Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þarf nokkur að vita að ég lifi tvöföldu lífi?

Þarf nokkur að vita að ég lifi tvöföldu lífi?

KAFLI 16

Þarf nokkur að vita að ég lifi tvöföldu lífi?

□ Drekk áfengi undir lögaldri

□ Umgengst þá sem foreldrarnir telja slæman félagskap

□ Hlusta á skaðlega tónlist

□ Fer í villt partí

□ Á kærasta eða kærustu í leyni

□ Horfi á ofbeldisfullar eða siðlausar myndir eða spila ofbeldisfulla tölvuleiki

□ Nota ljótt orðbragð

SKOÐAÐU listann á blaðsíðunni á undan. Tekurðu þátt í einhverju slíku án þess að foreldrarnir viti af því? Ef svo er veistu líklega að það sem þú ert að gera er rangt. Þú gætir jafnvel verið með slæma samvisku. (Rómverjabréfið 2:15) En tilhugsunin um að segja foreldrunum hvað þú ert að gera er ekki skemmtileg. Og þegar þú hugsar um afleiðingarnar gæti verið freistandi að hugsa sem svo: Það sem þau vita ekki getur ekki skaðað þau. En hefurðu gert þér grein fyrir því að þú ert í rauninni að lifa tvöföldu lífi? Hver gæti verið ástæðan?

Löngun í meira sjálfstæði

Að lokum „yfirgefur maður föður sinn og móður sína“ eins og fram kemur í Biblíunni. (1. Mósebók 2:24) Hið sama má auðvitað segja um konu. Það er eðlilegt að vilja verða fullorðinn, hugsa sjálfstætt og taka eigin ákvarðanir. En þegar foreldrarnir banna eitthvað sem þeir telja óskynsamlegt — eða rangt — gera sumir unglingar uppreisn.

Að vísu gætu sumir foreldrar virst óvenju strangir. Stelpa, sem heitir Kim, kvartar og segir: „Við megum varla horfa á neinar bíómyndir.“ Hún bætir við: „Pabbi hefur bannað okkur að hlusta á næstum alla tónlist!“ Þegar unglingum finnst þeim settar ósanngjarnar hömlur verða sumir þeirra öfundsjúkir út í jafnaldra sína sem virðast njóta miklu meira frelsis.

Ung kona, sem heitir Tammy, bendir á aðra ástæðu fyrir því að sumir fara að lifa tvöföldu lífi — þeir vilja fá viðurkenningu skólafélaganna. „Til að byrja með fór ég að nota ljótt orðbragð í skólanum,“ segir hún. „Þá fannst mér ég vera meira eins og hinir krakkarnir. Seinna prófaði ég að reykja. Ég drakk mig líka fulla. Síðan fór ég að vera með strákum en ég hélt því leyndu því að foreldrar mínir voru strangir og leyfðu mér ekki að eiga kærasta.“

Ungur strákur, sem heitir Pétur, hefur svipaða sögu að segja: „Ég var alinn upp sem vottur Jehóva. En ég var mjög hræddur um að mér yrði strítt.“ Hvaða áhrif hafði þessi ótti á hann? „Ég reyndi að verða vinsæll,“ segir hann. „Ég laug og fann upp afsakanir fyrir því af hverju ég fékk ekki gjafir á hátíðisdögum.“ Um leið og hann fór að víkja frá meginreglum Biblíunnar í smáum málum var ekki langt þangað til hann leiddist út í alvarlegri syndir.

Ekkert er hulið

Tvöfalt líferni er ekki nýtt af nálinni. Sumir Ísraelsmenn til forna reyndu að komast upp með slíkt. En spámaðurinn Jesaja varaði þá við og sagði: „Vei þeim sem grafa djúpt til að hylja áform sín fyrir Drottni og vinna verk sín í myrkri og hugsa: ,Hver sér oss, hver veit um oss?‘“ (Jesaja 29:15) Ísraelsmenn gleymdu að Guð sá til þeirra. Og þegar hann taldi tímabært lét hann þá svara til saka fyrir misgerðir sínar.

Hið sama á við nú á dögum. Jafnvel þótt þér takist að fela slæma hegðun fyrir foreldrunum geturðu ekki falið neitt fyrir Jehóva Guði. Í Hebreabréfinu 4:13 segir: „Enginn skapaður hlutur er Guði hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.“ Það hefur því ekkert upp á sig að leyna því sem þú gerir. Mundu að þú getur ekki friðað Guð einfaldlega með því að láta eins og þú þjónir honum þegar þú ert á samkomum. Jehóva veit hvenær fólk ,heiðrar hann með vörunum en hjarta þeirra er langt frá honum‘. — Markús 7:6.

Gerirðu þér grein fyrir því að þeir sem lifa tvöföldu lífi særa Jehóva? Er það hægt? Já, svo sannarlega! Þegar Ísraelsmenn til forna viku frá lögmáli Guðs „hryggðu“ þeir hann. (Sálmur 78:40, Biblían 1981) Það hlýtur að hryggja hann að sjá unglinga, sem eru aldir upp „með aga og fræðslu um Drottin“, gera í laumi það sem er rangt. — Efesusbréfið 6:4.

Komdu hreint fram

Þú breytir rétt gagnvart Guði og foreldrum þínum og gagnvart þér með því að játa það sem þú hefur verið að gera í leyni. Óneitanlega gæti það verið neyðarlegt fyrir þig og haft óþægilegar afleiðingar. (Hebreabréfið 12:11) Ef þú hefur til dæmis logið að foreldrum þínum og blekkt þá hefurðu grafið undan trausti þeirra til þín. Láttu það því ekki koma þér á óvart ef þau setja þér strangari reglur um tíma. Það er samt sem áður best að koma hreint fram. Af hverju?

Lýsum þessu með dæmi: Segjum sem svo að þú og fjölskylda þín séuð í göngu. Þegar foreldrar þínir sjá ekki til óhlýðnastu fyrirmælum þeirra um að halda þig nálægt þeim. Þú ferð út af slóðinni og týnist. Skyndilega sekkurðu niður í kviksyndi. Fyndist þér of neyðarlegt að kalla á hjálp? Hefðirðu áhyggjur af því að foreldrar þínir myndu skamma þig fyrir að hunsa viðvörun þeirra? Nei! Þú myndir hrópa eins hátt og þú gætir.

Þetta er sambærilegt við það að lifa tvöföldu lífi. Þú verður að fá hjálp, og það strax! Mundu að þú getur ekki farið til baka og breytt fortíðinni. En þú getur haft áhrif á framtíðina. Þótt það geti örugglega verið sársaukafullt og erfitt er rökrétt að biðja um hjálp áður en þú skaðar þig eða fjölskyldu þína meira. Ef þú sérð í einlægni eftir því sem þú hefur gert mun Jehóva sýna þér miskunn. — Jesaja 1:18; Lúkas 6:36.

Segðu því foreldrum þínum sannleikann. Sýndu tilfinningum þeirra skilning. Taktu við aga þeirra. Ef þú gerir það gleðurðu foreldra þína og Jehóva Guð. Það verður líka mikill léttir fyrir þig að fá aftur hreina samvisku. — Orðskviðirnir 27:11; 2. Korintubréf 4:2.

Í NÆSTA KAFLA

Þú átt margt sameiginlegt með skólafélögunum. En hvað ættirðu að hafa í huga þegar kemur að vináttu við skólafélaga?

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Sá sem dylur yfirsjónir sínar verður ekki lánsamur en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn.“ — Orðskviðirnir 28:13.

RÁÐ

Gerðu ekki of lítið úr mistökum þínum en dæmdu þig samt ekki of hart. Mundu að Jehóva er fús til að fyrirgefa. — Sálmur 86:5.

VISSIR ÞÚ . . .?

Það getur verið hollt að fá samviskubit því það getur fengið mann til að leiðrétta ranga stefnu. En sá sem heldur áfram að gera það sem er rangt skaðar samvisku sína. Samviskan verður ónæm eins og húð sem hefur brunnið og hlotið tilfinningalaust ör. — 1. Tímóteusarbréf 4:2.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ef ég hef lifað tvöföldu lífi ætla ég að tala við ․․․․․

Óháð því hvers konar aga ég fæ get ég tekið honum með því að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Hvers vegna fara sumir unglingar að lifa tvöföldu lífi?

● Nefndu nokkrar af afleiðingum þess að lifa tvöföldu lífi.

● Af hverju er það þess virði að brjótast út úr slíkum vítahring?

[Innskot á bls. 140]

„Mér finnst að unglingar, sem eru vottar, eigi að láta aðra vita að þeir fylgi siðferðisreglum Biblíunnar. Þeir ættu að gera þetta eins fljótt og þeir geta. Því lengur sem þeir bíða þeim mun erfiðara verður það.“ — Linda

[Mynd á bls. 141]

Ef þú lifir tvöföldu lífi er eins og þú sért að sökkva í kviksyndi. Þú verður að hrópa á hjálp!