Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haltu áfram að tala orð Guðs með djörfung

Haltu áfram að tala orð Guðs með djörfung

22. kafli

Haltu áfram að tala orð Guðs með djörfung

1. (a) Hvaða fagnaðarerindi byrjuðu lærisveinar Jesú að boða frá og með hvítasunnunni árið 33, en hver voru viðbrögð valdhafa og öldunga Gyðinganna? (b) Hvaða spurninga gætum við spurt okkur í þessu sambandi?

 ÞÝÐINGARMESTU atburðir í meira en 4000 ára sögu mannkynsins höfðu átt sér stað. Guðs eigin sonur, Jesús Kristur, hafði verið smurður sem framtíðarkonungur yfir allri jörðinni. Eftir að Jesús hafði verið tekinn af lífi að undirlagi trúarlegra fjandmanna sinna hafði Jehóva reist hann upp frá dauðum. Vegna fórnar hans var nú mögulegt að hljóta hjálpræði og eiga eilíft líf í vændum. En þegar trúfastir lærisveinar Jesú kunngerðu þessi fagnaðartíðindi opinberlega upphófst hatrömm mótspyrna. Fyrst var tveim af postulunum varpað í fangelsi, síðan þeim öllum. Þeir voru húðstrýktir og þeim var skipað að hætta að tala í nafni Jesú. (Post. 4:1-3, 17; 5:17, 18, 40) Hvað áttu þeir að gera? Hvað hefðir þú gert? Hefðir þú haldið áfram að bera vitni með djörfung?

2. (a) Hvaða enn stórkostlegri boðskap þarf að boða nú á dögum? (b) Hverjum er skylt að gera það?

2 Árið 1914 átti sér stað enn stórkostlegri atburður sem hefur alheimsþýðingu. Ríki Guðs í höndum Jesú Krists var stofnsett á himnum. Þessu næst var Satan og illum öndum hans varpað niður til jarðar. (Opinb. 12:1-5, 7-12) Síðustu dagar þessa núverandi illa kerfis voru hafnir. Áður en kynslóðin, sem varð vitni að atburðum ársins 1914, er öll mun Guð knosa allt heimskerfi Satans. (Matt. 24:34) Þeir sem lifa það af eiga í vændum eilíft líf. Upprunalegur tilgangur Guðs rætist með því að öll jörðin verður paradís. Ef þú hefur nú þegar veitt viðtöku þessum fagnaðartíðindum hvílir á þér sú ábyrgð að segja öðrum frá þeim. (Matt. 24:14) En hvaða viðbrögðum getur þú reiknað með?

3. (a) Hvernig bregst fólk við boðskapnum um Guðsríki? (b) Hvaða spurningu þurfum við því að hugleiða?

3 Þótt sumir muni taka þér fagnandi, þegar þú kemur sem boðberi Guðsríkis, mun þorri manna sýna boðskap þínum lítinn áhuga. (Matt. 24:37-39) Sumir kunna jafnvel að gera gys að þér eða beita sér harkalega gegn prédikun þinni. Jesús varaði lærisveina sína við því að þeir gætu búist við andstöðu frá ættingjum sínum. (Lúk. 21:16-19) Þú getur orðið fyrir mótlæti á vinnustað eða í skóla. Víða um heim má starf votta Jehóva jafnvel sæta ranglátu banni stjórnvalda. Ætlar þú að halda áfram að tala orð Guðs með djörfung ef þú lendir í slíkum aðstæðum?

4. Er persónuleg einbeitni trygging fyrir því að við höldum áfram að þjóna Guði í trúfesti?

4 Enginn vafi er á að þig langar til að vera hugrakkur þjónn Guðs. En sumir, sem héldu að ekkert gæti stöðvað sig, hafa týnst úr röðum boðbera Guðsríkis. Aðrir, þeirra á meðal menn sem eru örlítið hlédrægir að eðlisfari, halda ótrauðir áfram sem kostgæfir þjónar Guðs. Hvernig getur þú verið ‚stöðugur í trúnni‘? — 1. Kor. 16:13.

Treystu ekki á mátt þinn og megin

5. (a) Hvað er frumskilyrði fyrir því að geta verið trúfastur þjónn Guðs? (b) Hvers vegna eru samkomurnar svona mikilvægar?

5 Að sjálfsögðu er margt innifalið í því að vera trúfastur þjónn Guðs. Sameiginlegt grundvallaratriði er þó það að treysta á Jehóva og ráðstafanir hans. Hvernig sýnum við slíkt traust? Meðal annars með því að sækja samkomur safnaðarins. Ritningin hvetur okkur til að vanrækja þær ekki. (Hebr. 10:23-25) Þeir sem hafa haldið áfram að vera trúfastir vottar um Jehóva, bæði frammi fyrir almennu skeytingarleysi fólks eða ofsóknum, hafa kostað kapps um að sækja reglulega samkomur með trúbræðrum sínum. Þessar samkomur styrkja þekkingu okkar á Ritningunni, en það er þó ekki aðeins hrifning á nýjum þekkingaratriðum sem dregur okkur þangað. (Samanber Postulasöguna 17:21.) Skilningur okkar á kunnuglegum sannleiksatriðum dýpkar og við skerpum næmi okkar fyrir því hvernig við getum notað þau. Okkur er innprentað hið góða fordæmi Jesú. (Ef. 4:20-24) Við tengjumst kristnum bræðrum okkar nánum böndum í sameinaðri guðsdýrkun, og sjálf hljótum við styrk til að halda áfram að gera vilja Guðs. Í gegnum söfnuðinn fáum við leiðsögn anda Jehóva, og með hans hjálp er Jesús mitt á meðal okkar þegar við komum saman í hans nafni. — Opinb. 3:6; Matt. 18:20.

6. Hvernig eru haldnar samkomur þar sem starf votta Jehóva er bannað?

6 Sækir þú reglulega allar samkomur safnaðarins og notfærir þér það sem þú heyrir þar? Í löndum, þar sem starf votta Jehóva er bannað, er sums staðar nauðsynlegt að halda fámennar samkomur á einkaheimilum. Samkomustaður og -tími getur verið breytilegur og stundum eilítið óþægilegur, t.d. ef samkomur eru haldnar seint að kvöldi. En þrátt fyrir óþægindi eða hættu leggja trúfastir bræður og systur sig einlæglega fram um að sækja hverja einustu samkomu.

7. (a) Með hvaða öðrum hætti sýnum við traust okkar á Jehóva? (b) Hvernig getur það hjálpað okkur að halda áfram að tala af djörfung?

7 Við sýnum líka traust á Jehóva með því að leita reglulega til hans í bæn — ekki eins og sé það eitthvert fast formsatriði heldur í djúpri viðurkenningu á því að við þörfnumst hjálpar hans. Gerir þú það? Jesús bað oft meðan jarðnesk þjónusta hans stóð yfir. (Lúk. 3:21; 6:12, 13; 9:18, 28; 11:1; 22:39-44) Og kvöldið áður en hann var staurfestur hvatti hann lærisveina sína: „Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.“ (Mark. 14:38) Ef við finnum fyrir mjög almennu áhugaleysi gagnvart boðskapnum um Guðsríki gætum við freistast til að hægja á okkur í þjónustunni. Ef fólk hæðist að okkur eða við verðum fyrir jafnvel harðari ofsóknum gætum við fundið fyrir freistingu til að þegja í því skyni að forðast erfiðleikana. En ef við biðjum Guð einlæglega að hjálpa okkur með anda sínum að halda áfram að tala af djörfung fáum við vernd gegn því að láta undan þeirri freistingu. — Lúk. 11:13; Ef. 6:18-20.

Heimild um djarfan vitnisburð

8. (a) Hvers vegna er frásögn Postulasögunnar sérlega áhugaverð fyrir okkur? (b) Svaraðu spurningunum við lok þessarar tölugreinar og undirstrikaðu hvernig þessar upplýsingar geta hjálpað okkur.

8 Frásaga Postulasögunnar er sérlega áhugaverð fyrir okkur. Hún segir frá því hvernig postularnir og aðrir af fyrstu lærisveinunum, fólk sem hafði sams konar tilfinningar og við, yfirsteig hindranir og sýndi sig djarfa og trúfasta votta um Jehóva. Við skulum athuga hluta þessarar frásögu með hjálp eftirfarandi spurninga og ritningarstaða. Hugleiddu um leið hvernig þú getur persónulega haft gagn af því sem þú ert að lesa.

 Voru postularnir hámenntaðir menn? Voru þeir að eðlisfari óhræddir og djarfir, óháð því hvað fyrir kom? (Post. 4:13; Jóh. 18:17, 25-27; 20:19)

 Hvað gerði Pétri fært að tala djarflega frammi fyrir dómstóli Gyðinga sem hafði sakfellt Guðs eigin son fáeinum vikum áður? (Post. 4:8; Matt. 10:19, 20)

 Hvað höfðu postularnir verið að gera vikurnar áður en þeir voru leiddir fyrir æðstaráðið? (Post. 1:14; 2:1, 42)

 Hverju svöruðu Pétur og Jóhannes þegar valdhafarnir skipuðu þeim að hætta að prédika í nafni Jesú? (Post. 4:19, 20)

 Hvar leituðu þeir aftur hjálpar eftir að þeim hafði verið sleppt? Báðu þeir hann að stöðva ofsóknirnar, eða hvað? (Post. 4:24-31)

 Hvernig hjálpaði Jehóva þegar andstæðingarnir reyndu að stöðva prédikunarstarfið? (Post. 5:17-20, 33-40)

 Hvernig sýndu postularnir að þeir skildu orsökina fyrir því að þeim hafði verið sleppt? (Post. 5:21, 41, 42)

 Hvað héldu lærisveinarnir áfram að gera þegar þeir tvístruðust vegna hinna hörðu ofsókna? (Post. 8:3, 4; 11:19-21)

9. (a) Hvaða árangri skilaði þjónusta þessara fyrstu lærisveina? (b) Hvernig tengjumst við henni?

9 Starf þeirra í þágu fagnaðarerindisins var ekki til einskis. Um 3000 lærisveinar höfðu látið skírast á hvítasunnunni árið 33. „Og enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna.“ (Post. 2:41; 4:4; 5:14) Síðar er meira að segja greint frá að einn ákafasti ofsækjandinn, Sál frá Tarsus, hafi tekið kristna trú og væri sjálfur farinn að bera djarflega vitni um sannleikann. Hann varð þekktur sem Páll postuli. (Gal. 1:22-24) Starfið, sem hófst á fyrstu öldinni, hefur ekki stöðvast. Því hefur aukist kraftur nú á hinum ‚síðustu dögum‘ og það nær út til allra heimshorna. Við höfum þau sérréttindi að taka þátt í því og getum lært af fordæmi drottinhollra votta sem verið hafa á undan okkur.

10. (a) Hvaða tækifæri notfærði Páll sér til að bera vitni? (b) Á hvaða vegu útbreiðir þú boðskapinn um Guðsríki meðal manna?

10 Þegar Páll lærði sannleikann um Jesú Krist skaut hann því ekki á frest að gera eitthvað. Hann „tók þegar að prédika . . . að Jesús væri sonur Guðs.“ (Post. 9:20) Hann kunni að meta þá óverðskulduðu náð, sem Guð hafði sýnt honum, og gerði sér ljóst að allir þyrftu að heyra fagnaðarerindið sem hann hafði tekið við. Eftir venju Gyðinga fór hann í samkunduhús þeirra, sem voru opinber samkomuhús Gyðinga, til að bera vitni. Hann prédikaði líka hús úr húsi og rökræddi við fólk á markaðstorginu. Og hann var fús til að fara á ókunnar slóðir til að prédika fagnaðarerindið. — Post. 17:17; 20:20; Rómv. 15:23, 24.

11. (a) Hvernig sýndi Páll góða dómgreind í vitnisburði sínum, þótt hann væri djarfur? (b) Hvernig getum við sýnt þann eiginleika þegar við berum vitni fyrir ættingjum, vinnufélögum eða skólafélögum?

11 Þótt Páll væri djarfur sýndi hann einnig góða dómgreind. Það ættum við líka að gera. Þegar hann talaði við Gyðinga höfðaði hann til þeirra með tilvísan til þeirra loforða sem Guð hafði gefið forfeðrum þeirra. Þegar hann ræddi við Grikki byggði hann á hlutum sem þeim voru kunnir. Stundum kom hann sannleikanum á framfæri með því að segja frá því hvernig hann hefði sjálfur lært hann. Um þetta sagði hann: „Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til að ég geti fengið hlutdeild í því með öðrum.“ — 1. Kor. 9:20-23, NW; Post. 22:3-21.

12. (a) Hvað gerði Páll til að forðast stöðuga árekstra við andstæðingana, þótt hann væri djarfur prédikari? (b) Hvenær er hyggilegt að líkja eftir fordæmi hans og hvernig? (c) Hvaðan kemur krafturinn til að halda áfram að tala af djörfung?

12 Þegar andstaða við fagnaðarerindið varð slík að heppilegast virtist að prédika annars staðar eða færa sig á annað svæði um tíma, þá gerði Páll það í stað þess að eiga í stöðugum árekstrum við óvini sannleikans. (Post. 14:5-7; 18:5-7; Rómv. 12:18) En hann skammaðist sín aldrei fyrir fagnaðarerindið. (Rómv. 1:16) Þótt Páli þætti ósvífni og ofbeldi andstæðinganna óþægilegt ‚gaf Guð honum djörfung‘ til að halda áfram að prédika. Þrátt fyrir þá erfiðleika, sem hann lenti í, sagði hann: „Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina.“ (1. Þess. 2:2; 2. Tím. 4:17) Höfuð kristna safnaðarins, Drottinn Jesús, heldur áfram að veita lærisveinum sínum nægan kraft til að halda áfram því starfi sem hann sagði fyrir að unnið yrði á okkar dögum. — Mark. 13:10.

13. Hvernig sýnum við kristna djörfung og á hvaða grundvelli?

13 Við höfum ærið tilefni til að halda áfram að tala orð Guðs af djörfung, alveg eins og Jesús Kristur og aðrir trúir þjónar Guðs á fyrstu öldinni gerðu. Þar með er ekki sagt að við eigum að vera hranalegir eða ögrandi í framkomu. Engin ástæða er til að vera tillitslaus eða reyna að þröngva boðskapnum upp á þá sem vilja ekki taka við honum. Við gefumst hins vegar ekki upp þótt fólk sé áhugalítið, og látum ekki mótstöðu hræða okkur til að þegja. Eins og Jesús bendum við á ríki Guðs sem hina réttmætu stjórn yfir allri jörðinni. Við tölum með trúartrausti því við erum fulltrúar Jehóva, drottinvalds alheimsins, og boðskapurinn, sem við boðum, er ekki frá okkur heldur honum. — Fil. 1:27, 28; 1. Þess. 2:13.

Til upprifjunar

Hvers vegna er þýðingarmikið að deila boðskapnum um Guðsríki með öllum sem við getum? Hvaða viðbragða megum við vænta?

● Hvernig getum við sýnt að við reynum ekki að þjóna Jehóva í eigin mætti?

● Hvaða dýrmæta lærdóm má draga af Postulasögunni?

[Spurningar]