Boð frá himni
Kafli 1
Boð frá himni
SEGJA má að öll Biblían sé boð frá himni því að himneskur faðir okkar gaf okkur hana til fræðslu. En fyrir næstum 2000 árum flutti engill, sem ‚stendur frammi fyrir Guði,‘ mönnum tvenn boð sem voru mjög sérstök. Engillinn heitir Gabríel. Við skulum kynna okkur við hvaða aðstæður þessar tvær mikilvægu vitjanir til jarðar áttu sér stað.
Það er árið 3 fyrir okkar tímatal. Í Júdahæðum, sennilega skammt frá Jerúsalem, býr prestur Jehóva að nafni Sakaría. Hann og Elísabet kona hans eru gömul og barnlaus. Það er komið að þjónustutíma Sakaría í musteri Guðs í Jerúsalem. Skyndilega birtist Gabríel hægra megin við reykelsisaltarið.
Sakaría er dauðskelfdur. En Gabríel róar hann og segir: „Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes.“ Gabríel segir að Jóhannes skuli „verða mikill í augliti [Jehóva]“ og „búa [Jehóva] altygjaðan lýð.“
En Sakaría getur ekki trúað þessu. Þau Elísabet eru svo gömul að það virðist óhugsandi að þau geti eignast barn. Þess vegna segir Gabríel: „Þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum.“
Fólkið fyrir utan er farið að undrast hve lengi Sakaría dvelst í musterinu. Þegar hann loks kemur út getur hann ekki talað heldur aðeins gefið bendingar með höndum, þannig að menn gera sér ljóst að hann hefur séð eitthvað yfirnáttúrlegt.
Sakaría snýr heim eftir að musterisþjónustunni lýkur. Og skömmu síðar gerist það — Elísabet kona hans verður barnshafandi! Elísabet heldur sig heima í fimm mánuði meðan hún bíður þess að barnið fæðist.
Gabríel birtist aftur síðar. Og við hvern talar hann núna? Við unga, ógifta konu sem heitir María og býr í Nasaret. Hvaða boð flytur hann í þetta sinn? Taktu eftir. „Þú hefur fundið náð hjá Guði,“ segir Gabríel Maríu. „Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita Jesú.“ Gabríel bætir við: „Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. . . . Og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“
Við getum verið viss um að Gabríel þykja það sérréttindi að flytja þessi boð. Og þegar við lesum meira um Jóhannes og Jesú sjáum við hvers vegna þessi boð frá himni eru svona þýðingarmikil. 2. Tímóteusarbréf 3:16; Lúkas 1:5-33.
▪ Hvaða tvenn þýðingarmikil boð eru send frá himni?
▪ Hverjir fá boðin og hver flytur þau?
▪ Hvers vegna er erfitt að trúa þessum boðum?