Persónuverndarstillingar

Við notum vefkökur og álíka tækni til að upplifun þín verði sem best. Sumar vefkökur eru nauðsynlegar og þeim er ekki hægt að hafna. Aðrar vefkökur geturðu valið að samþykkja eða hafna en þær notum við aðeins til að auka notagildi síðunnar. Gögnin verða aldrei seld eða notuð í markaðsskyni. Nánari upplýsingar er að finna á síðunni Notkun vefkakna og tengdrar tækni í söfnuði Votta Jehóva um allan heim. Þú getur breytt stillingunum hvenær sem er í persónuverndarstillingunum.

Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús birtist í síðustu skipti og heilögum anda úthellt

Jesús birtist í síðustu skipti og heilögum anda úthellt

Kafli 131

Jesús birtist í síðustu skipti og heilögum anda úthellt

EINHVERN tíma stefnir Jesús öllum postulunum ellefu til fundar við sig á fjalli í Galíleu. Öðrum lærisveinum er greinilega sagt frá svo að meira en 500 manns koma saman. Allir fagna því að vera á staðnum þegar Jesús birtist og tekur að kenna þeim.

Meðal annars útskýrir Jesús fyrir þessum fjölmenna hópi að Guð hafi gefið sér allt vald á himni og jörð. „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum,“ hvetur hann, „skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“

Hugsaðu þér! Karlar, konur og börn fá öll þetta sama umboð að gera menn að lærisveinum. Andstæðingar munu reyna að stöðva prédikun þeirra og kennslu en Jesús hughreystir þau og segir: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Hann verður með fylgjendum sínum fyrir atbeina heilags anda til að hjálpa þeim að fullna þjónustu sína.

Jesús sýnir sig lærisveinunum um 40 daga skeið eftir upprisu sína. Hann fræðir þá um ríki Guðs og leggur áherslu á ábyrgðina sem fylgir því að vera lærisveinar hans. Einu sinni birtist hann jafnvel Jakobi hálfbróður sínum, sem hefur til þessa ekki trúað á hann, og sannfærir hann um að hann sé Kristur.

Postularnir eru líklega enn í Galíleu þegar Jesús segir þeim að snúa aftur til Jerúsalem. Þegar hann hittir þá þar segir hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins sem þeir hafi heyrt sig tala um. „Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga,“ segir hann.

Síðar hittir Jesús postula sína aftur og fer með þá út úr borginni í nánd við Betaníu sem er í austurhlíð Olíufjallsins. Þrátt fyrir allt sem hann hefur sagt þeim um væntanlega burtför sína til himna halda þeir enn að ríki hans verði stofnsett á jörð, svo ótrúlegt sem það er. Þeir spyrja því: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“

Í stað þess að reyna enn á ný að leiðrétta ranghugmyndir þeirra svarar Jesús einfaldlega: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.“ Síðan leggur hann enn og aftur áherslu á starfið sem þeir verða að vinna: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“

Síðan tekst Jesús á loft að þeim ásjáandi og svífur í átt til himins uns hann hverfur í ský og þeir sjá hann ekki lengur. Eftir að hafa afholdgast stígur hann upp til himna sem andavera. Postularnir ellefu stara enn til himins þegar tveir menn í hvítum klæðum standa allt í einu hjá þeim. Þetta eru holdgaðir englar sem spyrja þá: „Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“

Jesús yfirgefur jörðina svo að lítið beri á og aðeins að trúföstum fylgjendum sínum ásjáandi. Hann snýr því aftur á sama hátt — án þess að mikið beri á og þannig að trúfastir fylgjendur hans einir gera sér grein fyrir að hann sé kominn aftur og að nærvera hans sem konungur Guðsríkis sé hafin.

Postularnir ganga nú niður af Olíufjallinu, yfir Kedrondal og aftur inn í Jerúsalem. Þar bíða þeir eins og Jesús sagði þeim. Tíu dögum síðar, á hvítasunnuhátíð Gyðinga árið 33, eru um 120 lærisveinar samankomnir í loftstofu í borginni. Þá heyrist skyndilega gnýr eins og stormur sé að bresta á og fyllir allt húsið. Tungur birtast, eins og af eldi séu, og setjast á alla viðstadda og lærisveinarnir taka allir að tala önnur tungumál. Þetta er úthelling heilags anda sem Jesús hafði lofað! Matteus 28:16-20; Lúkas 24:49-52; 1. Korintubréf 15:5-7; Postulasagan 1:3-15; 2:1-4.

▪ Hverjum gefur Jesús fyrirmæli að skilnaði á fjalli í Galíleu, og hver eru þau?

▪ Hvernig hughreystir Jesús lærisveinana og hvernig verður hann með þeim?

▪ Hve lengi eftir upprisu sína birtist Jesús lærisveinunum og hvað kennir hann þeim?

▪ Hverjum birtist Jesús sem var greinilega ekki lærisveinn fyrir dauða hans?

▪ Hvaða tvo fundi á Jesús að lokum með postulum sínum og hvað gerist þá?

▪ Í hvaða skilningi kemur Jesús aftur á sama hátt og hann fer?

▪ Hvað gerist á hvítasunnunni árið 33?