Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig verðum við góðir kennarar?

Hvernig verðum við góðir kennarar?

Hvernig verðum við góðir kennarar?

„Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ — MATTEUS 28:19.

1. Hvaða kunnáttu og viðhorf þurftu sumir þjónar Guðs til forna að tileinka sér?

 ÞJÓNAR Jehóva þurfa stundum að þroska með sér færni, kunnáttu og viðhorf sem hjálpa þeim að gera vilja hans. Lítum á dæmi. Að boði Guðs yfirgáfu þau Abraham og Sara blómlegu borgina Úr og þurftu í framhaldi af því að læra að búa í tjöldum. (Hebreabréfið 11:8, 9, 15) Jósúa þurfti að vera hugrakkur, treysta Jehóva og þekkja lögmál hans til að leiða Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið. (Jósúabók 1:7-9) Og andi Guðs hefur tvímælalaust gert þá Besalel og Oholíab enn færari í verki sínu þannig að þeir gætu haft umsjón með og tekið þátt í gerð tjaldbúðarinnar og öðrum skyldum verkefnum. — 2. Mósebók 31:1-11.

2. Hvaða spurningar ætlum við að skoða?

2 Öldum síðar fól Jesús Kristur fylgjendum sínum eftirfarandi verkefni: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Aldrei áður hafði fólk fengið tækifæri til að gera nokkuð þessu líkt. Hvað þurfum við að hafa til að bera til að gera menn að lærisveinum? Hvernig getum við þroskað með okkur slíka eiginleika?

Djúpur kærleikur til Guðs

3. Hvaða tækifæri höfum við þegar við hlýðum boði Jesú um að gera fólk að lærisveinum?

3 Til að gefa sig á tal við fólk og reyna að sannfæra það um að það eigi að tilbiðja hinn sanna Guð þurfum við að elska hann heitt. Ísraelsmenn gátu sannað kærleika sinn til Guðs með því að hlýða boðum hans af öllu hjarta, færa honum boðlegar fórnir og lofa hann í söng. (5. Mósebók 10:12, 13; 30:19, 20; Sálmur 21:13; 96:1, 2; 138:5) Við höldum sömuleiðis lög Jehóva en við sýnum honum líka kærleika okkar með því að segja fólki frá honum og fyrirætlunum hans. Við þurfum að tala af sannfæringu og velja réttu orðin til að tjá vonina sem við berum í brjósti. — 1. Þessaloníkubréf 1:5; 1. Pétursbréf 3:15.

4. Af hverju hafði Jesús yndi af því að segja fólki frá Jehóva?

4 Jesús elskaði Jehóva innilega og hafði mikið yndi af því að segja frá fyrirætlunum hans, ríki og sannri tilbeiðslu. (Lúkas 8:1; Jóhannes 4:23, 24, 31) Hann sagði meira að segja: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Eftirfarandi orð sálmaskáldsins eiga við Jesú: „,Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér.‘ Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!“ — Sálmur 40:9, 10; Hebreabréfið 10:7-10.

5, 6. Hver er sterkasta hvötin til að gera menn að lærisveinum?

5 Fólk lærir að elska Jehóva þegar það kynnist sannleika Biblíunnar. Þessi kærleikur fær stundum nýja til að tala af svo miklum eldmóði um Jehóva og ríki hans að það er mjög duglegt að sannfæra aðra um að það eigi að kynna sér Biblíuna. (Jóhannes 1:41) Kærleikur til Guðs er sterkasta aflið sem knýr okkur til að gera fólk að lærisveinum. Við skulum því halda þessum kærleika lifandi með því að lesa og hugleiða orð hans að staðaldri. — 1. Tímóteusarbréf 4:6, 15; Opinberunarbókin 2:4.

6 Enginn vafi leikur á að kærleikurinn til Jehóva átti sinn þátt í því að Jesús Kristur var ötull kennari. En það var ekki eina ástæðan fyrir því að hann náði góðum árangri þegar hann boðaði ríki Guðs. Hvað annað gerði hann að dugmiklum kennara?

Láttu þér annt um fólk

7, 8. Hvaða augum leit Jesús fólk?

7 Jesús lét sér annt um fólk og sýndi því einlægan áhuga. Áður en hann varð maður var hann verkstjóri Guðs á himnum og hafði yndi af öllu sem viðkom mannkyninu. (Orðskviðirnir 8:30, 31) Og meðan hann var hér á jörð sýndi hann fólki næma umhyggju og létti byrðar þeirra sem komu til hans. (Matteus 11:28-30) Jesús endurspeglaði kærleika og umhyggju Jehóva og það laðaði fólk að tilbeiðslunni á hinum eina sanna Guði. Alls konar fólk hlustaði á Jesú af því að hann var umhyggjusamur og lét sér annt um hagi þess. — Lúkas 7:36-50; 18:15-17; 19:1-10.

8 Þegar maður nokkur spurði hvað hann þyrfti að gera til að hljóta eilíft líf horfði „Jesús . . . á hann með ástúð“. (Markús 10:17-21) Sömuleiðis er sagt: „Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus,“ en hann hafði kennt þessum systkinum í Betaníu. (Jóhannes 11:1, 5) Svo annt lét hann sér um fólk að hann neitaði sér um hvíld til að geta kennt því. (Markús 6:30-34) Þessi innilega umhyggja Jesú fyrir öðrum gerði að verkum að hann var öllum mönnum færari að laða aðra til sannrar tilbeiðslu.

9. Hvaða eiginleika sýndi Páll þegar hann kenndi fólki?

9 Páll postuli bar einnig ríka umhyggju fyrir þeim sem hann boðaði trúna. Til dæmis sagði hann þeim sem höfðu tekið kristna trú í Þessaloníku: „Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ Umhyggja Páls hafði þau áhrif að sumir í Þessaloníku ,sneru sér frá skurðgoðunum til þess að þjóna lifandi Guði‘. (1. Þessaloníkubréf 1:9; 2:8) Ef okkur er innilega annt um fólk, líkt og þeim Jesú og Páli, getum við líka notið þeirrar gleði að sjá fagnaðarerindið snerta hjörtu þeirra sem ,hneigjast til eilífs lífs‘. — Postulasagan 13:48, NW.

Vertu fórnfús

10, 11. Af hverju er fórnfýsi nauðsynleg til að gera fólk að lærisveinum?

10 Duglegir kennarar eru fórnfúsir. Þeir hugsa ekki sem svo að það mikilvægasta í lífinu sé að afla sér peninga. Jesús sagði lærisveinunum jafnvel: „Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinarnir undruðust þessi orð en Jesús bætti þá við: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ (Markús 10:23-25) Hann hvatti fylgjendur sína til að lifa einföldu lífi til að þeir gætu einbeitt sér að því að kenna öðrum. (Matteus 6:22-24, 33) Hvernig getur fórnfýsi hjálpað okkur að gera fólk að lærisveinum?

11 Það kostar mikla vinnu að kenna fólki allt sem Jesús bauð. Vottar Jehóva reyna yfirleitt að hitta áhugasaman einstakling vikulega til að kenna honum. Sumir boðberar fagnaðarerindisins hafa hætt að vinna fulla vinnu og fundið sér hlutastarf til að skapa sér fleiri tækifæri til að finna áhugasama. Þúsundir votta hafa lært nýtt tungumál til að geta boðað trúna meðal erlends málhóps á svæðinu. Aðrir hafa flutt búferlum, annaðhvort innanlands eða milli landa, til að geta átt meiri þátt í uppskerunni. (Matteus 9:37, 38) Allt útheimtir þetta fórnfýsi. En til að vera skilvirkur kennari þarf fleira að koma til.

Vertu þolinmóður en nýttu tímann vel

12, 13. Af hverju er nauðsynlegt að vera þolinmóður í boðunar- og kennslustarfinu?

12 Þolinmæði er sömuleiðis nauðsynleg til að gera fólk að lærisveinum. Boðskapur kristninnar kallar á skjót viðbrögð en það tekur oft töluverðan tíma og þolinmæði að kenna öðrum áður en þeir verða lærisveinar. (1. Korintubréf 7:29) Jesús var ekki óþolinmóður við Jakob, hálfbróður sinn. Jakob var greinilega vel kunnugur boðunarstarfi Jesú en um tíma lét hann eitthvað aftra sér frá því að gerast lærisveinn. (Jóhannes 7:5) En ljóst er að Jakob gerðist lærisveinn á þeim stutta tíma sem leið frá dauða Krists fram að hvítasunnu því að Biblían gefur til kynna að hann hafi hitt postulana til bænahalds ásamt móður sinni og bræðrum. (Postulasagan 1:13, 14) Jakob tók góðum framförum sem lærisveinn og axlaði síðar mikla ábyrgð í kristna söfnuðinum. — Postulasagan 15:13; 1. Korintubréf 15:7.

13 Bóndinn veit að sumar jurtir eru lengi að vaxa. Kristinn maður veit líka að það getur tekið tíma að byggja upp hjá nemendum skilning á Biblíunni, kærleika til Jehóva og kristilegt hugarfar. Það kostar þolinmæði. Jakob skrifaði: „Þreyið . . . bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.“ (Jakobsbréfið 5:7, 8) Jakob hvetur trúsystkini sín til að ,þreyja‘, það er að segja vera þolinmóð, „þangað til Drottinn kemur“. Ef lærisveinarnir skildu ekki eitthvað útskýrði Jesús það þolinmóður eða glöggvaði með dæmi. (Matteus 13:10-23; Lúkas 19:11; 21:7; Postulasagan 1:6-8) Núna er koma Drottins orðin að veruleika og það er enn nauðsynlegt að vera þolinmóður í boðunar- og kennslustarfinu. Við þurfum að fræða með þolinmæði þá sem gerast fylgjendur Jesú. — Jóhannes 14:9.

14. Hvernig getum við notað tímann viturlega en jafnframt verið þolinmóð?

14 En þótt við séum þolinmóð ber orð Guðs ekki ávöxt nema hjá fáeinum af þeim sem við byrjum að fræða um Biblíuna. (Matteus 13:18-23) Eftir að hafa reynt að hæfilegu marki að hjálpa þeim er því skynsamlegt að nota ekki meiri tíma til að sinna þeim heldur reyna frekar að finna aðra sem eru líklegri til að meta sannleika Biblíunnar að verðleikum. (Prédikarinn 3:1, 6) En höfum samt hugfast að sumir hjartahreinir einstaklingar geta þurft töluvert mikla aðstoð til að breyta skoðunum sínum, viðhorfum og áherslum í lífinu. Við erum því þolinmóð, rétt eins og Jesús var þolinmóður við lærisveinana sem áttu erfitt með að tileinka sér rétt hugarfar. — Markús 9:33-37; 10:35-45.

Temdu þér góða kennslutækni

15, 16. Af hverju er mikilvægt að kennari undirbúi sig vel og komi efninu frá sér á einfaldan hátt?

15 Til að vera góður kennari er nauðsynlegt að elska Guð, bera umhyggju fyrir fólki og vera fórnfús og þolinmóður. En við þurfum líka að temja okkur góða kennslutækni því að þá getum við útskýrt hlutina á einfaldan og auðskilinn hátt. Margt sem kennarinn mikli, Jesús Kristur, sagði var einstaklega áhrifamikið sökum þess hve einfalt það var. Þú manst eflaust eftir orðum eins og: „Safnið yður . . . fjársjóðum á himni.“ „Gefið ekki hundum það sem heilagt er.“ „Spekin sannast af verkum sínum.“ „Gjaldið . . . keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 6:20; 7:6; 11:19; 22:21) Jesús var auðvitað ekki alltaf svona stuttorður þegar hann kenndi. En kennsla hans var auðskilin og hann útskýrði málin betur þegar það átti við. Hvernig getum við líkt eftir kennsluaðferðum Jesú?

16 Góður undirbúningur er forsenda þess að kenna á einfaldan og auðskilinn hátt. Óundirbúinn kennari hefur tilhneigingu til að tala of mikið. Hann gæti nánast drekkt aðalatriðunum í óhóflegum orðaflaumi þegar hann útlistar allt sem hann veit um málið. Vel undirbúinn kennari hugsar hins vegar um nemandann, íhugar efnið og kemur síðan skýrt á framfæri því sem nemandinn þarfnast. (Orðskviðirnir 15:28; 1. Korintubréf 2:1, 2) Hann hefur í huga hvað nemandinn veit fyrir og hvað þurfi að leggja áherslu á í námsstundinni. Hann veit kannski margt áhugavert sem hægt væri að segja um efnið en skýrleikinn er fólginn í því að sleppa óþörfum upplýsingum.

17. Hvernig getum við hjálpað fólki að rökhugsa?

17 Jesús hjálpaði fólki líka að rökhugsa í stað þess að telja bara upp staðreyndir. Hann spurði til dæmis einu sinni: „Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?“ (Matteus 17:25) Við höfum kannski svo gaman af því að útlista biblíuleg mál að við þurfum að hafa taumhald á okkur svo að nemandinn fái tækifæri til að tjá sig eða útskýra eitthvað sem verið er að fara yfir í námsstundinni. Við eigum auðvitað ekki að ausa spurningum yfir fólk. Með góðum samlíkingum og háttvíslegum spurningum getum við hins vegar hjálpað biblíunemanda að skilja biblíuleg atriði sem fjallað er um í ritum okkar.

18. Hvað er fólgið í listinni að kenna?

18 Biblían talar um „listina að kenna“. (2. Tímóteusarbréf 4:2, NW; Títusarbréfið 1:9, NW) Fær kennari fræðir ekki aðeins með því að hjálpa nemanda að leggja staðreyndir á minnið. Hann reynir að hjálpa biblíunemanda að skilja muninn á sannleika og villu, góðu og illu, visku og heimsku. Ef við gerum það og reynum að kveikja kærleika til Jehóva í hjarta nemandans skilur hann ef til vill af hverju hann ætti að hlýða Jehóva.

Vertu duglegur að kenna fólki

19. Hvernig er það sameiginlegt verkefni allra í söfnuðinum að gera fólk að lærisveinum?

19 Kristni söfnuðurinn vinnur að því í sameiningu að gera fólk að lærisveinum. Þegar áhugasamur einstaklingur gerist lærisveinn er það ekki aðeins gleðiefni fyrir vottinn sem fann hann og kenndi honum sannleika Biblíunnar. Þegar sendur er út leitarflokkur til að leita að týndu barni er það kannski einhver einn í hópnum sem finnur barnið. En allur leitarflokkurinn fagnar þegar barnið er komið aftur í faðm foreldra sinna. (Lúkas 15:6, 7) Það er líka sameiginlegt verkefni okkar að gera fólk að lærisveinum. Allir í söfnuðinum taka þátt í því að leita að fólki sem gæti orðið lærisveinar Jesú. Og þegar áhugasamir byrja að sækja samkomur í ríkissalnum hjálpa allir í söfnuðinum þeim að tileinka sér sanna tilbeiðslu. (1. Korintubréf 14:24, 25) Allir í söfnuðinum geta fagnað því að hundruð þúsunda nýrra lærisveina skuli bætast í hópinn á ári hverju.

20. Hvað ættirðu að gera ef þig langar til að kenna öðrum sannleika Biblíunnar?

20 Margir vottar Jehóva myndu hafa mikla ánægju af því að fá að fræða aðra um Jehóva og sanna tilbeiðslu. En þrátt fyrir góða viðleitni hefur ekki öllum tekist það. Ef það á við um þig skaltu halda áfram að glæða kærleikann til Jehóva, láta þér annt um fólk, vera fórnfús og þolinmóður og temja þér góða kennslutækni. Og síðast en ekki síst skaltu gera það að bænarefni að þig langi til að kenna öðrum sannleikann. (Prédikarinn 11:1) Þú mátt treysta því að allt sem þú gerir í þjónustu Jehóva er þáttur í því að lofa Guð og gera fólk að lærisveinum.

Geturðu svarað?

• Af hverju er kennslustarfið prófsteinn á kærleika okkar til Guðs?

• Hvaða eiginleika þarf góður kennari að hafa til að bera?

• Hvað er fólgið í listinni að kenna?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 3]

Þjónar Guðs sýna honum kærleika sinn með því að gera fólk að lærisveinum.

[Mynd á bls. 5]

Af hverju þurfum við að hafa áhuga á öðrum til að gera fólk að lærisveinum?

[Mynd á bls. 6]

Hvað þarf biblíukennari að hafa til að bera?

[Mynd á bls. 7]

Allir þjónar Guðs fagna því að sjá nýja lærisveina.