Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er eitthvað að því að slúðra?

Er eitthvað að því að slúðra?

KAFLI 12

Er eitthvað að því að slúðra?

„Einu sinni fór ég í partí og daginn eftir voru komnar á kreik sögur um að ég hefði sofið hjá strák sem var þar. Það var algjör lygi!“ — Linda.

„Stundum heyri ég sögur um að ég sé með einhverri stelpu — einhverri sem ég þekki ekki einu sinni! Margir sem slúðra hafa ekki fyrir því að athuga staðreyndirnar.“ — Mike.

SLÚÐUR getur látið líf manns hljóma dramatískara en sápuópera. Spyrðu bara Amber sem er 19 ára. „Það er stöðugt verið að slúðra um mig,“ segir hún. „Það gekk orðrómur um að ég væri ófrísk, að ég hefði farið í fóstureyðingu, að ég væri að selja fíkniefni, kaupa fíkniefni og nota fíkniefni. Af hverju segir fólk svona hluti um mig? Ég skil það ekki!“

Með tölvupóst eða SMS-skilaboð að vopni getur einhver sem hefur illan ásetning eyðilagt mannorð þitt án þess að segja eitt orð. Það eina sem þarf er að skrifa krassandi kjaftasögu og senda hana á fjöldann allan af spenntum viðtakendum. Stundum er sett upp heil vefsíða til þess eins að niðurlægja einhvern. Enn algengara er að slúðra um fólk á bloggsíðum og skrifa hluti sem væru aldrei sagðir augliti til auglitis.

En er alltaf svo slæmt að tala um aðra? Er til eitthvað sem heitir . . .

Gott slúður?

Er eftirfarandi fullyrðing rétt eða röng?

Slúður er alltaf slæmt. □ Rétt □ Rangt

Hvort svarið er rétt? Það fer eftir því hvað maður telur vera „slúður“. Ef það felur bara í sér hversdagslegar samræður um fólk getur slíkt alveg verið viðeigandi. Enda segir í Biblíunni að við eigum að hafa áhuga á hag annarra. (Filippíbréfið 2:4) Við ættum hins vegar ekki að blanda okkur í mál sem koma okkur ekki við. (1. Pétursbréf 4:15) En oft fáum við gagnlegar upplýsingar í gegnum óformlegar samræður, eins og hverjir séu að fara að giftast eða hverjir eigi von á barni. Við getum auðvitað ekki sagt að okkur sé umhugað um aðra ef við tölum aldrei um þá.

Hins vegar getur saklaust tal auðveldlega breyst í skaðlegt slúður. Einföld setning eins og: „Jón og Gunna myndu passa vel saman“ gæti breyst í „Jón og Gunna eru par“ — án þess að Jón og Gunna hafi hugmynd um það. „Það er nú ekkert svo alvarlegt,“ gætirðu hugsað — nema auðvitað ef þú ert Jón eða Gunna!

Júlía, 18 ára, heyrði slíkar kjaftasögur um sig og það særði hana. „Ég varð reið,“ segir hún, „og mér fannst ég ekki geta treyst neinum.“ Jane, sem er 19 ára, lenti í svipuðum aðstæðum. „Að lokum fór ég að forðast strákinn sem átti að vera kærasti minn,“ segir hún. „Þetta var svo ósanngjarnt þar sem við höfðum verið vinir og mér fannst að við ættum að geta talað saman án þess að kjaftasögur færu af stað.“

Stýrðu samræðunum í rétta átt

Hvernig geturðu haft stjórn á tungunni þegar þér finnst freistandi að slúðra? Til að svara þeirri spurningu skulum við taka dæmi. Ímyndaðu þér að þú sért að keyra fjölfarna hraðbraut. Skyndilega gætirðu þurft að skipta um akrein, hægja á þér eða stöðva bílinn. Ef þú ert vakandi sérðu hvað er fram undan og getur brugðist rétt við.

Hið sama má segja um samræður. Maður getur yfirleitt vitað hvenær umræður eru að leiðast út í skaðlegt slúður. Geturðu ,skipt um akrein‘ þegar slíkt gerist? Ef ekki skaltu gera þér grein fyrir að slúður getur skaðað. „Ég sagði eitthvað leiðinlegt um eina stelpu — að hún væri strákasjúk — og hún frétti það,“ segir Mike. „Ég gleymi aldrei röddinni hennar þegar hún kom og sagði hvað ég hefði sært hana mikið með þessum hugsunarlausu orðum. Við leystum málið en mér leið ekki vel yfir að hafa sært hana svona.“

Það leikur enginn vafi á því að orð geta sært. Í Biblíunni segir jafnvel: „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur.“ (Orðskviðirnir 12:18, Biblían 1981) Það er því mikilvægt að hugsa áður en maður talar. Það kostar auðvitað sjálfstjórn að bremsa af spennandi samræður. En eins og Karólína, 17 ára, segir: „Maður verður að passa hvað maður segir. Ef upplýsingarnar koma ekki frá áreiðanlegri heimild gæti maður verið að breiða út lygar.“ Ef þú heyrir eitthvað sem gæti hugsanlega verið skaðlegt slúður skaltu fylgja ráðum Páls postula um að einbeita þér að þínum eigin málum en ekki annarra. — 1. Þessaloníkubréf 4:11, New World Translation.

Hvernig getur maður sýnt öðrum persónulegan áhuga án þess að skipta sér að einkamálum fólks? Áður en þú talar um einhvern skaltu spyrja þig: Veit ég allar staðreyndir í málinu? Af hverju vil ég koma þessum upplýsingum áfram? Hvaða áhrif hefur það á mannorð mitt ef ég slúðra? Síðasta spurningin er mikilvæg, því að ef þú hefur orð á þér fyrir að slúðra segir það meira um persónuleika þinn en þess sem þú slúðrar um.

Þegar þú ert fórnarlambið

Hvað geturðu gert ef einhver slúðrar um þig? „Vertu ekki auðreittur til reiði,“ segir í Prédikaranum 7:9. Reyndu frekar að sjá málin í réttu ljósi. Í Biblíunni segir: „Gefðu ekki heldur gaum öllum þeim orðum sem töluð eru . . . Sjálfur veistu að þú hefur einnig oft bölvað öðrum.“ — Prédikarinn 7:21, 22.

Það er auðvitað ekkert sem afsakar skaðlegt slúður. En ef þú bregst of harkalega við gætu viðbrögð þín skaðað mannorð þitt meira en slúðrið. Hvers vegna ekki að tileinka sér viðhorf Rebekku? „Það særir mig yfirleitt þegar einhver segir eitthvað slæmt um mig en ég reyni að taka það ekki of alvarlega,“ segir hún. „Ég meina, í næstu viku fer fólk örugglega að tala um einhvern annan eða eitthvað annað.“ *

Reyndu að sýna skynsemi og stýra samræðum í aðra átt ef einhver fer að segja slúðursögu. Og ef verið er að tala illa um þig skaltu sýna þann þroska að bregðast ekki of hart við. Leyfðu góðum verkum þínum að tala fyrir þig. (1. Pétursbréf 2:12) Ef þú gerir það geturðu átt gott samband við aðra og verið í góðu áliti hjá Guði.

[Neðanmáls]

^ gr. 21 Við sumar aðstæður gæti verið gott að tala háttvíslega við þann sem slúðraði um þig. En í mörgum tilvikum reynist það ekki nauðsynlegt þar sem kærleikurinn „hylur fjölda synda“. — 1. Pétursbréf 4:8.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Sá sem gætir munns síns varðveitir líf sitt en glötun bíður hins lausmála.“ — Orðskviðirnir 13:3.

RÁÐ

Ef þú heyrir slúðursögu gætirðu sagt: „Mér finnst óþægilegt að tala svona um hana. Hún er heldur ekki hérna til að verja sig.“

VISSIR ÞÚ . . .?

Það eitt að hlusta á slúður getur gert þig meðseka(n). Með því að leyfa þeim sem baktalar einhvern að halda áfram stuðlarðu að því að slúðrið breiðist út eins og eldur í sinu.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Næst þegar mér finnst freistandi að slúðra ætla ég að ․․․․․

Ef einhver hefur sagt eitthvað slæmt um mig ætla ég að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Er alltaf óviðeigandi að tala um annað fólk?

● Hefur einhvern tíma verið slúðrað um þig og ef svo er, hvað lærðirðu af þeirri reynslu?

● Hvernig gæti mannorð þitt skaðast ef þú slúðrar um aðra?

[Innskot á bls. 107]

„Ég lærði mína lexíu þegar sá sem ég slúðraði um komst að því og talaði við mig. Það var engin undankomuleið! Ég lærði svo sannarlega að það er miklu betra að vera hreinskilin við fólk heldur en að baktala það.“— Paula

[Mynd á bls. 108]

Skaðlegt slúður er eins og hættulegt vopn sem getur eyðilagt mannorð annarra.