Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég hætt að hugsa svona mikið um kynlíf?

Hvernig get ég hætt að hugsa svona mikið um kynlíf?

KAFLI 29

Hvernig get ég hætt að hugsa svona mikið um kynlíf?

„ÉG STEND sjálfan mig að því að hugsa stanslaust um stelpur — jafnvel þótt þær séu ekki nærri,“ segir ungur maður sem heitir Michael. „Þetta er fáránlegt. Stundum næ ég ekki einu sinni að einbeita mér!“

Notar þú, líkt og Michael, meirihluta dagsins í að hugsa um hitt kynið? Ef svo er líður þér kannski eins og þú standir í stríði við þinn eigin heila. Hugsanir um kynlíf geta ruðst inn í huga þinn eins og óvinahermenn. „Þessar hugsanir geta heltekið mann,“ segir Michael. „Maður leggur lykkju á leið sína að bílnum sínum bara til að geta gengið fram hjá sætri stelpu eða maður labbar fram hjá hillum í matvörubúð, þótt mann vanti ekkert úr þeim, bara vegna þess að mann langar til að skoða einhvern aðeins betur.“

Mundu samt að kynferðislegar tilfinningar eru ekki rangar í sjálfu sér. Guð skapaði nú einu sinni karlinn og konuna þannig að þau laðast sterkt hvort að öðru og það er viðeigandi að fullnægja kynhvötinni innan hjónabandsins. Það getur verið að þú finnir fyrir sterkri kynhvöt á meðan þú ert enn þá einhleyp(ur). Ef svo er skaltu ekki álykta að þú sért slæm manneskja eða að þú getir bara ekki haldið þér siðferðilega hreinni eða hreinum. Þú getur haldið hreinleika þínum ef þú ákveður það! En til þess að það takist verðurðu að hafa stjórn á hugsunum þínum um hitt kynið. Hvernig geturðu farið að því?

Hugsaðu um hverja þú umgengst. Ef skólafélagar þínir fara að ræða um kynlíf gæti þér fundist freistandi að taka þátt í samræðunum — bara til að skera þig ekki úr hópnum. En það mun einungis gera þér erfiðara fyrir að hafa stjórn á hugsunum þínum. Hvað ættirðu þá að gera — standa upp og fara? Já! Og þú þarft ekkert að skammast þín fyrir það. Þú getur örugglega fundið afsökun fyrir því að fara án þess að virðast ofurréttlát(ur) eða bjóða upp á að gert sé grín að þér.

Forðastu siðlausa afþreyingu. Það eru auðvitað ekki allar kvikmyndir eða öll tónlist af hinu vonda. Engu að síður er mörgu af afþreyingarefni nútímans ætlað að vekja upp óviðeigandi kynferðislegar langanir. Hvert er ráð Biblíunnar? „Hreinsum okkur af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun okkar í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Forðastu því af öllum mætti afþreyingu sem gæti örvað siðlausar langanir. *

Sjálfsfróun

Sumir unglingar reyna að draga úr kynferðislegri spennu með sjálfsfróun. En þessu geta fylgt alvarleg vandamál. Í Biblíunni fær kristið fólk þessa hvatningu: „Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd.“ (Kólossubréfið 3:5) Að stunda sjálfsfróun er alger andstæða þess að ,deyða losta‘ í fari sér. Það beinlínis örvar og elur á kynferðislegri löngun.

Sjálfsfróun getur gert þig að þræli langana þinna. (Títusarbréfið 3:3) Eitt af því sem þú getur gert til að sigrast á þessum ávana er að tala við einhvern um málið í trúnaði. Vottur, sem barðist við þennan ávana í nokkur ár, segir: „Ég vildi að ég hefði þorað að tala við einhvern um þetta þegar ég var unglingur. Samviskubitið nagaði mig í mörg ár og það hafði mjög skaðleg áhrif á samband mitt við aðra og sérstaklega við Jehóva.“

Við hvernig ættirðu að tala? Það væri kannski eðlilegast að þú leitaðir til foreldris þíns. Þú gætir líka talað við þroskaðan bróður eða systur í söfnuðinum. Þú gætir byrjað á því að segja: „Mig langar til að tala við þig um vandamál sem veldur mér miklum áhyggjum.“

André talaði við safnaðaröldung og hann er ánægður að hafa gert það. „Meðan öldungurinn var að hlusta á mig fylltust augu hans tárum,“ segir André. „Þegar ég var búinn að tala fullvissaði bróðirinn mig um að Jehóva elskaði mig. Hann sagði mér að þetta væri algengt vandamál og lofaði að fylgjast með hvernig mér gengi og láta mig fá biblíutengt lesefni sem gæti hjálpað mér. Eftir að hafa talað við hann var ég staðráðinn í að halda baráttunni áfram — jafnvel þótt ég myndi misstíga mig í framtíðinni.“

Markús ákvað að tala við pabba sinn sem sýndi honum bæði skilning og meðaumkun. Hann viðurkenndi meira að segja fyrir Markúsi að hann hefði sjálfur átt erfitt með að sigrast á þessum ávana. „Hreinskilni og einlægni pabba hvatti mig mjög,“ segir Markús. „Ég hugsaði með mér að fyrst hann gat sigrast á þessu þá gæti ég það líka. Viðbrögð pabba snertu mig svo mikið að ég brotnaði saman og grét.“

Þú getur, líkt og André og Markús, fengið hjálp til að hætta að stunda sjálfsfróun. Ekki gefast upp þótt þér mistakist. Þú skalt vera viss um að þú getur sigrað í baráttunni! *

Hafðu stjórn á hugsunum þínum

Páll postuli sagði: „Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum.“ (1. Korintubréf 9:27) Þú þarft kannski líka að beita þig hörku þegar óviðeigandi hugsanir um hitt kynið skjóta upp kollinum. Ef hugsanirnar hverfa ekki gætirðu reynt að hreyfa þig. Í Biblíunni segir: „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Rösk ganga eða einhverjar æfingar í nokkrar mínútur geta hjálpað þér að berjast á móti óæskilegum hugsunum.

Umfram allt skaltu ekki gleyma þeirri hjálp sem himneskur faðir þinn er fús til að veita þér. „Þegar kynferðislegar langanir láta á sér kræla bið ég Jehóva einlæglega um hjálp,“ segir einn vottur. Ekki búast við því að Guð taki frá þér áhuga þinn á hinu kyninu. En með hjálp hans geturðu komist að raun um að hægt er að hugsa um svo margt annað.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Nánar er fjallað um tómstundir og afþreyingu í 8. hluta bókarinnar.

^ gr. 14 Nánar er fjallað um sjálfsfróun í kafla 25 og 26 í 1. bindi bókarinnar.

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.

RÁÐ

Ef þú fellur aftur í það far að stunda sjálfsfróun skaltu samt ekki gefast upp í baráttunni! Reyndu að átta þig á hvað leiddi til þess að þú fórst út af sporinu og láttu það ekki gerast aftur.

VISSIR ÞÚ . . .?

Þær hugsanir, sem þú leyfir huganum að dvelja við, geta mótað persónuleika þinn og haft áhrif á hegðun þína. — Jakobsbréfið 1:14, 15.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Til þess að geta hætt að hugsa um hitt kynið ætla ég að ․․․․․

Ef samræður skólafélaganna verða tvíræðar eða klúrar ætla ég að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Eru kynferðislegar tilfinningar alltaf af hinu vonda?

● Af hverju þarftu að hafa stjórn á kynhvötinni?

● Hvers konar afþreying gæti fengið þig til að hugsa mikið um hitt kynið?

● Af hverju er mikilvægt að fara í burtu ef samræður fólks verða tvíræðar eða klúrar?

[Innskot á bls. 240]

„Það sem hjálpar mér er að einbeita mér að einhverju öðru — hætta að hugsa um það sem er kynferðislega örvandi. Ég minni sjálfan mig á að þessar tilfinningar eða langanir líða hjá.“ — Scott

[Mynd á bls. 239]

Myndirðu hleypa vírusum inn í tölvuna þína? Hvers vegna þá að hleypa siðlausum hugsunum inn í huga þinn?