Jesús og ríkur, ungur höfðingi
Kafli 96
Jesús og ríkur, ungur höfðingi
Á LEIÐINNI um Pereu til Jerúsalem kemur ungur maður hlaupandi og fellur á kné fyrir Jesú. Maðurinn er kallaður höfðingi sem merkir sennilega að hann gegni virðingarstöðu í samkunduhúsi staðarins eða sitji jafnvel í æðstaráðinu. Og hann er mjög auðugur. „Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ spyr hann.
„Hví kallar þú mig góðan?“ svarar Jesús. „Enginn er góður nema Guð einn.“ Trúlega notar ungi maðurinn orðið „góður“ sem titil svo að Jesús bendir honum á að slíkur titill tilheyri Guði einum.
„Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin,“ heldur Jesús áfram.
„Hver?“ spyr maðurinn.
Jesús vitnar í fimm af boðorðunum tíu og svarar: „Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður.“ Síðan bætir hann við enn þýðingarmeira boðorði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“
„Alls þessa hef ég gætt frá æsku,“ svarar maðurinn í fullri einlægni. „Hvers er mér enn vant?“
Jesú fer að þykja vænt um manninn þegar hann heyrir hve innilega og einlæglega hann spyr. En honum er ljóst hve vænt manninum þykir um efnislegar eigur sínar og bendir honum því á hvað hann þurfi að gera: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér.“
Jesús finnur eflaust til með manninum þegar hann stendur upp og gengur sárhryggur burt. Auðæfi hans blinda hann fyrir sönnum auði. „Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki,“ segir Jesús dapurlega.
Lærisveinarnir eru steini lostnir yfir orðum Jesú. Ekki minnkar undrun þeirra þegar hann setur fram þessa almennu reglu: „Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
„Hver getur þá orðið hólpinn?“ spyrja lærisveinarnir.
Jesús horfir á þá og svarar: „Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt.“
Pétri er ljóst að þeir hafa valið allt aðra stefnu en ríki, ungi höfðinginn og segir: „Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér.“ Síðan spyr hann: „Hvað munum vér hljóta?“
„Þegar allt er orðið endurfætt [það er að segja endurskapað],“ lofar Jesús, „og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ Jesús bendir á að allt verði endurskapað á jörðinni þannig að hún verði eins og Edengarðurinn forðum. Og Pétur og hinir lærisveinarnir munu hljóta þá umbun að ríkja með Kristi yfir þessari heimsparadís. Það er stórkostleg umbun sem er þess virði að fórna öllu fyrir!
En Jesús bendir á að menn fái ýmsa umbun nú þegar og segir með festu: „Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.“
Loforð Jesú felur í sér að lærisveinar hans eigi gott samband við trúbræður sína hvar sem þeir eru staddir í heiminum, og þetta samband sé nánara og verðmætara en tengsl við ættingjana. Ríki, ungi höfðinginn missir greinilega af þessu og af eilífu lífi í himnesku ríki Guðs.
Síðan bætir Jesús við: „En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“ Hvað á hann við?
Hann á við það að margir, sem eru „fyrstir“ að trúarlegum forréttindum líkt og ríki, ungi höfðinginn, gangi ekki inn í Guðsríki. Þeir verði „síðastir.“ En margir, sem hinir þóttafullu farísear álíta ‚síðasta‘ — fólk jarðarinnar, ‛am ha’aʹrets, eins og þeir kalla þá — verði „fyrstir,“ þeirra á meðal auðmjúkir lærisveinar Jesú. Að verða „fyrstir“ merkir að þeir hljóti þau sérréttindi að verða meðstjórnendur Krists í Guðsríki. Markús 10:17-31; Matteus 19:16-30; Lúkas 18:18-30.
▪ Hvers konar höfðingi er ríki, ungi maðurinn sennilega?
▪ Af hverju vill Jesús ekki láta kalla sig góðan?
▪ Hvernig er ungi höfðinginn gott dæmi um hve hættulegt sé að vera auðugur?
▪ Hvaða umbun lofar Jesús fylgjendum sínum?
▪ Hvernig verða hinir fyrstu síðastir og hinir síðustu fyrstir?