynd á blaðsíðu 86]

Unglingar gleyma oft að ljósmyndafyrirsætur hafa heilt lið fegrunarsérfræðinga sér til aðstoðar.