Spurning um arf
Kafli 77
Spurning um arf
FÓLK veit greinilega að Jesús hefur matast í húsi faríseans svo það flykkist saman í þúsundatali fyrir utan húsið og bíður þess að hann komi út. Ólíkt faríseunum, sem eru Jesú mótsnúnir og reyna að standa hann að því að segja eitthvað rangt, hlustar fólkið á hann með mikilli ánægju.
Jesús snýr sér fyrst að lærisveinunum og segir: „Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin.“ Allt trúarkerfi faríseanna er gagnsýrt hræsni eins og sýndi sig við máltíðina. En jafnvel þótt farísearnir geti falið illsku sína undir guðrækilegu yfirbragði verða þeir afhjúpaðir um síðir. „Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt,“ segir Jesús.
Hann endurtekur síðan fyrri hvatningu sína til postulanna tólf þegar hann sendi þá út til að prédika í Galíleu. Hann segir: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört.“ Þar eð Guð gleymir ekki einum einasta spörva fullvissar Jesús fylgjendur sína um að hann gleymi þeim ekki heldur. Hann segir: „Þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, . . . [mun] heilagur andi . . . kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber.“
Einn úr mannfjöldanum biður hann þá: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ Móselögin kveða á um að frumgetinn sonur skuli fá tvöfaldan erfðahlut, þannig að það ætti ekki að vera nein ástæða til deilna. En maðurinn vill greinilega fá meira í sinn hlut en honum ber að lögum.
Jesús neitar með réttu að blanda sér í málið. „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ spyr hann. Síðan gefur hann mannfjöldanum þýðingarmikla áminningu: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ Maðurinn deyr að lokum óháð eignum sínum og skilur þær allar eftir. Jesús segir nú dæmisögu til að leggja áherslu á það og jafnframt til að sýna fram á hve heimskulegt það sé að byggja ekki upp gott mannorð hjá Guði. Sagan hljóðar svo:
„Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: ‚Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.‘ Og hann sagði: ‚Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.‘ En Guð sagði við hann: ‚Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?‘“
Síðan segir Jesús: „Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“ Enda þótt lærisveinarnir falli ef til vill ekki í þá gildru að sanka að sér auðæfum gætu þeir hæglega látið áhyggjur daglegs lífs leiða sig frá heilshugar þjónustu við Jehóva. Jesús notar því tækifærið til að endurtaka hin góðu ráð sem hann gaf í fjallræðunni um einu og hálfu ári áður. Hann snýr sér að lærisveinunum og segir:
„Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. . . . Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu, og Guð fæðir þá. . . . Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. . . .“
„Hafið ekki hugann við, hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu. Allt þetta stunda heiðingjar heimsins, en faðir yðar veit, að þér þarfnist þessa. Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki.“
Orð Jesú eru sérstaklega umhugsunarverð þegar efnahagur er erfiður. Sá sem hefur óhóflegar áhyggjur af efnislegum þörfum sínum og slakar á í andlegum málum sýnir í raun að hann treystir Guði ekki fyllilega til að sjá fyrir þjónum sínum. Lúkas 12:1-31; 5. Mósebók 21:17.
▪ Hver kann að vera ástæða þess að maðurinn spyr um arf og hvaða áminningu veitir Jesús?
▪ Hvaða dæmisögu segir Jesús og hvað er hann að sýna fram á?
▪ Hvaða ráðleggingar endurtekur Jesús og hvers vegna er það viðeigandi?